19.12.1968
Efri deild: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

98. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég er nú hv. 1. þm. Vesturl. ekki sammála um það, að það sé nú fyrst og fremst dýrtíðin, sem hafi valdið þessu, að bændur þurfi að flytja út landbúnaðarvörur, heldur sé það fyrst og fremst of mikil framleiðsla, og það er rétt að undirstrika það í þessu sambandi, að á undanförnum árum, það hefur verið kannske svolítið misjafnt, en það má segja almennt hefur það nú verið svo, að verið hafa mjög miklar niðurgreiðslur hér innanlands á verði landbúnaðarafurða, og þetta hefur leitt til þess, að neyzlan hér innanlands hefur verið í algjöru hámarki og ekki taldar neinar líkur á því, að það sé hægt að auka innanlandsneyzluna á mann í framtíðinni, þvert á móti má jafnvel búast við, að þróunin verði gagnstæð. Ég vil líka benda á það, að fyrir nokkrum árum síðan, ég man það nú ekki, hvað það var langt síðan, en það eru um 3– 4 ár, var skipuð sérstök sex manna nefndaf Stéttarsambandinu og Framleiðsluráði til þess að marka frambúðarstefnuna í landbúnaðarmálum, og m.a. sérstaklega taka afstöðu til þess, hvort Íslenzkur landbúnaður ætti fyrst og fremst að framleiða fyrir innanlandsmarkað, eða hvort það ætti verulega að hugsa um útflutning. Nú, þeir fóru til útlanda og söfnuðu einhverjum skýrslum um það, hvaða uppbætur og styrki landbúnaðurinn fengi hér í nágrannalöndunum og birtu þetta í landbúnaðarritunum hér. Síðan hefur þessi n. ekkert gert, það hefur ekkert frá henni heyrst, og þessi n. hefur algjörlega vanrækt sitt starf. Af því að hv. 1. þm. Vesturl. er nú áhrifamaður í samtökum bænda, þá vildi ég nú mælast til þess við hann, að hann ýtti nú við þessari n., svo að hún færi að skila áliti. Það er mál til komið.