24.02.1969
Sameinað þing: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2115 í B-deild Alþingistíðinda. (2177)

Utanríkismál

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér tilgangslítið að halda þessari umr. lengi áfram yfir mjög svo auðum þingsal. Við höfum í rauninni annað þarfara við tímann að gera en vera hér langt fram á nótt til að ræða mál, sem svona takmarkaður áhugi virðist vera á innan þingsalanna. Mig langar þó aðeins til að gera örfáar athugasemdir við þá ræðu, sem hv. 5. þm. Vesturl. flutti áðan. Hann kom þar mjög víða við, drap á mjög mörg vandamál, og ef gera ætti athugasemdir við það allt, þyrfti maður að taka sér langan tíma, en það ætla ég mér ekki að gera.

Hv. þm. hóf ræðu sína á því að vilja kenna ísl. sósíalistum um það, að meðferð utanríkismála á Íslandi hefur verið með hreinum endemum þangað til núna fyrir nokkrum árum, þegar hæstv. utanrrh. tók upp nýja starfshætti, eins og ég vék að í fyrri ræðu minni í dag. Hv. þm. vildi kenna um Einari Olgeirssyni, að því er mér virtist, eða Brynjólfi Bjarnasyni, að þeir hefðu annar hvor þeirra staðið í þessum ræðustól og haft í hótunum á sama tíma og grjót hafi dunið á rúðum þinghússins. Nú hef ég vissulega mikið álit á þessum ágætu þm., sem voru þá hér, en það var ekki á þeirra valdi að efna til þeirra átaka og þess hugaræsings, sem kom upp hjá þjóðinni fyrir 20 árum. Það var ekki á valdi þeirra eða nokkurra annarra einstaklinga. Þessi miklu átök voru til marks um það, að sú ákvörðun, sem tekin var fyrir 20 árum, kom ákaflega mikið við ísl. þjóðina. Það var mjög verulegur hluti þjóðarinnar, sem taldi þessa ákvörðun háskalega og ranga og taldi hana koma við það, sem viðkvæmast var í eðli Íslendinga. Þess vegna urðu þessi átök svona heit.

Á tímabilinu eftir það varð hér á Íslandi kalt stríð í viðræðum stjórnmálaflokka um utanríkismál, en það leiddi til þess, að utanríkismálin voru í rauninni afgr., án þess að Alþ. fengi að fylgjast með þeim. Ég held, að það sé mjög gott, að við erum komnir yfir þetta tímabil og að við skulum geta rætt hér í þingsölunum nokkurn veginn málefnalega um þessi viðfangsefni, eins og við höfum gert hér í dag. Utanríkismálin eru stórfelld vandamál, og við þurfum að vera menn til að hlusta hver á annan og taka tillit til þeirra röksemda, sem fram koma, að því leyti sem menn kunna að vilja á þær fallast.

Ekki fannst mér sannfærandi, það sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði um Kína. Hv. þm. sagði, að ríkið á Formósu hefði verið í Sameinuðu þjóðunum frá upphafi vega og það væri ekki eðlilegt að víkja því úr samtökunum. Það hefur ekki verið neitt ríki á Formósu í Sameinuðu þjóðunum frá upphafi vega. Það er Kínaveldi sjálft, sem hefur verið í samtökunum, og Kínaveldi sjálft er það enn þá. Ágreiningurinn er um það, hverjir eigi að fara með atkvæði Kína, aðild Kína hjá Sameinuðu þjóðunum. Á það að vera ríkisstj. í Peking, sem fer með öll völd í meginhluta landsins, eða á það að vera þessi hópur, sem dvelst á eynni Taiwan? Það þýðir ekkert að standa hér og segja, að eðlilegt sé að tvö kínversk ríki geti fengið aðild; ég hef ekkert á móti því. En þá þarf að vera um að ræða tvö kínversk ríki, en ekki er um neitt slíkt að ræða. Chiang Kai-shek er algerlega andvígur því, að litið sé á eyjuna hans sem sérstakt ríki. Hann segist vera ráðamaður yfir Kínaríki öllu, og pólitík hans miðast við það. Bollaleggingar af þessu tagi eru algjörlega út í hött.

