19.12.1968
Efri deild: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

98. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Þó hér séu nú orðnar langar umræður og nokkuð skemmtilegar, þá vil ég aðeins gera eina aths. við síðustu orð hv. 1. þm. Vesturl. vegna þess, að hann sagði, að dýrtíðaraukningin væri aðalorsökin í erfiðleikunum við útflutninginn. Það er ekki langt síðan, að ég hlustaði á ágætt erindi í búnaðarþættinum, ég man nú ekki eftir hvaða ráðunaut það var, ég held Agnar Guðnason, en þar rakti hann erfiðleikana á útflutningi á dilkakjöti til Bretlands í mjög góðu erindi, sem ætti sannarlega að birtast víðar, en hann drap einmitt á orsökina. Brezkur landbúnaður er rekinn, að því er hann sagði, með allt að 70% af kostnaði frá ríkinu. Við þurfum að keppa á þessum markaði. Það er auðvitað alveg útilokað, að við náum þess vegna mjög háu söluverði þar. Við verðum að sætta okkur við það markaðsverð, sem þar ríkir, með lágu útflutningsverði héðan. Hins vegar skal ég taka undir það, að óstöðugt verðlag hér heima, hækkandi framleiðslukostnaður, þrengir að landbúnaðinum til að selja á slíkan markað. En það er engan veginn höfuð­ orsökin a.m.k. eins og þessi ágæti ráðunautur lagði það fyrir. Hann var með fleiri dæmi. Ég vil bara, að þetta komi skýrt fram, vegna þess að það er erfitt að selja á brezka markaðinn okkar ágæta kjöt. Auk þess eru vaxandi kröfur um eftirlit í sláturhúsum og heilbrigðisfrágang, sérstaklega á bandaríska markaðnum, og kostnaðurinn hér heima hefur orðið verulega meiri, vegna þess að við höfum orðið að mæta mjög vaxandi kröfum um hollustuhætti og frágang og hreinlæti í sláturhúsum. Þetta er mikið vandamál, ég skal taka undir það. En ég vil lýsa þeirri skoðun minni, að ég tel eðlilegast, að megnið af þessum gengismismun svo kallaða, sem er auðvitað allt annars eðlis í sjálfu sér en hjá sjávarútveginum, þar sem um verulegar uppbætur á þessar afurðir er að ræða, að stofnfjársjóðir og þeir sjóðir, sem hjálpa bændum til að endurskipuleggja sinn rekstur, t.d. í sláturhúsum og frystihúsum og þar fram eftir götunum, fái verulega góða fyrirgreiðslu út úr þessu.