24.02.1969
Efri deild: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (2335)

103. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Það eru ýmsar athugasemdir, sem ég vildi koma á framfæri við ræðu hv. flm. þessa frv. Ég vil leiðrétta það strax eða vekja athygli á því, að ég hef hvergi í minni frumræðu kallað þetta mál lítið eða auvirðilegt, það er síður en svo. Hins vegar sagði formælandi minni hl., að þetta væri lítið mál og ekki merkilegt. Hann sagði, að þetta væri lítið mál. Það má fara og taka segulbandið og hlusta á það. (Gripið fram í.) Jæja, ég a. m. k. sagði sjálfur hvergi, að þetta væri lítið mál eða auvirðilegt. (Gripið fram í.) En frekar var það talsmaður minni hl. n., sem hafði orð á því, að þetta mál væri ekki stórt, eða lítið, eða hvaða orð hann hefur nákvæmlega haft um það, það má kanna síðar.

En þessar mótbárur, sem hv. flm. frv. kom hér með, eiginlega var það eins og hann væri að andmæla mínum rökum gegn þessu frv., það var mjög á misskilningi byggt. Ég var aðeins að lesa hér umsögn Gjaldheimtunnar, vegna þess að ég vildi kynna hv. þdm., hvað Gjaldheimtan hefði að segja, en ekki vegna þess, að ég gerði ummæli Gjaldheimtunnar endilega að mínum rökum, enda er hvergi í nál. okkar, þar sem aðalrökin eru færð fyrir því að vera á móti frv., þá er ekki minnzt á það, að þetta kunni að hafa í för með sér, að miklu erfiðara verði að innheimta fasteignagjöld en áður, og reyndar, eins og hv. flm. ræddi allmikið um, þá hafa orðið um það blaðadeilur og blaðaskrif, hvort það væri sanngjarnt að hafa þennan hátt á, sem Gjaldheimtan hefur, að innheimta fasteignaskattana hjá húsfélögum, og ætti í staðinn að fara að innheimta þá hjá einstökum íbúðaeigendum. Þetta mál fjallar út af fyrir sig ekki um það, þótt það megi segja, að það komi inn á það, og ég skal ekki hér fara að gera það sérstaklega að umtalsefni, enda hef ég ekki myndað mér neina endanlega skoðun á því, þó að ég játi, að ef það mál kæmi upp, þá hallaðist ég að því, að þetta fyrirkomulag væri bezt, að innheimta hjá húsfélögunum, það ætti bara að hafa þetta á nafni húsfélaganna, þegar innheimt er, en ekki taka einhvern einstakling, sem er efstur í röðinni á listanum yfir eigendur, og auglýsa hans nafn. Það getur verið skakkt. Ég vil yfirleitt taka það fram, að ég er ákaflega mikill talsmaður þess, að skattar séu einfaldir, bæði í álagningu og innheimtu. En að öðru leyti er umsögn Gjaldheimtunnar ekki grundvallarástæðan fyrir því, að við höfnum frv., enda er ekki vitnað til hennar eða þeirra raka í nál. meiri hl.

Ég tók það líka fram, þegar ég kynnti sjónarmið og umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, sem ég taldi eðlilegt, að það væri hægt að lagfæra þann agnúa á frv. með brtt., það tók ég fram, en það væri ekki heldur grundvallarástæða. Þess vegna mundi ég segja, að hv. flm. hafi ekki komið að þungamiðju málsins, þegar hann var að gagnrýna þessar umsagnir.

Bæði talsmaður minni hl. og flm. þessa frv. hafa undirstrikað, að hér sé aðeins um heimild að ræða og þess vegna sé minni ástæða til þess að hafna þessu en ella. En það er nú svo, ef manni þykir þessi heimild vafasöm, þá getur alltaf komið fyrir, ef hún á annað borð er veitt, að einhver sveitarfélög noti hana. Það er aldrei hægt að fyrirbyggja það, að einhver sveitarfélög noti hana. Og ég verð nú að segja það í sambandi við þetta, að torvelt yrði að meta þessar nauðþurftaríbúðir, eins og þessar fasteignamatsreglur eru í dag, — ég er ekki að mæla þeim bót, hv. flm. má ekki misskilja það. Það er ákaflega lengi búið að vinna að nýju fasteignamati, manni skilst nú, að það eigi að ganga í gildi á næsta ári, þótt ég hafi ekki umboð til að tilkynna það að vísu, en það a. m. k. ætti að vera heldur skammt undan. Ég skal ekki mæla þeim reglum bót, og það má út af fyrir sig segja, að svo vitlausar sem þær séu, þá sé þó samræmi í þeim innbyrðis í sama sveitarfélaginu. Ég get ekki fundið það út, hvernig hv. flm. telur, að það geti verið sanngjarnt, að 3 herbergja íbúð sé nauðþurftarhúsnæði í Reykjavík, en 5 herbergja íbúð á Ólafsfirði. Og ef sveitarfélögin fengju svo, eins og minni hl. leggur til, alveg frjálst val um það, hvernig þeir meta þetta, þá getur þetta orðið enn þá verra, þá gætu þau metið 6 herbergja íbúð á Ólafsfirði nauðþurftarhúsnæði, en 2 herbergja íbúð í Reykjavík. Ég botna ekki í þessu, hvernig þetta er.

Ég er ekki að fullyrða það út af fyrir sig, að það gæti ekki verið ástæða til þess að mismuna í fasteignagjöldum, við skulum segja sem hugsanlegan mismun að hafa einn skala fyrir atvinnuhúsnæði og annan skala fyrir íbúðarhúsnæði. Ég er ekki út af fyrir sig að fullyrða það, að það gæti ekki verið réttlátt. En ég teldi nú að öðru jöfnu einfaldast, að það væri sama fasteignaskattsprósenta á öllum fasteignum, af því að þar er andlagið tiltekin eign, en aftur á móti sé mismunað á og mismuninum náð í eignarsköttum, sem eiga að vera stighækkandi, þannig að sá, sem á miklar eignir, borgi þá hlutfallslega meira en hinn, sem minna á. En að maður, sem á kannske stóra íbúð og skuldar hana alla, eigi að borga hærri fasteignaskatt af sinni íbúð heldur en sá maður, sem á ef til vill fimm litlar íbúðir og skuldar ekkert í þeim, ég get ekki fundið neitt réttlæti í því. Og það er það, sem raunverulega algjörlega vantar sem undirstöðuatriði í þetta frv., að þar er ekki tekið neitt tillit til þess, það er bara kallað nauðþurftarhúsnæði, ef íbúðin er lítil, þó að það búi kannske einn maður í henni, en það er víst kallað lúxushúsnæði, ef 10 manns búa í 5 herbergja íbúð, eftir þessu að dæma. Ég get ekki fundið neitt samhengi í slíku, og þess vegna tel ég, að það sé ekki hægt að samþ. þetta frv., eins og það er úr garði gert, það sé í grundvallaratriðum svo handahófskennt og skapi ekki aukið réttlæti. Og það getur vel verið, að þegar þessar nýju fasteignamatsreglur loksins eru gengnar í gildi, — þá á nú, minnir mig, eftir lagareglum að endurskoða öll fasteignagjöld, hvers eðlis sem þau eru, mér skilst, að það sé lögbundið, — og það getur vel verið, að þá skapist einhver ný sjónarmið um það að hafa ekki sama fasteignagjald af öllum tegundum fasteigna. Það kann vel að vera, en það má ekki vera í áttina við það, sem lagt er til hér.