16.05.1969
Sameinað þing: 52. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (2144)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Varla hittir maður svo mann á götu eða yfir kaffibolla, að ekki sé komið að efnahagsörðugleikum og vinnudeilum og hvað gera megi til úrbóta. Flestir hafa ráð undir rifi hverju og deila á ríkisstj. fyrir að binda ekki enda á þetta verkfallsástand. Menn segja, að þar sem fulltrúar vinnuveitenda og fulltrúar launþega geti ekki samið á nærri 3 mánaða tíma, verði ríkisvaldið að grípa inn í og leysa deiluna. En hér er úr vöndu að ráða. Mjög erfitt er að lögbinda ákveðið kaup, sem atvinnulífið getur ekki staðið undir til lengdar, því að þá verður fyrr eða síðar sendur of hár reikningur til baka til ríkissjóðs, og almenningur borgar brúsann. Samt sem áður getur núverandi ástand í samningamálum þó ekki staðið endalaust áfram. Ef óábyrgir aðilar eru að þumbast við einungis til að skapa sér pólitíska valdaaðstöðu, þá getur svo komið, að ekki verði hjá því komizt að grípa inn í deiluna og leysa hnútinn með lagasetningu til þess að bjarga þjóðarbúinu. Það er þó ósk mín vegna beggja aðila, að slík leið verði ekki farin. Hún er nauðung ein og ekki til frambúðar fyrir hvorugan aðila. Samningsaðilar verða að gera sér grein fyrir því, að hér getur verið um líf eða dauða efnahagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar að tefla. Almenningur um allt land gerir þá kröfu nú, að þegar verði náð samkomulagi og allt atvinnulíf komist í eðlilegt horf aftur. Afli er ágætur fyrir norðan og austan land, og þessi landssvæði þola með engu móti að atvinna núna, eftir langvarandi atvinnuleysi, sé stöðvuð vegna óbilgirni atvinnuveitenda eða af öðrum ástæðum. Einnig þarf að vinna enn mikið að vertíðaraflanum hér sunnanlands og er því gífurlega mikið í húfi, að aðilar komist að samkomulagi þegar í stað. Það, sem í milli ber nú, er ekki svo mikið, að óbrúandi sé fyrir atvinnuveitendur að ná niðurstöðu. Með engu móti er unnt að neita fólki með 16–18 þús. kr. laun á mánuði um einhverja kauphækkun, — svo mikið hefur verið gert fyrir atvinnuveitendur til þess að mæta erfiðleikunum.

Sá lærdómur, sem dreginn verður af þessum vinnudeilum, er sá, að ekki verður lengur búið við sama kerfi um lausn vinnudeilna og verið hefur. Vinnuveitendur hafa alla tíð neitað launahækkun í upphafi vinnudeilna, en svo síðar samið um meiri eða minni hækkun eftir hörð átök og mikið tap fyrir báða aðila. Þá kröfu verður að gera til deiluaðila, að svona vinnubrögð heyri fortíðinni einni til héðan í frá.

Mjög er nú kvartað yfir því, að erfitt sé að draga fram lífið hér á landi um þessar mundir. Svo rammt kveður að þessu, að ókunnugir gætu haldið, að hér áður fyrr hafi hagsældin ein ráðið ríkjum. En því var alls ekki til að dreifa. Það, sem menn skynja, er, að þau miklu uppgrip, sem voru hér á árunum 1960–1967, eru ekki lengur fyrir hendi og kröfur manna hafa vanið til gæða lífsins. Það er nú einu sinni svo, að kynnist menn þægindum, sleppa menn þeim ekki aftur án möglunar. Staðreyndin er, að það, sem var talið lúxus í gær, er orðið að eðlilegri nauðsynjavöru í dag. Þetta er þróun víða, og við viljum fylgjast með. Vissulega gátum við leyft okkur mikið um tíma, þess sér alls staðar merki, en nú um skeið verður ekki undan því ekizt að fara hægar í sakirnar. Margir hverjir eiga í erfiðleikum, af því að þeim var veitt frjálst val með fjármuni sína og lögðu út í miklar fjárfestingar, sem síðar hvíla þungt á herðum, þegar undan hallar með tekjur. Sá mikli barlómur, sem uppi er í verzlunareigendum í dag, er tengdur þessum þensluhætti á undanförnum árum. Verzlunareigendur lögðu margir hverjir í miklar fjárfestingar eftir langt tímabil hafta og leyfa, og allt gekk þetta vel um nokkurra ára bil, en nú eru peningaráð manna til muna minni og fólk aðgætir blessunarlega betur, hvernig eyða á fjármunum sínum.

