24.02.1969
Sameinað þing: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2083 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

Utanríkismál

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu þá, sem hann flutti um utanríkismál. Eins og hann vék sjálfur að í upphafi ræðu sinnar, hefur hann hafið nýja starfshætti, eftir að hann tók við embætti utanrrh., og hætt þeirri einangrunarstefnu, sem tíðkaðist í tíð fyrirrennara hans. Hæstv. utanrrh. hefur látið utanrmn. hefja störf á nýjan leik, og þessar skýrslugjafir eru liður í sams konar vinnubrögðum, og þetta er ástæða til þess að þakka og meta.

Skýrslur eru mjög á dagskrá þessa dagana og hnappast mjög mikið saman. Ég held, að það sé nokkurt álitamál fyrir okkur alþm., hvernig haga eigi slíkum skýrslugjöfum framvegis, og væri tímabært að reyna að koma sér niður á vinnubrögð í því efni og setja jafnvel um það fastar reglur í þingsköp. Ég tel t. d., að það gæti verið mjög skynsamlegur aðdragandi að alm. umr. um einhvern málaflokk, að útbýtt yrði skriflegri skýrslu, en að ráðherrar létu sér nægja að flytja almennar stefnuræður á grundvelli slíkra skriflegra skýrslna. Þetta mundi stytta umræður mikið og auk þess auðvelda þm. að taka málefnalegan þátt í umr. Það getur verið erfitt að hlusta á ræðu, sem víkur að fjölmörgum einstökum atriðum, og eiga svo að gera við hana athugasemdir strax á eftir. Mér fannst ýmis atriði í skýrslu hæstv. utanrrh. þess eðlis, að þau hefðu betur farið í skriflegri skýrslu, sem þm. hefðu átt kost á að athuga, áður en alm. umr. hæfist. Þetta held ég, að sé til ath. fyrir þm., þegar slíkum skýrslum fjölgar svo mjög, sem nú er raun á orðin.

Hæstv. utanrrh. vék að mjög mörgum atriðum í skýrslu sinni, og hún var á sumum sviðum eins konar starfsskýrsla ráðuneytisins. Þar væri hægt að víkja að fjölmörgum atriðum, en það mundi raunar taka allt of langan tíma, ef maður vildi lýsa öðrum skoðunum en fram komu hjá hæstv. ráðh. um þessi fjölmörgu atriði eða leggja þar orð í belg til viðbótar því, sem hann sagði.

Af almennum atriðum hafði ég hug á því að víkja hér að tveimur málefnum. Í sambandi við skýrsluna um störfin á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna vék hæstv. ráðh. að afstöðu íslenzku sendinefndarinnar til aðildar Kína, og ummæli hæstv. ráðh. voru dálítið einkennileg. Hann talaði þar annars vegar um alþýðulýðveldið Kína og hins vegar um lýðveldið Kína, en svo nefndi hann eyjuna Taiwan og lýsti því, að það væri afstaða ríkisstj., að þessir tveir aðilar ættu að eiga aðild að Sameinuðu þjóðunum. Málið ber engan veginn þannig að. Það er alkunn staðreynd, að Kínaveldi er eitt af stofnríkjum Sameinuðu þjóðanna og á sæti í öryggisráði, samkvæmt stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Um þetta er enginn ágreiningur. Ágreiningurinn er um hitt, hver á að fara með aðild Kínaveldis. Á það að vera ríkisstj. í Peking, sem ræður ómótmælanlega yfir öllum meginþorra Kínaveldis, eða eiga það að vera valdamenn á eyjunni Taiwan, sem eru einangraðir úti í hafsauga? Um þetta hefur verið deilt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, og sendinefnd Íslands hefur tekið þá einkennilegu afstöðu að snúast gegn því, að ríkisstj. í Peking fari með aðild Kína. Hin spurningin, hvort rétt væri, að eyjan Taiwan fengi sjálfstæðan fulltrúa á þingi Sameinuðu þjóðanna er allt annað mál. Ég veit ekki til þess, að ráðamenn á eyjunni Taiwan hafi haft nokkurn hug á því að stofna sjálfstætt ríki. Þvert á móti hygg ég, að þeir vilji reyna að líta svo á, að þeir séu hinir raunverulegu ráðamenn Kínaveldis alls, og á þeim forsendum vilja þeir vera innan Sameinuðu þjóðanna. Ef hins vegar upp kæmi það viðhorf, að stofnað yrði sérstakt ríki á Taiwan og það sækti um inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar, er að sjálfsögðu tímabært fyrir Íslendinga að taka afstöðu til slíkrar umsóknar, en meðan slíkt hefur ekki gerzt, er það út í hött að vera að ræða um það atriði.

Annar þáttur almenns eðlis, sem hæstv. utanrrh. vék að, var innrásin í Tékkóslóvakíu. Hæstv. ráðh. sagði nokkrum sinnum í ræðu sinni, að innrásin í Tékkóslóvakíu væri til marks um það, hver hætta stafaði af Varsjárbandalaginu, og að nauðsyn væri á því að efla NATO. Þetta viðhorf sér maður víða í áróðursmálgögnum, en ég hef ekki orðið var við það, að ábyrgir stjórnmálamenn, t. d. í Vestur-Evrópu, hafi metið málin á þennan hátt. Nýlega las ég t. d. grein, sem flokksbróðir hæstv. utanrrh., Jens Otto Krag, aðalleiðtogi danskra jafnaðarmanna, skrifaði um innrásina í Tékkóslóvakíu. Hann fór að vonum mjög hörðum orðum um þá innrás, en ályktunarorð hans voru engu að síður þau, að því færi fjarri, að þessi atburður hefði nokkuð raskað valdahlutföllum í Evrópu og það væri háskalegast af öllu, ef þessi hörmulegi atburður yrði notaður til þess að reyna að magna kalda stríðíð á nýjan leik. Enda held ég, að það liggi í augum uppi, ef menn hugsa á rökréttan hátt, að það var ekki til marks um styrkleika Varsjárbandalagsins, að hersveitir þess bandalags skyldu þurfa að beita sér gegn einu aðildarríki bandalagsins. Þetta sýnir veikleika bandalagsins, en ekki styrkleika þess. Bandalagið er að sjálfsögðu veikara en það var fyrir, og staðreyndin er sú nú, að Sovétríkin eru með mikinn her í Tékkóslóvakíu til þess að ráða þar þeim málum, sem þau telja sig þurfa að ráða, og sú staðreynd hefur bundið heri Varsjárbandalagsins umfram það, sem áður var. Almennar tilfinningaröksemdir eins og þær, að þetta sýni aukinn mátt Varsjárbandalagsins, held ég, að séu algerlega út í hött.

