25.02.1969
Sameinað þing: 32. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

Efnahagsmál

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal nú gleðja hv. viðstadda alþm. með því, að ég mun ekki lesa allar þessar bækur, sem ég hef með mér, en ástæðan til þess, að ég fór að biðja um orðið, er atriði, sem fram kom í ræðu hv. 5. þm. Vesturl. í dag, og þess vegna ætla ég að grípa til þessara bóka. En áður en ég vík að því, þá vil ég aðeins víkja lítils háttar að ræðu hv. 4. þm. Vestf„ Matthíasar Bjarnasonar. Hann talaði um þátttöku þm. í þingfundum og fór að vitna í það, hvað margir prósentvís væru hér viðstaddir. Ég veit ekki, hvort þeir sjálfstæðismenn hafa frekar efni á því en við hinir að gera upp í prósentvís þátttöku þm. í þingfundum. Ég held, að það muni ekkert hallast á okkur þar. Og hann t. d. gleymdi alveg að geta eins flokksins, Alþfl., en hann hefði mátt reikna með hans prósentu um þátttöku í þessum fundi, þar er hæstv. forseti einn mættur. Ég minnist þess, að í gær, er hæstv. utanrrh. var að flytja sína skýrslu um utanríkismálin, sem er þó ein hin bezta, sem flutt hefur verið hér á hv. Alþ. af skýrslum ríkisstj., þá sáust varla sjálfstæðismenn í þingsalnum. En sleppum því, við erum nú víst allir breyzkir í því, að menn geta ekki mætt á þingfundum sem skyldi.

En út af því sem hv. 4. þm. Vestf. sagði um ríkisútgjöld og till. okkar framsóknarmanna þar um, þá vildi ég benda þessum hv. þm. á það, að ef hann færi og kynnti sér þingsöguna, þá hygg ég, að það séu fá dæmi um stjórnarandstöðu, sem hefur flutt jafnlítið af brtt. við afgreiðslu fjárl. eins og Framsfl. hefur gert. Við höfum þing eftir þing flutt eina till. við afgreiðslu fjárl. til útgjalda, það var að reyna að halda uppi heiðri hæstv. samgmrh., af því að hans eigin samherjar höfðu þvingað hann til að láta af því, sem hann sjálfur hafði heitið.

Ég vil líka segja þessum hv. þm. það, að margt af því, sem við höfum talið, að þyrfti að framkvæma og ætti að vera fjárveiting til, hefur verið framkvæmt, en það hefur verið með lánum, sem framtíðin verður að greiða.

Þess vegna hefur það ekki orðið til þess að hafa áhrif á það að draga úr vinnuaflsskorti í landinu, nema síður sé, því að það hefur mjög mikið verið framkvæmt fyrir lánsfé á þessum árum. Ég vil líka segja það í sambandi við það, sem hv. þm. sagði, að svo hefði nú vinnuaflið verið notað síðustu árin, að ekki hefði verið hægt að halda uppi iðnaðinum í landinu.

En svo vék hann að stóriðjunni, og vinnuaflið var þar til. Það, sem um var deilt í sambandi við álverksmiðjuna, var ekki það, að hér ætti að vera stóriðja á Íslandi, því að enginn flokkur á þar betri sögu en Framsfl. með Áburðar- og Sementsverksmiðju. Það er stóriðja, sem var komið á á hans valdadögum. Það var deilt um samninginn, því að okkar stefna er þannig, að við viljum ekki leyfa erlent fjármagn til þátttöku í íslenzkum atvinnurekstri, nema samningur sé gerður um það, sérstakur samningur í það og það skiptið, og það var deilan um samninginn um álverksmiðjuna, sem stóð hér, en ekki um málið að öðru leyti. Það er líka algjörlega rangt, sem þeir sjálfstæðismenn og stjórnarsinnar hafa viljað halda fram, að við höfum verið andstæðingar Búrfellsvirkjunarinnar. Farið þið í þingtíðindin, og fylgizt þið með atkvæðagreiðslunni, þá áttið þið ykkur á því.

