25.02.1969
Sameinað þing: 32. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1983 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

Efnahagsmál

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v., Ólafur Jóhannesson, beindi til mín nokkrum fsp., sem ég tel mér skylt að svara. Fsp. voru varðandi atvinnumálanefndirnar, og það má segja, að það hafi verið meginuppistaða í þeim, hvaða lagaheimildir væru til þeirra ráðstafana, sem með skipun nefndanna hefðu verið gerðar, bæði varðandi skipun nefndanna, starfshætti og öflun þess fjár, sem þar er um að ræða. Út af fyrir sig mundi ég nú telja, að ekki væri þörf á löggjöf varðandi annað en þá fjárráðstöfun, sem hér kemur til greina. Ríkisstj. er auðvitað heimilt að hafa samstarf við ýmsa aðila í landinu með þeim hætti, sem hverju sinni þykir bezt henta, án þess, að í því sambandi þurfi að setja sérstaka löggjöf. Og ég vil taka það skýrt fram, að ég tel, að það hafi verið misskilningur hjá hv. þm. að telja, að með þessu séu uppteknir óviðurkvæmilegir starfshættir vegna þess, að einstakir ráðh. eigi ekki að sitja í nefndum, sem heyri undir ríkisstj. Hér er í sjálfu sér ekki um það mál að ræða, sem er umdeilanlegt, hvort í fastar lögskipaðar nefndir eigi að skipa einstaka ráðh. eða ekki. Ég er sammála hv. þm. um það, að í slíkt eigi að fara varlega, en þó hafa bæði fyrr og síðar verið mörg dæmi þess, að ráðh. hafi skipað ákveðnar nefndir eða átt þar sæti. En hér er um að ræða sérstakt form fyrir samstarfi ríkisstj., ríkisvaldsins við öfluga aðila almannasamtaka, annars vegar samtök verkalýðs og hins vegar atvinnurekenda eða vinnuveitenda. Og það er auðvitað hagkvæmnisatriði, hvernig því samstarfi er fyrir komið.

Ég játa aftur á móti, að að svo miklu leyti, sem þarna verður um að ræða ráðstöfun á ríkisfé, hvort heldur í formi styrkveitinga eða lánveitinga og hvort sem ríkisféð er tekið með sköttum eða fengið að láni, þá þarf til þess lögformlega heimild, og þess vegna þarf löggjöf um þessi efni, bæði um heimild til lántöku, heimild til þess að ráðstafa lánum og heimild til þess að ráðstafa fé til styrkveitinga að svo miklu leyti, sem það verður talið nauðsynlegt. Þess vegna er ég sammála því, sem mér skildist hv. þm. halda fram, að nokkurn lagaramma þarf um þessa starfsemi og þá fyrst og fremst af þeim ástæðum, sem ég hef nú gert grein fyrir, og er það mál í athugun, hversu víðtæk sú löggjöf þurfi að vera og eðlilegt, að þeir aðilar, sem standa að þessu samstarfi, hafi þar tillögurétt um, hvernig löggjöfinni verði fyrir komið.

Af því, sem ég hef nú sagt, er það ljóst, um hvort heldur er að ræða ráðstöfun beins ríkisfjár eða lánsöflun til ráðstöfunar, að löggjöf þarf í því skyni. Og þegar hv. þm. spurði, hvaðan þessar 300 millj. ættu að koma, sem um hefði verið rætt, er það víst, að það mál kemur til ákvörðunar Alþingis, áður en yfir lýkur. Ég geri ráð fyrir því, að meginhluta þess fjár þurfi að taka að láni og sennilega meginhlutann af því lánsfé eða allt þurfi að fá erlendis. Nokkurn hluta lánsfjár má þó hugsa sér, að æskilegt sé að taka innanlands, og eins, ef um beinar styrkveitingar er að ræða, þá er ekki hyggilegt að taka það nema í algerri undantekningu af erlendu lánsfé.