Það væri vel, ef alltaf væri hér jöfn og stöðug hagsæld, en allir raunsæir menn hljóta að viðurkenna að óhugsandi er, að við getum vænzt þess ár eftir ár. Við erum svo háðir mörgum óráðnum þáttum, sem veður og vindar ráða, að hér má alltaf búast við misjöfnu árferði til lands og sjávar. Spakmælið segir, að gott sé að búa sig undir það versta en vona það bezta. Það var einmitt uppgripaaflinn á síldinni á árunum 1960–1966, sem varð þess valdandi, að yfirleitt allir reyndu, hver sem betur gat, að ná í uppgripin og notuðu laun síldarsjómannsins sem viðmiðun. Mönnum fannst það næstum hneykslanlegt, að óbreyttur síldarsjómaður skyldi hafa hærri laun en margir langskólagengnir menn. Almennar launakröfur voru byggðar á þessum uppgripum í síldinni, og því fór sem fór, þegar hún minnkaði aftur, að allt launakerfið var miðað við rangar forsendur og erfiðleikar komu brátt í ljós við minnkandi afla síldar og verðfall á afurðum. Á rúmlega árstímabili minnkuðu útflutningstekjur okkar um meira en 40 kr. af hverjum 100, miðað við það sem áður var. Þetta var svo mikið áfall, að sjávarútvegurinn gat með engu móti þolað það, miðað við það launakerfi, sem ríkjandi var í þjóðfélaginu. Mikil kjaraskerðing var orðin staðreynd, sem var ekki einum eða neinum sérstökum að kenna hér á landi. Það, sem að okkur sjálfum sneri, var hins vegar að snúast á móti þessum vanda og mæta honum sem sársaukaminnst fyrir láglaunafólkið. Það var ráð ráðunautanna til ríkisstj., að eina leiðin til þess að komast hjá mjög alvarlegum samdrætti í þjóðarbúinu og atvinnulífinu væri að fella gengið í nóvember 1967, og ytri aðstæður þá gerðu það í rauninni óumflýjanlegt, vegna þess að Bretar felldu sterlingspundið sitt. Því miður var áfall það, sem gekk yfir fiskveiðar landsmanna, mun meira en gert var ráð fyrir, og áfram hélt niður á við með sumar útflutningsgreinar okkar. Sérstaklega þyngdist fyrir fæti í síldarútveginum, og svo var komið vorið 1968, að engin útgerð hefði verið á síldinni um sumarið, ef ríkisstj. hefði ekki fallizt á að hjálpa til um upphæð, sem nam tæplega 100 millj. kr. þá. Ég vil hér biðja menn að hafa það í huga, að yfir 40 aurar af hverri krónu hafa komið frá síldinni í gjaldeyristekjur, og augljóst var því, að algert öngþveiti var fyrir dyrum og er enn, ef við náum ekki góðum feng af síld.

Dagblaðið Tíminn birti með undrun þá fregn nú í vikunni úr sænsku blaði, að hér á landi yrðu vandræði, ef við fiskuðum ekki vel af síld. En þau undur. Þessu hélt ég, að velflestir gerðu sér fulla grein fyrir. A. m. k. veit fólkið úti um land, hvað síldin þýðir fyrir það, og eins skólafólkið, sem hefur fengið uppgripavinnu við síldina á undanförnum sumrum. En svona eru framsóknarmenn stundum úti að aka. Þeir virðast ekki fylgjast með, hvað er að gerast hjá okkur í framleiðslunni, sbr. dæmið um þm., sem hampaði Hagtíðindum og hélt því fram, að engir erfiðleikar væru í skreiðinni, Hagtíðindin sýndu ágætisverð til Ítalíu, og ekkert mark væri takandi á barlómi skreiðarverkenda. En hann gáði ekki að því, að svo til öll Afríkuskreiðin, meira en 6000 tonn, var óseld í landinu og útlit um sölu fullkomlega óvisst. Þannig má snúa hlutunum við, ef góður vilji er fyrir hendi.

