25.02.1969
Sameinað þing: 32. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2045 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

Efnahagsmál

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég skal nú reyna að verða við þeim tilmælum að hafa þetta stutt, enda er satt að segja lítið freistandi að tala yfir hálftómum þingsal. Ég verð þó að viðurkenna það, að annar hv. stjórnarfl., sem er Sjálfstfl., hefur mætt hér með einvala liði í kvöld, og á hann vissulega hrós skilið fyrir það. Og mættum við læra nokkuð af því hinir. En ég minni nú svona á í leiðinni, að það hefur nú ekki alltaf verið svo, þegar umr. hafa farið fram hér á síðkvöldum á hæstv. Alþingi. Það má segja um þá, að batnandi mönnum sé bezt að lifa.

Annars hafði ég kvatt mér hljóðs fyrir fundarhlé til þess að gera að umtalsefni og til þess að reyna að svara nokkrum atriðum, sem komu fram í ræðu hv. 5. þm. Vesturl., Benedikts Gröndal. Hann vék talsvert að þeirri ræðu, sem ég flutti hér fyrr við umr., og á þann veg, að mér finnst, að ég verði að svara a. m. k. sumu af því, sem þar kom fram. Ég harma það nú, að hann er einn þeirra 90% Alþfl.m., sem vantar hér í kvöld. En engu að síður verð ég að láta það eftir mér að víkja að þessu örfáum orðum. Hv. þm. má eiga hrós skilið fyrir það, að hann viðurkenndi það þó, að ríkisstj. hefði ekki tekizt að halda verðbólgunni í skefjum. Enda má nú kannske segja, að það hefði verið ofrausn fyrir nokkurn mann að ætla sér að takast það á hendur að afsanna þá kenningu. En sá galli var á hans málflutningi að mínum dómi, að hann vildi umfram allt kenna það okkur framsóknarmönnum, að ekki hefði tekizt að halda verðbólgunni í skefjum. Það mátti skilja það á hans máli, að ef okkar óþörfu till. og ráðleggingar hefðu ekki ævinlega verið að koma fram, þá hefði nú allt leikið í lyndi hjá hæstv. ríkisstj. og verðbólgan hefði verið minni og lítil sem engin. Þessi skemmdarstarfsemi okkar framsóknarmanna skildist mér aðallega hafi átt að vera fólgin í því, að við hefðum sífellt átt að vera að bera fram hér á Alþ. alls konar till. til hækkunar. Ég vil ekki neita því, að við höfum á undanförnum þingum borið fram nokkur frv. og till., sem mundu hafa aukið útgjöld ríkisins, ef samþ. hefðu verið. En hvað margar till., sem við höfum flutt, hafa verið samþ.? Ég held, að verðbólga hæstv. ríkisstj. hafi sáralítið vaxið við þær till. Og þar að auki vil ég benda á það, að það er alveg víst, að a. m. k. Framsfl., og að ég hygg raunar hinn stjórnarandstöðuflokkurinn líka, hafa mjög stillt í hóf kröfugerð sinni, t. d. við samningu fjárlaga. Ég minnist þess, að síðan ég tók sæti hér á hv. Alþ. fyrir um það bil 6 árum, þá hafa brtt. okkar við fjárl. verið mjög fáar og mjög smáar og stundum ekki kannske nema svo sem ein. Ef það er óviðurkvæmileg kröfugerð, þá veit ég ekki, hvernig á að fara að því að lifa eftir kenningum hv. 5. þm. Vesturl. í stjórnarandstöðu. Þá sagði hann í öðru lagi, að ég vildi opna allar gáttir Seðlabankans og ausa út fé í allar áttir. Það hefur aldrei verið með í mínum till. að þurrausa alla sjóði Seðlabankans. En ég hef, það er rétt, eins og fleiri hv. þm. úr öllum flokkum, sagt, að það þyrfti að koma til aukið fjármagn, þegar tilkostnaður atvinnufyrirtækjanna er hækkaður, eins og gert hefur verið. Og ég vitna aftur í það, sem ég sagði í dag, að þegar hæstv. forsrh. svaraði fsp. 11. des., þá var það einmitt inntakið í því svari, að ríkisstj. væri ljóst, að fyrstu áhrif gengislækkunarinnar væru neikvæð og til þess að fyrirtækin gætu notið þess hagræðis, sem stjórnarliðar byndu við gengislækkunina, hlytu þeir að auka útlánin. Svo ég held, að við séum bara sammála í þessu atriði nú orðið, en við höfum ekki alltaf verið það, það skal játað. En ég vil meina, að hér hafi orðið stefnubreyting á hjá ríkisstj., a. m. k. í orði, og að hún hafi fallizt á þau rök, sem við höfum hér verið að flytja.

