05.05.1969
Neðri deild: 88. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2182 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Þó hafði ég svo sannarlega vonazt til, að afstaða Íslands í þessu máli yrði skýrari. Ég verð að játa það, að ég tel mig ekki hér og nú færan um það að hrekja þær fullyrðingar ráðh., að till., sem þarna verður flutt, sé í þeim dúr, sem hann segir. Mér hefur hins vegar verið tjáð, að þarna verði skýrt að orði kveðið um, að víkja skuli Grikklandi úr Evrópuráðinu, en ekki hins vegar beðið eftir þeim dómsúrskurði mannréttindadómstóls Evrópuráðsins, sem hæstv. ráðh. talar um. Hins vegar væri það fróðlegt að vita, hvenær vænta má úrskurðar þessa dómstóls. Það skyldi ekki vera, að ýmsir biðu með eftirvæntingu eftir þeim úrskurði, og þar á meðal þeir, sem sitja í fangelsum grísku fasistastjórnarinnar?

Ég læt enn í ljósi þá von, að Ísland taki skýrari afstöðu í þessu máli sem öðrum, þar sem mannréttindi eru fótum troðin, og þá ekki sízt innan þeirra samtaka, þar sem maður skyldi halda, að við hefðum einhver áhrif, eins og í Evrópuráðinu. Og ég endurtek það, að ég hafði vonazt eftir því að fá skýrari svör og greinilegri um afstöðu Íslands til samúðar með frelsisöflunum í Grikklandi, og ekki hvað sízt vegna þess, að væntanleg er hingað til lands á morgun, að mér skilst, Betty Ambatielos, brezk kona, sem gift er einum þeirra manna grískra, sem hafa orðið að sæta einna verstri meðferð af hálfu fasistastjórnarinnar grísku.