07.02.1969
Sameinað þing: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (2198)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég er því sammála, að ástandið nú er vissulega alvarlegt og gefur ástæðu til ráðstafana, sem ekki mega dragast úr hömlu. Ég lýsi ánægju minni yfir því, að þeir þm., sem hér hafa talað, hafa allir, með nokkuð mismunandi hætti þó, lýst áhuga sínum á því að leysa sjómannaverkfallið, sem nú stendur yfir. Og hvað sem skrifum dagblaða líður, og þar fer nú oft svo, að ekki eru allir ánægðir með það, sem um sjálfa þá er sagt, þá er það mjög ánægjulegt, að svo áhrifamiklir þm. sem hv. 4. þm. Austf. og hv. 2. þm. Norðurl. e. skuli hér hafa haft ástæðu til og fengið tækifæri til að lýsa sérstökum áhuga sínum á lausn verkfallsins. Ég veit, að þeir munu hvor í sínu lagi geta haft þar mikil áhrif, ekki sízt hv. 4. þm. Austf., og hans till. í þá átt munu vega þungt hjá sumum þeirra, sem þarna ráða úrslitum. Mér kemur ekki til hugar að halda því fram, að þeir hafi ekki áhuga fyrir lausninni, og vil því taka undir það, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, að við þurfum allir að sameinast um það hver á sínum vettvangi að stuðla að lausn verkfallsins.

Hann færði að því og byggði á blaðaummælum, að innan ríkisstj. væri einhver ágreiningur um þetta efni. Svo er ekki. Við höfum verið sammála í einu og öllu um afstöðu okkar til verkfallsins og við höfum gert það, sem við höfum megnað til þess að leysa verkfallið, beita áhrifum okkar bæði beint og óbeint til þess. Það er hins vegar ekki á okkar valdi, þar sem um frjálsan samningsrétt er að ræða, að fyrirskipa aðilum að ljúka verkfallinu. En ég tek undir það með hv. 3. þm. Norðurl. v., að svo virðist sem mun minna beri á milli heldur en e. t. v. hefði mátt vænta og sumir þm. sögðu fyrir hér um áramótin eða fyrir áramótin, að verða mundi. Þetta er vissulega ánægjulegt og sýnir, að almennari skilningur er á þeim örðugleikum, sem við er að etja, heldur en sumir höfðu ætlað. Það má segja, að því hörmulegra sé, að ekki skuli hafa tekizt að leysa þessa deilu. En sannleikurinn mun vera sá, að þar hafa fléttazt inn í óteljandi smáatriði, sem sum hafa hlaupið í hnút, og mönnum hefur þess vegna gengið seint að nálgast sjálfan aðalvandann. Ég vil enn treysta því, eins og ég hef vonað, kannske með óhæfilegri bjartsýni, að þetta mál leysist með frjálsu samþykki aðila. Ég tel ekki heppilegt, að við förum á þessu stigi að ræða einstök atriði málsins, enda er það í raun og veru ekki á okkar færi. Við höfum ekki þau gögn við höndina og upplýsingar, sem fram hafa komið hjá sáttasemjara í hans þolgóðu tilraunum um að finna hér lausn, er allir gætu fallizt á. En það er greinilegt, að nýtt átak þarf að gera til þess að reyna að leiða verkfallið til lykta sem fyrst. Sannast bezt að segja hygg ég, að það hafi hingað til nokkuð verkað á aðila, a. m. k. suma, að menn höfðu ekki ýkja mikla aflavon. Um það má þó ætíð deila, t. d. varðandi loðnuveiði fyrir utan Austfirði, svo að dæmi sé nefnt, en nokkuð mun þetta hafa verkað á aðila, en það er ljóst, að eftir því sem líður fram í þennan mánuð, þá á sú ástæða ekki lengur við. Hitt er svo misskilningur, sem hv. 4. þm. Austf. sagði, að verkfallið væri búið að standa nokkuð á annan mánuð, ef ég tók rétt eftir. Það var þó ekki fyrr en um miðjan janúar, sem verkfallið skall á. Það er nógu slæmt fyrir því, og hefur staðið lengur heldur en vonir okkar stóðu til, úr því að til verkfalls þurfti að koma. Það að kenna verkfallið löggjöfinni, sem sett var fyrir áramótin, er skoðun, sem menn vitanlega geta haft og að nokkru leyti er rétt, en ekki nema að nokkru leyti. Það er jafnvíst, að ef sú löggjöf eða einhver svipuð hefði ekki verið sett, hefði verið útilokað, að bátaflotinn kæmist á veiðar einfaldlega vegna þess, að allan fjárhagsgrundvöll vantaði. Og eins og ég segi, ég hef ekki viljað trúa öðru heldur en málið leystist friðsamlega vegna þess, að mér sýnist ekki bera ýkja mikið á milli. En nokkuð mun það, auk þess sem ég hef áður drepið á, valda örðugleikum, að sumir óttast, að ef komizt er yfir einn þröskuld, muni öðrum skjóta upp áður en langt um líður, vegna þess að vinnubrögðin hafa verið þau að reyna ekki að fá heildarmynd heldur taka hvert atriði út af fyrir sig.

Þetta er atriði, eins og ég segi, sem við getum ekki sagt, að sé rangt eða öðru vísi að farið en skyldi. Það er staðreynd, að svona hefur verið farið að, og við hljótum allir og ég fagna því mjög, að við viljum allir af einlægni reyna að leysa þessa deilu.

Jafnframt get ég tekið undir það, sem var upphaf þessara umr., að mér þykir eðlilegt, að hér fari fram áður en langt um líður almennar umr. um efnahagsástand og horfur, atvinnumál, hvort mönnum þykir heppilegra að hafa það í sambandi við till., sem fram eru fluttar, eða frv., sem fyrir liggja, við skulum segja, breytingin á atvinnuleysistryggingalögunum gefur strax formlegt tilefni til þess að taka upp almennar umr., ef menn vilja, eða hvort menn koma sér saman um að hafa allsherjarumr. í framhaldi af skýrslugjöf ríkisstj. eða einhverri almennri tillögugerð. Þetta finnst mér við geta skoðað betur og ég mundi telja það hollt fyrir alla, bæði fyrir þingheim og fyrir landslýð, að slíkar almennar umr. gætu farið fram sem allra fyrst, og mun sízt undan þeim skorast. Hitt vitum við, að venjan hefur verið sú á fyrsta degi eftir þinghlé, svo langt sem þetta, að þá hafa menn ætlað sér tíma til flokksfundarhalda. Svo mun einnig vera ráðgert í dag og nauðsynlegt, að menn beri þar saman bækur sínar. En einhvern tíma í næstu viku mundi ég telja eðlilegt, að slíkar umr., sem hér hefur verið vikið að, færu fram eða a. m. k. væru hafnar. Af þeim sökum sé ég ekki ástæðu til þess að fara í umr. um efni málsins að þessu sinni. Það er auðvitað misskilningur frá okkar sjónarmiði, að það sé stefnu ríkisstj. að kenna, hið alvarlega ástand, sem hér er. Það eru annarlegar ástæður, okkur öllum Íslendingum, jafnt stjórnarandstæðingum sem stjórnarstuðningsmönnum óviðráðanlegar, sem hér hafa verið að verki, en umr. um slíkt tilheyra þeim efnislegu umr., sem hér var farið fram á, að ættu sér stað síðar, og skal ég þess vegna ekki hafa þessi orð lengri.