Hv. þm. sagði, að ég hefði haft allt á hornum mér varðandi umsóknina um inngöngu Íslands í Fríverzlunarbandalagið, EFTA. Ekki held ég, að þetta sé alveg rétt frá skýrt hjá honum, að ég hafi haft allt á hornum mér. Hitt er rétt, að ég gagnrýndi það með örfáum orðum, að mér fannst, að undirbúningur að þessari umsókn hefði ekki verið fullnægjandi. Og ég get vel endurtekið það og skal standa við það, hvar sem er, að ég tel það fráleitt, að land sæki um inngöngu í bandalag, sem það veit ekkert enn þá, hvaða hagræði það hefur af. Hv. þm. sagði, að vitanlega mundi ekki vera gengið í Fríverzlunarbandalagið nema að ýtarlega athuguðu máli, en staðreyndin er sú, að það er búið að senda umsókn, og umsókn í venjulegum viðskiptum þýðir það, eða tilboð, að maður sé tilbúinn að ganga inn, ef manni verður veitt viðtaka. Það getur vel verið, að hæstv. viðskmrh. og sendimönnum hans í Genf takist að fá viðunandi samninga við þetta bandalag. Ég vona það, og ég hef ekki neina ástæðu til að ætla kannske, að svo geti ekki orðið. En mér finnst, að ekki hafi verið nægilega vel að þessum málum staðið. Og ég segi það alveg hiklaust, að þó að Framsfl. hafi átt fulltrúa í svonefndri EFTA-nefnd, þá hafi sú skýrsla, sem hún skilaði, verið að mörgu leyti mjög ófullkomin, þar sem það er beinlínis viðurkennt, að öll helztu atriði, sem máli skipta, séu á athugunarstigi eða verði athuguð síðar. Samt er mælt með umsókninni.

Þá sagði hv. 5. þm. Vesturl., að gengislækkunin væri ekki gerð að frumkvæði ríkisstj., heldur væri hún viðbrögð hennar. Þarna erum við þó 100% á sama máli. Og þetta er einmitt það, sem ég var að segja hér í dag, að væri grundvallarágreiningsefni okkar framsóknarmanna a. m. k. og stjórnarliða annars vegar sumra, að hlutverk ríkisstj. væri ekki það eitt að skrá gengið, hlutverk ríkisstjórna, ekki bara Íslands, heldur allra ríkisstjórna, ætti að vera það að standa vörð um gengið og reyna að koma í veg fyrir að þurfa sífellt að vera að fella það.

