07.02.1969
Sameinað þing: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2153 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og öllum hv. alþm. mun kunnugt, er hér lokið fyrir nokkrum mínútum útifundi, sem haldinn var á Austurvelli til að mótmæla atvinnuleysi og kjaraskerðingu. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að kynna hv. alþm. ályktun, sem þessi fundur samþykkti og verður afhent formönnum þingflokkanna og er þegar komin í hendur nokkurra þeirra. Með leyfi forseta vil ég þá lesa þessa ályktun:

„Fjölmennur útifundur um atvinnumál, haldinn 7. febrúar 1969 að tilhlutan verkamannafélagsins Dagsbrúnar og Trésmiðafélags Reykjavíkur, samþykkir að senda Alþingi og ríkisstj. eftirfarandi ályktun:

Fundurinn telur, að það ástand, sem nú er orðið í atvinnu- og afkomumálum alþýðufólks, sé með öllu óviðunandi. Atvinnuleysið um allt land er nú orðið gífurlegt, og munu nú vera skráðir atvinnulausir um 5500 manns. Atvinnuhorfur fara enn versnandi og er augljóst, að margir þeir, sem enn hafa vinnu, standa frammi fyrir minnkandi atvinnu eða atvinnuleysi. Unga fólkið hefur þegar fengið að kenna á atvinnuleysi og skólaæskan orðið að búa við ónóga atvinnu á s. l. sumri. Þetta alvarlega ástand í atvinnumálum er að verða viðvarandi í mörgum greinum. Jafnhliða samdrætti á vinnumarkaði og minnkandi atvinnu almennt vex dýrtíðin í landinu hröðum skrefum, og þó er ætlazt til þess af stjórnvöldum, að launafólk taki á sig bótalaust sífellt hækkandi verðlag.

Stefnan í atvinnu- og efnahagsmálum hefur leitt til samdráttar í atvinnulífi og til ört vaxandi dýrtíðar. Hún hefur leitt til síendurtekinna árekstra á vinnumarkaði með dýrum afleiðingum fyrir þjóðarheildina. Frá þessari röngu og hættulegu stefnu verður að hverfa þegar í stað. Fundurinn krefst þess, að upp verði tekin ný stefna í atvinnumálum, stefna, sem miðar að því að tryggja fulla atvinnu og batnandi lífskjör. Fundurinn krefst þess, að þegar í stað verði samið við sjómenn um sanngjarnar kröfur þeirra og síðan hlutazt til um, að öll framleiðslutæki þjóðarinnar verði fullnýtt. Fundurinn krefst þess, að framkvæmdir verði þegar í stað hafnar um margvísleg þjóðhagslega hagnýt störf og þannig komið í veg fyrir atvinnuleysi. Fundurinn krefst þess, að innlendur iðnaður verði studdur til fullra framleiðsluafkasta, en dregið úr óþörfum og óeðlilegum innflutningi. Þegar verði samið við innlendar skipasmíðastöðvar um endurnýjun og eflingu fiskiskipaflotans. Þegar verði útvegað fjármagn til byggingarframkvæmdanna og nýjar atvinnugreinar verði studdar með eðlilegri fjárhagsfyrirgreiðslu. Fundurinn leggur áherzlu á, að hafizt verði handa um skipulega uppbyggingu atvinnulífsins um allt land og þannig lagður grundvöllur að stóraukinni þjóðarframleiðslu.

Fundurinn skorar mjög alvarlega á stjórnarvöld landsins að hverfa frá þeirri óheillastefnu að ætla enn að efna til stórátaka í þjóðfélaginu út af þeim sjálfsagða og sanngjarna rétti launafólks, að kaup sé vísitölutryggt. Fundurinn beinir því til alls launafólks í landinu, hvar sem það er búsett og í hvaða stétt sem það er, að standa saman í órofa fylkingu um hagsmunamál sín og kröfuna um nýja framkvæmdastefnu í atvinnumálum. Á þann hátt getur það sýnt, að það mun ekki lengur þola þá stefnu, sem leiðir til atvinnuleysis, dýrtíðar og versnandi lífskjara, en mun standa saman um rétt sinn og hagsmuni þjóðarheildarinnar. Treysti stjórnarvöld sér ekki til að verða við réttlátum kröfum vinnandi fólks um fulla atvinnu og mannsæmandi lífskjör, um breytta stefnu í atvinnu- og efnahagsmálum, krefst fundurinn þess, að ríkisstj. segi af sér, efni til nýrra kosninga og veiti þjóðinni rétt til þess að velja sér nýja forustu.“

Þetta er sú ályktun, sem þessi fjölmenni fundur samþykkti. Ég held, að það þurfi ekki, og ég ætla ekki hér að nota þetta tækifæri til þess að fara mörgum orðum um hana, en þessi tími til þessarar fundarboðunar var með hliðsjón af því, að hv. Alþ. hefur nú störf sín að nýju í dag, og reykvískir verkamenn vildu nota það tækifæri til þess að minna alþm. alla og stjórnvöld landsins á, að hér í landi er nú mjög alvarlegt ástand, ástand, sem hlýtur að leiða til alvarlegra hluta, ekki aðeins fyrir einstaklingana, sem nú verða fyrir barðinu á atvinnuleysinu og þeirri kjaraskerðingu, sem ekki aðeins fylgir því, heldur einnig vaxandi dýrtíð. Það er ekki aðeins fyrir þá einstaklinga, heldur fyrir þjóðarheildina, og hætt er við, að hér komi til meiri óróa, ef ekki verður þegar í stað brugðizt svo öfluglega við, að atvinnuleysi hverfi aftur úr sögunni. Við teljum, að við höfum svo mörg verkefni og mikil í okkar landi, og við eigum líka að hafa efni á því að geta unnið að þeim verkefnum. Og allra mesta sóun, sem fram fer, er að láta þúsundir vinnufúsra handa vera iðjulausar.

Fleiri orð vil ég ekki hafa um þetta mál núna, en leyfi mér að afhenda hæstv. forseta sameinaðs Alþingis þessa ályktun.