En það, sem mestu máli skiptir í umr. eins og þessum, og það, sem umfram allt þarf að ræða, að minni hyggju, eru þau vandamál, sem snerta okkur Íslendinga sérstaklega, og þar á ég fyrst og fremst við aðildina að Atlantshafsbandalaginu og hernámið. Á þessu ári gerast, sem kunnugt er, þau tíðindi, að hvert aðildarríki Atlantshafsbandalagsins getur sagt sig úr bandalaginu, í fyrsta skipti í 20 ár. Og snemma á þessu þ. flutti ég ásamt hv. 5. þm. Reykn. till. um, að við tækjum upp ákveðin vinnubrögð til að geta fjallað um þetta mál á raunsæjan og málefnalegan hátt. Till. okkar var svohljóðandi með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela utanrmn. að semja rækilega greinargerð um afstöðu Íslands til Atlantshafsbandalagsins í tilefni þess, að 1969 getur hvert aðildarríki bandalagsins sagt sig úr því með eins árs fyrirvara. Í grg. skal rætt um þau vandamál, sem tengd eru aðild Íslands að bandalagi þessu, um breytingar á alþjóðamálum á þeim 20 árum, sem bandalagið hefur starfað, og viðhorfin nú. Enn fremur verði þar raktar hugmyndirnar um öryggisbandalag Evrópu, sem leysi Atlantshafsbandalagið og Varsjárbandalagið af hólmi. Grg. þessi skal lögð fyrir Alþ., er það hefur störf í ársbyrjun 1969. En að loknum umræðum um hana verði teknar ákvarðanir um afstöðu Íslands til Atlantshafsbandalagsins.“

Því miður fór svo, að þessi till. okkar komst ekki á dagskrá í Sþ. og voru horfur á því, að þ. færi í jólaleyfi, án þess að hún yrði rædd. Þá sýndu hæstv. forsetar Sþ. þá vinsemd að leyfa mér að mæla fyrir henni í nokkrar mínútur, og í þeirri ræðu lagði ég áherzlu á það að skora á hæstv. ríkisstj. og utanrmn. að viðhafa þessi vinnubrögð. Mér varð þó ekki að þessari ósk minni, heldur flutti hæstv. utanrrh. ræðu og hafnaði algerlega þeirri hugmynd, að utanrmn. tæki upp þingræðisleg vinnubrögð á þessu sviði. Ekki get ég sagt, að mér hafi komið viðbrögð hæstv. utanrrh. á óvart, en engu að síður eru þau furðuleg og ósæmileg og raunar einstæð meðal Atlantshafsbandalagsríkja, sem ég þekki til.

Starfsemi Atlantshafsbandalagsins og aðild ríkja að því er mjög stórfellt og örlagaríkt vandamál; það er tengt þróun alþjóðlegra stjórnmála og örlögum hvers lands um sig. Þegar hægt er að segja sig úr bandalaginu á þessu ári, hafa þau tímamót leitt til þess, að hvarvetna í aðildarríkjunum, nema á Íslandi, hefur verið og er unnið að því að meta aðstæður á nýjan leik, safna gögnum og röksemdum og ræða vandamálin. Það ríki, sem haft hefur forystu um þessa endurskoðun, er Frakkland, en það greip raunar til sinnar ráða þegar 1966 og sleit hernaðarsamvinnu við bandalagið og vísaði öllu bandarísku hernámsliði frá Frakklandi ásamt aðalstöðvum bandalagsins, og enn er öldungis óvíst, nema Frakkland segi sig endanlega úr bandalaginu á næstunni. Ég mun síðar í máli mínu víkja hér ögn nánar að þessari afstöðu Frakka. Stjórn Kanada hefur greint frá því nýlega, að hún vinni nú að því að endurskoða aðild sína að Atlantshafsbandalaginu og komi til álita að slíta allri hernaðarsamvinnu við bandalagið. Önnur ríki hafa unnið að því að safna sem ítarlegustum gögnum um þessi nýju viðhorf, til að mynda hefur utanríkisráðuneyti Dana nýlega gefið út mikið ritverk um Danmörku og Atlantshafsbandalagið, þrjú stór bindi. Ég veit, að það er til hér í utanrrn. Íslands. Hliðstæð rit hafa verið gefin út í öllum þingræðisríkjum innan bandalagsins, nema á Íslandi. Hvergi nema hér er nauðsynlegt, að þm. flytji till. um þingræðisleg og málefnaleg vinnubrögð á þessu sviði, og alls staðar nema hér er óhugsandi, að utanríkisráðh. neiti að verða við beiðni alþm. um málefnalega gagnaöflun og umr. og ákvarðanir á grundvelli þeirra.

Röksemdir þær, sem hæstv. ráðh. hafði uppi, er hann flutti ræðu sína skömmu fyrir jól, voru þær, að ástæðulaust væri að safna gögnum um Atlantshafsbandalagið og hafa málefnalegar umr. um það, vegna þess að allar staðreyndir væru kunnar og hefðu verið í 20 ár. Enn sætu hér á þ. 3 þeirra stjórnmálaleiðtoga, sem fóru til Bandaríkjanna til viðræðna um Atlantshafsbandalagið 1949, og þeir hefðu á sínum tíma gert fulla grein fyrir viðræðum sínum við bandarísk stjórnarvöld. Hæstv. ráðh. virtist þannig halda, að ekkert hefði breytzt í 20 ár. Það, sem hefði verið talið rétt og satt 1949, hlyti að vera satt og rétt 1969. Auk þess bætti hæstv. ráðh. við staðhæfingum, sem vel hefðu sómt sér í barnaskólastíl um afrek bandalagsins í þágu frelsis og lýðræðis, auk þess sem bandalag þetta hefði tryggt frið í 20 ár.