Hv. þm. sagði enn fremur, að 300 millj. kr. till. til atvinnuaukningar hefði verið til athugunar hjá hæstv. ríkisstj., að mér skildist löngu áður en till. um það kom fram frá minni hl. fjvn. hér á Alþ. við afgreiðslu fjárl. Það vil ég náttúrlega ekki og get ekkert sagt né upplýst um, hvað hæstv. ríkisstj. hefur til athugunar. Mér heyrist nú, að það sé ærið margt, og a. m. k. er reynslan æði oft sú, að þegar frv. koma fram frá öðrum, þá er venjulega viðkvæðið þetta: Það er alveg ástæðulaust fyrir ykkur að vera að flytja frv. um þetta og þetta atriði. Við erum með þetta í athugun. Og stundum hefur það meira að segja komið á daginn, að frv. hafa skotið hér upp kollinum, mjög skömmum tíma eftir að málinu hefur verið hreyft af öðrum. Hvort sem ríkisstj. hæstv. hefur verið að athuga þetta lengur eða skemur, breytir það alls ekki þeirri staðreynd, að þessi till. um 300 millj. kr. fjárveitingu til atvinnuaukningar var felld með öllum atkvæðum stjórnarliða. Og ástæðan fyrir því, að mér skildist eftir málflutningi hv. 5. þm. Vesturl., var sú, að það væri miklu heppilegra að koma á þessu atvinnuaukningarfé í samvinnu og samráði við samtök atvinnuveganna, bæði launþegasamtökin og vinnuveitendasamtökin. En ég spyr aðeins: Var ekki alveg eins hægt að semja við þessa aðila, þó að búið væri að afla lagaheimildar til þess að veita þessa fjárhæð? Það kom fram í dag í svari hæstv. forsrh. við fsp., sem hér var borin fram á föstudag, að það þyrfti að afla lagaheimildar bæði til þess að úthluta þessu fé og eins til þess að taka það að láni. Og ég segi það, að mér finnst það vera furðuleg vinnubrögð að lofa fyrst og afla svo heimildarinnar á eftir, þegar búið er að bera fram till. um það mán. fyrr að fara aðra leið, þá einu réttu leið, að afla fyrst samþ. Alþ. og ganga tryggilega frá lagahliðinni, áður en farið er að semja og lofa út um land og út um borg.

Hv. þm. minntist á það í tilefni af því, sem ég sagði í dag, að menn ættu nú að reyna að taka höndum saman um lausn á þessum vandamálum, að það væri einmitt skoðun hæstv. ríkisstj. og að hún hefði af miklu örlæti, skilst mér, og góðum hug rétt fram hönd til hinna flokkanna um, að allir tækju nú höndum saman um lausn vandans og boðið upp á samstarf. Ég hygg, að það sé út af fyrir sig rétt í þessari frásögn, að hæstv. ríkisstj. hafi átt frumkvæðið að þessum viðræðum. En ég held, að hitt sé jafn víst, að þessar viðræður hafi fyrst og fremst strandað vegna afstöðu a. m. k. annars stjórnarflokksins. Eða er það ekki rétt munað, að á meðan á þessum viðræðum stóð, hafi Alþfl. haldið landsþing eða landsfund og þar hafi verið samþ. yfirlýsing í þá stefnu, að Alþfl. fyrir sitt leyti væri fullkomlega ánægður með það stjórnarsamstarf, sem væri, og hann teldi það ástæðulaust að breyta þar nokkuð til. Mig minnir enn fremur, að hæstv. viðskmrh. hafi orðað þetta einhvern veginn þannig í grein, sem ég las í Alþbl., það mun líklega hafa verið áramótagrein hans, að það eina, sem skildi á milli stefnu Alþfl. og Sjálfstfl. væri framkvæmd á skólamálum og tryggingamálum og ýmsu þvílíku. Ef þetta er rétt munað og ef þessir atburðir hafa skeð, eins og ég hef verið að reyna að lýsa þeim, sérstaklega samþykktin á þinginu í haust, er þá hægt að segja, að af heilindum hafi verið staðið að þessum samstarfsviðræðum af hálfu þessa flokks a. m. k.? Ég get ekki séð, að það sé, og ég get varla ímyndað mér það, að hv. stjórnarliðar, sem hér eru viðstaddir, ætlist til að stjórnarandstæðingar haldi áfram að tala við menn, sem hafa þessa yfirlýstu stefnu um það, að aðrir flokkar komi ekki þarna við sögu.