Fram hjá þeirri staðreynd verður ekki gengið, að við þurfum að auka fjölbreytni í öflun undirstöðutekna til þess að vera ekki of háðir svipulum sjávarafla. Mín skoðun er sú, að við getum ekki reiknað með mikilli aukningu í bolfiskafla á næstu árum. En hins vegar er fullkomlega á okkar valdi, og á það legg ég höfuðáherzlu, að fara betur með fenginn afla. Fyrsta skrefið er að vanda meðferðina um borð í skipunum, síðan að endurbæta móttöku á fiski um allt land, en víða er þar pottur brotinn. Þetta kostar talsverða fjárfestingu, en það vandamál verður að leysa. Öll vinnsla verður að ganga jafnar og betur, og hver og einn þarf að gera sér grein fyrir, að hann er að fást við matvæli, en ekki að keyra í gegn einhverja kílóatölu af dauðum fiski, án tillits til gæða og tryggrar sölu afurðanna. Hér þarf samstilltan áróður til þess að ná þessu marki. Nú í haust hefjast föst fiskiðnaðarnámskeið að tilhlutan sjútvmrh., Eggerts G. Þorsteinssonar, á vegum Rannsóknastofnunar sjávarútvegsins, og það er von mtn, að með þessu sé brotið í blað um alla meðferð á fiski hér á landi. Einnig hafa verið fluttir fyrirlestrar í Sjómannaskólanum um meðferð á fiski, og er það vel. Fræðsla í þessum efnum verður aldrei of mikil.

Mikið hefur verið rætt um markaðsmálin undanfarið, og mun svo verða á næstu mánuðum. Enginn vafi er á því, að þau eru eitt af þeim stórmálum, sem við eigum við að glíma, og veltur á miklu, að vel rætist úr þeim vanda. Eins og allir vita, sem fylgjast með, seljum við hluta af sjávarafurðum okkar á sama markað og Norðmenn, en nú er rætt allmikið um norrænt samstarf og norrænan sammarkað. Ekki er ég bjartsýnn á þá möguleika. Hins vegar vil ég segja hlustendum frá því, að einhver harðasti keppinautur okkar víðast hvar er Norðmaðurinn, þegar um sjávarafurðir er að ræða. Hvað eftir annað hefur það gerzt, að Norðmenn undirbjóða okkur og trufla sölumöguleika okkar á síld, saltfiski, skreið o. fl. Ég sé enga ástæðu til þess að leyna svona vinnubrögðum, en margir eru feimnir við að tala um vinnubrögð þeirra. Það getur vel verið, að við þurfum jafnaðarlega hærra verð. A. m. k. er það viðtekin venja hjá sölumönnum Íslands að heimta hæsta hugsanlegt verð fyrir okkar afurðir, en þannig einhliða krafa getur endað með lítilli sölu og einnig, að keppinautar okkar ná í góðan markað, sem við höfum haft um langt árabil. Og þetta er að gerast í dag. Við mætum harðri samkeppni við Norðmenn á saltsíldinni á finnskum markaði, og bjóða þeir síldina á mun lægra verði en við getum gert. Auk þess fá síldarsaltendur í Noregi mikinn styrk frá ríkinu. Menn sjá af þessu, að hér eru alvarlegir hlutir að gerast. Á s. l. ári rétti norska ríkisstj. til fiskiflota Norðmanna meira en 2400 millj. í margvíslegum styrkjum. Þetta geta þeir gert eins og að drekka vatn, þar sem fiskveiðar og fiskvinnsla þar er lítill þáttur í heildarbúskapnum. En hjá okkur Íslendingum eru fiskveiðar og fiskvinnsla sú undirstaða, sem þjóðarbúið flýtur á, og erfiðleikar þar gera vart við sig út um allt efnahagslífið. Við hittum mótherjana í norrænni samkeppni víðar fyrir. Þeir lækkuðu verð á saltfiski til Portúgals nú nýlega og sköpuðu okkur veruleg vandræði með sölu okkar þangað. Þó hefur Portúgal verið það land, sem við höfum átt við mest viðskipti með saltfiskinn. Í Brasilíu eru þeir okkar keppinautar, og höfum við mun minna magn þar til sölu en þeir. Þá kemur að skreiðinni. Ekki eru fá dæmin um ýmsa örðugleika vegna Norðmanna á því sviði,.bæði á Ítalíu og í Nígeríu. Varðandi freðfiskinn til Bretlands, ef til aðildar að fríverzlunarbandalaginu kemur, þá eru þeir þar þversum fyrir okkur eins og vænta mátti. Ég ræði þetta hér til þess að benda áheyrendum á, að það er ekki alltaf á okkar valdi að ráða einhliða við alla erfiðleikana, og stundum eru okkur sköpuð þyngsli af þeim, sem sízt skyldi. Ég er ekki með þessum orðum að skella allri skuldinni á Norðmenn, síður en svo, en það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að við eigum í mjög harðri samkeppni við sumar af þeim þjóðum, sem standa okkur næst um marga hluti, og þegar til efnahagslegra ákvarðana kemur, þá verður mörgum þjóðum sem einstaklingum á að hugsa fyrst og fremst um eigin hag.

