16.04.1969
Sameinað þing: 40. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2167 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár að þessu sinni vegna atburðar, sem gerðist í morgun. Það var frá því sagt í hádegisfréttum, að stór, bandarískur kafbátur hefði siglt inn í Hvalfjörð og í fylgd með honum var dráttarbáturinn Magni og varðskipið Albert.

Því hefur verið haldið fram af stjórnarvöldunum, að fullyrðingar okkar Alþb.-manna um það, að verið væri að gera Hvalfjörð að flotastöð fyrir herskip og kafbáta Bandaríkjanna og annarra NATO-ríkja, svona eftir því, sem þörf þætti, og það engu síður á friðartímum heldur en ef til styrjaldar kæmi, þær fullyrðingar hefðu ekki við nein rök að styðjast. Þarna væru að vísu til staðar legufæri, múrningar, sem e. t. v. mætti nota til þess að binda kafbáta og hin stærri herskip, — allar skilgreiningar stjórnarvalda í þessu sambandi hafa verið næsta óljósar, — en hitt kæmi ekki til mála að gera Hvalfjörð að flotastöð á friðartímum.

Heimsókn hins bandaríska kafbáts í morgun sýnir hins vegar, að við Alþb.- menn höfum haft á réttu að standa. Eftir þessa heimsókn verður því ekki á móti mælt, að Hvalfjörður er flotastöð. Heimsóknin táknar í raun og veru opinbera yfirlýsingu um það gagnvart öllum heiminum, og allar líkur eru á, að hún tákni upphaf þess, að bandarísk herskip og kafbátar fari að gera sig þarna æ heimakomnari, unz svo yrði komið að lokum, sem við Alþb.-menn höfum alltaf verið að vara þjóðina við, að Hvalfjörður yrði ein helzta flotastöð Bandaríkjanna, og þar með væri upp kominn í næsta nágrenni höfuðstaðarins viðbúnaður, sem mundi kalla yfir hann enn þá ægilegri hættu, ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi, heldur en sá hættustaður, sem þegar er fyrir í næsta nágrenni Reykjavíkur, þ. e. a. s. Keflavíkurflugvöllur.

Raunar er margt fleira, sem bendir til þess, að Bandaríkin og NATO hyggist nú færa sig upp á skaftið hér uppi á okkar landi og við strendur þess. Grunsamlegur er vægast sagt sá áróður, sem hernámsblöð og útvarp og einkum sjónvarp hafa rekið að undanförnu fyrir NATO og studdur hefur verið oft hinum fáránlegustu lýsingum á því, að Rússar séu að brugga okkur launráð með flotaæfingum eina 1000 km suður í Atlantshafi o. fl., og má segja, að tilraun hafi verið gerð til þess að vekja upp aftur Rússagrýluna í öllu sínu veldi, og helztu forystumenn NATO hafa verið látnir koma fram í íslenzku sjónvarpi til þess að þjarma sérstaklega að okkur Íslendingum í krafti þessarar grýlu, skelfa okkur, villa um fyrir okkur og rugla dómgreind okkar. Slík herferð hefur oft áður verið upp tekin, þegar stjórnarvöldin hafa verið að undirbúa einhverjar stóraðgerðir til aukins hernaðarbrölts og aukinna ítaka Bandaríkjamanna hér á landi og þegar talið er nauðsynlegt að skapa það sálarástand með þjóðinni, að hún sætti sig við ósköpin, og sannarlega ekki að ástæðulausu, að hjá mönnum vakni grunsemdir um, að eitthvað slíkt sé nú í aðsigi.