Ég ætla ekki, að þessu sinni, að hefja alm. umr. um 20 ára þróun í alþjóðamálum, en hitt vita allir, að Atlantshafsbandalagið er ekkert almennt lýðræðis- eða friðarfélag, heldur hagsmunasamtök auðugra Vesturlandaríkja, sem flest voru áður nýlenduveldi og reyndu að halda þeim yfirráðum sem lengst. Athafnir Atlantshafsbandalagsríkja hafa fyrst og fremst beinzt að þeim verkefnum, þótt andstaðan við Rússa væri höfð að yfirvarpi. Næstu 5 ár, eftir að Atlantshafsbandalagið var stofnað, háði Frakkland stórstyrjöld í Víetnam og reyndi að halda þar nýlendudrottnun sinni. Þegar Frakkar biðu ósigur í þeirri styrjöld, tók við önnur, ekki síður ömurleg, í Alsír. Sá hluti af herafla Atlantshafsbandalagsins, sem heyrði til Frökkum, var hagnýttur til þessara árásarstyrjalda, og hernaðaraðstoð Bandaríkjanna stóð undir tilkostnaðinum af þessum útrýmingarherferðum gegn fátækum þjóðum. Hæstv. utanrrh. hlýtur að reka minni til þess, að tvö Atlantshafsbandalagsríki, Bretland og Frakkland, hófu árásarstyrjöld á Egyptaland 1956, þótt minna yrði úr högginu en til var ætlazt. Hann hefur einnig setið á ráðherrafundum í námunda við utanrrh. Portúgals, en það Atlantshafsbandalagsríki heldur enn uppi illræmdustu nýlendukúgun, sem eftir er á hnettinum, og beitir til þess hersveitum, vopnum og fjármunum, sem markaðir eru Atlantshafsbandalaginu. Það stafar trúlega af því, að Portúgalar eru samherjar okkar og vinir, að fáar fregnir birtast hérlendis um tortímingarhernað Portúgala í nýlendum sínum, og hér leggur enginn til að safnað sé fé til þess að bjarga hungruðu og særðu fólki frá dauða á þeim landssvæðum. Ónefnt er þá sjálft forysturíki Atlantshafsbandalagsins, Bandaríkin. Þau hafa nú herafla sinn í meira en 3000 herstöðvum, hvarvetna á hnettinum, og beita honum til þess að ráða yfir hlut annarra þjóða, taka ákvarðanir um ríkisstjórnir og þá fyrst og fremst um verð á hráefnum, sem auðhringir ríkra þjóða þurfa að hagnýta. Þessi alþjóðlegi hernaður Bandaríkjanna hefur seinustu árin náð hámarki í styrjöldinni í Víetnam, einhverri ósæmilegustu tortímingarstyrjöld, sem mannkynssagan kann frá að greina. Í þeirri styrjöld eru notaðir hermenn Atlantshafsbandalagsins; frá því hefur meira að segja verið greint í fréttum, að bandarískir hermenn, sem dveljast á Íslandi, fái hér sérstaka þjálfun, áður en þeir eru sendir til hernaðaraðgerða í Víetnam.

Menn geta haft mismunandi skoðanir á þessari hernaðarsögu Atlantshafsbandalagsríkja gegn fátækum þjóðum, en þeim, sem telja þessa stefnu rétta eða óhjákvæmilega, ber þá að gera málefnalega grein fyrir því mati, í stað þess að tala eins og börn um friðarsamtök. Og áður en hæstv. ráðh. tekur sér aftur lýðræði í munn í sambandi við Atlantshafsbandalagið, ætti hann að ræða örlítið um Grikkland, þar sem hershöfðingjaklíka náði völdum með aðstoð bandarísku leyniþjónustunnar og nýtur nú alveg sérstakrar vinsemdar hjá herstjórn Atlantshafsbandalagsins. Hann ætti að ræða um bandamenn sína í Portúgal og í Tyrklandi eða um Spán, sem er að vísu ekki formlegur aðili að bandalaginu, en leggur þó Bandaríkjunum til land undir miklar herstöðvar, sem eru hluti af kerfi bandalagsins.

Í ræðu sinni fyrir jól vitnaði hæstv. utanrrh. sérstaklega til orða og athafna stjórnmálaleiðtoga 1949, þegar hann var að rökstyðja þá skoðun sína, að óþarft væri að framkvæma nokkra sjálfstæða könnun nú. Hins vegar lýsti hæstv. ráðh. því yfir í dag, að á þessu tímabili hefðu orðið mjög verulegar breytingar á hernaðartækni og sú hernaðartækni hefði leitt til breyttra viðhorfa. Einmitt þessar breytingar eru atriði, sem okkur ber að kanna alveg sérstaklega og gera okkur grein fyrir því, hvaða áhrif þessar breytingar hafa haft á aðstöðu okkar. Þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað 1949, höfðu Bandaríkin einokun á kjarnorkuvopnum, og það gereyðingarvopn var talið hornsteinn bandalagsins; með því að hampa kjarnorkuvopnum var talið, að bandalagið gæti komið vilja sínum fram. Þessi aðstaða breyttist, þegar Sovétríkjunum tókst að framleiða kjarnorkusprengjur. Því næst urðu stórveldin tvö svo til jafnfljót að framleiða vetnissprengjur, sem hafa þann tortímingarmátt, að kjarnorkustyrjöld mundi hafa í för með sér gereyðingu heimsbyggðarinnar. Einnig urðu stórveldin næstum því jafnfljót að framleiða litlar kjarnorkuhleðslur, sem unnt er að nota á vígvöllum í svokölluðum takmörkuðum styrjöldum.