Ég vil aðeins segja þetta, en annars ætla ég nú ekki að segja fleira um ræðu þessa hv. þm. og get tekið undir það, að margt var í henni skynsamlegt og á annan veg en við erum vanir að heyra hér. T. d. var hún á allt annan veg en hjá hv. 12. þm. Reykv. Mér datt í hug, þegar þessi hv. þm., sem ég hef hinar mestu mætur á, var að tala, þá datt mér í hug sagan af mönnunum, sem villast. Það er meginregla hjá þeim, sem villast í byl eða myrkri, að þeir lenda alltaf á sama punktinum aftur. Þó að þeir viti það, að þeir eru staddir á þessum stað og telji sig alveg vera örugga með áttina, þá er það meginregla, að þeir koma eftir nokkra gönguferð að punktinum aftur. Og meginefni í ræðu þessa hv. þm. var ekkert annað en það, að það, sem við höfum verið að gera s. l. tíu ár og erum að gera núna, það er það eina rétta og það er ekkert annað til. Mér dettur í hug í þessu sambandi, af því að hv. 12. þm. Reykv. er prófessor í hagfræði, þá dettur mér í hug saga, sem hæstv. viðskmrh. sagði á fundi menntaskólanema og kennaraskólanema vestur á Sögu um daginn. Hann sagði frá því, að af prófessor í hagfræði hafi það frétzt til rektors háskólans, að hann hafi sama prófið ár eftir ár, sama verkefnið nákvæmlega ár eftir ár. Rektorinn kallaði prófessorinn til sín og sagði: „Er það satt, að þér leggið sama prófverkefnið fyrir nemendurna ár eftir ár?“ „Já,“ sagði prófessorinn, „það er alveg rétt.“ „Áttið þér yður ekki á því, að nemendurnir vita svörin?“ „Nei,“ sagði prófessorinn, „í minni fræðigrein er ekki sama svarið við spurningunni í ár, sem það verður næsta ár.“ Hagfræðin er einmitt þannig, hv. 12. þm. Reykv., að það er ekki alltaf sama svarið.

Það er ekki hægt að aka með bundið stýri og bundið fyrir augu. Menn verða að átta sig á lífinu. Hagfræði er ekkert annað en lífið sjálft,og þeir, sem kunna að útfæra hagfræði, átta sig á því, að lífið er ekki ein stefna, heldur eitt í dag og annað á morgun. Og þess vegna var það t. d., þegar hv. 12. þm. Reykv. var að tala um, hvar hann ætlaði að fá fé, það var ekkert í því í hans augum, nema auknir skattar og tollar. En hv. samherjar, hæstv. fjmrh., sem hafa setið í ríkisstjórnum, sem hann hefur stutt nú s. l. 10 ár, álíta, það var a. m. k. innihaldið í þeirra ræðum hér ár eftir ár, að það mætti spara í ríkisrekstrinum. Þangað væri hægt að sækja fé til þess að leysa verkefnin. Það væri mögulegt, og þegar þeir tóku við af fyrrverandi ríkisstjórnum, og sérstaklega kenndu þeir það nú allt við Framsókn, þá voru þeir ekki í vafa um það, að það mætti mikið spara frá Framsóknardögunum og finna fé til þess að leysa verkefni. Nú var hv. 12. þm. Reykv. alveg sannfærður um, að það væri engin leið að finna þar nokkra peninga, nokkra fjármuni. Ég get hins vegar sagt hv. 12. þm. Reykv. það, og ég er sannfærður um það og því sannfærðari sem ég kynnist betur ríkisrekstrinum, og ég veit, að hv. þm. Pétur Sigurðsson mun verða mér sammála um það, þegar við verðum búnir að endurskoða ríkisreikninginn saman í nokkur ár, ef það verður, að það er hægt að spara í ríkisrekstrinum. Og það er ekki hægt að komast út úr ríkisfjármálunum nema með samdrætti í ríkiskerfinu þannig, að breyta verður kerfinu frá því, sem það er búið að vera í áratugi. Þetta er staðreynd.

