07.02.1969
Sameinað þing: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2148 í B-deild Alþingistíðinda. (2194)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hafði nú í rauninni búizt við því, að hæstv. ríkisstj. flytti Alþ. hér að þessu sinni skýrslu um það alvarlega ástand, sem nú er upp komið í landinu og allir þekkja til. Alþ. hefur ekki setið að störfum nú um alllangan tíma og þennan tíma hefur margt alvarlegt gerzt í landinu, sem er þess eðlis, að það er í rauninni varla hægt að hefja hér þingstörf, án þess að að þessum málum sé vikið.

Við vitum, að þær ráðstafanir, sem samþykktar voru í efnahagsmálum dagana rétt fyrir þingslitin eða fyrir jólin, voru samþykktar hér á Alþ. ég hygg með þá trú frá hálfu þeirra, sem að löggjöfinni stóðu, að með þeirri löggjöf, sem þar var sett, mætti búast við því, að fjör færðist í atvinnuvegi landsmanna, og eins og sagt var: Öll hjól framleiðslunnar færu af stað. Við Alþb.-menn vöruðum ríkisstj. við því að setja þau lög, sem þá voru sett og gripu jafnmikið inn í launakjör þýðingarmikilla starfsstétta í landinu og raun varð á, og ég man eftir því, að ég hafði þau orð hér, að mér þætti langsennilegast, að afleiðingarnar yrðu þær, að það kæmi til alvarlegrar stöðvunar í framleiðslulífi landsins, ef þessi lög yrðu sett. Reynslan hefur nú sýnt það, að aðvaranir okkar Alþb.-manna voru ekki ástæðulausar. Nú hefur þegar farið þannig, að svo til allur fiskiskipafloti landsmanna hefur stöðvazt á hávetrarvertíðinni nokkuð á annan mánuð. Auðvitað vita allir það, að hér er um gífurlegt tjón að ræða fyrir þjóðarbúið sem heild, og skiptir þar ekki höfuðmáli, hver veldur því, að svona hefur til tekizt. En þó held ég, að enginn vafi leiki á því, að ástæðan til þess, að þessi stöðvun hefur orðið, liggur í því, að hér voru samþykkt lög á Alþ., sem slitu í sundur gerða samninga og hlutu í rauninni að leiða til átaka um kjaramálin. Við Alþb.-menn teljum, að það hvíli á hæstv. ríkisstj., vegna þess hvernig til hefur tekizt, hvíli á henni sérstök skylda að reyna að beita sér fyrir því, að lausn fáist á þessari deilu, og þá ekki síður á hinu, að ekki þurfi þá að koma til nýrrar deilu þegar að þessari lokinni, þ. e. a. s. deilu um það stórmál, hvort greiða skuli vísitöluuppbætur á laun eða ekki, en eins og kunnugt er hafði hæstv. ríkisstj. tilkynnt það hér á Alþ., að hún hygðist beita sér fyrir þeirri reglu, að vísitöluuppbætur yrðu ekki greiddar á laun. Hins vegar liggur það fyrir, að verkalýðshreyfingin í landinu hefur gert um það samþykkt, að hún muni ekki una við slíkar reglur, og bendir þá allt til þess, að það geti skollið hér á ný verkfallsalda út af því ágreiningsmáli um næstu mánaðamót, ef ekki verður komið í veg fyrir það í tíma. Mér sýnist því, að við stöndum frammi fyrir svo alvarlegum málum í þessum efnum, að það sé full ástæða til þess, að hæstv. ríkisstj. geri Alþ. grein fyrir því, hvernig er ástatt um þessi mál og hvaða leiðir hún hugsar sér að reyna að fara til þess að bægja þessum voða frá. Mér hefði einnig fundizt full ástæða til þess, að ríkisstj. hefði skýrt hér Alþ. strax í upphafi þessa starfstímabils nokkuð frá því, hvað er að gerast varðandi atvinnuleysismálin. Það hefur nokkuð verið skýrt frá þeim aðgerðum í blöðum, en mjög ónákvæmt á allan hátt. Frá því hefur verið skýrt, að ætlað sé að veita út í atvinnulífið um 300 millj. kr. En engar upplýsingar hafa komið fram um það, hvernig á að afla þessa fjár, og auðvitað hlýtur þetta að vera málefni Alþ., sem ástæða er til fyrir ríkisstj. að láta ræða hér á þingi.

Það skiptir auðvitað miklu máli, hvernig að því er staðið að reyna að leysa slíkan vanda, sem nú er upp kominn. Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. gefi Alþ. mjög fljótlega skýrslu um þessi mál og um það, hvað hún hyggst fyrir í þessum efnum, og það var aðalerindi mitt hér upp í ræðustólinn að fara fram á það, að það yrði gert.

En fyrst ég er hér kominn, þykir mér rétt að víkja aðeins að því í leiðinni, sem ég las í Morgunblaðinu í morgun, að ég og annar hv. alþm. hefðum haft hér afgerandi áhrif á samningafundi um þessa deilu í gær, og erum við bornir í þeim efnum allþungum sökum. Ég veit ekki hvað mig áhrærir um annað tilefni en það, að ég var hér staddur í alþingishúsinu í gær klukkan fjögur á blaðamannafundi, sem minn flokkur hélt þar, og þegar þessum blaðamannafundi, þar sem m. a. voru staddir fulltrúar frá Morgunblaðinu, var lokið, gekk ég eins og leið liggur niður stigana, hitti að vísu fyrir mér á „Kringlunni“ í örfáar mínútur forstjóra Landssambands ísl. útvegsmanna, Sigurð Egilsson, og yrti á hann og hann á mig örfáum orðum, og síðan gekk ég út úr þinghúsinu og var hér ekki meir. En tilefnið verður svo það, af því að ég hafði sézt hér í þinghúsinu daginn fyrir þingsetningu, að ég væri hér að verki og hefði stöðvað hér alla samningagerð. Ég vil aðeins segja það í tilefni af þessu, að þetta er auðvitað dæmi um alveg furðulega ósvífna blaðamennsku. En ég vil vænta þess, að þeir aðilar, sem einhver áhrif geta haft á það, hvernig til tekst með lausn þeirra alvarlegu deilumála, sem við stöndum nú frammi fyrir, að þeir reyni að taka á þessum málum á annan hátt en þann að reyna ýmist að sakfella þennan eða hinn fyrir það, að stöðvunin skuli enn vera. Það þýðir auðvitað ekki annað í þessum efnum en að gera sér fulla grein fyrir því, að það hafa verið sett hér lög á Alþ., sem aðilar vinnumarkaðarins urðu að taka tillit til. Samningar, sem voru í fullu gildi, voru slitnir í sundur með lögum, og síðan hafa þessir aðilar á vinnumarkaðinum ekki komið sér saman.

Ég endurtek svo þá beiðni mína til hæstv. ríkisstj., en ætlast ekki til þess frá minni hálfu, að hér hefjist neinar almennar umræður um þessi mál. En ég óska eftir því, að hæstv. ríkisstj. flytji Alþ. hið fyrsta skýrslu sína um þessi mál og hvað hún hyggst fyrir til þess að bægja þeirri miklu hættu frá dyrum almennings í landinu, sem nú blasir við og allir vita um.