Þessa staðreynd verða menn að hafa í huga, þegar gerðar eru þær kröfur til útflytjenda, sem þeim er um megn að ráða við. Engu að síður verða útflytjendur að endurskipuleggja starfsemi sína að mestu leyti og taka upp nýjar söluaðferðir og aukinn áróður fyrir íslenzkum sjávarafurðum. Góð sölustarfsemi á erlendum markaði er grundvallaratriði til þess, að vel megi fara um sölu fiskafurða okkar.

Það er athyglisverð staðreynd, að þau lönd, sem kaupa af okkur næstum allan saltfiskinn, eru með einræðisstjórnir, og þessi lönd setja þær reglur, sem viðkomandi stjórnvöld telja viðeigandi hverju sinni og sínum til góðs. Við Íslendingar höfum undanfarin tvö seinustu árin ekki farið varhluta af þessu ástandi. Spánverjar hafa neitað okkur um innflutning á saltfiski, treglega hefur gengið að fá leyfi í Portúgal og í Grikklandi og Brasilíu hefur gætt vaxandi óvissu vegna einræðisstjórnarfars. Allir vita, hvað skeð hefur í Nígeríu og þekkja erfiðleikana við skreiðina þar.

Fyrir austan tjald er útgerð mjög vaxandi, og þar er ekki spurt hvað kostar að afla hvers kílós af fiski, aðeins spurt, hvort mögulegt sé að ná því. Þessar þjóðir, sem til skamms tíma voru stórir fiskinnflytjendur, hafa nú flestar hafið útflutning á freðfiski og jafnvel saltfiski. Öll útgerð þar er á vegum ríkisins, og við það verðum við að keppa. Það er ómaksins vert að muna það einnig, að margar, margar ríkisstj. í Vestur-Evrópu styrkja sinn sjávarútveg geysilega, og á s. l. ári varð brezka ríkisstj. að hlaupa undir bagga með togaraeigendum um ekki minni upphæð en nam milljörðum íslenzkra króna.

Ýmsar aðrar þjóðir eru nú komnar með úthafstogara eða verksmiðjuskip, og þar með er verksmiðjan, sem áður var í landi, komin út á miðin og fær nú glænýtt hráefni til vinnslu. Við nutum þess áður, að land okkar var sem verksmiðja í miðju fengsælla fiskimiða, en nú eru þeir yfirburðir ekki lengur til og koma sennilega ekki aftur. Þetta er staðreynd, sem hver maður, er hugsar um efnahagsmál, verður að gera sér fulla grein fyrir og haga sér samkvæmt því.

Spyrja má, hver okkar viðbrögð eigi að vera við þessari þróun. Mín skoðun er sú, að við eigum aðeins einn kost. Hann er ekki slæmur. Það er að vanda nú alla framleiðslu sem mest má verða og verðlauna fyrir gæðin, en ekki lengur að blaðra sí og æ um, hver drepur mest án nokkurs tillits til gæða eða verðmæta og kostnaðar. Næsta skref er að fullvinna hér allan afla og dreifa afurðum sem víðast út um heim og þá sérstaklega til þeirra þjóða, sem vanhagar um eggjahvítuefni. Að vísu hafa þessar þjóðir minni kaupgetu sem heild, en engu að síður munu þær vera tilbúnar að kaupa við góðu verði, ef við sjálfir erum menn til að halda öllum framleiðslukostnaði í eðlilegu horfi. Enginn vafi er á því, að enn er geysilegur markaður fyrir sjávarafurðir okkar í Bandaríkjunum, og vel er tímabært að kanna, hvað Japanar geta keypt af okkur. Þeir eru fiskætur í stórum stíl og verða sjálfir að sækja á flest höf til fanga, en það dugir ekki til. Þetta kann einhverjum að þykja langsótt, en svo verður ekki eftir stuttan tíma að mínu mati. Það er skoðun mín, að okkur sem peningafátækri þjóð beri fyrst og fremst að gjörnýta öll okkar hráefni hér heima með aukinni vinnslu á matvælasviðinu.

