24.02.1969
Sameinað þing: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2119 í B-deild Alþingistíðinda. (2178)

Utanríkismál

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég tel mér skylt að byrja þessi fáu orð mín á því að þakka þeim, sem hér hafa talað, fyrir vinsamlegar undirtektir við skýrslu mína.

Það hefur þó komið fram hér, að a. m. k. einn hv. þm. taldi, að það væri betra að hafa á þessari skýrslu annað form, þannig, að mér skildist, að leggja hana fram prentaða eða vélritaða og ekki hafa umr. nema sem nokkurs konar útdrátt úr þessari skýrslu. Ég get vel fallizt á, að þetta megi ræða og eigi að ræða, því að ég sagði það í upphafi ræðu minnar í dag, að mér væri nokkur vandi á höndum samanborið við aðrar þjóðir, þar sem þessar skýrslur væru í hefðbundnu formi og menn væru nokkurn veginn bundnir af því frá ári til árs, hvaða form á þeim væri haft. Ég hef kynnt mér nokkrar af þessum skýrslum, sem fluttar hafa verið hjá nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum, a. m. k. þeim þremur, sem næstar okkur eru, og þar er þetta sitt á hvað. Ég hef séð í þingtíðindum þeirra þjóða, að utanrrh. hafa flutt meginmál sinnar skýrslu alveg í þingsölunum og ekki dregið þar neitt undan og ekki heldur látið sér nægja að flytja útdrátt úr þessum skýrslum, sem yrðu þá fluttar í ræðuformi, en sjálf skýrslan yrði prentuð og aðeins til athugunar. Ég tel þetta vera til athugunar, og þó að ég hafi haft þennan hátt á nú, þá er ég alls ekkert á móti því að breyta því í þetta form, ef það þætti betra að gefa skýrsluna skriflega og hafa umr. þá þeim mun styttri. Það kemur til athugunar síðar.

Um sjálf efnisatriði skýrslu minnar hefur ekki verið mikið rætt í sjálfu sér. Af þeim málum, sem afgreidd hafa verið hjá Sameinuðu þjóðunum, og um afstöðu okkar til þeirra, hefur einungis verið minnzt á eitt, og það er um afstöðu okkar til aðildar Kína að Sameinuðu þjóðunum. Við höfum þar í flestum tilfellum setið hjá við atkvgr., og í einstaka tilfelli hefur verið greitt atkv. á móti því. En hvers vegna höfum við haft þennan hátt á? Við höfum gert það vegna þess, að í flestum tilfellum hefur till., sem borin hefur verið fram hjá Sameinuðu þjóðunum, verið á þá lund, að um leið hefur verið gert ráð fyrir því að útiloka Formósu frá þátttöku. Nú kann það að vera, að formlega séð sé stjórnskipulag þeirra þar, sem þó telja um 14 millj. manna, ekki eins og hjá okkur tíðkast, þannig að fræðilega séð megi skoða Kína sem eitt ríki, bæði Formósustjórnina og Peking-Kína. En ég vil þó benda á, að þeir menn, sem nú fara með völd á Formósu eða Taiwan, voru einn aðilinn af fimm, sem beittu sér á sínum tíma fyrir stofnun Sameinuðu þjóðanna. Og þó að atvikin hafi nú hagað því svo síðan, að þeir hafi verið hraktir úr sínu heimalandi og séu nú í nokkurs konar útlegð á Taiwan, þá finnst mér það allharðleikið að láta þá fara úr samtökum Sameinuðu þjóðanna án þess að hafa gert nokkurn skapaðan hlut fyrir sér. Við höfum þess vegna fylgt þeirri stefnu á þingum Sameinuðu þjóðanna, að við höfum viljað, að það yrði reynd einhvers konar málamiðlun, málamiðlun, sem gerði báðum aðilum mögulegt að vera aðilar, og Formósa yrði áfram meðlimur, en Peking-Kína yrði tekið í samtökin. Ítalía hefur beitt sér fyrir lausn af þessu tagi, og við höfum verið stuðningsmenn þeirrar till. og meira að segja flm. í einu tilfelli.