Hv. þm. spurði svo, hvort frekar ætti að vera um að ræða styrki eða lán. Það kemur glöggt fram í því samkomulagi, sem gert var og gert hefur verið heyrum kunnugt, að fyrst og fremst er ráðgert að veita þessa fyrirgreiðslu í formi lána, að styrkir eiga að vera undantekning. Og það er einnig ráðgert, að um lánskjör verði ákveðið endanlega í hverju einstöku tilfelli. Hins vegar geri ég ráð fyrir, að skynsamlegt þyki, að um þetta verði settar almennar reglur, sem þá sé hægt að hafa til hliðsjónar, en ekki verði bindandi nema eftir þeirri ákvörðun, sem hverju sinni verður tekin um það, hvaða hátt eigi að hafa á um hvert einstakt mál.

Enn spurði hv. þm. að því, hvort með ráðstöfun á þessu fé yrði beðið eftir heildaryfirliti eða teknar yrðu jafnóðum ákvarðanir um einstök atriði. Eftir því, sem mál horfa nú, geri ég ráð fyrir, að menn treysti sér til að taka ákvarðanir um einstök atriði, þó að heildaryfirlit hafi enn ekki fengizt, ef allir eru um það sammála og um er að ræða nánast óumdeilanleg mál og ekki hærri fjárhæðir en svo, að litlu munar varðandi heildarráðstöfun fjárins. Hins vegar hygg ég ekki gerlegt að ráðstafa meginhluta fjárins fyrr en heildaryfirlit hafi fengizt.

Ég hygg þá, að ég hafi svarað þeim atriðum, sem hv. þm. beindi til mín, þó að ekki sé e. t. v. í þeirri sömu röð eða með sömu sundurliðun eins og hann bar fram, en þetta sé meginefni þess, sem hann spurði mig um. Og skal ég þá ekki fjölyrða um það frekar. Ég skal heldur ekki fara í almennar umr. við þennan hv. þm. um þann vanda, sem nú er við að etja. Þar er um rædd og gamalkunnug mál að ræða, og tjáir ekki stöðugt, að hvor aðili endurtaki sitt. Það verður sízt til skýringar málum. Varðandi það, sem hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, sagði, er það einnig svo, að flest af því og raunar allt, sem hann hafði hér á orði, hefur verið margrætt áður og því ástæðulaust fyrir mig að eltast við einstök atriði þess. Ég get þó ekki komizt hjá því að minna á, þegar hv. þm. telur, að nú mundi vera hér mun öðruvísi og miklu betur ástatt, ef meiri stund hefði verið lögð á aukningu togaraflotans að undanförnu, að hann sjálfur, sem óumdeilanlega reyndist ötull útgerðarmaður og hefur mikla þekkingu á þeim málum, beitti sér fyrir því og átti hlut að því, að það fyrirtæki, sem hann réð mestu um og ég hygg, að hann hafi verið framkvæmdastjóri fyrir, hætti útgerð togara vitanlega vegna þess, að hann taldi, að aðrar ráðstafanir kæmu því byggðarlagi, sem hann einkum bar fyrir brjósti, meira að gagni en rekstur togara. Og það er eðlilegt, að meðan miklir athafnamenn og áhugamenn um atvinnuuppbyggingu eins og hv. þm. hafa þessa afstöðu, verði tregt um aukningu togaraútgerðar hér á landi. Það er að vísu nú almenn skoðun, að aukning togara muni ekki eiga sér stað nema fyrir forgöngu ríkisvaldsins. Ég er raunar ekki sjálfur sannfærður um haldgæði þessarar skoðunar, en það er víst, að hún er alþekkt og algeng innan allra flokka. En hvað sem því líður, er það öruggt, að ef menn fást ekki til þess að reka togara eins og raunin varð á á Norðfirði á sínum tíma, þá stoðar lítið að afla þeirra tækja til landsins. Því aðeins, að ábyrgir aðilar fáist til þess að reka þessi atvinnutæki og telji þau henta miðað við nútíma aðstæður, getur verið verjanlegt af ríkisvaldinu að beita sér fyrir öflun þeirra til landsins. Svo er það einnig annað mál, sem ég hygg, að hafi við töluverð rök að styðjast, að það muni vera vafasöm þróun, sem hér hefur átt sér stað einmitt fyrir forgöngu ríkisvaldsins, og ég ber ábyrgð á ekki síður en ýmsir aðrir, að togarar séu keyptir margir í einu, kannske 10–30, og síðan líði mörg ár, stundum áratugir á milli þess, að nýrra skipa sé aflað, a. m. k. svo að nokkru nemi. Í þessari atvinnugrein eins og öðrum hygg ég, að sígandi lukka sé bezt og það sé eðlilegra, að skipanna sé aflað smám saman og þá eftir því, sem eftirspurn og þörf reynist fyrir. Og það var athyglisvert, sem hv. 4. þm. Austf. sagði, að hann vildi ekki ásaka ríkisstj. fyrir að hafa veitt fyrirgreiðslu varðandi eflingu síldveiða á sínum tíma, enda hefði það verið óeðlilegt, ef hv. þm. vildi nú ásaka ríkisstj. fyrir of miklar aðgerðir í þessum efnum, vegna þess að öðru hverju a. m. k. taldi hann ríkisstj. hafa verið of svifaseina í framkvæmdum til eflingar síldariðnaðarins á þeim árum, þegar síldin óð hér mest uppi. En það er ekki hægt samtímis að segja, að ríkisstj. sé ekki ámælisverð fyrir það að hafa greitt fyrir eflingu síldveiða og síldariðnaðar og hins vegar, að samtímis hefði átt að afla nýrra togara til landsins. Með eflingu síldveiðanna á sínum tíma var gert svo stórt átak, að hvorki var mannafli né fé til þess að anna meira en þá var gert. Um hitt má svo deila, eins og ég segi, hvort of mikil áherzla hafi verið lögð á síldveiðar eða ekki. Eftir á geta menn sagt, að betra hefði verið að fara hægar í sakir. Fáir höfðu kjark til þess að standa á því, meðan austurinn var mestur, og raunar engin skilyrði til þess að hindra menn í því að nota þá auðsuppsprettu, sem þá var, enda má það ekki gleymast, eins og ég tók fram í ræðu minni á dögunum, að vissulega hafa mikil verðmæti orðið eftir í landinu af þessum sökum.

