30.04.1969
Sameinað þing: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2174 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Mér er fullkomlega ljúft að svara fsp. hv. 3. þm. Norðurl. v., en skal hins vegar ekki fara langt út í að ræða þetta mál efnislega hér utan dagskrár, eins og hann gerði, vil aðeins fara um það örfáum orðum, hvernig þetta er til komið, og þarf ekki að taka langan tíma til þess. Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að þegar vitað var, að kjarasamningar féllu úr gildi á hinum almenna launamarkaði og miðað yrði við, a. m. k. um óvissan tíma, greiðslu launa í samræmi við vísitölu þá, sem greidd var á febrúarlaun, þá þótti ríkisstj. eðlilegt, að launagreiðslum til opinberra starfsmanna yrði hagað í samræmi við það, sem grundvallaratriði kjarasamningalaganna gera ráð fyrir, en svo sem öllum hv. þdm. mun kunnugt, er það meginefni löggjafarinnar um kjaramál opinberra starfsmanna, að þeir skuli á hverjum tíma bera úr býtum sambærileg kjör og greidd eru á hinum almenna launamarkaði í landinu. Þess vegna fór ég þess á leit sem farandi með umboð ríkisins gagnvart ríkisstarfsmönnum, að stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja féllist á það að fresta yrði greiðslu þeirra viðbótarvísitöluuppbóta, sem átti að falla til hinn 1. marz, og séð yrði, hvernig færi um þær kjaradeilur, sem væru í landinu, og var það þá skýrt tekið fram af minni hálfu, að vitanlega kæmi ekki til mála annað en opinberir starfsmenn yrðu gerðir skaðlausir af því og þeir fengju laun í samræmi við það, sem kjarasamningal. gerðu ráð fyrir, en ekki umfram það. Þessu var hafnað af ríkisstarfsmönnum algerlega, að þeir væru til viðtals um slíkt, og var þá farin sú eðlilega leið að undangenginni sáttatilraun að leggja þetta mál fyrir kjaradóm til meðferðar.

Ég skal fúslega játa það, að formlega séð má segja, að kjaradómur sé í gildi, og það hefur verið þar af leiðandi fullverjanlegt að greiða þessi laun. Hins vegar var það efnislega séð að minni hyggju algerlega óeðlilegt að greiða þessar launauppbætur eins og þá stóðu sakir. Ef til kæmi, að um það væri samið á sínum tíma, þá lá það ljóst fyrir, og það tilkynnti ég opinberum starfsmönnum, þá að sjálfsögðu yrðu þær bætur þeim fullkomlega greiddar. En hins vegar, ef svo færi, að laun yrðu með öðrum hætti, þá hlyti að koma til kröfu um endurgreiðslu af hálfu ríkisins á hendur opinberum starfsmönnum, og það þjónaði engu góðu. Opinberir starfsmenn völdu þann kostinn að vera ekki til viðtals um þetta mál, og ég skal ekkert orðlengja um það. Niðurstaðan varð sú, að fjmrn. stefndi málinu til kjaradóms, eins og lög gera ráð fyrir, og krafðist breytinga í samræmi við grundvallaratriði laganna og þá heimild, sem veitt er í 7. gr., ef breytingar verða á kjörum á samningstímabilinu.

Þetta mál hefur verið til meðferðar fyrir kjaradómi og hefur nú verið vísað frá dómnum. En það er mjög rík ástæða til að gera sér grein fyrir því, af hverju því er vísað frá dómnum. Því er alls ekki vísað frá dómnum vegna þess, að kjaradómur líti svo á, að efnislega séu ekki full rök fyrir þessari kröfu fjmrn., heldur vegna þess, að málið eða kröfugerðin sé, sem þeir segja, svo óljós, að það sé ekki hægt að dæma hana. Og þessi óljósa kröfugerð er í því fólgin, að krafa m. var þess eðlis, að það var farið fram á, að kjaradómur úrskurðaði, að vísitala febrúarmánaðar skyldi gilda á laun opinberra starfsmanna þangað til endanlega væri um það vitað, hvaða kjör yrðu ráðandi á hinum almenna vinnumarkaði. Það er þessi viðbót, þessi skilyrta kröfugerð, sem veldur því, að kjaradómur vísar málinu frá og telur, að ekki sé hægt að dæma málið á þessum grundvelli. Það er mál út af fyrir sig, hvað segja má um þennan dóm kjaradóms. Ég hef mínar skoðanir um það, en tel ekki viðeigandi að vera að ræða þær hér.

Ég held, að hér sé fyrst og fremst um að ræða það atriði, sem hlýtur að vera ágreiningsefni, en er að vísu að minni hyggju ekkert ágreiningsefni, hvort kjaradómur sé gerðardómur eða almennur dómstóll, því að kröfugerð lýtur nokkuð öðrum lögum, ef um gerðardóm er að ræða í stað almenns dómstóls. Og ástæðan til þess, að málinu er vísað frá, er sú, að hér sé um skilyrta kröfu að ræða, sem sé háð óljósum endalokum, ef svo megi segja, þannig að það sé í rauninni ekki hægt að dómtaka kröfuna með þessum hætti. Það er því nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að kjaradómur hefur alls ekki efnislega vísað frá því atriði, hvort það skuli verða við þeirri kröfu, að vísitala febrúarmánaðar skuli greidd eða ekki, og af þeirri ástæðu mun rn. að sjálfsögðu krefjast úrskurðar kjaradóms um það efni. Það getur verið, að það þurfi að leggja málið fyrir með þeim hætti, sem út af fyrir sig ég mundi ekki óska að þurfa að gera, en það er að gera kröfu til þess, að vísitöluuppbætur verði ekki greiddar út samningstímabilið. Það er ákveðin og formleg krafa, en sem auðvitað engum hefur dottið í hug að standa við, ef yrði launahækkun á þessu tímabili, þá auðvitað ættu opinberir starfsmenn að fá þær kjarabætur. En þetta verður að skoðast út frá formlegum ástæðum og það eru algerlega formlegar ástæður, sem valda því, að kjaradómur vísar þessu máli frá sér nú, en ekki vegna þess, eins og ég hef séð í sumum blöðum í dag, að með því sé slegið föstu, að ríkisstarfsmenn eigi rétt á því að fá vísitöluuppbætur greiddar með marzvísitölu. Af þessum sökum get ég einfaldlega svarað því, að uppbætur verða ekki greiddar nú um þessi mánaðamót, heldur mun rn. vísa málinu aftur til kjaradóms og gera kröfu til efnislegrar meðferðar þess.