Næsta gerbreyting varð, þegar Sovétríkin sendu á loft fyrsta gervitungl sitt. Þá kom í ljós, að þau höfðu tryggt sér mikla yfirburði í eldflaugasmíði og að meginland Ameríku var nú ekki lengur óhult, ef til styrjaldar kæmi, en það er að sjálfsögðu mjög örlagarík staðreynd á sviði alþjóðamála. Bandaríkin hófu síðan sókn á þessu sviði, náðu Sovétríkjunum í eldflaugagerð og komust fram úr þeim. Þessu næst gerðist það, að stórveldunum báðum tókst að koma alllangdrægum eldflaugum fyrir í kafbátum, en sú aðgerð gerir það óframkvæmanlegt að koma í veg fyrir kjarnorkuárás með því að eyðileggja kjarnorkusprengjurnar, áður en þær eru sendar af stað. Árásarstöðvarnar eru nú dreifðar um hnöttinn allan, og þær eru aldrei á sama stað stundinni lengur. Í þessu sambandi er einnig vert að minna á, að Bretland, Frakkland og Kína hafa nú hafið framleiðslu kjarnorkuvopna og eldflauga, en tugir annarra ríkja hafa fjárhagslegt og tæknilegt bolmagn til að leggja inn á sömu braut.

Þessar staðreyndir hafa haft ákaflega djúpstæð áhrif á þróun alþjóðamála síðustu tvo áratugi, og okkur ber að vega þær og meta í stað þess að ástunda almennt orðagjálfur um frið og lýðræði. Breytingarnar á hernaðartækni og þar með á valdi hafa einnig gerbreytt alþjóðlegum stjórnmálum á þessu tímabili. Í upphafi Atlantshafsbandalagsins stóðu stórveldin andspænis hvort öðru sem algerir andstæðingar og því næst hernaðarsamtök þau, sem stórveldin stofnuðu hvort fyrir sig. Þau viðhorf hafa verið að breytast æ meira að undanförnu, eftir að leiðtogum stórveldanna varð ljóst, að allsherjar styrjaldarátök þeirra í milli mundu færa hvorugum sigur, aðeins leiða til allsherjar tortímingar. Svokölluð friðsamleg sambúð hefur tekið að þróast leynt og ljóst, en grundvöllur hennar er skipting heimsins í áhrifasvæði. Stórveldin stefna sameiginlega að því að verða eins konar alþjóðalögregla, ráða hvort fyrir sínum heimshluta, og þau beita sér sameiginlega gegn því, að fleiri ríki nái því valdi á kjarnorkuvopnum, að þau geti orðið hlutgeng í samskiptum við risana. Það er þessi valdstefna, sem leitt hefur til vaxandi óróleika innan áhrifasvæða beggja stórveldanna á undanförnum árum, vaxandi klofnings jafnt austan tjalds sem vestan. Ríki og þjóðir eiga að vonum erfitt með að sætta sig við það framtíðarhlutskipti að verða að lúta boðum og bönnum hinna kjarnorkuvæddu þursa.

Skiptingin í áhrifasvæði milli stórveldanna er mislangt komin í heiminum. Í Evrópu er hún næsta skýr og grundvöllur hennar það samkomulag um áhrifasvæði, sem bandamenn gerðu í lok heimsstyrjaldarinnar og Winston Churchill hefur skýrt frá í endurminningum sínum. Eina vandamálið af þessu tagi, sem er óútkljáð í Evrópu, er framtíð Berlínar. En að öðru leyti er það algerlega ljóst, að í Evrópu hafa verið dregin mörk, sem stórveldin hreyfa sig ekki út fyrir, þótt þau virðist telja sér heimilt að gera hvað sem þeim sýnist innan markanna. Það eru þessar aðstæður, sem valda því endurmati, sem nú er verið að framkvæma víða um lönd, og til glöggvunar á þeim viðhorfum er fróðlegt að fara nokkrum orðum um stefnu þess ríkis, sem lengst hefur gengið í endurskoðunarstefnu sinni innan Atlantshafsbandalagsins. Hæstv. utanrrh. vék nokkrum orðum að þessu áðan í ræðu sinni og talaði heldur kuldalega um þessa stefnu Frakka, sagði, að þeir vildu vera með fingurinn á kjarnorkugikknum. En ástæðurnar fyrir því, að Frakkar slitu hernaðarsamvinnu við bandalagið og íhuga að segja sig úr því í náinni framtíð, eru fjórar.

Í fyrsta lagi telja Frakkar, að Atlantshafsbandalagið sé í verki tæki Bandaríkjanna til þess að halda yfirdrottnun í Vestur-Evrópu. Ef það ástand sé látið haldast of lengi, missi Vestur-Evrópuríki sjálfstæði sitt í vaxandi mæli og verði að lúta boðum og bönnum Bandaríkjanna og hins sameiginlega hernaðarkerfis. Þessi þróun sé ekki sæmandi fyrir sjálfstæð ríki. Frakkland og raunar Evrópa verði að gerast sjálfstæðir aðilar í heimsmálum og megi ekki sætta sig við að vera peð í tafli annarra.

Í öðru lagi telja Frakkar, að öryggi það, sem Atlantshafsbandalagið átti að veita í upphafi, standi ekki lengur til boða: Á því sviði hafi orðið alger umskipti, þegar breytt hernaðartækni gerði Bandaríkin sjálf að hugsanlegu skotmarki í kjarnorkustyrjöld. Eftir það verður að teljast hæpið og nánast óhugsandi, að Bandaríkin hætti sjálfri tilveru sinni til stuðnings bandamanni í Evrópu. Í þessu sambandi vísa Frakkar á það nýja hernaðarkerfi, sem komið var upp innan Atlantshafsbandalagsins og kennt er við Mc'Namara, en það er í því fólgið, að nú eiga hefðbundnir herir að taka að sér það hlutverk, sem kjarnorkusprengjunum var áður ætlað. Frakkar segja, að ef til stórátaka kæmi í Evrópu með aðild risaveldanna, mundu þau hugsanlega varpa kjarnorkusprengjum á þá staði, sem tekizt væri á um, en um það væri þegjandi samkomulag, að þau hlífðu hvort öðru við kjarnorkuárásum til þess að komast hjá sjálfsmorði. Þannig séu Evrópuríkin orðin þolendur en ekki gerendur; aðild að bandalögum risaveldanna auki ekki öryggi þeirra, heldur magni hættuna.