Eins vildi ég aðeins minna á það, að hæpin er sú kenning hv. 4. þm. Austf., Lúðvíks Jósefssonar, að hér yrði miklu við bjargað með eflingu niðursuðuiðnaðar og niðurlagningu fiskafurða. Ég man nú ekki, hvort hv. þm. var sjálfur með í þeim leiðangri, sem fyrir nokkrum árum var gerður af hans flokksbræðrum austur til Moskvu, þar sem drög voru að því lögð, að Sovétmenn skyldu kaupa af okkur mjög verulegt magn af niðursoðnum eða niðurlögðum fiskafurðum. Ég man það glögglega, að Þjóðviljinn skrifaði þá um það fjálglegar greinar, að þessi starfsemi mundi innan skamms geta orðið svo mikil, að um 200 millj. kr. á ári bættust við okkar útflutning. Því miður hefur raunin orðið öll önnur. Ég hygg, að það sé ekki nema í mesta lagi 1/10 hluti þess, sem þá var látið í veðri vaka, sem Rússar hafi raunverulega fengizt til þess að kaupa, enda eru nú fregnir af því, að þeir eru farnir að selja suma af þeirri vöru, sem þá var talið, að þeir þyrftu að kaupa frá okkur. Þeir eru farnir að selja hana úr landi. Þær miklu vonir, sem þá var af hálfu hv. fylgismanna þm. reynt að vekja hjá mönnum, um að þarna yrði um að ræða mikla lyftistöng fyrir mörg byggðarlög umhverfis landið, þær hafa í raun og veru allar hrunið, og er sannast sagt furðulegt eftir þá reynslu, að hv. þm. skuli enn vera að tala um þetta sem eitt hið allra mesta bjargráð.

Flest annað, sem hv. þm. sagði og ég heyrði, hefur verið svo margrætt hér í vetur, að ég skal ekki eyða orðum að því að rekja það frekar að sinni.