Þá er nú víst rétt að koma að efni, sem ég ætlaði sérstaklega að ræða um. Hv. 5. þm. Vesturl. flutti í dag ræðuna, sem hann er að meginmáli til búinn að flytja í tvennum kosningum á Vesturlandi og ég hef hlustað á, á 23 fundum samtals. (Gripið fram í: Ertu ekki farinn að kunna hana?) Ég ætti að vera farinn að gera það, enda heyrði ég ekki nema lítið af henni í dag, en ég veit, hvað var á milli. Það er þetta, sem er að verða mjög áberandi í umr. hjá stjórnarsinnum núna, þessi undirvitund, að þeir vita það ósköp vel, að það er engin ánægja með þá, og þá segja þeir: „Þið verðið ekkert betri. Það er ekkert betra, þó að Framsókn komist til valda. Það verður svona álíka lélegt eins og hjá okkur.“ Og þegar hv. 5. þm. Vesturl. fer að vitna til þess arna, þá segir hann alltaf: „Þið vitið nú, hvernig Framsókn er. Hún vill þetta utan stjórnar, en þetta inni í stjórn. Og dæmið skal ég sanna ykkur, það er vantraustið og gengisbreytingin 1950. Framsókn lýsti vantrausti á flokksstjórn Sjálfstfl. 1950 fyrir frv. um gengisbreytinguna, en gekk svo inn í ríkisstjórn og samþykkti það.“ Og þetta var ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, og nú vil ég með leyfi hæstv. forseta leiða fram vitni í þessu máli.

Þegar vantraustið fór hér fram á hv. Alþ. 1950, þá vildi svo vel til, að hv. þm. Einar Olgeirsson, sem ég held, að hafi þá verið 2. þm. Reykv., flutti við atkvæðagreiðsluna eða áður en hún fór fram svo hljóðandi brtt. við vantrauststill., og ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa hana, en hún er svona: „Á eftir orðunum „núv. ríkisstj.““ - því að till. var bara vantraust Alþ. á núverandi ríkisstj. - „komi: sökum þess frv. til l. um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o. fl., sem nú hefur verið lagt fyrir Alþ., og þeirrar stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar, sem þar kemur fram.“ Þetta var till. hv. 2. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar. Og nú skulum við vita, hvernig atkvæðagreiðslan varð um þessa till. Og þá skulum við fá úr því skorið, hvort hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, er að fara með rétt mál eða ekki. Till. var á þskj. 362, brtt. var á þskj. 385. Till. var felld með 18 atkv. gegn 15 að viðhöfðu nafnakalli, og sögðu eftirtaldir já. Með leyfi hv. forseta ætla ég að lesa atkvæðagreiðsluna: Finnbogi R. Valdimarsson, Finnur Jónsson, Gylfi Þ. Gíslason, Guðmundur Í. Guðmundsson, Haraldur Guðmundsson, Jónas Árnason, Lúðvík Jósefsson, Sigurður Guðnason, Stefán Jóh. Stefánsson, Steingrímur Aðalsteinsson, Áki Jakobsson, Ásmundur Sigurðsson, Brynjólfur Bjarnason, Einar Olgeirsson og Emil Jónsson. En nei sögðu: Eysteinn Jónsson, Gísli Guðmundsson, Halldór Ásgrímsson, Helgi Jónasson, Hermann Jónasson, Jörundur Brynjólfsson, Karl Kristjánsson, Páll Zóphóníasson, Páll Þorsteinsson, Rannveig Þorsteinsdóttir, Skúli Guðmundsson, Vilhjálmur Hjálmarsson, Ásgeir Ásgeirsson, Ásgeir Bjarnason, Bernharð Stefánsson, Steingrímur Steinþórsson, Bjarni Ásgeirsson og Jón Gíslason. Þessir hv. þm., sem allir eru framsóknarmenn, greiddu atkvæði gegn þessu. Og í ræðu, sem Hermann Jónasson, þáverandi þm. Strandamanna, flutti við þessa atkvæðagreiðslu, kemur það fram, að í þingkosningunum haustið 1949 hafi þeir framsóknarmenn lýst því yfir, að það væru ekki til nema tvær leiðir í efnahagsmálum, annaðhvort að fella gengið eða reyna að færa allt niður. Það væri hins vegar krafa þeirra, að jafnhliða gengisbreytingunni yrðu gerðar þær hliðarráðstafanir, sem þeir þá lögðu til, að gerðar yrðu og svo hitt, að ríkisstj. sæti við völd, sem hefði vald til þess að koma gengisbreytingunni í gegn og öðrum efnahagsmálaráðstöfunum og að framkvæma hana. Og þess vegna væri vantraustið fram komið, að þetta væri ekki til staðar. Ríkisstj. hefði enga getu til þess að koma m. a. gengisbreytingunni í gegn, og það væri ábyrgðarleysi að leggja fram frv. til gengisbreytingar — um gengisbreytingu, án þess að það gæti náð fram að ganga eða því væri tryggt fylgi. Og það skorti þær hliðarráðstafanir, sem þeir vildu, að gerðar yrðu. Það er því algjörlega rangt með farið, að Framsfl. hafi fyrst lýst vantrausti á þá ríkisstj. vegna þessa frv., en síðan lýst yfir stuðningi við það og það hafi verið þarna um nokkra stefnubreytingu að ræða. Þetta var ástæðan til þess, að ég fór að biðja um orðið. Ég ætlaði mér ekki að taka þátt í þessum umr. En það er þörf á því, fullkomlega þörf á því, að vekja þetta upp og minna á þetta einmitt nú, þegar stjórnarsinnar eru farnir, ræðumaður eftir ræðumann, að halda því fram, að það verði engin breyting og stefnubreyting Framsóknar sé ekkert annað en að vilja komast í ríkisstjórn.

