28.04.1969
Efri deild: 79. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (2315)

187. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, var sent stjórn fiskveiðasjóðs til umsagnar, en sakir veikindaforfalla formanns dregst afgreiðsla umsagnarinnar og var ekki í höndum nefndarinnar fyrr en í dag. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þessa umsögn, sem er örstutt:

„Í tilefni af heiðruðu bréfi sjútvn. Ed. Alþ. 18. þ. m., þar sem óskað er umsagnar um stjfrv. um breyt. á lögum fiskveiðasjóðs, nr. 75 1966, skal tekið fram, að með bréfi 12. febr. s. l. sendi sjútvmrn. stjórn sjóðsins uppkast að frv. þessu til umsagnar. Umsögn sjóðsstjórnar var send ráðuneytinu 7. marz s. l., og var þar m. a. bent á, að fyrirsjáanlega yrði greiðsluhalli, þ. e. a. s. vöntun fjár til útlána hjá sjóðnum á þessu ári, a. m. k. 144 millj. kr., og að fiskveiðasjóður mætti því illa við að vera sviptur þeim tekjum, sem frv. fjallar um.

Í tilefni af þessu langar mig til að taka fram, að þetta atriði um hugsanlegan skort á fjármunum til útlána var rætt í n., þótt þessi umsögn lægi ekki fyrir henni, og gagnvart nm. liggur fyrir yfirlýsing hæstv. fjmrh., sem ég veit að honum er ljúft að staðfesta, að ríkisstj. muni gera sitt til að sjá sjóðnum fyrir eðlilegum fjármunum til útlána, þótt það verði ekki endilega með þeim tekjum, sem hér um ræðir.

Með tilliti ti1 þessa er mótbárunni að því er viðvíkur árinu í ár í raun og veru rutt úr vegi, enda má segja, að málið sé þegar afgr. að því er tekur til ársins í ár. Hitt verður að játast og verður n. að biðja hv. deild velvirðingar á því, að okkur hefur skotizt yfir réttan skilning á samhengi 1. og 2. gr. frv. Í 2. gr. segir: „Lög þessi öðlast þegar gildi og taka þau til framlags ríkis­ sjóðs árið 1969.“ Það var sá skilningur, að frv. tæki aðeins til þessa eina árs, sem ég hygg að hafi verið í hugum okkar allra í n., þegar við lögðum til, að það væri samþykkt. Ef lesið er með betri gát, þá má sjá, að tilgangurinn er, að C-liður 4. gr. fiskveiðasjóðslaganna á að falla niður, ekki aðeins fyrir árið í ár, heldur og um alla framtíð eða þangað til öðruvísi verður ákveðið. Það var ekki í huga okkar allra og kannske fæstra í n. að vera samþykkir slíkri till. Er það því till. okkar nú að þessu sinni, að málinu verði vísað til 3. umr., en við munum koma fram með viðeigandi brtt. til leiðréttingar þá.