10.12.1968
Efri deild: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (2330)

103. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 132 lagt fram frv. til l. að örlítilli breyt. á lögunum um tekjustofna sveitarfélaga. 1. gr. þessa frv. hljóðar svona:

„Heimilt er þó sveitarstjórn að ákveða lægra álag á meðalíbúð til eigin afnota. Meðalíbúð skal það íbúðarhúsnæði teljast, sem ekki fer yfir 80 þús. kr. að fasteignamati.“

Ég mun nú leyfa mér að skýra þessa till. með aðeins örfáum orðum.

Fasteignaskatturinn er ákveðinn sem einn af tekjustofnum sveitarfélaga í l. nr. 51 1964. Aðaltekjur flestallra og sjálfsagt allra sveitarfélaga eru útsvör, en að svo miklu leyti sem þau hrökkva ekki til þess að mæta gjöldum sveitarfélaga, er gripið til annarra skattstofna. Einn af þeim skattstofnum er fasteignaskatturinn og hefur lengi verið.

Samkv. 3. gr. l. á þessi skattur að miðast við fasteignamatsverð og vera 1% af virðingarverði húsa og annarra mannvirkja. En í 5. gr. tekjustofnalaganna segir, að með reglugerð, sem ráðh. staðfestir, geti sveitarstjórn ákveðið að innheimta fasteignaskatt samkv. 3. gr. með allt að 200% álagi.

Í 6. gr. eru svo nokkrar undanþágur undan fasteignaskatti. Það eru kirkjur, samkomuhús og íþróttahús, sem hvorki eru leigð út til skemmtana né rekin í ágóðaskyni, skólahús, barnahæli, sjúkrahús, elliheimili, þinghús, hús annarra ríkja, að svo miklu leyti sem þau eru notuð af sendimönnum þeirra í milliríkjaerindum.

Heimild í 5. gr. tekjustofnalaganna um að innheimta fasteignaskatta með 200% álagi hafa nokkur sveitarfélög þegar notað, og má þar minna t. d. á Akureyri, sem hefur notað þessa heimild laganna að fullu í allmörg ár. Önnur sveitarfélög, eins og t. d. Reykjavík, innheimta nú fasteignaskatt með 100% álagi, og talsvert hefur verið rætt um það að hækka fasteignaskatt enn og nota heimild laganna að fullu, þ. e. að innheimta skattinn með 200% álagi.

Það er skoðun mín, að það sé út af fyrir sig alls ekki óeðlilegt, þegar útsvarsbyrðin er nú orðin svo þung eins og raun ber vitni og tekjur manna að öllum líkindum heldur lækkandi vegna árferðisins, að þá séu fasteignaskattarnir notaðir að fullu, eins og lög leyfa. Með því móti er hægt að ná til, ef svo má segja, ýmissa þeirra aðila, sem engin önnur sveitargjöld bera eða óeðlilega lág sveitargjöld. Menn tala mikið um bankagróðann og auka hann nú stórlega orðum, eins og auðvelt væri að sýna fram á, en það er hins vegar rétt, að einu skattar til hins opinbera, sem bankarnir greiða, eru fasteignaskattar, og ég tel ekki óeðlilegt, að þeir skattar yrðu eitthvað hækkaðir. Tryggingarfélög bera að vísu aðra skatta jafnhliða, en ég sé ekki neitt því til fyrirstöðu, að gjöld af fasteignum tryggingarfélaga, sem flest a. m. k. hafa skilað allgóðum arði að undanförnu, væru notuð frekar sem tekjustofn heldur en útsvör á alþýðu manna, að svo miklu leyti sem það hrekkur til. Þá er enn fremur vitað, að ýmsir aðilar eru til í þjóðfélaginu, án þess að nein nöfn skuli nefnd, sem borga lág útsvör, en eiga verulegar eignir. Og það er ekki að mínum dómi neitt athugavert við það, þó að fasteignaskattar þessara aðila séu hækkaðir í það hámark, sem lögin leyfa. Hins vegar tel ég, eins og nú er ástatt um allan þorra fólks, og þá sérstaklega ungt fólk, sem nýlega hefur eignazt íbúð, að það sé óeðlilegt og tæplega gerlegt að hækka fasteignaskatt þess í hámark laganna. Fjölmargir hér á hv. Alþingi og annars staðar hafa að undanförnu, — það er ábyggilega ekkert launungamál, — verið að velta því fyrir sér með vaxandi kvíða, hvernig almenningur á að fara að því nú á næstunni að halda því eignarhaldi, sem hann þó enn hefur á íbúðarhúsnæði til eigin afnota. Og hvert það álag, sem gerir þetta mál erfiðara, stefnir þessu nær voðanum, að ekki sé meira sagt. Og mér finnst, að það sé ekki sanngjarnt og ekki réttlátt að gera greinarmun á því húsnæði annars vegar, sem efnalitlar fjölskyldur nota til eigin afnota, og svo öðrum þeim húsakynnum, sem ég hef hér aðeins með örfáum orðum minnzt á, og fleira í slíkum dúr hins vegar. Þess vegna hef ég leyft mér að bera það fram hér í frv.-formi, að það álag, sem samkv. 5. gr. kann að vera ákveðið á fasteignaskatt, þurfi ekki að vera jafnhátt á allar tegundir fasteigna.

