30.04.1969
Sameinað þing: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2177 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir skýrt svar formlega séð. Það kom glöggt fram hjá honum, að ætlunin er að halda fast við þá stefnu, sem mörkuð hefur verið á undanförnum tveimur mánuðum, að greiða ekki vísitöluuppbót á laun opinberra starfsmanna lögum samkvæmt og samkv. því, sem kjarasamningur segir til um. Þó að svarið væri skýrt að þessu leyti til, verð ég á hinn bóginn að lýsa vonbrigðum mínum yfir því, að hann skuli gefa þetta svar. Hann lýsti, hæstv. ráðh., sinni afstöðu til málsins í upphafi og hvernig hann hefði hugsað um þetta, eftir að því hafði verið lýst yfir af hálfu atvinnurekenda, að þeir mundu ekki greiða uppbætur í samræmi við þann samning, sem þeir gerðu við launþega í marz s. l. ár. Og hann sagði og játaði það, að formlega séð væri það rétt, að kjaradómurinn væri í gildi og það hefði átt í raun og veru réttum lögum samkv. að greiða eftir honum, en þegar hann hefði haft hitt í huga, þá hefði sér ekki fundizt efnislega rétt að framkvæma þá ákvörðun.

Við þetta er nú það fyrst að athuga, að auðvitað er það matsatriði, hvað er efnislega rétt, þegar svona stendur á, eða réttara sagt, hvað er efnislega sanngjarnt. En í öðru lagi er það, að hvað sem því líður, þá er það ekki hæstv. ráðh„ sem á að meta það, hvort lög eða ákvörðun samkv. l. er sanngjörn eða sanngjörn ekki. Það er Alþ. og löggjafans að ræða það og breyta, ef óeðlilegt og ósanngjarnt er talið. En það liggur ekki í valdi ráðh. Hann á og er skyldur til að fara eftir og framkvæma lög, sem í gildi eru. Ef hann er óánægður með þau og telur þau ósanngjörn, þá á hann að fara þá sjálfsögðu leið að leita til Alþ. og löggjafans um breytingu á þeim lögum. En hann á ekki sjálfur að taka sér vald til þess að breyta l. eða skjóta þeim til hliðar.

