25.02.1969
Sameinað þing: 32. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

Efnahagsmál

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir stórum miður, en ég sé hvorki hæstv. forsrh. né heldur viðskmrh., því að til þeirra vildi ég beina nokkrum orðum: Skyldi ekki geta verið, að þeir séu hér í alþingishúsinu? (Forseti: Ég held, að þeir séu ekki í húsinu. Þeir eru held ég annars staðar.) Það var stórum verra, en hér er þó einn ráðh., og ef til vill mætti ég biðja hann að skrifa hjá sér þær fsp., sem mig langar að flytja fram fyrir hæstv. stjórn.

Þegar hugsað er og talað um efnahagsmál, er ekki óeðlilegt, að þar á meðal íhugi menn fjárhagsaðstöðu þjóðarinnar gagnvart öðrum löndum, og um það efni eru þessar fsp., sem mig langar að biðja hæstv. ráðh., sem hér er að taka til athugunar og úrlausnar fyrir mig. Það er þá í fyrsta lagi: Hvað námu skuldir þjóðarinnar við önnur lönd mikilli fjárhæð við síðustu áramót, reiknaðar í ísl. kr. með núverandi gengi, í fyrsta lagi föst lán og í öðru lagi lausar skuldir? Og þá er hin spurningin þessi: Hvað er talið, að afborganir og vaxtagreiðslur af föstum erlendum lánum nemi miklu í ísl. peningum árið 1969? Ég get tekið þessa spurningu upp aftur fyrir hæstv. ráðherra: Hvað er talið, að afborganir og vaxtagreiðslur af föstum erlendum lánum nemi miklu í ísl. peningum árið 1969? Nú væri mér ákaflega kært, ef hæstv. ráðherra gæti hlutazt til um, að svör fengjust við þessum spurningum við þessa umræðu, áður en henni lýkur. Ég tel víst, að þessar upplýsingar séu fyrir hendi í stjórnarráðinu eða hjá tölvunni, sem er talin fjölvís, og mætti hafa símasamband við hana, jafnvel þó að nokkuð sé orðið áliðið dags, ef hún verður fyrir valinu, þegar leitað er að aðila til að svara þessu.

Hv. S. þm. Vesturl. flutti ræðu hér í dag. Hann virtist vera mjög hrifinn af viðskipta- og efnahagsmálastefnu stjórnarinnar. Ég ætla aðeins að bregða hér upp með örfáum orðum einu dæmi af því, hvernig þessi stefna er í framkvæmd. Ég hef reyndar minnzt á það áður. Árið 1968, sem nú er nýliðið, keyptu Íslendingar vörur af Dönum og Norðmönnum fyrir samtals 1450 millj. kr., en seldu þessum tveimur þjóðum vörur fyrir 235 millj. Mikið af þessum vörum, sem við keyptum frá Dönum og Norðmönnum, voru iðnaðarvörur, sem mjög auðvelt var að framleiða hér á landi. Með þessu háttalagi hefur því hæstv. ríkisstj. verið að flytja vinnulaun, sem nema mörgum hundruðum millj. kr., frá íslenzkum mönnum til útlendinga. Þetta hefur nú verið eitthvað svipað þessu, árin á undan, viðskiptin við þessa granna okkar. En þegar gjaldeyri þrýtur til þess að halda uppi þessum viðskiptaháttum, þá eru stjórnin og hennar menn ekki aldeilis á flæðiskeri staddir. Ó nei. Þeir senda fulltrúa á ráðstefnu suður í löndum, þar sem mættir eru menn frá ýmsum þjóðum. Þeir fara þangað með samskotabauk og biðja annarra þjóða menn auðmjúklega að hjálpa sér nú í vandræðum og skjóta saman peningum, svo að þeir geti haldið uppi áfram því, sem þeir kalla viðskiptafrelsi hér á þessum hólma. Og þegar góðhjartaðir menn í öðrum löndum aumkast yfir þessa vesalinga hér norður frá og láta í það skína –(Gripið fram í: Hvar og hvenær hefur þetta verið gert?) Þetta er öllum kunnugt. Staðar-Gunna stjórnarinnar hlýtur að vita þetta eins og aðrir á heimilinu. Þegar látið er í það skína af útlendingum, að þeir séu nú til með að hlaupa undir bagga með þessum vesalingum hér, þá standa fulltrúar ríkisstj. á ráðstefnunni upp og hneigja sig djúpt og flytja innilegar þakkir fyrir aðstoðina. Það er nú ekki hærra risið á þeim en þetta, ríkisstj. og hennar stuðningsflokkum á Íslandi um þessar mundir. Svo kemur hv. 5. þm. Vesturl. í þennan ræðustól og flytur hér lofgerðarrollu um þennan ræfildóm stjórnarinnar, eftir því sem rómur hans og orka leyfa.

Hæstv. forsrh. flutti hér í upphafi skýrslu, alllanga og ítarlega skýrslu um efnahagsmálin, sem mér skildist, að væri samin af Efnahagsstofnuninni. Nú er dálítið slæmt, að hæstv. ráðh. skuli ekki vera við. Ég ætlaði að segja það við hann, að vegna þess að hann er góður íslenzkumaður, svo sem faðir hans var, þá ætti hann, áður en hann flytur fleiri skýrslur á Alþingi frá vissum embættismönnum, að lesa þær yfir og þýða þær á íslenzku. Ef hann gerði það, hæstv. ráðh., þá þyrftum við þm. ekki að hlýða á orð af hans vörum eins og t. d. þessi: „Í því umfangi.“ Þetta var eitt af því, sem hann sagði og las upp úr skýrslunni. Nú veit ég vel, að hæstv. forsrh. hefur í mörg horn að líta, og það er þess vegna ekki víst, að hann geti sjálfur þýtt þessi plögg, því að þetta eru langar skýrslur. Það er ekki víst, að hann hefði tíma til þess, þó að hann væri allra manna hæfastur til þess að þýða þetta á okkar tungu. Þá gæti hann trúlega fengið einhvern annan mann, sem væri góður í móðurmálinu, til þess að gera þetta. En þetta er mikið nauðsynjaverk. Þetta er aðeins vinsamleg ábending frá mér til hæstv. forsrh.