16.05.1969
Sameinað þing: 52. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

Almennar stjórnmálaumræður

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Ég vil aðeins vegna orða hv. 4. þm. Reykv., Þórarins Þórarinssonar, um almannatryggingarnar og félmrh. segja þetta: Vitanlega hefur félmrh. átt frumkvæðið að breytingum almannatryggingalaganna. Það heyrir hans rn. til. Hins vegar hefur náðst samkomulag, gott samkomulag, um afgreiðslu þessara mála eins og yfirleitt um flest mál við Sjálfstfl. í ríkisstj. En það er auðvitað eitur í beinum framsóknarmanna, að slíkt samkomulag skuli hafa tekizt, en það hefur verið styrkur ríkisstj., að gott samkomulag hefur tekizt um flest mál.

Þessum umr. er nú að ljúka. Ég vildi aðeins mega nota þessar fáu mínútur, sem mér eru ætlaðar að lokum, til að rifja upp nokkrar hugleiðingar mínar og raunar margra annarra líka. Það eru til ýmsir málshættir, bæði erlendir og íslenzkir, sem hljóða efnislega eitthvað á þá leið, að þá megi bezt manninn reyna, þegar erfiðleikar steðja að, en málshættir fela oft í sér mikinn sannleika. Hvernig bregðast menn við erfiðleikunum? Taka þeir karlmannlega og heiðarlega á móti og reyna að vinna bug á þeim, eða reyna þeir að skjóta sér undan því að takast á við þá og leitast kannske fyrst og fremst við að koma sök á einhverja aðra og skjóta sjálfum sér undan? Íslenzku þjóðinni hefur nú borið mikill vandi að höndum. Fiskaflinn hefur minnkað um það bil um helming, verðið hefur lækkað mjög verulega á mörgum afurðum, og gjaldeyrissjóðurinn hefur étizt upp, eins og marglýst hefur verið og ég skal ekki fara út í að rekja. En hvernig bregðast menn við? Ríkisstj. hefur reynt að spyrna við fótum og hefur þurft í því sambandi að gera ýmsar ráðstafanir miður vinsælar, en nauðsynlegar og óumflýjanlegar, svo sem gengislækkanir með tilheyrandi verðhækkun á öllum erlendum varningi. Ég skal viðurkenna, að ég var lengi vel mjög hikandi við þessar aðgerðir, en að athuguðu máli komst ég að þeirri niðurstöðu, að undan þessu yrði ekki unnt að skjóta sér, ef nokkur von ætti að vera til þess, að við þessa erfiðleika yrði ráðið.

En mér finnst athyglisvert, hvernig stjórnarandstaðan bregzt við. Hennar aðaláhugamál virðist ekki vera að ráða bug á efnahagsvandanum, heldur fyrst og fremst að koma sök eða sökum á ríkisstj., enda þótt allir, sem hlutlaust vilja líta á málið, geri sér fulla grein fyrir, að orsaka erfiðleikanna er ekki að leita hjá henni, heldur eru þeir utanaðkomandi og ekki af okkar völdum. Stjórnarandstaðan notar hvert tækifæri til að gera lítið úr hinum raunverulega vanda, segir aflabrögðin í meðallagi og verðlagið, eins og búast má við, sveiflum háð, en ekki lakara en oft áður. Hún notar líka hvert tækifæri til að gera nauðsynlegar ráðstafanir tortryggilegar og ala á óánægju þeirra, sem fyrir óþægindunum hljóta að verða, því að óþægindi og erfiðleikar hljóta að fylgja því, þegar gjaldeyristekjurnar minnka svo stórkostlega sem raun ber vitni. Nei, þeir segja, að orsakir erfiðleikanna séu ekki þessar, heldur sé þeirra að leita í rangri stjórnarstefnu og mistökum hjá ríkisstj. Allt, sem miður fer í þjóðfélaginu, á að vera ríkisstj. að kenna. Nú er sjálfsagt að viðurkenna, að mistök geta átt sér stað. Enginn er alfullkominn. Ekki hef ég trú á, að stjórnarandstaðan sé það heldur. Það hafa dæmin sannað, þegar þeir herrar hafa verið við völd, auk þess sem margt orkar tvímælis, sem gert er og túlka má á ýmsa vegu. Góðviljaðir menn og skilningsgóðir geta fært allt til betri vegar, en aðrir geta rangtúlkað og fært til verri vegar. Í beinu framhaldi af þessari afstöðu sinni til vandans er svo krafa þeirra, sem alla erfiðleika á að leysa, að ríkisstj. segi af sér og fái völdin þeim í hendur, sem þó ekki hafa nein þau ráð á takteinum, sem líkleg mætti telja til úrlausnar. Þessi ríkisstj. hefur þó hlotið meiri stuðning kjósenda en nokkur önnur ríkisstj. hefur hlotið fyrr eða síðar, þar sem hún í þrennum kosningum í röð hefur fengið stuðning meiri hluta kjósenda. Þessi krafa er því hvort tveggja í senn ólýðræðisleg og óraunhæf lausn á sérhverjum vanda.

