20.11.1968
Sameinað þing: 13. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2145 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af síðustu ummælum hv. þm. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé mjög skaðlegt viðskiptalífi þjóðar og raunar áliti hennar og lánstrausti út á við, ef stöðva þarf gengisskráningu og gjaldeyrisviðskipti meira en einn dag. Það vita allir, að til slíkra ráðstafana getur þurft að grípa á þeim degi, sem mjög mikilvægar ákvarðanir í gengismálum eða peningamálum eru teknar, svo sem t. d. gengisbreyting er. Og mér er fullvel kunnugt um það, að hinar þjóðir Norðurlandanna og helztu viðskiptaþjóðir okkar í Vestur-Evrópu líta alveg sömu augum á málið. Í raun og veru ber mjög að forðast undir slíkum kringumstæðum, að það þurfi nokkuð að loka gjaldeyrisbönkum, og slíkar ákvarðanir sem þetta eru gjarnan teknar um helgi, þ. e. a. s. meðan á venjulegu helgarfríi peningastofnananna stendur. Um það mætti nefna fjölmörg dæmi einmitt til staðfestingar því, að það er almenn skoðun, að mjög óhagkvæmt sé og mjög óhagstætt, sérstaklega landinu sjálfu og þess eigin utanríkisviðskiptum, ef stöðva þarf jafnmikilvægan þátt þjóðarbúskaparins eins og viðskipti með erlendan gjaldeyri og tollafgreiðslur á vörum eru. Þess vegna var það með góðri samvizku og í sterkri trú á, að verið væri að þjóna heildarhagsmunum landsins og hagsmunum íslenzks viðskiptalífs og þar með íslenzkra neytenda, þegar farið var fram á það við stjórnarandstöðuna í sambandi við gengisbreytinguna síðustu hér hjá okkur, að gjaldeyrisbankarnir þyrftu ekki að vera lokaðir nema í einn dag. Þannig stendur líka á þeim ummælum mínum áðan, að ég vonaðist eindregið og einlæglega til þess, að þessi kreppa í Vestur-Evrópu leystist í dag, í kvöld, þannig að bankar í viðskiptalöndum okkar tækju aftur upp gengisskráningu í gjaldeyrisviðskiptum í fyrramálið og mundum við þá að sjálfsögðu gera það sama. Munurinn á aðstæðum um daginn og aðstæðum nú er sá, að þá höfðum við sjálfir í hendi okkar, hversu lengi gjaldeyrisbankarnir skyldu verða lokaðir. Við höfðum það í hendi okkar, að truflunin þyrfti ekki að vara nema í einn dag. Þess vegna var það, sem við forsrh. fórum fram á það við leiðtoga stjórnarandstöðunnar, að þeir féllust á það að afgreiða þetta frv. með nokkuð sérstökum hætti, sem ég skal fúslega játa, að gert var, og ég skal enn fremur taka það skýrt og ljóst fram, að við metum það mjög mikils við leiðtoga stjórnarandstöðunnar og stjórnarandstöðuna yfirleitt, að hún skyldi verða við þessum óskum okkar, og teljum, að með þessari sameiginlegu afstöðu hefðum við þjónað heildarhagsmunum landsins á mjög mikilvægu sviði og þar með íslenzku viðskiptalífi og íslenzkum neytendum. Nú stendur allt öðru vísi á. Þessari lokun er þröngvað upp á okkur erlendis frá, ef ég má svo til orða taka. Hún er óhjákvæmileg afleiðing hjá okkur af ráðstöfunum erlendra ríkisstj. og erlendra seðlabanka. Við verðum að sjálfsögðu að hafa hér lokað jafnlengi og þeir halda sínum viðskiptum lokuðum. Það viðurkenndi hv. þm. mér til mikillar ánægju og af kunnri sanngirni, að ekki væri hægt að ætlast til þess, að við hér norður í nyrztu höfum héldum áfram gjaldeyrisviðskiptum, þegar allar hinar þjóðir Norðurlanda og helztu þjóðir í Vestur-Evrópu treystu sér ekki til þess að halda uppi gjaldeyrisviðskiptum. Í þessu efni verðum við að játa það eins og er, að við verðum að fara eftir ákvörðunum annarra. Við verðum að hegða okkur eins og allar okkar helztu viðskiptaþjóðir í Vestur-Evrópu hegða sér. Það er því ekki á okkar valdi í þessu tilfelli, hversu lengi þessi stöðvun gjaldeyrisviðskipta og frestun gengisskráningar varir. En hitt vildi ég segja að síðustu og leggja á það mjög sterka áherzlu, að ég veit það af viðtölum í morgun, að á það er lögð megináherzla, að kreppan sé til lykta leidd í dag einmitt vegna þess, hversu stórfellt tjón það er talið, ef stöðva þarf gjaldeyrisviðskipti lengur heldur en í einn dag eða einn sólarhring. Og það get ég sagt, að hér munu gjaldeyrisviðskiptin verða tekin upp um leið og eðlileg gjaldeyrisviðskipti komast á í viðskiptalöndum okkar í Vestur-Evrópu.