Ég ætla ekki að fara miklu lengra út í langar umr., það ætla ég mér ekki. Það er greinilegt í því, sem fram hefur komið í þessum umr., og er ekkert nýtt að heyra það, að gagnrýni okkar framsóknarmanna sé neikvæð og ósanngjörn og að við höfum ekkert til málanna að leggja til úrlausnar. Hv. 11. þm. Reykv. sýndi fram á það greinilega, og ég held, að ef hv. 12. þm. Reykv. hefði hlustað á ræðu formanns Framsfl. við umr. um gengisbreytinguna í haust, þá hefði hann líka áttað sig á þessu. Ef hann hefði lesið nál. okkar framsóknarmanna í fjvn., þá átti honum að verða það ljóst, að við höfðum till. í málinu fram að færa. En það, sem er haldið fram af hv. stjórnarsinnum, er eftirfarandi: Þið gleymið því alveg, að verðlagið hefur lækkað á útflutningsafurðum okkar, og þið gleymið því líka, að aflinn hefur minnkað. Þess vegna eruð þið ósanngjarnir, þegar þið reynið að kenna ríkisstj. um það, þó að ekki sé allt í lagi. Og þið verðið að gera ykkur grein fyrir því, að það verða verri kjör við þessar aðstæður en áður.

Við höfum haldið því fram, framsóknarmenn, að okkur sé það ljóst, að það verði verri kjör nú en í góðæri. En við höfum líka haldið því fram, að það séu takmörk fyrir því, hvað hægt sé að fara fram á mikla kjaraskerðingu, sem þegar er orðin æðimikil. Og ég undirstrika það, sem hv. 11. þm. Reykv. sagði hér áðan, að það er fleira, sem hefur áhrif á rekstur atvinnuveganna en kaupgjaldið eitt. Það ættu og það vita atvinnurekendur, þó að mest sé um hitt talað. Nú skal ég reyna að vera sanngjarn og taka tillit til þess arna. En þá vil ég fá skýringu hjá ykkur stjórnarsinnum. Við deilum ekki um það, að árferðið 1964 var gott, en hvers vegna þurfti þó ríkisstj. þá að veita aðalatvinnuvegunum styrk til þess að þeir gætu starfað? Þá voru góð aflabrögð og gott verðlag. Þá voru viðskiptakjörin betri en þau höfðu nokkurn tíma áður verið. Og ég bið ykkur líka að skýra það fyrir okkur, hvernig stóð á því, að þið urðuð með ríkisstyrkjum, beinum framlögum úr ríkissjóði, að styðja atvinnuvegina 1965 í bezta árferði, sem nokkurn tíma hefur gengið yfir atvinnuvegina á Íslandi? Var þar um að kenna slæmu árferði, slæmum aflabrögðum, lélegu verði? Viðskiptakjör voru miklu betri en nokkru sinni fyrr, og ég bið ykkur að skýra það fyrir okkur, hvernig stóð á því, að þið urðuð árið 1966 að gera hverja ráðstöfunina á fætur annarri vegna atvinnuveganna og fóruð um haustið 1966 út í stórfelldari niðurgreiðslur en nokkru sinni fyrr. Þá hélduð þið því fram, að það yrði að auka svo niðurgreiðslurnar, vegna þess að fólkið í landinu þyldi ekki álagið annars. Það voru þó ólíkt betri kjör en þau eru nú. Árið 1965 voru viðskiptakjörin 131 miðað við 100 og 1960 og 1954 einnig. Þetta eru þau beztu ár, sem nokkurn tíma hafa komið yfir Ísland, beztu ár afla og verðlags, og viðskiptakjörin þau albeztu, sem nokkur þekkir. Samt urðuð þið að gera hverja ráðstöfunina á fætur annarri vegna atvinnuveganna, þó að enginn megi efast um, að stjórnarstefnan hafi verið rétt. Og hvernig hélt það áfram 1967, enda þótt á því ári væri varið á áttunda hundráð millj. kr. af ríkisfé til niðurgreiðslna? Þá urðuð þið að gera gengisfall um haustið til þess að