30.04.1969
Sameinað þing: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2171 í B-deild Alþingistíðinda. (2214)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mig langar til að beina ákveðinni spurningu til ríkisstj. og þá fyrst og fremst til hæstv. fjmrh. Spurningin er á þessa lund: Hvernig hyggst ríkisstj. haga launagreiðslum til starfsmanna ríkisins um þessi mánaðamót og framvegis? Ætlar hún að fara eftir gildandi kjaradómi eða ætlar hún að halda uppteknum hætti og synja starfsmönnum ríkisins um þá uppbót, sem þeim ber samkv. kjaradómi frá 21. júní 1968? Það er ástæða til þess að spyrja þessarar spurningar nú, þar sem kjaradómur hefur vísað á bug kröfu fjmrh. um endurskoðun á ákvörðunum kjaradóms samkv. 7. gr. kjarasamningalaganna.

Ég vona, að þessi spurning sé skýr. Málið er þannig vaxið, að ríkisstj. hlýtur að hafa gert sér fulla grein fyrir því, hvernig við því eigi að snúast, og þess vegna álít ég, að hæstv. fjmrh. muni veitast auðvelt að svara þessari spurningu nú fyrirvaralaust og án þess að hún hafi verið skriflega fram borin.

Það má aðeins minna á það hér, að laun starfsmanna ríkisins eru ákveðin með kjarasamningum eða, ef kjarasamningar ekki takast, þá með gerðardómi, ákvörðun kjaradóms. Yfirleitt hefur það nú farið þannig í sambúðinni við ríkisstarfsmenn, að samningar hafa ekki tekizt, heldur hafa launin yfirleitt verið ákveðin með kjaradómi, og þannig var það síðast. Þau voru ákveðin 21. júní 1968 með kjaradómi. Og um kjaradóm gilda þau ákvæði samkv. lögum, að hann gildir í tvö ár, þó þannig, að miðað er við áramót. En í tvö ár gildir sú ákvörðun, sem kjaradómur hefur tekið, nema breyting sé gerð á ákvörðunum hans með þeim hætti, sem segir í 2. mgr. 7. gr. kjarasamningal. nr. 55/1962. Til þess að breyting verði gerð á kjaradómi eða kjarasamningi, verða tilteknar forsendur að vera fyrir hendi, en þegar þær forsendur eru fyrir hendi, þá getur hvor aðili sem er krafizt endurskoðunar á kjaradómi. En þær forsendur, sem þurfa að vera fyrir hendi, til þess að breyting verði gerð á ákvörðun kjaradóms, eru þær, að almennar launabreytingar hafi átt sér stað í landinu, frá því að kjaradómur var upp kveðinn.

Nú er það öllum hv. þm. kunnugt, að hæstv. fjmrh. leit svo á, að eftir að vitneskja barst um það, að atvinnurekendur mundu ekki greiða vísitöluuppbót á laun eftir 1. marz í samræmi við fyrri samninga, þá fór hann þess á leit við fyrirsvarsmenn opinberra starfsmanna, að ákvæði kjaradóms væru tekin til endurskoðunar. Þeirri málaleitan var hafnað af hálfu kjararáðs á þeim grundvelli, að ekki væru fyrir hendi skilyrði þau, sem greinir í 7. gr. kjarasamningalaganna. Síðan fór svo hæstv. fjmrh. þess á leit, að kjaradómur tæki málið til meðferðar, og gerði þá kröfu, að ákvæðum kjaradómsins yrði. breytt, og lét vera að greiða þá uppbót á laun þeirra ríkisstarfsmanna, sem rétt eiga á uppbót, hinn 1. marz s. l. Hefur svo staðið síðan, að því er ég bezt veit, að þeir starfsmenn ríkisins, sem rétt eiga á vísitöluuppbót, samkv. ákvæðum kjaradómsins frá í fyrra, hafa ekki fengið hana. Og þetta mál var af ríkisstarfsmanna hálfu borið undir félagsdóm og talið rof á kjaradómi. Þar hafði fjmrh. þá fyrst uppi þá kröfu, að þetta mál heyrði ekki undir félagsdóm. Þeirri kröfu var hrundið, en málið mun enn vera að þessu leyti til hjá félagsdómi. En jafnframt var málið borið undir kjaradóm, og kjaradómur hefur nú fjallað um það í nokkuð langan tíma, en nú hefur þó komið dómur hans, og hann er á þá lund, að málinu var vísað frá. Þegar það liggur fyrir, þá get ég ekki séð neina réttlætanlega ástæðu til þess að synja að greiða starfsmönnum ríkisins þá uppbót, sem þeim ber samkv. gildandi kjarasamningi. En ég undirstrika, að það eru engan veginn allir starfsmenn ríkisins, sem þá uppbót eiga að fá, vegna þess að eins og öllum er kunnugt er hér um skerta vísitölu að ræða eða takmarkaða, og ég hygg þess vegna, að ég geti örugglega sagt það um sjálfan mig t. d., að ég hef alls engra hagsmuna þarna að gæta, og svo er um þá, sem eru í hinum hærri launaflokkum. En ég lít svo á, að hinir eigi lagalegan rétt á því að fá þessa uppbót, því að kjaradómurinn heldur gildi þangað til honum hefur verið breytt með þeim hætti, sem í lögunum segir. Og ég hygg, að hver og einn einasti starfsmaður ríkisins, sem undir þetta kemst, gæti farið þá leið, ef hann kysi, að fara í mál við ríkið og heimta eftirstöðvar launa sinna.

