03.03.1969
Efri deild: 53. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2162 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði, sem hv. 11. þm. Reykv. gerði hér að umtalsefni í seinni ræðu sinni og sem ég vildi víkja örfáum orðum að. Hann taldi, að það væri efnismunur á því, hvað væri samningur annars vegar og dómur hins vegar. Á þessu er vitanlega enginn efnismunur að því leyti, að samkv. reglunum um laun opinberra starfsmanna getur að sjálfsögðu B.S.R.B. samið um annað, ef það kýs, en dómur segir til um. Það er í fyrsta lagi. Í öðru lagi er nauðsynlegt, að það komi fram, að kjaradómi hefur hvað eftir annað verið breytt, þannig að þó að það hafi verið ákveðið svo, að kjaradómur skyldi gilda ákveðinn tíma, hefur jafnan kjaradómur verið endurskoðaður, ef breytingar hafa farið fram á samningstímabilinu. Og einmitt sá kjaradómur, sem vitnað er í af hv. þm., er breyting á eldri kjaradómi, og þessi breyting kom til vegna þess, að það voru sérstök vísitöluákvæði sett á s. l. ári. Hefði það ekki verið ákveðið með kjaradómi, hefðu þær greiðslur væntanlega orðið með öðrum hætti. Vitanlega hugkvæmdist rn. ekki að bera það fyrir sig, að það væri í gildi kjaradómur og þar af leiddi, að það ætti ekki að borga þessa vísitölu. Það kom mér aldrei til hugar. Þannig að hér er verið að hengja sig í algjörlegar formlegar ástæður hjá hinni ágætu stjórn B.S.R.B., sem að vísu er skiljanlegt vegna þess, að kjaradómur nú er í þeirra þágu, en kjaradómur í fyrra, sem var breytt, var andstæður þeirra hagsmunum. Þetta er einungis spurning um mat hagsmuna og mismunandi viðhorf af þessum sökum, en þetta taldi ég aðeins rétt að kæmi fram vegna þess, að það er ekkert óeðlilegt, þetta erum við stöðugt að gera, að breyta kjaradómi, honum hefur bara hingað til verið breytt í aðra átt. Nú hefur það komið til, að það hefur verið óskað, a. m. k. að sinni, að breyta honum í hina áttina, fara hina leiðina, en það hafa hinir ágætu menn, sem að því máli standa, ekki viljað fallast á. Þetta er í rauninni það eina efnislega, sem hér er um að ræða.