Hv. þm. sýndi svolitla viðkvæmni út af því, að ég gagnrýndi það, sem mér fannst vera heldur yfirborðslegt tal um frelsi og lýðræði á vegum Atlantshafsbandalagsins. Hins vegar viðurkenndi hann það sjónarmið, að það væru sameiginlegir hagsmunir, en ekki hugsjónir, sem stjórna þessu bandalagi. Þetta er hagsmunabandalag auðugra ríkja á vesturhveli jarðar, ríkja, sem áður voru mikil nýlenduveldi, og ríkja, sem nú hagnýta sér efnahagslega yfirburði til þess að sölsa til sín gróða af auðlindum, sem eru í fátækum ríkjum.

Hv. þm. komst þannig að orði, að sum þessi nýlenduveldi hefðu gefið hundruðum millj. manna frelsi. Ég held, að anzi mikið sé ofmælt að tala um gjafir; þau voru neydd til þess, og sum voru ákaflega treg. Þetta eru ekki í ríkara mæli fyrrverandi nýlenduveldi en svo, að eitt þessara ríkja, Frakkland, háði nýlendustyrjaldir í mörg ár, eftir að Atlantshafsbandalagið var stofnað, og beitti til þess herjum og vopnum, sem bandalaginu voru mörkuð. Þessa styrjöld háðu Frakkar fyrst í Víetnam og síðan í Alsír. Alsír var tiltekið í sjálfum Atlantshafsbandalagssamningnum, sem eitt af þeim svæðum, sem ætti að vernda.

Þetta eru hagsmunasamtök. Og þetta eru hagsmunasamtök, sem við Íslendingar eigum mjög lítið sameiginlegt með. Það sáum við ákaflega vel, þegar við sóttum rétt okkar 1958 og stækkuðum landhelgina. Ástæðan til þess, að landhelgin umhverfis Ísland var þröng, var sú, að voldug ríki höfðu gerzt æ nærgöngulli við okkur. Við vorum þarna að endurheimta fornan rétt, en þá gerðist það, að eitt Atlantshafsbandalagsríkið sendi herskipaflota sinn til Íslands til þess að beita valdi gegn þessum ákvörðunum okkar. Og bandalagið sjálft veitti árásarríkinu siðferðilegan stuðning og reyndi allt, sem það gat, til þess að fá okkur til að falla frá ákvörðunum okkar. Við vorum þarna í stöðu fátækrar þjóðar, þó að við værum í bandalaginu, og þess vegna urðum við fyrir þessari árás.

Hv. þm. sagði, að vopnleysið væri mesta vandamál okkar. Öll ríki væru hervædd og við yrðum að minnast þess, að það verkefni yrði að rækja, hvort sem okkur líkaði betur eða verr. Ég vil minna hv. þm. á það, að þegar Íslendingar ákváðu að stofna sjálfstætt ríki, gerðu þeir sér þær hugmyndir, að hægt væri að halda uppi sjálfstæðu ríki án þess að hafa her. Það var tilgangur Íslendinga með því að stofna sjálfstætt ríki. Með því að fela stórveldi hervarnir á Íslandi er verið að afhenda öðru ríki hluta af þeim eðlilegu yfirráðum, sem Íslendingar eiga að hafa. Við erum að skerða sjálfstæði okkar.

Við erum að skerða fullveldi okkar. Þetta er alveg augljóst mál. Og ef við viljum halda fast við þá stefnu, sem menn mörkuðu í upphafi, að Íslendingar eigi að vera frjáls þjóð, þá verðum við að hverfa frá þessari stefnu eins fljótt og við mögulega getum. Að öðrum kosti gefumst við upp á því verkefni, sem okkur var falið að leysa.