Það hefur verið mjög mikið gert af því að hampa því, að stjórnarandstæðingar hafi engar till. haft fram að færa i þessum viðræðum. Það er nú náttúrlega alls ekki rétt, því að margar ábendingar koma nú fram. Og ýmsar af þessum ábendingum hafa verið fluttar af okkur framsóknarmönnum hér á þingi í formi till. og frv. Hitt er svo annað mál, að ég heyri það hér, að þessar ábendingar þykja lítilmótlegar og léttvægar, og það verður náttúrlega hver að hafa sína skoðun á því, en ég hygg þó, að alveg sé óhætt að fullyrða það, að a. m. k. sumar af þessum ábendingum séu þannig vaxnar, að þær mundu, ef farið væri eftir þeim, hafa stórkostlega minnkað þann vanda, sem við er að stríða, og hefðu getað orðið til þess, að gengislækkunin hefði a. m. k. ekki þurft að vera svona mikil, jafnvel þótt hún hefði kunnað að þurfa að vera einhver, sem ég skal nú ekki fara frekar út í hér.

Hv. þm. Benedikt Gröndal talaði um þá vantrú á stjórnina og stjórnmálafl., sem ég gerði lítillega að umtalsefni í minni ræðu. Ég tók það sérstaklega fram, að ég stofnaði ekki til þeirra umr. til að vekja deilur milli flokka, heldur til að minna okkur á það, að við verðum náttúrlega að standa þannig að stjórn landsins, þeir sem til þess eru valdir á hverjum tíma, hvort sem það eru stjórnarandstæðingar eða stjórnarliðar, að fólk hafi einhverja trú á því, að við komumst fram úr erfiðleikunum. En ég var ekki með neinn samanburð á stjórnarliðum og stjórnarsinnum í því efni. Hann fór hins vegar út í þennan samanburð og taldi það, að þar væri nú mikill munur á. Ég segi fyrir mitt leyti og skal látið útrætt um þetta að öðru leyti en því, að ég er algjörlega óhræddur við þennan samanburð, alveg óhræddur við hann.

Þá vil ég leiðrétta það, sem ég sagði hér í dag eftir ábendingu hv. 10. landsk. þm., að ekki hafi legið fyrir vilyrði frá hæstv. ríkisstj. um auknar fjárveitingar til rekstrarlána útvegsins, þegar sjómannaverkfallið stóð yfir. Að fengnum þeim upplýsingum, sem hann gaf hér, sem ég veit, að er þessu máli kunnugur, þá hlýt ég að hafa það, sem sannara reynist, að það hafi verið einhvers konar vilyrði fyrir þessu þann 8. jan. Hitt er svo annað mál, að ég get ekki varizt þeirri hugsun, að ég tel, að samhliða gengisfellingunni hefði slíkt vilyrði átt að liggja fyrir, og milli þess, að gengislækkunin var framkvæmd og þeirrar dagsetningar, sem hv. 10. landsk. þm. sagði mér, eru tveir mánuðir. Og ég endurtek það, að ég tel, að fyrr hefði átt að bregða við í þessu efni. En ég rengi ekki upplýsingar hv. 10. landsk. þm., það dettur mér ekki í hug. Ég hef þá haft rangar upplýsingar um þetta atriði. Ég hélt, að þessi loforð hefðu ekki legið fyrir fyrr en um það bil sem sjómannaverkfallið var að nálgast endapunktinn.

