19.12.1968
Efri deild: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

98. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins

Frsm, minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ummælum hv. 3. landsk. þm., sem mér finnst ekki vera beint ástæða til að deila neitt við, en hins vegar finnst mér breyt. á þeim hv. þm. frá því hann fyrst fór að ræða landbúnaðarmál í Alþ. vera mikil og það til bóta. Ég vil líka þakka honum það, að hann reyndist mikið betur en margir bjuggust við í þeim verðlagsúrskurði, sem felldur var á s.l. hausti um búvöruverð til bænda. Ég held því, að hugur hans til landbúnaðarins standi mikið betur en maður bjóst við í fyrstu og hann kannske vill vera láta í dag. En hvað um það, hann þarf nú, enn sem fyrr, að halda sig ofurlítið við sama heygarðshornið meðan eitthvað er eftir á stabbanum og var hann að reyna að bera í bætifláka fyrir það, að við úrtakið, sem Hagstofa Íslands hafði gert á tekjum bænda fyrir árið 1967, væri ýmislegt að athuga. Það má vel vera. Sjálfsagt má leggja þessi mál fyrir á ýmsa vegu. En ég held þó, að þar sé ekki um svo mikinn mismun að ræða, hvort inn í þær tekjur bænda væru teknar 10 eða 20 þús. kr., þegar þeir áttu að hafa um 200 þús. kr. í tekjur, samkv. því verðlagi, sem var á búvörunum, en fengu aðeins 92 eða 93 þús., þannig að ef það hefði verið tekið með í reikninginn, þá hefði það aldrei komizt hærra en í 110 þús. kr., það er algjört hámark. Þarna vantar því allmarga tugi króna á það, að bændur fengju það verðlag, sem þeim bar. Svo er það annað, sem hv. þm. minntist á, er hann gat þess, að ef það hefði orðið verðhækkun erlendis á íslenzkum landbúnaðarvörum, þá ætti það vitanlega að koma beint inn í verðlagið til bænda. Hann sagði, að sér hefði eiginlega fundizt, að það væri óþarfi að vera að gera ráð fyrir, hvernig gengishagnaði væri varið, því að hann ætti að koma fram á svipaðan hátt. Í þessu er ég honum sammála, og í raun og veru fjallar þetta frv. og okkar brtt. þremenninganna alveg um það, að gengishagnaðurinn, sem kann að verða af útfluttum landbúnaðarvörum, komi inn í verðlagið og verði til þess að tryggja bændum grundvallarverð, svo þeir komist í það minnsta nær því en þeir mundu annars komast.

Þá minntist hv. þm. á það, að það kæmi ekki fram í brtt. okkar eða nál., við hvort árið við ættum, þegar brúa ætti bilið í verðlagsmálum, hvort það væri 1967–68 eða 1968–69. Frá mínum sjónarhóli skiptir þetta kannske ekki höfuðmáli, en það, sem vitað er í dag er, að bændur vantar um 130 millj. kr. á það, að verðlagsárið 1967–68 skili sér, það er vitað mál. Og það hefur verið hald manna til þessa, að því er varðar verðlagsárið 1968–69, að það muni vanta allmiklu hærri upphæð á það, að landbúnaðarframleiðslan skili því verðmæti til bænda, sem verðlagsúrskurður hv. landsk. þm. gerði ráð fyrir. Þannig að ég hygg, að þó að allur gengishagnaðurinn verái notaður til að brúa verðlagið á yfirstandandi ári og hinu sleppt, þá komi til með að vanta nokkuð á, að bændur beri úr býtum það, sem úrskurður yfirn. gerði ráð fyrir á s.l. hausti. Því miður standa dæmin svona, en ég er hv. þm. sammála um það, að það ber að greiða úr því misræmi, sem skapast, þegar um er að ræða lán, eins og hjá stofnlánadeildinni, með gengisáhættu. Ég er honum þakklátur fyrir það, ef hugur hans stendur til þess að sýna lit á því, að slíkum mismun verði komið yfir á breiðara bak, og skal ég styðja hann í því að flytja till. hér á þingi um að svo verði gert, en ég hygg, að það verði ekki hægt að taka neina fjármuni af gengishagnaði í því skyni, þótt æskilegt hefði verið.