Þingmaðurinn sagði, að sagan hafi sýnt, að hlutleysi verndi þjóðir ekki. Auðvitað verndar hlutleysi ekki þjóðir. En aðild að hernaðarbandalögum verndar þjóðir ekki heldur, það sýnir sagan líka. Ef tekin væru saman dæmin um það, að smáríki í hernaðarbandalögum hafi orðið fyrir miklum árásum af þeim sökum, þá skipta þau tugum og hundruðum á umliðnum öldum. Svona almennar staðhæfingar hafa að sjálfsögðu ekkert gildi. Það er ekki hægt að afgreiða þetta vandamál með því að skírskota annars vegar til hlutleysis og hins vegar til aðildar að hernaðarbandalagi. Í hvorugu felst neitt endanlegt öryggi.

Hv. þm. vildi bera brigður á það, sem ég rakti hér í ræðu minni í dag, að hernaðargildi Íslands hefði breytzt mjög verulega á síðustu 20 árum. Og hann taldi, að einmitt þróun vígbúnaðar hefði valdið nýjum vandamálum, sem skiptu Ísland máli. Hann taldi t. d., að tilkoma eldflauga hefði stórlega aukið gildi radarstöðva. Ég held, að það sé almennt álit sérfræðinga, að hinar föstu radarstöðvar á jörðu niðri séu að missa gildi sitt og munu missa gildi sitt mjög tilfinnanlega á næstunni, vegna þess að til eru komin ný tæki, sem eru miklu skjótvirkari og miklu nákvæmari, og þar á ég við njósnatunglin, sem eru nú svífandi umhverfis hnöttinn okkar og fylgjast með öllum slíkum hreyfingum. Mér virðist sérfræðingar sammála um það, að í þá átt stefni þróunin á þessu sviði.

Hv. þm. taldi, að hernaðarþýðing Íslands væri í beinu samhengi við mikla kafbátaflota, sem séu á ferðum í hafinu. Auðvitað er það rétt, en það á ekki aðeins við um Ísland. Þessir kafbátar eru hvarvetna í heimshöfunum. Tilgangurinn með þeim er sá að vera með kjarnorkuárásarstöðvar á stöðugri hreyfingu, til þess að ekki sé hægt að eyðileggja slíkar stöðvar, áður en til árásar kemur. Þetta á ekki frekar við um Ísland en aðra staði, hvar sem er á hnettinum.

Annars er það eflaust ekki sérlega sannfærandi, þótt við hv. 5. þm. Vesturl. séum að bollaleggja um vígbúnað. Ég hefði talið, að það hefði verið ákaflega fróðlegt, ef hæstv. ríkisstj. hefði leitað til einhverra óháðra og hlutlausra sérfræðinga til þess að svara ýmsum spurningum um þessi mál. Ég tel t. d., að það hefði verið ákaflega fróðlegt, ef hæstv. ríkisstj. hefði viljað fallast á þá rannsókn, sem við fórum fram á hér í haust, við þm. Alþb., að kalla til einhverja slíka sérfræðinga. Ég hygg t. d., að það mundi vera auðvelt að fá slíka sérfræðinga til aðstoðar frá Svíþjóð. Þar gætum við fengið sérfræðileg svör við ýmsum þeim spurningum, sem við erum að bollaleggja um, vafalaust af fullmikilli vankunnáttu stundum.

Hv. 5. þm. Vesturl. er ekki aðeins mikill áhangandi Atlantshafsbandalagsins, hann er einnig stuðningsmaður Varsjárbandalagsins. Hann lýsti því yfir, að undirstaða friðar í Evrópu væri jafnvægi þessara tveggja bandalaga. Hann hefur lýst þessu áður í blaði sínu, og hann sagði hér áðan, að það væri fásinna að leysa upp þessi tvö hernaðarbandalög. Þetta virðist vera hugmynd hv. þm. um framtíðina, að tvö slík hernaðarbandalög, þar sem stórveldin ráða öllu, sem þau vilja, drottni yfir æ stærri hlutum heimsbyggðarinnar. Ég held, að þetta sé ákaflega óæskileg þróun, sérstaklega fyrir hin smæstu ríki. Og ef við getum stuðlað að því að leysa upp þetta valdakerfi stórveldanna, þá ættum við að beita okkar litlu áhrifum í þá átt.