Hv. 10. landsk. þm. sagði, að ekki væri hægt að skipta meira en aflast. Það tek ég algjörlega undir. Það, sem ég hef reynt að leggja áherzlu á í mínum málflutningi, er það, að það ætti að lækka tilkostnaðinn á því, sem aflað er. Hitt skil ég, að það er ekki hægt að skipta stærri köku en fyrir hendi er á hverjum tíma. Þetta á í raun og veru líka við um það, sem hv. 12. þm. Reykv., hv. forseti, sagði í sinni ræðu, að ég hafi gert að megininntaki þess, sem ég hafi sagt um þessi atvinnumál, það, að stefna hefði átt að því að létta byrðum af atvinnuvegunum, gera rekstur þeirra hagkvæmari og ódýrari, til þess að ekki hefði þurft að fella gengið svona oft og svona mikið þeirra vegna og til þess, að þeir hefðu verið betur í stakk búnir til þess að greiða mannsæmandi kaup, en ég held, að við komumst ekki hjá því að játa þá staðreynd, að af lægsta kaupi, sem nú er greitt samkvæmt samningum, er tæplega hægt að ætla fjölskyldu að lifa því, sem kallað er mannsæmandi lífi. Þess vegna held ég, að þetta sé kjarni málsins. Við verðum þrátt fyrir allt, hversu erfitt sem það kann að vera og hversu miklar fjarstæður, sem það kunna að vera, sem framsóknarmenn hafa lagt til í þeim efnum, verðum allir að leggjast á eitt um það að lækka þennan tilkostnað, því að öðruvísi er ekki hægt að reka þjóðfélag með frjálsum þegnum, sem lifi vel í sínu landi.

Það má náttúrlega endalaust rifja upp söguna og deila um það, hverjir hafi átt mestan þátt í þeim mistökum, sem orðið hafa oft og einatt í úthlutun alls konar leyfa, meðan það kerfi var hér ráðandi. Og ég skal ekki fara langt út í það. Það eru vissulega ljótar lýsingar, sem hv. þm., 10. landsk. þm. Sverrir Júlíusson og 12. þm. Reykv. Ólafur Björnsson, hafa gefið á starfsemi þessara nefnda og satt að segja ljótari en svo, að ég byggist við að heyra þær frá þeim a. m. k., því að eftir því sem ég man bezt, þá starfaði annar þeirra a. m. k. talsvert, og þó sennilega báðir, við þessi mál á sínum tíma. Ég segi það alveg hiklaust og hef oft gert það og mun alltaf gera það, að eins og fjárhagsráð var orðið, þegar það var lagt niður, þá var það góð stofnun og skynsamleg stefna, sem það framkvæmdi. Ég mæli því ekki bót, að það sé verið að hundelta menn fyrir að byggja sér bílskúr eða garðspotta einhvers staðar úti í bæ, eins og gert var. Það er alveg rétt. Menn verða náttúrlega að hafa það í huga, að á þeim tíma, sem mest var gert af því, var hér algert neyðarástand. Þá var skortur hér eftir stríðsár og innflutningurinn sáralítill, sem hægt var að fá, jafnvel þó að hægt væri að borga hann. Það vantaði sement, steypustyrktarjárn og timbur, það vantaði allt, og það, sem tekið var til bílskúra og girðinga, var tekið frá íbúðarhúsum, svoleiðis að þessir menn hafa náttúrlega sína afsökun. Engu að síður tel ég, að það hafi verið of langt gengið og mun ekki standa í því, hvorki fyrr né síðar, að mæla því bót út af fyrir sig. En ég sé ekkert athugavert við það, þó að það sé undir vissum kringumstæðum, þegar þannig hagar til í þjóðfélaginu, þá sé það ekki mál þeirra, sem peningana hafa, hvort þeir geta byggt yfir sig villur upp á 5 eða 10 milljónir eða hvað það nú er, sem húsin kosta núna. Þegar fjárhagsráð var lagt niður, var hverjum og einum frjálst að byggja yfir sig 550 teningsmetra húsnæði, hann þurfti engan að því að spyrja. Ef hann hafði fjármagn til þess, gat hann gert það. Og ég endurtek það, að ég sé ekkert athugavert við það, þó að þeir, sem vildu byggja stærra, þyrftu að bera sig saman við ráðamenn í þjóðfélaginu um, hvort þjóðfélagið hefði ráð á því á þeim tíma.