Allt er gott að segja um stóriðjuna. Með henni kemur sjálfvirknin. En þegar alvarlegt atvinnuástand er hér fyrir hendi, kemur ekki til mála eins og ástatt er að binda takmarkað eigið fé svo í stóriðjunni á stuttum tíma, að við getum ekki aukið fullvinnslu í okkar gömlu atvinnuvegum, sem veita margfalt fleira fólki vinnu. Nú er mikið rætt um efnaiðnaðarverksmiðju á Suðurnesjum, sem mun kosta marga milljarða, en veitir tiltölulega fáum vinnu, þannig að fjárfesting á hvern vinnandi mann þar verður yfir 10 millj. að minnsta kosti. Þetta er ekki tímabært eins og á stendur hjá okkur í dag. Fyrir Suðurnesjum hafa hins vegar verið gjöfulustu fiskimiðin hér við land, og þar á að leggja höfuðáherzlu á meira alhliða vinnslu sjávarafurða. Öll slík starfsemi veitir geysilega vinnu, og öruggur markaður er fyrir sjávarafurðirnar, ef við þurfum ekki að krefjast hærra verðs en allir aðrir á sambærilegum vörum. Við megum ekki undir neinum kringumstæðum vanrækja matvælaiðnaðinn hér, í sveltandi heimi.

Eins og sjá má af framansögðu, eiga erfiðleikar okkar sér dýpri rætur en stjórnarandstæðingar vilja vera láta. Þeir kunna þá skýringu eina, að illa hafi verið stjórnað og eina ráðið sé að fá þá í ráðherrastólana, þá muni allt lagast. Já, miklir menn erum vér, Hrólfur minn. Kannske geta þeir beðið Norðmenn að hætta að keppa við okkur eða fengið einræðisherrana til þess að gefa okkar afurðum lausan tauminn í sínum löndum? Það væri vel gert, og þá bæri þeim sannarlega stólarnir. En trúa menn því? Má ekki heldur spyrja sem svo: Fyrst þeir skynja ekki orsakir erfiðleikanna betur, er þá að vænta lausnar úr þeirra herbúðum? Svo er auðvitað ekki. Þessir menn hafa engin töfrabrögð geymd í sínum fórum. Það er ekki til neitt eitt, sem hjálpar okkur út úr þessum örðugleikum, nema við sjálf sem ein heild. Þjóðin verður öll að skilja, hvað að er, og leggjast á eitt að komast út úr þessu lággengi aftur.

Stjórnarandstæðingar hafa að undanförnu klifað á því, að svo illa sé komið fyrir ríkisstj. vegna óstjórnar eða fremur engrar stjórnar, eins og sumir segja, að nauðsyn bæri til þess að efna til kosninga sem fyrst. Vel má vera, að eitt af nauðsynlegum atriðum til þess að fá nýtt andrúmsloft og samstöðu um lausn efnahagslegra vandamála sé að skipta um stjórn og kjósa. Menn verða víða um heim þreyttir á sömu mönnum ár eftir ár, og kann hér nokkuð að gæta hins sama í þessum hugleiðingum. En á það má minna, að enginn veit um úrslit í kosningum fyrirfram, og mér segir svo hugur um, að hver hugsandi maður muni vandlega hugleiða, hvort hann á að veita völdin hentistefnumönnum, sem sífellt nöldra og nagga, en leggja lítið til lausnar, eða þeim, sem vilja taka á sig þá ábyrgð, sem fylgir því að standa að stjórn ríkisins.