Annars hafa umr. hér snúizt fyrst og fremst og ég vil segja nærri eingöngu um Norður-Atlantshafsbandalagið og varnarliðið hér, og hafa komið fram þessi gamalkunnu sjónarmið, að við ættum að segja okkur úr NATO og segja upp varnarsamningnum. Varnarsamningurinn væri raunar lítils eða einskis virði, radarstöðvarnar hér væru gagnslausar, það væru komin ný njósnatungl, sagði hv. 6. þm. Reykv., og þessi tunglför væru komin algjörlega í staðinn fyrir radarinn, og mér skildist næstum því, að það væri hægt að skjóta úr þessum tunglhnöttum líka.

En radarstöðvarnar og orrustuflugvélarnar, sem eru í sambandi við þær, eru einn effektívasti eða raunverulegasti hluti af okkar vörnum í landinu að mínu viti. En það var eftirtakanlegt, að það var nokkur skoðanamunur hjá hv. 6. þm. Reykv., Magnúsi Kjartanssyni, og hv. 4. þm. Reykv., Þórarni Þórarinssyni, því að hann vildi segja, að NATO og varnarbandalagið og varnarliðið hér væru tveir ólíkir hlutir og ættu að ræðast sitt í hvoru lagi. Ég hef líka verið þeirrar skoðunar, en hv. 6. þm. Reykv. vildi gera þetta að einu máli. Varnarliðið hér væri afleiðing af NATO-bandalaginu, og manni skildist, að svo mundi verða um alla framtíð.

Hv. 4. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, vildi, að hafinn væri nú þegar undirbúningur að uppsögn á varnarliðssamningnum og við létum okkur í framtíðinni duga það að vera aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Ég held, að sú skoðun sé mjög hæpin, að við eigum á einhverju ákveðnu augnabliki að segja, að við þurfum ekki lengur á varnarliðinu að halda, vegna þess að það eru aðstæðurnar í heiminum, umhverfið í heiminum, það er ástandið hingað og þangað, sem sker úr um það, hvort við eigum að hafa þetta varnarlið eða ekki. Við skulum segja t. d., að við ættum að segja upp varnarliðinu og senda það heim í dag. En hvernig er ástandið í heiminum í kringum okkur? Hvernig er ástandið í Austurlöndum nær? Það er eins og púðurtunna, sem getur sprungið á hvaða augnabliki sem vera vill. Og það er ekki nóg með það, að þessi púðurtunna springi á þann hátt, að Ísraelsmenn og Arabar fari saman í átök. Hitt er miklu hættulegra, að það virðist svo sem að baki þessara aðila beggja séu stórveldin tvö, Bandaríkin og Rússland. Hvað yrði úr því, ef þau kæmu til liðs við þessa aðila í Ísrael og Arabalöndunum? Hvað yrði þá, ef þessi stórveldi stilltu sér á bak við þessa styrjaldaraðila þar? Það gæti orðið úr því það heimsbál, sem við vissum ekki, hvar endaði. Og væri þá gott, að við værum búnir að senda okkar varnarlið í burtu? Ég held ekki.

Árið 1956 var það, ja við skulum segja sameiginlegt álit meiri hluta þings, að við gætum eins og málum væri þá komið sagt upp samningnum frá 1951, og það var ákveðið að gera það. En þegar kom til stykkisins, var hætt við það og dregið í land, vegna þess að það var talið að það væri ekki rétt að gera það á þeirri stundu. Og var ástandið í heiminum þá, að ég ætla, ekki nándar nærri eins ótryggt og það er í dag.

Hv. 6. þm. Reykv. vildi telja það heimildarlaust að telja, að 80% af þjóðinni stæðu á bak við Atlantshafsbandalagið. Nú hefur þetta ekki verið orðað þannig, a. m. k. ekki af mér, heldur hefur það verið orðað þannig, að 80% stæðu á bak við þá flokka, sem hafa staðið að Atlantshafssamningnum. Og það er náttúrlega svolítil tilfærsla á sannleikanum að segja, að það séu 80% með samningnum eða að það séu 80% með þeim flokkum, sem að bandalaginu standa.