Nú mætti kannske segja, að fljótt á litið væri algerlega á valdi sveitarfélaga og ráðherra að ákveða það, hvort þetta álag yrði notað og á hvaða eignir það yrði látið falla. En sá skilningur er a. m. k. ekki alls staðar ríkjandi og kannske ekki heldur alveg réttur. Í 6. gr. l., sem ég áðan las, eru þær fasteignir, sem undanþegnar eru fasteignaskatti, taldar upp, og sú upptalning er tæmandi. Og ég vil segja frá því hér sem sönnun fyrir því, að ekki líta allir þannig á þessi mál, að í fyrra fluttum við borgarfulltrúar Framsfl. í Reykjavík þá till. í borgarstjórn Reykjavíkur, að fasteignaskattsálagið yrði ekki látið ná til tiltekinna meðalíbúða, eins og þetta frv. gengur út á, en þá var verið að hækka fasteignaskattinn í Reykjavík um 100%. Og ég vil segja það, og held að ég fari rétt með það, að þessi hugmynd hafi ekki þótt fráleit og átt nokkru fylgi að fagna meðal borgarfulltrúa. En það, sem kom alveg í veg fyrir, að hún næði fram að ganga, var sá skilningur meiri hl. a. m. k., að vegna lagaákvæðanna væri þetta ekki heimilt. Og það má sjálfsagt deila um það, hvort það er heimilt eða ekki, og kannske er niðurstaðan sú, að það sé ekki heimilt. Alla vega eru þessi lagaákvæði þröskuldur fyrir því, að menn í borgarstjórn Reykjavíkur a. m. k. hafi í alvöru viljað velta því fyrir sér, hvort þessi leið væri fær eða ekki. Ég hef þess vegna flutt þetta frv., sem hér um ræðir, til þess að taka af öli tvímæli um það, að sú sveitarstjórn, sem vill gera þennan mismun, megi það laganna vegna. Og ég vonast til þess, að þetta frv. nái fram að ganga vegna þeirra ástæðna, sem ég hef þegar flutt fram fyrir því.

Það kann að vera, að frv. þyki erfitt í framkvæmd. Við skulum segja það. Ég get þó ekki séð, að það þurfi að vera. Sú meðalstærð, sem ég hef miðað þetta frv. við, er fasteignamatsverð, sem fari ekki yfir 80 þús. kr. Nú er fasteignamatsverð tilgreint á hverri skattaskýrslu um þær íbúðir, sem menn eiga, og ekkert getur verið auðveldara, finnst mér, heldur en kynna sér það, hvert fasteignamatsverðið er á tiltekinni íbúð, til þess að ganga úr skugga um það, hvort hún eigi að vera undanþegin þessu álagi eða ekki. Það er auðvitað mjög erfitt og teygjanlegt hugtak, þetta „meðalíbúð“, sem oft er talað um, og mér er það alveg ljóst, að ég hef ekki kveðið upp neinn allsherjardóm um það, hver sú meðalíbúð skuli vera, og er til viðtals að sjálfsögðu um allar sanngjarnar breytingar á því. Ef n., sem fjallar um málið, eða öðrum þætti eitthvað annað betur við eiga, þá stendur ekki á mér að breyta því. En ef þetta frv. á nú að verða að l., verður viðmiðunin að vera alveg ljós og ótvíræð og ég hef nú sett þetta þarna í þeirri trú, að það fari mjög nálægt því hugtaki, sem hér er verið að reyna að forma.

Ég vona, að mér hafi tekizt að gera hv. þdm. það ljóst, í hverju efni þessa frv. er fólgið, og ætla ekki að hafa um það lengri framsögu, en óska eftir því, að að umr. lokinni verði frv. vísað til 2. umr, og heilbr.- og félmn.