16.04.1969
Sameinað þing: 40. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2168 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Svo sem hv. alþm. er kunnugt, er utanrrh. lasinn um þessar mundir og gegnir ekki störfum á Alþ. og mun ekki gera næstu vikur. Svo sem allir vita, hafa ráðh. viðtalstíma á miðvikudagsmorgnum, og ég var við þau störf í morgun frá 9-1 og heyrði því ekki hádegisfréttir um þann atburð, sem hv. þm. hefur gert að umtalsefni, og auk þess hef ég ekkert samband haft við utanrrn. í morgun né heldur í matartímanum. Ég get því engar upplýsingar gefið um þann atburð, sem hv. þm. gerði að umræðuefni, umfram það, sem kann að hafa verið frá greint í fréttum ríkisútvarpsins. Hins vegar er það alkunna, að miklar skipaferðir hafa verið umhverfis Ísland nú undanfarið, og hefur það ekki dulizt neinum, sem með málum hefur viljað fylgjast. Ég get og bætt því við, að ég veit ekki betur en ýmis íslenzk skip hafi fengið afgreidda olíu úr einmitt sömu tönkunum og mér skilst, að hinn erlendi kafbátur hafi fengið afgreidda olíu úr í morgun. En ég skal með ánægju afla frekari upplýsinga um það mál, sem hér er um að ræða, tel það bæði sjálfsagt og skylt, og skal láta hv. þm. þær upplýsingar í té og þingheimi öllum, ef eftir því er sérstaklega óskað.