Í þriðja lagi segja Frakkar, að tengslin við Bandaríkin séu ekki lengur nauðsynleg fyrir Evrópu; Vestur-Evrópuríki hafi næga getu til að tryggja öryggi sitt sjálf. Í því sambandi benda Frakkar á kjarnorkuvígbúnað sinn, sem sé nægileg ógnun gegn hvers konar hugsanlegri ásælni. Enn segja Frakkar í þessu sambandi, að hættan á styrjaldarátökum í Evrópu hafi orðið minni og minni, eftir að kjarnorkukapphlaupi risaveldanna lauk með augljósu þrátefli. Hættusvæðin séu annars staðar, í heimshlutum, þar sem áhrifasvæði risaveldanna hafi ekki enn verið fastmælum bundin.

Og í fjórða lagi segja Frakkar, að einmitt hættan á átökum í öðrum heimshlutum, ekki sízt í Asíu, leiði verulegan háska yfir Atlantshafsbandalagsríkin í Evrópu. Bandaríkin beiti sér mjög í slíkum átökum, til að mynda í styrjöldinni í Víetnam, og slíkur hernaður geti leitt til stórstyrjaldar. Þá kunni Vestur-Evrópuríki að vera nauðugir samherjar Bandaríkjanna í átökum, sem þau hafa enga samúð með eða fulla andúð á, eins og t. d. yrði, ef árásarstyrjöld Bandaríkjanna í Víetnam leiddi til víðtækari hernaðaraðgerða.

Þetta eru meginröksemdir Frakka, eins og þær hafa verið túlkaðar af de Gaulle og Couve de Murville, og þær sýna, hversu gagngerar breytingar eru að verða á viðhorfum manna, hvað umr. um málefni Atlantshafsbandalagsins eru djúptækar. Maður skyldi ætla, að íslenzkir ráðamenn hlustuðu a. m. k. gaumgæfilega á röksemdir Frakka, því að þar tala menn, sem allavega verða ekki grunaðir um að vera handbendi Rússa eða umboðsmenn heimskommúnismans.

Þegar Frakkar framkvæma endurmat á stöðu sinni innan Atlantshafsbandalagsins, hugsa þeir að sjálfsögðu um aðstöðu sína, hin sérstöku vandamál franska ríkisins. Á sama hátt ber okkur Íslendingum að meta málin af íslenzkum sjónarhóli, kanna viðhorf okkar í samræmi við breyttar aðstæður, hugsa um þjóðlega hagsmuni okkar. Við þá könnun getum við ekki apað eftir neinum öðrum. Sérstaða okkar er mikil, og við verðum að taka ákvarðanir okkar í samræmi við hana.

Í sambandi við aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu er mikilvægt, að menn komi sér niður á svar við þeirri spurningu, hvers vegna var lagt á það ofurkapp 1949 að fá Íslendinga til að gerast aðilar að þessu hernaðarbandalagi. Við erum örsmá þjóð; við höfum engan her; pólitísk áhrif okkar á alþjóðavettvangi eru ekki umtalsverð. Samt var lagt á það mikið kapp af öðrum ríkjum, einkanlega Bandaríkjunum, að fá Íslendinga til að ganga í Atlantshafsbandalagið. Á þessari staðreynd er ekki til nein önnur skýring en sú, að Bandaríkin vildu tryggja sér herstöðvar á Íslandi. Kröfu sína um herstöðvar á Íslandi báru Bandaríkin fram haustið 1945 og vildu þá fá þrjár slíkar stöðvar til 99 ára. Þegar þeirri kröfu var hafnað, neituðu Bandaríkin að flytja her sinn á brott af landinu þrátt fyrir fyrri loforð, þar til gerður hafði verið sérstakur samningur um afnot Bandaríkjanna af Keflavíkurflugvelli. Þegar stórveldi ber fram kröfur af slíku tagi, fellur það ekki auðveldlega frá þeim.

Hver raunsær maður hlýtur að komast að þeirri niðurstöðu, að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu átti fyrst og fremst að auðvelda Bandaríkjunum að fá hér á nýjan leik fullgildar herstöðvar. Enda komu herstöðvarnar tveimur árum seinna, vorið 1951, að vísu þvert ofan í loforð íslenzkra valdamanna og bandarískra ráðherra, sem höfðu heitið því hátíðlega 1949, að hér skyldi aldrei vera erlendur her né erlendar herstöðvar á friðartímum. Hæstv. utanrrh. sagði í ræðu sinni hér áðan, að Bandaríkin hefðu aldrei látið okkur kenna aflsmunar. Það gerðu þau þó í stríðslok, þegar þau neituðu að flytja her sinn héðan á brott, nema þau fengju sérstakan samning um afnot af Keflavíkurflugvelli, og í annan stað er það alveg augljóst mál, að bandarískur her hefði komið hingað vorið 1951, hvað svo sem íslenzkir ráðamenn hefðu sagt. Það leið svo stuttur tími frá því, að alþm. voru kallaðir hér á leynifundi til þess að taka ákvörðun um þessa kröfu Bandaríkjanna og þar til herinn kom, að augljóst er, að þetta hernám hafði verið undirbúið löngu, löngu áður.

