11.03.1969
Neðri deild: 63. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2347)

32. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Áður en ég ræði málið efnislega frekar, vil ég leiðrétta tvö atriði, sem fram komu hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., 1. flm. þessa frv. En það var í fyrsta lagi, að hann sagði, að hin rökstudda dagskrá fæli í sér, að Samband ísl. sveitarfélaga ætti að samþykkja þær breytingar, sem gerðar væru á tekjustofnalögunum, þannig að Alþ. hefði raunverulega þar með ekkert með það að gera. Þetta hlýtur að vera viljandi rangt lesið upp, því að í hinni rökstuddu dagskrá stendur: „séu gerðar í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga, en ekki gegn vilja þeirra.“ Þetta er allt annað hugtak. Og ég vil benda á það, að þegar tekjustofnalögin voru á sínum tíma undirbúin og lögð fyrir Alþ., var haft mjög náið samstarf við Samband ísl. sveitarfélaga. N., sem bjó það út, var skipuð fyrst og fremst ráðuneytisstjóra félmrn., formanni Sambands ísl. sveitarfélaga og þremur öðrum sveitarstjórnarmönnum, sem þá voru starfandi sveitarstjórnarmenn, þannig að við undirbúning og setningu þeirra laga var haft mjög náið samband við samtök sveitarstjórnarmanna og yfirleitt í öllum atriðum við undirbúning málsins hér á Alþ. farið eftir þeim óskum, sem þar komu fram, og því, sem þar var lagt til. Það voru gerðar mjög veigalitlar og næstum engar breytingar á þeim lögum, sem þá voru búin út alveg í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga.

Hann gat þess, hv. 1. flm. frv., og óskaði eftir því, að málið yrði ekki afgreitt, fyrr en fyrir lægi umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga um það frv., er nú liggur fyrir. Ég skal geta þess, að ég átti tal um það við formann þess, spurði hann um það, hvort hann óskaði eftir að fá þetta frv. til umsagnar. Hann sagði, að stjórnin væri búin að fá þetta frv. til sín, búin að skoða það og teldi ekki ástæðu til þess að fá það til umsagnar, því að hennar afstaða væri sú sama og til frv. í fyrra. Þetta er efnislega nákvæmlega sama mál, þannig að það liggur alveg ljóst fyrir, að það er ekki farið fram hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga af hvorki mér né öðrum, sem stöndum að áliti meiri hl. n.

Það, sem ég vil nú segja efnislega um málið, er að mér þykir það heldur leitt, en því miður kemur það fram, bæði hjá 1. flm. frv. nú og hefur reyndar komið fram áður, að hann sjáanlega veit ekki, hvað hann er að tala um, þegar hann er að flytja þessar breytingar. Hann hefur rökstutt þær með því, að á þeim stöðum, sem aðstöðugjöld væru hærri heldur en í Reykjavík, þar legðist þetta beint á neytendur, á fólkið. Þetta er alger misskilningur. Það vill svo til, að mér er nokkuð kunnugur verzlunarrekstur líka, ég hef hann að vissu marki með höndum, og verðlagseftirlit í landinu tekur ekkert til þess, hvort aðstöðugjald er 1% í Vestmannaeyjum eða ½% í Reykjavík. Það fer eftir ákveðnum reglum, og það er ekki tekið neitt tillit til þess, þannig að álagið mundi verða það nákvæmlega sama, þó að við lækkuðum okkar aðstöðugjöld í ½%. Það kemur beint yfir á verzlunarreksturinn, en ekki fólkið, þannig að ef þetta, eins og það hlýtur að vera, er annað grundvallaratriðið fyrir flutningi þessa frv., þá er þetta flutt af misskilningi, hreinum misskilningi. Og af því að flm. hefur gert nokkuð mikið úr þessu, bæði hér við þessar umr. og annars staðar, þá er ég dálítið undrandi yfir honum sem dreifbýlismanni, að hann skuli ekki sjá allt annað frekar, sem hefur veruleg áhrif á það að gera aðstöðuna útí á landinu lakari að búa þar heldur en aðstöðugjöldin. Við borgum t. d. í Eyjum og annars staðar úti um landið mikinn kostnað við flutning á öllum vörum. Þetta lendir beint á neytendum. Þetta tekur verðlagseftirlitið til greina, en ekki aðstöðugjöldin, þannig að ef hann væri með einhverjar hugmyndir um að jafna þarna á milli, ætti hann fyrst og fremst að fara í það að gera jöfnun á þeim kostnaði, sem er við það að flytja vörur út um alla landsbyggðina, en láta aðstöðugjöldin eiga sig. En það verður að segjast eins og er, að auðvitað kemur margt á móti. Þetta er auðvitað það stórt mál þjóðfélagslega séð, að það verður varla gert með einfaldri breytingu á þessum lögum eða öðrum. Þetta er geysilega stórt mál, og er hægt að segja, að í sumum tilvikum skapar þetta nokkru verri aðstöðu fyrir dreifbýlið og í sumum tilfellum miklu verri aðstöðu heldur en að búa hér í þéttbýlinu. Þetta lætur flm. alveg fara fram hjá sér, minnist ekki á það, en er sífellt í langan tíma hér á Alþ. í sambandi við þetta misskilda frv. sitt að klifa á því, að hærri aðstöðugjöld í Eyjum en annars staðar lendi á fólkinu. Þetta er misskilningur, eins og ég sagði áðan. Það snertir það ekki. Það lendir aðeins á verzlunarrekstrinum. Og það er annað og er undirstöðuatriði, að þetta er ekkert lagaákvæði, að leggja þetta á úti á landi, frekar en hér í Reykjavík. Þetta er heimildarákvæði fyrir sveitarstjórnirnar. Ef þær meta það þannig, að það þyki eðlilegt að leggja aðstöðugjald á neyzluvörur eða annað, þá geta þær ákaflega vel gert það.

En það er einnig annað, sem hv. flm., held ég, hlýtur að verða að gera sér grein fyrir, ef hann þá þekkir bókstaflega nokkuð inn í sveitarstjórnarmál, sem ég verð að segja, að ég er ákaflega mikið farinn að efast um, að hann geri, að allar tilfærslur, eins og þarna er verið að gera ráð fyrir, að flytja af atvinnufyrirtækjunum, létta á þeim t. d. aðstöðugjöldum, það þýðir beina hækkun á útsvörum launamanna. Og þetta er það atriði, sem sveitarstjórnirnar hafa óskað eftir að fá að meta, hvað stóran hluta þær vildu láta atvinnufyrirtækin bera og hve stóran hluta launamennina. Ef það á að fara að setja þetta í fastar skorður, eins og var í fyrra frv. frá 1967, eða færa hámarkið á aðstöðugjöldunum niður, þá er bara verið að færa af atvinnuvegunum yfir á launamenn og aðra útsvarsgreiðendur. Ég er alveg óhræddur, þó að hann sé að brýna mig á því sem sveitarstjórnarmann í Eyjum. Ég var þar bæjarstjóri í 12 ár. Ég hef gert alltaf till. um aðstöðugjald eins og annað. Þetta var samþ. einróma í bæjarstjórn allan tímann, og atvinnurekendur vissu alveg, hvað var að ske hjá þeim. Þeir mótmæltu ekki í eitt einasta skipti þessum gjöldum. Auðvitað voru þeir óánægðir með þau, því að þótt SH, eins og hv. flm. benti á, gerði samþykkt um að fá lægra aðstöðugjald, þá er það eðlilegt. Mundi ekki hver einasti skattþegn í landinu, bæði sem greiðir til ríkis og bæjar, gera samþykkt og óska eftir, að hann bæri lægri gjöld, ef hann teldi sig hafa aðstöðu til þess? Mér finnst það ósköp mannlegt og eðlilegt hjá SH, þó að hún óski eftir því, að aðstöðugjald á fiskiðnaði sé lækkað. Það mundi hver einasti skattþegn á landinu óska þess, ef hægt væri að koma því við.

Og annað er í sambandi við aðstöðugjöldin, sem einnig verður að taka tillit til. Eins og ég sagði áðan, gera sveitarstjórnirnar ákaflega misjafnt fyrir atvinnutækin á hverjum stað. Ég gæti talið upp ýmislegt, sem hefur verið gert atvinnuvegunum í Vestmannaeyjum til hagræðis, sem hefur ekki verið hér í Reykjavík og annars staðar, þannig að það verður að skoða málið allmiklu nánar og þekkja það betur en 1. flm. þessa frv. virðist gera. Mér þykir leitt að segja það, en ég verð að segja það eftir þeim ummælum, sem hann hefur almennt haft um þetta mál, bæði nú og áður, að hann virðist ekki hafa nokkurn snefil af innsýn í sveitarstjórnarmál. Ég veit ekki, hvort hann hefur nokkurn tíma verið sveitarstjórnarmaður, en hann hefði þá vissulega ekki átt að vera að flytja frv. um breytingu á tekjustofnamálum, ef hann hefur aldrei komið nálægt sveitarstjórnarmálum. Það lægi þá annað nær honum að flytja heldur en það.

Ég tel nú ekki, að ég þurfi að fara fleiri orðum um þetta. En hann var að tala um ranglæti og ójöfnuð í þessu sambandi. Það verður auðvitað að dæmast eins og hver hefur hug til. En ef á að tala um ranglæti og óréttlæti, þá er það á allt öðru sviði en í mismunandi aðstöðugjöldum á hinum einstöku stöðum á landinu. Það er, eins og ég sagði áðan, í hinum mismunandi mikla kostnaði, sem leggst á allan flutning á öllum nauðsynjum og rekstrarvörum til atvinnufyrirtækjanna úti um landið. Það má segja, að þar komi þá kannske fram það, sem hægt væri að kalla misjafna aðstöðu.

Ég skal svo, a. m. k. í bili, láta umr. lokið um þetta, en sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, nema tilefni gefist að nýju til.