Ég benti á það í ræðu minni í dag, að það væri algjörlega heimildarlaust að lýsa yfir því, að 80% þjóðarinnar hefðu tekið afstöðu með aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu. Það er algjörlega rangt að benda á almennar kosningar í því sambandi, því að það er staðreynd, hvort sem okkur líkar hún betur eða verr, að utanríkismál hafa tiltölulega mjög lítil áhrif á kosningaúrslit á Íslandi. Um þetta eru fjölmörg dæmi. Eina skiptið, sem slík mál hafa raunverulega verið í brennidepli, var í kosningunum 1956. Þá stóðu þrír flokkar að till. um uppsögn herverndarsamningsins, en einn flokkur, Sjálfstfl., var á móti. Það var tekizt á um þetta sjónarmið í kosningunum, þetta var eitt aðalmál þeirra. Og úrslitin urðu þau, að meiri hluti þjóðarinnar greiddi atkvæði með því, að herinn færi.

Það hafa oft verið bornar hér fram kröfur um þjóðaratkvæði um þetta mál. Þær voru sérstaklega bornar fram fyrir 20 árum af miklum þunga, og undir þá kröfu skrifuðu margir af kunnustu menntamönnum þjóðarinnar. En á hana var ekki fallizt. Og hæstv. utanrrh. og aðrir forystumenn vita fullvel, að eins og ástatt var þá, eru allar líkur á því, að verulegur meiri hluti þjóðarinnar hafi verið andvígur herverndarsamningnum.

Hv. þm. Þórarinn Þórarinsson vék mjög ítarlega að atburðunum 1956 í ræðu sinni. E. t. v. er ástæða til að minna á það, að ákvörðun Alþ. um brottför hersins 1956 hafði ákaflega gagnleg áhrif. Að vísu heyktust tveir af stuðningsflokkum vinstri stjórnarinnar á þeirri ákvörðun um haustið, en hún hafði samt mjög víðtæk áhrif á aðgerðir Bandaríkjanna. Á árunum á undan höfðu Bandaríkin undirbúið stórfelldar nýjar herstöðvar hér. Framkvæmdar höfðu verið miklar mælingar fyrir nýjum flugvelli á Suðurlandi, og snemma árs 1956 var gerður formlegur samningur milli Bandaríkjanna og Íslendinga, um að Bandaríkin kæmu upp herskipahöfn í Njarðvíkum. Um það var undirritaður formlegur samningur. Þegar Alþ. tók ákvörðun sína um brottför hersins, virtist Bandaríkjunum aðstaðan á Íslandi tæp stjórnmálalega séð. Og þá var tekin sú ákvörðun að flytja nýjar stöðvar héðan til Grænlands. Hinar miklu stöðvar á Grænlandi voru settar upp, vegna þess að Bandaríkin töldu ekki óhætt að hafa þessar stöðvar á Íslandi. Stöðvarnar, þar sem kjarnorkusprengjurnar féllu á Grænlandi, hefðu getað verið á Íslandi, ef ekki hefði verið tekin þessi afstaða 1956.

Við skulum alltaf minnast þess, að þótt við séum lítill aðili og Bandaríkin ákaflega stór aðili, þá getum við samt haft áhrif á þróun þessara mála. Og það er skylda allra íslenzkra forystumanna, hvaða skoðanir sem þeir kunna að hafa á heimsmálum, að takmarka eins og þeir mögulega geta alla íhlutun erlendra aðila á Íslandi, jafnvel þó að um sé að ræða aðila, sem þeir hafa fyllstu samúð með. Það er skylda þeirra að tryggja, að Íslendingar sjálfir hafi sem óskoraðastan yfirráðarétt yfir landi sínu. Og ég tel, eins og ég rakti í dag, að nú blasi við nýir möguleikar á þessu sviði, vegna þess að herstöðvarnar hér hafa um langt skeið verið að verða gagnminni og gagnminni fyrir stórveldið. Það er okkur í hag, að þessar stöðvar séu sem veikastar, vegna þess að þá auðveldar það okkur að losna við þær. Séu þær mjög öflugar, mun okkur aldrei takast það.

Þessa vil ég vænta, að menn minnist, einnig þeir forystumenn, sem trúaðastir eru á málstað Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins.