15.04.1969
Neðri deild: 77. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (2352)

32. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 32, var flutt á síðasta þingi að heita má í mjög svipuðu formi og það nú kemur fram. Það var þá sent til umsagnar, þ. á m. til umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga, en þetta mál snertir að sjálfsögðu þá aðila, sem með þau mál fara, mest allra og eingöngu að segja má. Umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga um málið, þegar það var því sent á síðasta þingi, var neikvæð. Sambandið lagði þá gegn því, að frv. yrði samþ. Ég hafði aftur samband við formann Sambands ísl. sveitarfélaga, áður en n. tók þetta mál til afgreiðslu hjá sér, og spurði um afstöðu þeirra, hvort hún væri sú sama um þetta frv., sem nú lægi fyrir, og fram hefði komið á síðasta þingi og taldi hann svo vera. Að þessu athuguðu leggur meiri hl. n. til, — n, klofnaði um málið, — en meiri hl. leggur til, að frv. verði afgreitt með svofelldri rökst. dagskrá:

„Með því að telja verður eðlilegt, að jafnveigamiklar breytingar á tekjustofnalögunum og frv. gerir ráð fyrir séu gerðar í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga, en ekki gegn vilja þess, ályktar d. að vísa frv. frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Það er sem sagt till. meiri hl. heilbr.- og félmn., að málið verði afgreitt með rökst. dagskrá, sem fram kemur á þskj. 301.