Hæstv. ráðh. sagði, að l. um kjarasamninga væru byggð á þeirri hugsun, að opinberir starfsmenn bæru nokkuð það úr býtum, sem væri í samræmi við almennar launagreiðslur í landinu. Og rétt er það, að þetta er eitt, en aðeins eitt þeirra atriða, sem kjaradómur á að byggja ákvörðun sína á. Annað atriðið er t. d. það, að það er talað um hag þjóðarbúsins, hvað hagur þjóðarbúsins leyfi. Og það vill nú svo til, að það hafa átt sér stað hér almennar launabreytingar og af þeirri ástæðu fóru fyrirsvarsmenn opinberra starfsmanna í mál og leituðu til kjaradóms og óskuðu eftir hækkun á hans ákvörðun í samræmi við þær almennu launabreytingar, sem höfðu átt sér stað. En kjaradómur hratt þeirri kröfu, af því að hagur þjóðarbúsins leyfði það ekki, þannig að þetta atriði, sem hann nefndi, hæstv. ráðh., er ekki nema eitt af þeim atriðum, sem kjaradómi ber að hafa í huga við endurskoðun á ákvörðunum sínum. Hæstv. ráðh. taldi, að í þeim kjaradómi, sem nú hefði verið upp kveðinn, fælist ekki nein afstaða til þess, hvort hæstv. ráðh. hefði í raun og veru haft rétt fyrir sér eða ekki, þegar hann synjaði að greiða uppbót samkv. gildandi kjarasamningi, heldur byggðist frávísun málsins eingöngu á því, að kröfugerð hefði ekki verið nægilega nákvæm, og á því, að kjaradómur liti öðru vísi á sitt hlutverk en hæstv. ráðh. teldi rétt vera, þ. e. a. s. kjaradómur liti frekar á sig sem dómstól en gerðardóm. Um þetta má nú sitthvað segja. En við skulum alveg láta það liggja á milli hluta. Staðreyndin, sem fyrir liggur, er bara sú, að kjaradómur hefur vísað málinu frá. Og það er þó almenn regla, sem aldrei verður véfengd, að fyrri ákvörðun stendur þangað til henni er breytt, og þess vegna stendur hinn eldri kjaradómur þangað til nýr kjaradómur hefur verið upp kveðinn. Það er mikill misskilningur, ef svo hefur átt að skilja hæstv. ráðh., sem ég geri tæpast ráð fyrir, að það eitt, að málið er borið undir kjaradóm, eigi að hafa í för með sér breytingu á ákvörðunum hans. Þó að málið sé borið undir kjaradóm, þá frestar það auðvitað ekki á neinn hátt framkvæmd á ákvörðunum hans, þeim sem hann hafði áður tekið. Á meðan málið er til meðferðar hjá kjaradómi og óvissa ríkir um úrslit þess, þá er það auðvitað svo sjálfsagt og hreinasti barnalærdómur í öllu réttarfari, að ákvörðunin stendur, sem hann hefur áður tekið, þangað til ný ákvörðun er tekin. Það sjá náttúrlega allir í hendi sér, að það væri nú ekki heppileg regla, að það eitt að bera mál undir dóm gæti haft í för með sér breytingu. Auðvitað kemur breytingin ekki fyrr en ný ákvörðun hefur verið tekin, og þess vegna átti ráðh. að greiða samkv. kjarasamningi á meðan málið var til meðferðar hjá kjaradómi, og hann gat ekki látið það undir höfuð leggjast fyrr en kjaradómur var pósitíft búinn að fallast á sjónarmið hans í málinu, og þess vegna þurfum við ekkert að fara út í neina deilu um efnislegt lögmæti í þessu sambandi. Hæstv. fjmrh. segist ætla að bera málið á ný undir kjaradóm, og við skulum lofa honum að gera það, og við skulum þá vona, að hann fái skýrt svar hjá kjaradómi. En hvað sem því líður er það svo, að á meðan sá úrskurður er ekki kominn frá kjaradómi, eiga ríkisstarfsmenn rétt samkv. fyrri kjaradómi. Og þess vegna eiga þeir alveg ótvíræða kröfu til þess, að þetta sé þegar reitt af hendi, og auðvitað nægir ekki í því sambandi að vísa til þess, að þeim muni verða greitt þetta einhvern tíma síðar, ef niðurstaða hjá kjaradómi verði svo eða svo. Þannig er ekki hægt að fara að, og það er ástæða til að vara við því, að þannig sé farið að. Það er einmitt ástæða til í því sambandi að rifja það upp, með hverjum hætti þetta kerfi var upp tekið. Þetta kerfi,sem lögtekið var 1962, var byggt á málamiðlun. Ríkisstarfsmenn voru ekki ánægðir með það kerfi, sem þá var upp tekið. Þeir vildu fá frjálsan samningsrétt um kaup sitt og kjör, eins og aðrir launþegar í landinu. En þeir féllust á þá að sætta sig við þessa skipan, sem upp var tekin, að sæta ákvörðun gerðardóms um sín kjör. Í framkvæmdinni hefur reynslan af þessu kerfi orðið á þá lund, að ríkisstarfsmenn eru ekki ánægðir með það, og alveg er það ljóst, að eftir að þannig hefur verið farið að af hálfu hæstv. ríkisstj„ þá er þetta kerfi með öllu dauðadæmt í framtíðinni, þannig að ég vil segja það, að ríkisstj. hefur þarna stigið spor, sem getur orðið nokkuð afdrifaríkt. Því að það er ekki nokkur vafi á því, að með þessum hætti er verulegt spor stigið í þá átt að brjóta þetta kerfi niður með öllu. Og ef þetta á að vera sparnaður fyrir ríkið, þá getur hann reynzt nokkuð vafasamur, því að eins og ég hef þegar sagt, þá gæti auðvitað hver ríkisstarfsmaður farið í mál við ríkið nú og krafizt þess, að fá þær eftirstöðvar, sem inni standa, og ég býst við, að sá málskostnaður, sem þá kæmi til greina, mundi verða nokkuð hár.