Það er svo margt, sem ekki er leyft. Við getum ekki, Reykvíkingar, byggt okkur hús nema fá lóð. Það hefur til skamms tíma verið skortur á lóðum. Það hefur orðið að skammta þær. Við því er ekkert að segja. Eins er það með svo mörg önnur lífsins gæði, að menn geta þurft að bíða eftir því, að þeirra tími komi og að ástæður í þjóðfélaginu séu þannig, að það sé skynsamlegt eða jafnvel verjandi gagnvart öðrum atriðum að leyfa tilteknar framkvæmdir. Það hafa ríkari og stærri þjóðir en við gripið til þess um stundarsakir að stöðva byggingar, t. d. á verzlunarhúsum, iðnaðarhúsum, já og margs konar tegundum húsa. Meira að segja í sjálfri London, þeim stóra stað, var til skamms tíma bann við tilteknum stórbyggingum inni í borginni. Það bann setti íhaldsflokkurinn á, á sínum tíma. Verður hann vafalaust ekki frekar en hv. Sjálfstfl. sakaður um það að vera haftapostuli. En hann sá, að það var skynsamlegt að gera þetta, og hann þorði þá að gera það, þegar þess þurfti með. Auðvitað erum við ekki að tala um það, að hér eigi um aldur og ævi að vera einhver höft, að mönnum eigi að vera bannað helzt allt, sem nokkurs sé virði. En við erum bara að benda á það, að það geti skapazt þær aðstæður í þjóðfélaginu, að það verði að takmarka það, sem mönnum er frjálst að gera.

Ég má nú ekki, herra forseti, vera að eyða svona þingtímanum í þetta spjall. Það er vissulega margt hægt að segja um þetta meira, en ég skal nú að mestu sleppa því.

Hv. 4. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, hélt hér að mörgu leyti að mínum dómi skynsamlega ræðu, og ég vil nú segja þá skynsamlegustu ræðu, sem ég hef heyrt úr stjórnarherbúðunum í lengri tíma. Hann viðurkenndi það, að stefnur gætu ekki staðið af sér hregg og hríðar áratuganna, þær þyrftu endurskoðunar við. Það þyrfti e. t. v. að breyta þeim vegna breyttra aðstæðna. Þetta tel ég vel mælt og skynsamlega. En það var ekki þetta, sem hæstv. viðskmrh. var að túlka hér á föstudaginn. Það var þvert á móti allt annað. Hann undirstrikaði það í einum sjö eða átta atriðum, að það lægi bókstaflega líf við, að engu yrði breytt. Þetta væri sú eina sanna, skynsamlega efnahagsmálastefna, sem allar skynsamar þjóðir færu eftir, og það yrðum við umfram allt að gera líka, hvernig sem hún passaði og hvernig sem hún hefði reynzt. Á þessum málflutningi geri ég mikinn mun.

Þessi sami hv. þm. beindi þeirri fyrirspurn til okkar framsóknarmanna, líklega þá til okkar viðstaddra helzt, hvernig aðstaða félagsverzlunarinnar hefði verið á undanförnum árum. Ég er nú ekki mikið kunnugur því og ekki talsmaður félagsverzlunarinnar sem slíkur og hef þar ekki neinar trúnaðarstöður með höndum, sem opni mér leið að öllum reikningum þar. En ég get þó svarað því, að ég hygg, að hún hafi verið ákaflega léleg, ákaflega léleg á undanförnum árum. Og ég minnist þess, að aðalfundir Sambands íslenzkra samvinnufélaga hafa aldrei svo verið haldnir, síðan ég fór að vinna í tengslum við þessa hreyfingu, að það hafi ekki verið kvartað undan því, að rekstrarfjáraðstaðan í bönkunum væri algerlega óviðunandi, það vantaði fjármagn til allra hluta. Ef það er algildur mælikvarði á aðstöðu verzlunarinnar á Íslandi í dag og á undanförnum árum, þá er hún ekki beysin. Það vil ég þó ekki skrifa alveg undir, að samvinnuverzlunin hafi setið alveg við sama borð og allir aðrir í þeim efnum, án þess að ég fari lengra út í það að svo stöddu. Látum það nægja um þetta.