Það var mjög áberandi, hvað form. Framsfl. hér í umr. fyrra kvöldið var óánægður með þensluna í ríkisbákninu, en því miður er það samt staðreynd, að alltof fáir vinna í sjálfu stjórnarráðinu, og er það til vandræða að ráða þar ekki fleiri úrvalsmenn til starfa. Þar gengur margt alltof seint, og ein af nauðsynlegum breytingum er að bæta við starfsliðið þar. Hins vegar má vel kanna, hvort ekki megi fækka hjá öðrum ríkisstofnunum með endurskipulagningu í starfi og auknu aðhaldi. Ég tel, að þótt margt megi finna að rekstri hjá ríkinu, sé það mein hér, hve framkvæmdavaldið er veikt, og margt fer úrskeiðis þess vegna. Einnig veitir vinnulöggjöfin mönnum mjög frjálsan rétt til að ná fram kröfum sínum, sem óráðvandir menn hafa hagnýtt sér til framdráttar en setur hálfgert óorð á verkalýðshreyfinguna.

Allt þetta og miklu fleira mundi koma inn í kosningar nú, ef svo færi, að þær yrðu á næstunni. Og ótrúlegt er, að almenningur í landinu vilji kjósa yfir sig þá menn, er hvað mest hafa reynt að ala á sundrungu og skipulagt viss vinnubrögð, er leiða af sér hörmuleg vandkvæði fólks, er ekki á neitt slíkt skilið. Valið í næstu kosningum verður að kjósa á milli upplausnar eða aukinnar festu í stjórnmálum landsmanna. Enginn, sem vill vera ábyrgur, getur snúið sér að svokölluðu Alþb. af þeirri einföldu staðreynd, að hann mun ekki finna neitt bandalag, heldur sundrungina eina og margvísleg togstreitubrot. Ekki tekur betra við í leitinni að svonefndum samtökum vinstri manna. Þar er allt hulið þoku. Þá er kosturinn að velja framsóknarmenn eftir, en ekki er líklegt, að þeir mundu fitna mikið á kosningum miðað við fyrri afrek. Nei, þeir vinstrisinnaðir menn um allt land, sem vilja vera ábyrgir, eiga aðeins eitt raunhæft val, og það er að efla svo Alþfl., að um muni. Við, sem honum fylgjum, munum ekki skorast undan þeim vanda, sem að steðjar. Við viljum fastara skipulag og rammaáætlanir í þjóðarbúskap okkar, og sífellt er sú stefna að vinna á hér sem annars staðar í heiminum. Lýðræðislegur sósíalismi eykur fylgi sitt úti um allan heim. Þetta er eðlilegt, því að hann leggur áherzlu á, að hver borgari eigi rétt á fullri vinnu og aðstoð frá þjóðfélaginu í erfiðleikum sínum. Samhjálp er þar grundvallaratriði. Með því móti mun hverri þjóð vegna vel, þegar til lengdar lætur. Taumlaus frjálshyggja og gróðasjónarmið hins frjálsa framtaks gengur ekki til lengdar. Því til sönnunar má nefna ástandið í allri S.-Ameríku, en þar búa nú á 3. hundrað millj. manna, og hjá engri þjóð þar eru meðalárstekjur yfir 1000 dollarar á mann. Hins vegar eru þar margir vellauðugir menn, sem skammta hinum af náð sinni. Þannig þjóðfélag vilja Íslendingar ekki kjósa yfir sig. Þess vegna mun fólkið velja þann kost að styrkja Alþfl. til þess að komast út úr erfiðleikunum.

Við skulum vera minnug þess, að vandamál munu jafnan vera uppi hjá okkur á öllum tímum, þar sem við erum svo fá, aðeins rúmlega 200 þús. manns, og búum á þessum stað á jörðinni, en gerum samt miklar kröfur til efnahagslegra gæða og það svo, að við erum jafnan að meta og vega okkar kjör til jafns við kjör hjá hinum ríkustu þjóðum heims. Þetta getur verið allt gott og blessað, en það leggur skyldur á hvern mann í staðinn. Sú kvöð á að fullvissa hvert mannsbarn í landinu, að lausnin er ekki að hopa af hólmi, heldur taka undir orð skáldsins, er sagði um síðustu aldamót:

„Hvernig sem stríðið þá og þá er blandið,

það er að elska, byggja og treysta á landið.“

Þökk þeim, er hlýddu. — Góða nótt.