07.02.1969
Sameinað þing: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2152 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það var nú satt að segja ekki meining mín að fara að taka hér þátt í umr. utan dagskrár um eitt eða neitt málefni, en þegar ég var að leggja af stað heiman frá mér, þar sem ég bý suður í Hafnarfirði, og fékk samflot með einum þm., sem þar á heima, þá fór hann að minnast á, að það væri aldeilis frétt í Morgunblaðinu af afrekum mínum. Þetta kom nú allt flatt upp á mig, því að ég vissi ekki til þess, að ég hefði unnið til þess hina síðustu daga að komast á forsíðu Morgunblaðsins. Og þegar ég kom svo hingað niður í þinghús, varð þetta blað fyrir mér, Morgunblaðið, með þessari stóru baksíðufrétt um það, að framsóknarmenn og kommúnistar reyni að spilla sem allra mest fyrir samkomulagi í þeirri deilu, sem nú er til lausnar hjá sáttasemjara ríkisins. Og sérstaklega eru tveir þm. bendlaðir við þetta athæfi, að reyna að spilla þessum samningum, og annar þeirra er hv. 4. þm. Austf. og hinn þm. er ég.

Nú ætla ég ekki, og hef kannske enga ástæðu til þess í sjálfu sér, að fara að standa hér upp og bera af mér sakir vegna þess, sem Morgunblaðið er að segja, því að augljóst er, að hér er um fullkomna fölsun að ræða og algeran tilbúning. Ég hygg, að það sé eins og hv. 4. þm. Austf. hefur skýrt frá og rétt er að sjálfsögðu skýrt frá hjá honum, að þá hafi hann átt hér lögmætt erindi í þinghúsið eins og fleiri þm., og þannig stóð á um mig í gær. Ég átti hér fullkomlega lögmætt erindi og var hér staddur í húsinu, kannske klukkutíma, við að skrifa bréf og hringja í nokkur símanúmer bæði hér í bænum og utan bæjar. Þetta er nú eitt af því, sem við þm. gerum hér gjarnan í þinghúsinu og teljum vera fullkomlega lögmæt erindi. Þar á meðal átti ég erindi inn í símaklefa okkar framsóknarmanna, sem er við hliðina á flokksherbergi okkar, og fór þar að sjálfsögðu inn og hafði þar nokkra viðdvöl. Jafnframt hef ég að sjálfsögðu kastað kveðju á og átt einhverjar viðræður við kunningja mína þarna í hópi samningamanna, og tel, að mér hafi verið það fullkomlega heimilt, og fóru þær viðræður allar fram vinsamlega og án alls áróðurs af minni hálfu og að sjálfsögðu án þess, að þeir væru þar neitt til þess að taka við fyrirskipunum frá mér. Enda vil ég taka það alveg skýrt fram, að mér er það persónulegt áhugamál og það er áhugamál framsóknarmanna yfirleitt, að þessi deila fari að leysast, og við gefum engar fyrirskipanir — hvorki ég sem einstaklingur né heldur Framsfl., — við gefum engar fyrirskipanir til samningamannanna, sem að þessu standa, og treystum þeim fullkomlega, á hvora hliðina sem þeir standa, til þess að leysa þessa deilu, og við treystum einnig sáttasemjara ríkisins til þess að leiða þessa deilu farsællega til lykta. Og við treystum því að sjálfsögðu, að þessir aðilar komi sér saman, og við munum ekki, hvorki sem flokkur né samtök né heldur sem einstaklingar, reyna að hafa þar nein spillandi áhrif á.