bjarga atvinnuvegunum. Og hverju hélduð þið sjálfir fram, stjórnarsinnar, um þá gengisbreytingu? Þið hélduð því fram, bæði Alþfl. og Sjálfstfl., að það mundi færast nýtt líf og nýtt fjör í atvinnuvegina og það mundi tryggja atvinnu og afkomu þjóðarinnar, gengisbreytingin haustið 1967. Þrátt fyrir þetta urðuð þið að vera með mánaðarfyrirgreiðslur fyrir atvinnuvegina allt árið 1968 og gera stórfelldari gengisbreytingu um haustið en áður hafði þekkzt. Þetta er æskilegt, að þið skýrið fyrir okkur, áður en þið farið að krefjast þess af okkur, að við teljum, að stefnan sé sú eina rétta. Og hvernig stendur á því, ég óska skýringar á því líka, áður en þið bregðið okkur um ósanngirni, hvernig stendur á því, að á þessu tímabili eru búnar að verða milljarða tekjur hjá ríkissjóði umfram fjárlög? Þrátt fyrir það eru nú hærri skuldir, eins og ég drap á áðan, hjá framkvæmdaliðum eins og vegum, höfnum, skólum, rafmagni o. fl. en nokkru sinni fyrr. Þessar skuldir voru óþekktar, t. d. í vegunum, þegar núverandi valdhafar komust til valda, en eru nú um 500 millj. Og hvernig skýrið þið það, að þrátt fyrir meiri gjaldeyristekjur en nokkru sinni fyrr, stendur þjóðin ver út á við en nokkru sinni fyrr? Heildarskuldir og skuldir á hvern einstakling í landinu eru hærri en áður hefur þekkzt. Er ekki ástæða til, að þeir, sem hafa aðra lífsskoðun en þið, dragi í efa, að þessi stefna, sem þið hafið fylgt með litlum árangri, sé sú eina rétta? Og ykkur til bjargræðis hafið þið nú á einu ári hækkað verð á erlendum gjaldeyri yfir 100% og hafið orðið að taka önnur eins áföll á þjóðfélagið eins og þær hækkanir, sem urðu á erlendum skuldum við þessa breytingu. Það er nú svo, að af skipalánunum einum nemur hækkunin við gengisbreytingarnar 1967 og 1968 verðlagi á um 25 150 tonna skipum, eins og samið var um þau í skipasmiðjunni í Garðahreppi haustið 1967 fyrir gengisbreytinguna. Og svo kemur ofan á allt þetta, að atvinnuvegirnir eru á heljarþröminni, og enn þá er verið að setja stoðir við þennan og hinn atvinnureksturinn til þess að halda honum réttum.

Atvinnuleysi er nú meira en nokkru sinni fyrr, og ríkisstj. frelsisins, hins frjálsa framtaks, ríkisstj., sem hefur í málgögnum sínum, í ræðu og riti lýst því yfir, að bezta vörnin í atvinnumálum þjóðarinnar væri dugnaður einstaklinganna og hið frjálsa framtak, hún situr nú undir forsæti forsrh. með nefndir til þess að reyna með ríkisaðstoð að koma atvinnuvegunum nokkuð á leið. Mér hefur fundizt, að til þess að allt væri fullkomnað, þá ætti ríkisstj., þegar hún er að láta birta myndir af sjálfri sér og nefndum sínum, að setja yfirskriftina: Lengi lifi hið frjálsa framtak.

Þegar við lítum á þetta, ástandið í þjóðmálunum nú og þá möguleika, sem hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmenn hafa haft á s. l. 10 árum með það í huga, að ríkisstj. hefur haft ráð um eða verið þátttakandi í öllum kjarasamningum síðan 1964 og síðar — hún hefur ráðið meira um niðurstöðuna en flestir aðrir — þá er ástæða til, að við stjórnarandstæðingar spyrjum: Hvernig væri ástandið í þjóðfélaginu, ef illa hefði verið stjórnað? — ef við eigum að trúa því, að núverandi ríkisstj. hafi stjórnað vel.