En það er sérstök ástæða til þess að leggja áherzlu á þessa samtengingu Atlantshafsbandalagsins og hernámsins vegna þess, að því hefur mjög verið haldið fram að undanförnu, að aðildin að Atlantshafsbandalaginu og hernámssamningurinn séu tvö aðskilin atriði; við getum sem hæglegast losað okkur við hinn erlenda her, en verið þó áfram fullgildir aðilar að bandalaginu. Ég held, að þetta einfalda sjónarmið fái engan veginn staðizt. Í þessu sambandi er vert að minna á inngang hins svokallaða varnarsamnings, en hann er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem Íslendingar geta ekki sjálfir varið land sitt, en reynslan hefur sýnt, að varnarleysi lands stofnar öryggi þess sjálfs og friðsamra nágranna þess í voða, og þar sem tvísýnt er um alþjóðamál, hefur Norður-Atlantshafsbandalagið farið þess á leit við Ísland og Bandaríkin, að þau geri ráðstafanir til, að látin verði í té aðstaða á Íslandi til varnar landinu og þar með einnig til varnar svæði því, sem Norður- Atlantshafssamningurinn tekur til, með sameiginlega viðleitni aðila Norður-Atlantshafsbandalagsins til að varðveita frið og öryggi á því svæði fyrir augum.“

Og í 1. gr. sjálfs samningsins segir svo:

„Bandaríkin munu fyrir hönd Norður-Atlantshafsbandalagsins og samkv. skuldbindingum þeim, sem þau hafa tekizt á hendur með Norður- Atlantshafssamningnum, gera ráðstafanir til varnar Íslandi með þeim skilyrðum, sem greinir í samningi þessum. Í þessu skyni og með varnir á svæði því, sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til, fyrir augum lætur Ísland í té þá aðstöðu í landinu, sem báðir aðilar eru ásáttir um, að sé nauðsynleg.“

Hér eru Atlantshafssamningurinn og hernámssamningurinn tengdir saman órjúfanlegum böndum. Hernámsliðið kemur hingað samkv. beiðni bandalagsins, og það er tekið fram sem almenn regla, að varnarleysi bjóði hættu heim, ekki aðeins í því landi, sem á hlut að máli, heldur og hjá nágrönnum þess. Ég dreg það mjög í efa, að Atlantshafsbandalagið hefði litið á það sem eitthvert einkamál Íslendinga, ef við hefðum ákveðið að láta herinn fara. Í því sambandi vil ég minna á 4. grein Atlantshafssamningsins, en hún er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðilar munu hafa samráð sín á milli, hvenær sem einhver þeirra telur friðhelgi landssvæðis einhvers aðila, pólitísku sjálfstæði eða öryggi ógnað.“

Samkvæmt þessari grein hafa ríkin heimild til íhlutunar um málefni hvers annars, og hefðu Íslendingar sagt upp hernámssamningnum gegn vilja Atlantshafsbandalagsins, er naumast nokkur vafi á því, að þessari grein hefði verið beitt. Á meðan herstöðvarnar hér voru taldar mikilvægar, hefðu Bandaríkin vafalaust hagnýtt hana til þess að halda herstöðvum sínum hér, hvað sem ákvörðunum okkar liði, á sama hátt og þau neituðu að flytja lið sitt burt 1945 og á sama hátt og þau halda uppi herstöðvum víða um lönd, gegn vilja íbúanna.

Þetta er grundvallaratriði, þegar meta á afstöðu Íslands til Atlantshafsbandalagsins. Hernámið er skilgetið afkvæmi Atlantshafssamningsins, þeir menn, sem segjast vera með aðild að bandalaginu, en andvígir hersetunni, eru að villa á sér heimildir. Ef ekki kæmi til hernámið, þá dreg ég í efa, að nokkru öðru ríki væri það nokkurt kappsmál að hafa Íslendinga í svokölluðu hernaðarbandalagi með sér.

Þegar Íslendingar meta nú, hvort þeir eiga að halda áfram aðild að bandalaginu, ber þeim jafnframt að kanna til hlítar, hvort sú aðild leiðir ekki til erlendrar hersetu um ófyrirsjáanlega framtíð. En í sambandi við slíkar bollaleggingar er einnig vert að íhuga, að hernaðargildi Íslands hefur gerbreytzt á þeim tveimur áratugum, sem liðnir eru, síðan Atlantshafssamningurinn var gerður.

Ástæðan til þess, að Bandaríkjamenn lögðu áherzlu á að halda hér herstöðvum í styrjaldarlok, var sú, að á þeim tíma voru flugvélar þeirra tiltölulega skammfleygar. Til þess að koma þeim yfir Atlantshaf á öruggan hátt þurfti millilendingarstaður að vera tiltækur, og Keflavíkurflugvöllur var í nokkur ár fyrst og fremst hagnýttur á þennan hátt. Ísland var þá talinn nauðsynlegur, hernaðarlegur tengiliður milli Bandaríkjanna sjálfra og áhrifasvæðis þeirra í Evrópu. En þessar aðstæður hafa gerbreytzt með tilkomu langfleygra véla. Keflavíkurflugvöllur gegnir nú ekki lengur hlutverki sem millilendingarstaður fyrir hernaðarflugvélar á leið yfir Atlantshaf. Á sama tíma hafa fornar hugmyndir um herstöðvar og gildi þeirra gerbreytzt með tilkomu eldflauga og kjarnorkuvopna. Herstöðvar eru nú fyrst og fremst hagnýttar til að hafa áhrif á umhverfi sitt. Augljóst er, að herstöðin á Íslandi er nú orðin fjarskalega veigalítill þáttur í herstjórnarkerfi Bandaríkjanna. Aðalverkefni herstöðvarinnar hér er að hafa eftirlit með kafbátaferðum á Norður-Atlantshafi, og því eftirliti væri hægt að stjórna á jafn hagkvæman hátt frá mörgum stöðum öðrum, m. a. frá Nýfundnalandi, þar sem þessar eftirlitsstöðvar voru áður.

Hæstv. utanrrh. hélt því fram í ræðu sinni hér áðan, að sérfræðingar teldu, að hernaðargildi Íslands væri jafn mikið og það hefði verið fyrir 20 árum. En engu að síður er það staðreynd, að þær breytingar, sem orðið hafa á hernaðartækni á þessu tímabili, á þróun alþjóðamála og sambúð stórveldanna, hafa leitt til breytinga á herstöðvunum á Íslandi, að vísu án þess að frumkvæði Íslendinga kæmi til.

