11.03.1969
Neðri deild: 63. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (2350)

32. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að blanda mér mikið inn í þessar umr., en vil þó lýsa afstöðu minni til þessa máls. Ég tel, að í grundvallaratriðum séu l. um tekjustofna sveitarfélaga byggð á því, að bæjarstjórnir og sveitarstjórnir almennt hafi nokkurt ráðrúm til þess að meta aðstæður hver á sínum stað og haga álagningu eftir því. Ég sé líka, að þetta frv. gerir ráð fyrir því. Þótt að lögum yrði, þá er þar hámarksákvæði í hinum einstöku vöruflokkum, sem þar eru tilgreindir, en ekki skilyrðislaust, að á skuli lagt eftir þessu, svo að mismunur gæti orðið allmikill þrátt fyrir það, þó að þetta frv. yrði að lögum. Eins og hefur fram komið í þessum umr., eru aðstöðugjöldin á lögð samkv, heimild. Það er hámark, hvað má leggja á hátt aðstöðugjald, það þarf ekki að leggja á neitt aðstöðugjald og allt þar á milli. Eftir sem áður, þó að þetta frv. yrði samþ., yrði þetta í heimildarformi og mismunur gæti orðið nokkur.

Það hins vegar veldur erfiðleikum í sambandi við þetta frv., að hér er búið að sundurgreina allmikið, og það er svo á hinum ýmsu smærri stöðum, að þar er ekki um neinar sérverzlanir að ræða, og það er afskaplega erfitt að fá frá verzlunum svo mikla sundurgreiningu sem hér er gert ráð fyrir. Þetta er auðvelt að framkvæma hér í Reykjavík, þar sem er mikið af sérverzlunum og ein verzlar með öl og sælgæti og þess háttar, önnur með matvörur. En úti um landsbyggðina er yfirleitt um blandaðar verzlanir að ræða, svo að sveitarstjórnir hafa orðið að leggja á aðstöðugjöld miðað við það. Ég mundi líka telja það alveg óeðlilegt, ef hv. Alþingi breytti sveitarstjórnarlögunum á þann hátt, þar sem það fjallar um annan veigamesta kafla laganna, án þess að hafa um það samráð við Samband ísl. sveitarfélaga. Það væri ekki þar með sagt, að Alþingi féllist endanlega á þá niðurstöðu, sem sveitarfélögin eða samband þeirra féllist á. Það þyrfti ekki að vera. En óeðlilegt væri, að svo mikill þáttur í tekjustofnalöggjöf væri framkvæmdur, án þess að sambandið hefði þar neitt að segja. Mér finnst líka eðlilegt, ef annar þáttur þessara laga væri tekinn til sérstakrar endurskoðunar, að þá væri málið í heild tekið til meðferðar. Ég held, að það sé ekki svo auðgert að slíta þetta tvennt í sundur, útsvörin og aðstöðugjöldin, og ef á að þrengja mjög mikið annan þáttinn, yrði að gera það einnig við hinn.

Þess vegna mun ég fylgja hinni rökstuddu dagskrá um afgreiðslu þessa máls og sé ekki, að hv. flm, nái þeim tilgangi, sem hann hugsar sér, að ná í þetta meira samræmi, eins og hann talar um, því að eftir sem áður yrði hægt að mismuna þessu, þar sem það væri um heimildarákvæði að ræða. Framkvæmdin yrði gerð erfiðari, og svo yrði þá að sækja tekjurnar, sem á vantaði, ef það leiddi til þess, í útsvörin á einstaklingunum í byggðarlaginu. Þess vegna tel ég, að það sé eðlilegt að vísa þessu máli frá nú. Þegar svo heildarlöggjöfin verður endurskoðuð, sem ég hef gert ráð fyrir að yrði gert, þegar niðurstaða væri fengin um það að innheimta skatta af tekjum jafnharðan og teknanna væri aflað, þá verður að taka tekjustofna sveitarfélaga einnig til athugunar og þá yrðu báðir þessir aðalþættir teknir til meðferðar, en ekki annar, eins og hér er gert ráð fyrir.