Hv. þm. sagði, að 1956 hefði verið búið að gera samning um byggingu herskipahafnar í Njarðvík. Það hefði verið hætt við að gera hana, vegna þess að talað var um að segja upp Atlantshafssamningnum. Þetta er ekki nákvæmlega með staðreyndir farið. Það var aldrei talað um það að byggja herskipahöfn í Njarðvík. Það var talað um að byggja þar höfn, sem væri til afnota fyrir fiskimenn staðarins. Það var talað um það að byggja höfn svipaða því, sem nú hefur verið byggð af okkur sjálfum þarna. Þessa höfn hefðum við losnað við að byggja, ef við hefðum fengið samninginn um þetta við Bandaríkjamennina. Um herskipahöfn var ekki að ræða. Ég hafði þá teikningar af höfninni, því að ég gegndi þá störfum vitamálastjóra og fylgdist nákvæmlega með þeim samningum, sem um þetta voru gerðir. Og það var ekkert, ekkert sem minnti á það, að þarna ætti að vera herskipahöfn, heldur einungis var með þeim samningum, sem þá var talað um, verið að mæta óskum íbúanna í Keflavík og Njarðvíkum.

Hv. þm. sagði, að gildi stöðva hér væri minna en áður. Þetta hefur nú verið rætt, svo að ég skal ekkert fara út í það frekar. En ég held, að gildi stöðvanna hér sé fullt eins mikið nú og jafnvel meira en verið hefur oft áður. Hann taldi, að það hlyti að vera okkur keppikefli að standa utan við hernaðarsamtökin. En hvers virði er frelsi og sjálfstæði lands, sem ekki hefur neitt afl á bak við sig til að verja sjálfstæðið og hlutleysið? Það hefur sýnt sig í fjöldamörgum löndum, smáum og stórum, að þetta er lítils virði, nema því aðeins að það sé eitthvert vald, eitthvert afl á bak við, sem getur tryggt sjálfstæðið og frelsið. Náttúrlega var okkur sá vandi á höndum, þegar við lýstum yfir okkar sjálfstæði, að við gætum tryggt það með einhverjum hætti. Hvernig hafa Svíþjóð og Sviss tryggt sitt sjálfstæði? Þau hafa tryggt það með herafla. Þó að þjóðir hafi haft herafla, ef hann hefur ekki verið nægur, eins og t. d. Danmörk, Noregur, Holland, Belgía o. fl. lönd, hafa þau ekki getað varið sitt hlutleysi og sitt frelsi, þegar til átaka hefur komið, af því, að þeir hafa ekki haft nægan herafla á bak við sig.

Ég held þess vegna, að það sé rétt afstaða hjá ríkisstj., og ég hef fylgt henni mjög eindregið, að við eigum að vera aðilar að Atlantshafsbandalaginu, því að það sé eina ráðið til þess að tryggja okkar sjálfstæði og frelsi. Við getum nú með árs fyrirvara sagt okkur úr því, ef okkur þykir henta, og við getum líka með árs fyrirvara eða hálfs annars árs fyrirvara losað okkur við varnarliðið hér á landi, ef okkur þykir það henta, og það er okkur í sjálfsvald sett í báðum tilfellunum, hvort við gerum það eða ekki. Og það er ekkert í þessum málum, sem hefur verið þröngvað upp á okkur. Það er algjörlega háð okkar mati og okkar ákvörðunum sjálfra, hvað gert verður.

Hv. 4. þm. Reykv. lýsti yfir fyrir hönd Framsfl., að þeir væru fylgjandi þátttöku í NATO, og það var nú vitað raunar, að svo var. En mér þykir vænt um það, að það skuli þá liggja fyrir, að það skuli vera þrír stærstu eða tveir stærstu flokkarnir og einn í viðbót, sem standa vörð um bandalagið, hvað sem svo verður um varnarliðið sjálft, sem hér er. Ég hef ekki trú á því, að þegar það mál er skoðað ofan í kjölinn, þá þyki rétt, að við segjum þeim samningi upp heldur.

Og þetta, sem sagt, hefur eiginlega verið eina málið í þessum umr., sem rætt hefur verið. Það er ekkert óeðlilegt, það hefur verið gert áður, og ég tel, að það sé gott, að við ræðum það. Ef það kemur eitthvað nýtt, þá er að hlusta á það og taka því og draga af því lærdóma. En því miður hefur í þessum málum af hendi stjórnarandstöðunnar ekki komið fram mikið nýtt.