Hv. 12. þm. Reykv. taldi, að ég hefði svarað fyrirspurn eða ábendingu frá sér alveg út í hött. Það stæði allt óhaggað, sem hann hefði sagt, jafnt fyrir því, hvort ég hefði nokkuð tekið til máls eða ekki. Það verður náttúrlega hvor okkar að hafa sína skoðun á því, hvort þau atriði, sem ég minntist á, mundu nokkru breyta fyrir atvinnuvegina eða ekki. Ég hef þá skoðun, að þessi atriði, sem ég nefndi, og fleiri slík skipti máli. Ég viðurkenni, að ekkert eitt þeirra er nein patent-lausn á þessum vanda. Ég hef hana ekki. En ég leyfi mér og mun halda áfram að leyfa mér að benda á mörg atriði, sem ég tel, að mundu gera rekstur fyrirtækjanna hagkvæmari, ef framkvæmd yrðu, bæði þau atriði, sem ég mundi eftir að nefna í dag, og þau, sem ég síðar kann að minnast við nánari athugun.

Hv. þm. sagði, að það væri ekki hægt að lagfæra gengisstöðuna með innflutningshöftum. Ég reyndi að gera grein fyrir því í dag, að margs konar sparnað á gjaldeyri væri hægt að framkvæma með framleiðslu innlends varnings, og það mun ég standa við. Hv. þm. vildi þá segja, að því meira sem væri framleitt af varningi til innanlandsneyzlu hér, þeim mun minna yrði til að flytja út. Þetta samþykki ég ekki. Ég held, að það sé alveg óhætt að slá því föstu, að margt af því fólki, sem t. d. hér í Reykjavík hafði atvinnu við iðnað, ýmsan léttan iðnað, hafi ekki farið út á sjó til að draga fisk, það hafi ekki farið upp í sveit til að framleiða dilkakjöt til útflutnings eða yfirleitt horfið að öðrum störfum. Margt af þessu fólki er fólk, sem ekkert annað eða mjög lítið annað getur gert og alls ekki unnið að þessum framleiðslugreinum, sem hv. þm. var að gera að umtalsefni sem útflutningsvarningi, kvenfólk, sem vinnur hluta úr dögum, fatlaðir eða menn, sem ekki eru fyllilega heilir heilsu, en geta þó unnið við léttan iðnað, og það er einmitt þetta fólk, sem hvað harðast hefur orðið fyrir barðinu á því, hvernig iðnaðurinn hefur grotnað niður hér á undanförnum árum. Þetta tel ég, að sé hreint þjóðfélagstap að nýta ekki þennan vinnukraft fyrir utan þá fáránlegu vitleysu, ef ég má nota svo stórt orð, að láta iðnaðinn ganga í rykkjum, eins og hér hefur sífellt verið gert, ekki bara undir núv. hv. stjórnarherrum, heldur raunar alla tíð. Það hefur allt of mikið verið gert af því, að það hefur gosið upp iðnaður á einum stað og þá yfirleitt margir í sömu grein, alveg eins og hv. þm. Sverrir Júlíusson var að lýsa með nærfataverksmiðjurnar í dag. Svo fer allt á hausinn, og það vil ég kenna skipulagsleysinu. Ég vil minna hv. 10. landsk. þm. á það, að framsóknarmenn áttu engan fulltrúa í nýsköpunarstjórninni. Og mikið af þessum vörum og tækjum, sem þannig er ástatt með, eins og hv. þm. var að lýsa, var einmitt flutt inn þá.

Herra forseti, ég skal verða við þeim tilmælum að stytta mál mitt og láta þessu spjalli lokið. Ég tel, að þessar umræður hafi orðið að ýmsu leyti til gagns. Þó þykir mér náttúrlega nokkuð á skorta, að fundarboðendur skuli ekki sýna sig við umræðurnar.