Sú röksemd, sem hæstv. fjmrh. hefur borið fram fyrir kröfu sinni, fær ekki staðizt, vegna þess að það er alls ekki hægt að segja, að neinar þvílíkar almennar launabreytingar hafi átt sér stað í landinu, að þau skilyrði séu fyrir hendi til þess að kjaradómur taki launaákvörðun sína til endurskoðunar, því að vitaskuld verður kröfu um launabreytingar og samningaumleitunum um launabreytingar og deilu um laun á engan hátt jafnað til þess, að launabreytingar almennar hafi þegar átt sér stað. Þá mætti allt eins snúa dæminu við og þá býst ég við, að flestir sæju, hversu fjarstætt er, þ. e. a. s. ef deilan nú lægi fyrir með öðrum hætti en hún gerir og verkamenn hefðu í stað þess eða launamenn þeir, sem eiga í deilunni, hefðu í stað þess að fara fram á að óbreytt launaákvörðun frá fyrri samningum gilti, þá hefðu þeir gert kröfu um hækkun upp á 25–30% og það hefði kannske ekki verið orðið strax við þeirri kröfu og það hefði kannske deila um þá kröfu staðið í tvo mánuði. Ég býst ekki við, að neinum hefði dottið í hug, að opinberir starfsmenn gætu strax við upphaf þeirrar deilu farið til kjaradóms og farið fram á það við hann, að hann endurskoðaði ákvörðun sína um laun, vegna þess að fram væru komnar svo og svo miklar kröfur um launahækkanir. Slíkri kröfu yrði vitaskuld vísað frá vegna þess, að það lægi þá ekkert fyrir um það, hver endir yrði á þeirri deilu. En alveg eins stendur á í dag um þá deilu, sem yfir stendur. Það veit enginn og enginn okkar, hvernig þeirri deilu lyktar, og sú niðurstaða, sem í þeirri deilu kann að fást, getur því aldrei orðið röksemd nú á þessu stigi fyrir breytingum á ákvæðum kjaradóms. Það verður að bíða og sjá hvað setur og sjá, hvernig samningar takast um það efni, hvort þeir leiða til almennra launabreytinga eða ekki, og þá fyrst er ástæða til þess að taka það til athugunar eða þá fyrst getur kjaradómur tekið það til skoðunar, hvort ástæða sé til þess að breyta fyrri ákvörðunum. En hvernig svo sem á þetta er litið, þá er það ljóst, að eftir að kjaradómur hefur vísað þessu máli frá sér, þá er óvefengjanlega í gildi sá kjaradómur, sem upp var kveðinn 21. júní s. l., og í samræmi við hann á að greiða starfsmönnum ríkisins laun. Framhjá því verður aldrei komizt. Og ég á bágt með að skilja þá ákvörðun, sem ríkisstj. hefur tekið í þessu máli að undanförnu. Ég vona, að hún hafi skipt um skoðun, eftir að kjaradómur nú liggur fyrir, frávísunardómur kjaradómsins. Afstaða ríkisstj. er ekki að mínum dómi fallin til þess að greiða fyrir lausn þeirrar alvarlegu vinnudeilu, sem nú stendur yfir. Ég held þvert á móti, að það mundi vera spor í rétta átt og greiða fyrir lausn þessarar alvarlegu vinnudeilu, sem nú er, að ríkisstj. héldi sig við lög að þessu leyti og greiddi samkv. ákvæðum kjaradómsins, sem upp var kveðinn í fyrra, nokkru eftir að þeir kjarasamningar voru gerðir, sem mér skilst, að launþegar almennt hafi viljað og vilji sætta sig við, að áfram gildi. En að svo vöxnu máli skal ég ekki fara nánar út í þá almennu vinnudeilu, þó að hún sé náttúrlega það mál, sem nú skyggir á öll önnur, og ekki væri ástæðulaust fyrir Alþ. að láta nokkuð til sín taka.

En ég ætla að halda mig við þessa spurningu: Hvernig hyggst ríkisstj. nú eftir uppkvaðningu kjaradómsins haga launagreiðslum til opinberra starfsmanna?