Þegar bandaríski herinn kom hingað 1951, var þar meðal annars um að ræða raunverulegt varnarlið, landher með skriðdreka og annan tækjakost, sem ekki gat haft annan tilgang en að snúast til varnar, ef gerð væri innrás í landið. Einnig kom hingað flugher, sem átti að vinna með landhernum að sömu verkefnum. Báðar þessar deildir hernámsliðsins eru farnar frá Íslandi fyrir mörgum árum. Hér hefur um langt skeið ekki verið neitt varnarlið. En með þeim umskiptum hefur bandaríska herstjórnin að sjálfsögðu staðfest í verki það mat sitt, að hernaðarleg árás á Ísland sé óhugsandi, eins og nú standa sakir. Herinn á Miðnesheiði er aðeins örlítill hlekkur í eftirlitskerfi Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins, en á engan hátt neitt varnarlið fyrir okkur.

Það er vafalaust rétt, sem lesa mátti í grein í Morgunbl. fyrir nokkru, að þessari herstöð sé valinn ákaflega hæpinn staður frá varnarsjónarmiði og hægt væri að granda henni á nokkrum mínútum með eldflaugum frá kafbátum, sem þyrftu ekki einu sinni að koma upp á yfirborðið. Í sömu grein var lögð áherzla á það, að ef hér ættu að vera raunverulegar bandarískar hervarnir, þá þyrfti að koma fyrir miklum bandarískum her miðsvæðis á Íslandi, en leggja fullkomna hervegi frá þessum stöðvum og umhverfis allt land, svo að hægt væri að senda lið á sem skemmstum tíma til hvers þess staðar, þar sem hættu kynni að bera að höndum. Fróðlegt væri að vita, hversu margir Íslendingar mundu kæra sig um hernám af þessu tagi. En á það reynir ekki, sem betur fer, því að Bandaríkin hafa ekki talið það í samræmi við hagsmuni sína og mat sitt á aðstæðum að hafa nokkurt varnarlið á Íslandi árum saman, og ekkert bendir til þess, að hernaðarhagsmunir þeirra muni stuðla að slíkri ráðabreytni.

Ég lít svo á, að það hljóti að vera meginatriði í mati okkar á Atlantshafsbandalaginu að gera okkur grein fyrir þeirri undirstöðustaðreynd, að aðild að því bandalagi og hernámið eru eitt og sama vandamálið. Ef herstöðvarnar hefðu ekki komið til, hefði ekkert ríki haft nokkurn minnsta áhuga á aðild okkar að bandalaginu og fremur viljað forðast jafn gagnslausan bandamann. Það er einnig ákaflega mikilvæg staðreynd í þessu sambandi, að gildi herstöðvanna fyrir Bandaríkin hefur farið ört minnkandi á síðustu tveimur áratugum.

Ef Íslendingar ákvæðu nú að losa sig við herstöðvarnar, yrði andstaða stórveldisins þeim mun minni sem gildi stöðvanna er orðið rýrara.

Utanríkisstefna Íslendinga getur að sjálfsögðu ekki mótazt einvörðungu af því, sem við viljum, heldur verður einnig að meta hana í samræmi við það, sem við getum. Við verðum að gera okkur raunsæja grein fyrir því, að við búum í veröld, sem skipt er í áhrifasvæði, og að við erum á miðju áhrifasvæði Bandaríkjanna á vesturhveli jarðar. Ef stefna okkar gengi í berhögg við stefnu eða hagsmuni Bandaríkjanna, mundi stórveldið ekki hika við að beita valdi sínu hér frekar en annars staðar. En þótt þessi aðstaða sé metin af fullu raunsæi, mega ráðamenn Íslands aldrei gleyma því, að það er skylda þeirra að tryggja íslenzku þjóðinni sem mest sjálfstæði og frelsi innan þeirra marka, sem aðstæðurnar skammta okkur. Ef menn meta málin frá íslenzkum sjónarhóli, er sú staðreynd augljós, að varanlegt hernám er andstætt hagsmunum þjóðarinnar. Það er skylda hverrar ríkisstjórnar að vinna að því að losna við hernámið, jafnvel þótt ráðherrarnir hafi fyllstu samúð með stjórnmálaviðhorfum hernámsveldisins. Það er einnig augljós staðreynd, að Íslendingum hlýtur að vera það keppikefli að standa utan hernaðarbandalaga. Í slíkum samtökum á vopnlaus og örfámenn friðarþjóð, eins og Íslendingar, ekkert erindi. Samkvæmt því ber íslenzkum valdamönnum að starfa, hvaða hug sem þeir bera til hernaðarbandalagsins. Ef eðlileg íslenzk viðhorf væru ríkjandi hér á landi, ætti það að vera sameiginleg stefna þjóðarinnar allrar, að Íslendingar byggju einir og frjálsir í landi sínu og gætu tekið óháða afstöðu til allra alþjóðlegra vandamála. Ágreiningur okkar ætti að snúast um það eitt, að hve miklu leyti slík stefna væri raunsæ og framkvæmanleg miðað við aðstæður hverju sinni.

En einmitt þarna er alvarlegasta veilan í stjórn íslenzkra utanríkismála. Ráðamenn okkar hefur skort andlegt sjálfstæði til að meta viðfangsefni sín af íslenzkum sjónarhóli. Allt tal þeirra um utanríkismál er einvörðungu bergmál af viðhorfum annarra, fyrst og fremst bandarískra valdamanna og málsvara Atlantshafsbandalagsins. Enda þótt Atlantshafsbandalagsríki í Vestur-Evrópu hafi tekið upp æ sjálfstæðara mat á undanförnum árum, örlar ekki á slíkum viðhorfum hjá valdaflokkunum hér. Og þessi ósjálfstæðu og óþjóðlegu viðhorf ráðamannanna hafa smitað út frá sér á uggvænlegan hátt.

Hæstv. utanrrh. sagði í ræðu sinni hér áðan, að yfir 80% Íslendinga væru fylgjandi aðild að Atlantshafsbandalaginu. Þarna er um að ræða barnalega staðhæfingu. Aðildin að Atlantshafsbandalaginu hefur aldrei verið borin undir þjóðina, og ég held að fáum blandist hugur um, að meiri hluti þjóðarinnar var andvígur aðild að bandalaginu, þegar hún var ákveðin fyrir tveimur áratugum, enda höfnuðu stjórnarvöldin þá mjög almennri kröfu um þjóðaratkvæði. Vilji hæstv. ráðh. fá raunverulega vitneskju um afstöðu þjóðarinnar nú, er rétt að láta reyna á hana. Væri staðhæfing hæstv. ráðh. hins vegar rétt væri það síður en svo ánægjuefni fyrir nokkurn ábyrgan mann, að meiri hluti þjóðarinnar vildi ólmur vera í hernaðarbandalagi til frambúðar; það sannaði það eitt, að menn eru orðnir gersamlega áttavilltir og gera sér ekki lengur grein fyrir sérstöðu Íslendinga og raunverulegum hagsmunum þjóðarinnar. Einmitt slík ósjálfstæð viðhorf eru háskalegustu afleiðingar þeirrar hersetu, sem við höfum nú búið við í meira en aldarfjórðung; talsverður hópur manna er búinn að gleyma eðlilegum, þjóðlegum og siðferðilegum sjónarmiðum; hernámið er ekki lengur ill nauðsyn, eins og stuðningsmenn þess kölluðu það í upphafi, heldur góð nauðsyn, keppikefli, gleðiefni. Morgunblaðið kallaði hernámsliðið meira að segja „fjöregg þjóðarinnar“ í forystugrein fyrir nokkrum dögum. Í verzlun hernámsliðsins á Keflavíkurflugvelli vinna á annað hundrað Íslendingar og þeir hafa fallizt á þau fyrirmæli yfirboðara síns að tala ekki íslenzku á vinnustað. Þegar svo er komið undirgefni Íslendinga við erlent vald, ættu ráðamenn sannarlega að fara að hugsa sig um.

Og nú eru uppi hugmyndir um það að gera hernámið að sem mestri tekjulind, gera okkur sem háðasta því efnahagslega, eins og hæstv. ráðh. vék að í ræðu sinni áðan. Í því sambandi mættu menn vel minnast atburða, sem gerðust á eynni Möltu fyrir nokkrum árum. Þar býr þjóð, sem er dálitlu fjölmennari en við, og hún hefur um skeið notið brezkrar forsjár. Þar hafa verið brezkar herstöðvar og flotastöðvar og ýmiss konar atvinnurekstur, sem hefur verið tengdur þeim athöfnum. Bretar telja þessar stöðvar sínar úreltar og óþarfar að verulegu leyti. Þeir hafa verið að draga saman seglin. En þá brá svo við, að eyjarskeggjar hófu örvæntingarfulla baráttu gegn því að losna við hernámsliðið, af þeirri einföldu ástæðu að það var atvinna þeirra og lífsviðurværi; þá skorti innlenda atvinnuvegi, sem risið gætu undir nútíma þjóðfélagi; samskiptin við hið erlenda stórveldi voru orðin að náðarbrauði. Þannig hljóta samskipti þjóða við erlenda aðila ævinlega að vera. Þau standa ekki lengur en útlendingarnir telja sig hafa hag af því. Því er ekkert fráleitara en ætla að gera þjónustustörf við útlendinga að einum af hornsteinum hins íslenzka þjóðfélags. Mér þótti vænt um, að hæstv. utanrrh. gagnrýndi þessa kenningu í ræðu sinni hér áðan, en hann mætti gera meira; hann mætti hugleiða, hvernig á því stendur, að slík kenning skuli koma upp og fá býsna miklar undirtektir í þjóðfélaginu. Fyrir tveimur áratugum hefði það verið óhugsandi, að nokkur maður hefði dirfzt að boða slíka kenningu opinberlega, en nú er það ekki aðeins talið hugsanlegt, heldur hleypur upp stór hópur manna og tekur undir þessi viðhorf. Stefna, sem leiðir slíka hugarfarsbreytingu yfir verulegan hóp manna, er háskaleg framtíðarsjálfstæði Íslendinga.

Í þessum bollaleggingum mínum hér hef ég ekki rætt nema að sáralitlu leyti um átökin í alþjóðlegum stjórnmálum. Á þeim hef ég þó ákveðnar skoðanir, eins og menn vita, og gagnstæðar skoðanir mínum eiga öfluga málsvara hér á Alþ. En ég tel, að skoðanir manna á stórveldaátökum og öðrum ágreiningsefnum í alþjóðamálum megi aldrei skyggja á þá skyldu okkar að móta íslenzka utanríkisstefnu í samræmi við hagsmuni okkar sjálfra. Þótt menn hafi fyllstu samúð með einhverju stórveldi eða einhverju hernaðarbandalagi eða einhverju kenningakerfi, mega þeir aldrei fórna þjóðlegum hagsmunum Íslendinga fyrir slík viðhorf.

Mælikvarðinn á gagnsemi íslenzkrar utanríkisstefnu á að vera sá einn, hvort hún tryggir okkur sem mest frelsi og sjálfstæði. Aðild að Atlantshafsbandalaginu skerðir sjálfsákvörðunarrétt okkar og óháð mat; því hlýtur það að vera verkefni þjóðlegrar utanríkisstefnu að losa okkur úr því bandalagi. Hernámið fær á engan hátt samrýmzt framtíðarhagsmunum ísl. þjóðarinnar; því á það að vera verkefni allra ábyrgra afla að aflétta hersetunni. Ef menn hugsa frá íslenzkum sjónarhóli, getur þá naumast greint á um þessi markmið. Hitt getur hins vegar orðið ágreiningsefni, hvenær raunsætt sé og kleift að stíga þessi skref. Einmitt þess vegna skiptir það meginmáli, að við höfum sjálfir frumkvæði að rannsókn á aðstæðum hverju sinni og leggjum sjálfstætt mat á niðurstöðurnar. Því vil ég að lokum skora á hæstv. ríkisstjórn að láta framkvæma þá málefnalegu könnun á aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu, sem við hv. þm. Gils Guðmundsson gerðum till. um í upphafi þessa þings.