Annars vil ég segja það, að það er ástæða til, þegar verið er að bera svona mál undir dómstóla, hvort sem er kjaradóm eða félagsdóm, þá er ástæða til að greiða fyrir úrslitum í því máli. Það hefði ég þó haldið, að ætti að vera áhugamál hæstv. ríkisstj. að fá sem allra fyrst efnislega niðurstöðu hjá þessum úrskurðaraðilum um það, hvað væri rétt í þessu máli. En mér virðist nú, að þetta hafi nokkuð dregizt, þessi málsmeðferð.

Ég vil aðeins undirstrika það, sem ég sagði áðan, að það verður að sjálfsögðu að líta á þetta mál í sambandi við þá alvarlegu kjaradeilu, sem nú er uppi, en ég ætla ekki, eins og ég sagði áðan, að fara að ræða það sérstaklega hér, vil þó aðeins vekja athygli á séreðli þeirrar kjaradeilu. Séreðli hennar er það, og það, sem skilur hana frá líklega flestum eða öllum fyrri kjaradeilum, er það, að ekki er farið fram á almennar kauphækkanir, heldur er farið fram á það, að kaup verði greitt samkv. samningum, sem atvinnurekendur féllust á og skrifuðu undir í marzmánuði s. l. Og síðan þá hefur margt gerzt, m. a. það, að átt hefur sér stað stórkostleg gengisbreyting, sem sögð var gerð til þess að bæta stöðu atvinnuveganna. En eftir þá stóru breytingu telja samt atvinnurekendur sinn hag þannig, að þeir geti ekki haldið áfram óbreyttum þeim samningum, sem þeir játuðust undir í marzmánuði s. l. Það er þetta séreðli þessarar deilu, sem aldrei hefur verið nógsamlega undirstrikað. En hvað sem því líður, þá er deilan alvarleg og tapið, sem af henni hlýzt fyrir þjóðarbúið getur verið alvarlegt. En ég verð að segja það, að miðað við það, sem er á undan farið og ég drap aðeins á, þá get ég ekki haft samúð með atvinnurekendum í þessari deilu. Og það er svo ástatt um fleiri. M. a. sé ég, að samþykkt hefur verið gerð um það á ráðstefnu Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur um verkalýðsmál, að þessar kröfur, sem settar hafa verið fram af hálfu launþeganna, væru sanngjarnar, og skorað er á ríkisstj. að beita sér fyrir lausn í samræmi við þær, fyrir 1. maí. 1. maí er á morgun, þannig að tíminn er skammur, og þess vegna þyrftu nú a. m. k. hæstv. ráðh. Alþfl. að setjast við og vinna fast að þessum málum í dag til þess að kippa þeim í lag, áður en 1. maí rennur upp.

En að lokum vil ég lýsa aftur vonbrigðum mínum með þá ætlan ríkisstj., sem hæstv. fjmrh. lýsti hér áðan, gagnvart ríkisstarfsmönnum. Það hefur nú kannske alveg þveröfug áhrif, ef stjórnarandstaðan er að skora á ríkisstj. eða mælast til þess við ríkisstj., að hún geri eitthvað. En ég vil samt fyrir mitt leyti freista þess að skora á hæstv. fjmrh. að taka þessa ákvörðun sína til endurskoðunar og legg á það áherzlu, að það er oft betra í upphafi að skoða endinn.