Ríkisstj. hefur nú bráðum setið að völdum í 10 ár. Allan þann tíma hefur samvinnan í ríkisstj. verið góð, að ég má segja. Ríkisstj. hefur lagt áherzlu á að leysa aðkallandi vandamál heiðarlega og með hagsmuni þjóðarinnar allrar fyrir augum, og ég spyr nú: Eru líkur til, að stjórnarandstöðunni mundi takast betur, ef hún tæki við? Er samstaðan þar betri? Eru möguleikarnir þar meiri? Er stefna þeirra líklegri til árangurs? Ég held varla. Ýmist er stefnan sett fram með óljósu orðalagi, sem túlka má á ýmsan veg, eða umorðun á hinni sömu stefnu, sem fylgt hefur verið að undanförnu. Einnig er þar um að ræða hrein yfirboð, sem aðeins eru ætluð til að ganga í augu á fólki og geta ekki orðið framkvæmd. Eitt er þó, sem skilur. Það virðist nú vera orðinn staðfastur ásetningur hjá Framsfl. að innleiða aftur haftapólitíkina, sem við þekkjum því miður allt of vel frá stjórnartímum þeirra. Formaður Framsfl. orðaði þetta í fyrrakvöld þannig, að þeir vildu hafa heildarstjórn á fjárfestingarmálum og innflutningi, en aðeins nauðsynlega stjórn. En við vitum af reynslunni, hvað það þýðir, þegar þessi heildarstjórn fjárfestingar og innflutnings er komin í þeirra hendur, og ég hygg, að fáir muni óska eftir því.

Og hverjar eru svo líkurnar til þess, að þessi sundurleiti og sundurlyndi hópur, sem nú myndar stjórnarandstöðuna, komi sér saman um nokkurn skapaðan hlut annan en þann að vera á móti núv. ríkisstj.? Ég held, að þær séu ekki miklar. Og ólíklegt, að þeir geti myndað starfhæfan meiri hl. Við skulum aðeins líta á ástandið í þessum flokkum. Sósfl., sameiningarflokkur alþýðu svo kallaður, hefur að undanförnu átt í miklum brösum. Enduðu þau átök með því, að nýr flokkur með nýju nafni var stofnaðir, Alþb. Virðist þó ekki hafa verið um það samstaða, því að Sósfl., sameiningarflokkurinn, sem leggja átti niður, virðist lifa góðu lífi, en í honum er hinn harði kommúnistakjarni flokksins, sem átti að hverfa og átti að fela a. m. k. Hvað úr þessu verður, liggur þó ekki ljóst fyrir, en svo mikið er víst, að samkomulagið virðist ekki of gott. Svo hefur það komið til, að nú í þessari viku var auglýstur stofnfundur nýrra samtaka vinstri manna, og sennilega er þar á ferð einn anginn af Sósfl., sameiningarflokki alþýðu. En þegar á það er litið, að allir þessir hópar munu fyrir stuttu hafa verið aðilar að Sósfl., sameiningarflokknum, virðist hann nú þríklofinn og lítið líklegur til að sameina alþýðuna í landinu, þegar hann getur ekki sameinazt sjálfur í meginmálum, eða til að standa að farsælli ríkisstj. Við þetta allt saman bætist svo, að þrálátur orðrómur hefur verið uppi um það, að einhver stór eða lítill hópur Framsfl. væri að hugsa um að segja skilið við hann og sameinast þessum nýju vinstri mönnum. Allt bendir þetta til, að stjórnarandstaðan sé sundruð og lítið líkleg til að geta sameinazt um neitt nema það að vera á móti ríkisstj.

Formaður Alþb. sagði hér í fyrrakvöld, að í íslenzkri pólitík væru aðallega tvö öfl að verki, einstaklingshyggjan og félagshyggjan, og get ég út af fyrir sig verið sammála um það. En þegar forsvarsmenn félagshyggjunnar, sem svo kalla sig, eru á tætingi með persónupot fyrir sjálfa sig, þá er ég hræddur um, að félagshyggjan eigi erfitt uppdráttar og þeir eigi erfitt með að koma sér saman um mótun stefnu í þeim anda í ríkisstj., ef þeim mætti takast að hrekja núv. stjórn frá völdum. Ég vil því vænta þess, að almenningur geri sér skýra grein fyrir mismuninum á nauðsynlegum og óumflýjanlegum aðgerðum ríkisstj., sem í bili geta að vísu verið óþægilegar, og svo á óábyrgum og óraunhæfum orðræðum andstöðuflokkanna, sem væntanlega geta ekki komið sér saman um neitt. Við skulum vona, að þessu erfiðleikatímabili, sem nú gengur yfir, ljúki bráðlega og nýir og betri tímar séu í vændum, en við verðum á hinn bóginn að vera við því búnir að geta mætt erfiðleikunum og snúizt á móti þeim af einurð og festu, þó að þeir kunni að vera óþægilegir í bili. — Góða nótt.