28.10.1968
Sameinað þing: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2139 í B-deild Alþingistíðinda. (2184)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er nú venjan, ef spurt er í alvöru og óskað eftir svörum, sem rökstudd séu af þeim, sem svara á, að þá sé það gert á venjulegan hátt í fsp.-tíma, og ég held, að það væri bezt fyrir þennan hv. þm., ef hann vill fá svör við því, sem hér er spurt um, að hann geri það á þann venjulega og þinglega hátt, en komi ekki ég vil segja aftan að mönnum óviðbúnum með svona tal, eins og hann hefur verið með hér nú. Þetta er yfirgripsmikið mál og stórt. Ég vil þess vegna ekki fara út í að ræða það á þennan hátt með þessu móti, heldur ef hann vill, þá getur þessi hv. þm. borið fram fsp. sína á eðlilegan hátt, og skal ég þá ekki skorast undan að segja það, sem ég veit.

Hitt skal ég segja þegar á þessu stigi, að flest eða ég held allt, sem hann spurði um, hvað ríkisstj. hefði í huga í þessu sambandi, því get ég svarað með því einu, að ekkert af þessu hefur verið rætt í ríkisstj. Það er að vísu einn maður frá Landhelgisgæzlunni, sem er á skóla, sem heitir Military College, suður í Róm, en það er um þau herteknisk atriði, sem landhelgisgæzluna varðar og hana eingöngu, en alls ekki verið neitt rætt um það, að það væri þáttur í hinum almennu vörnum landsins. Ég held líka, að nokkuð af því, sem hann hefur eftir aðmírálnum, sé nú kannske ekki svo mikið innanríkismál okkar, eins og þessi hv. þm. vill vera láta, heldur beinlínis um samstarf að vörnum landsins. Það hlýtur að vera í okkar „interessu“, að þessar varnir séu á þann hátt, sem við getum unað við. Og sú skoðun hefur verið uppi áður fyrr, að það mætti losa sig við ýmsa starfsmenn af Keflavíkurflugvelli erlenda og láta íslenzka aðila taka þar upp starfið. Það hefur ekki verið um neitt slíkt rætt nú lengi, svo ég muni eftir, en þetta hefur verið uppi, og meira að segja láta Íslendinga taka að sér ýmsa þætti í gæzlu þeirri, sem varnarliðsmennirnir nú fara með. En annars vildi ég segja það, að ef hv. þm. vill fá nánari svör, þá á hann að bera fsp. fram á þinglegan hátt.