15.04.1969
Neðri deild: 77. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (2353)

32. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hér er fram haldið 2. umr. um þetta frv. Sú umr. hófst 11. marz í vetur, og þá flutti hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn., hv. 3. þm. Sunnl., sína framsöguræðu. Hann hefur nú flutt aðra núna, en mér finnst hún hvorki verri né betri en sú gamla og ræði ekki um það frekar. En þegar þetta var til umr. hér 11. marz, var umr. frestað eftir minni ósk, og ég fór fram á það, að hv. heilbr.- og félmn. reyndi að fá umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga um málið, áður en það yrði afgr. frá Alþ. Nú skilst mér á frsm. meiri hl., að umsögn þaðan sé ekki væntanleg, annaðhvort af því, að n. telur ekki ástæðu til að leita eftir umsögn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, eða þetta samband óskar ekki að láta umsögn sína í té. Ef stjórnendur Sambands ísl. sveitarfélaga eru á móti frv., get ég vel skilið, að þeir vilji komast hjá því að reyna að færa rök fyrir því, að rétt sé að fella frv. eða vísa því frá. Ég get vel skilið, að þeir óski ekki að gefa út bréf um það, að sanngjarnt sé, að verzlanir í Neskaupstað borgi 300% hærra og verzlanir í Stykkishólmi, á Patreksfirði, Hólmavík, Siglufirði, Dalvík, Fáskrúðsfirði, Stokkseyri og Eyrarbakka, svo að dæmi séu nefnd, og þar með fólkið á þeim stöðum, borgi 200% hærra aðstöðugjald en hliðstæðar verzlanir í höfuðborginni, en þetta gerðist árið sem leið. Og ef Samband ísl. sveitarfélaga er á móti því, að frv. nái fram að ganga, tel ég líka skiljanlegt, að það kæri sig ekki um að lýsa yfir skriflega þeirri stefnu sinni að láta hraðfrystihús á Patreksfirði, Suðureyri, Bolungarvík og Hólmavík í Vestfjarðakjördæmi, á Dalvík og Raufarhöfn í Norðurlandskjördæmi eystra, á Vopnafirði, Eskifirði og Neskaupstað í Austurlandskjördæmi og hraðfrystihús á Akranesi og í Grafarnesi í Vesturlandskjördæmi, svo að dæmi séu nefnd, borga 100% hærri aðstöðugjöld en hraðfrystihús í Reykjavík, á Sauðárkróki, Siglufirði og Seyðisfirði þurfa að borga. En þannig var þetta 1968.

Í ræðu sinni hinn 11. marz í vetur sagði frsm. meiri hl. hv. heilbr.- og félmn., 3. þm. Sunnl., að aðstöðugjald, sem lagt væri á verzlanir, kæmi á þeirra rekstur, en lenti ekki á fólkinu á þeim stöðum, þar sem verzlanirnar eru. Hann vitnaði í því sambandi í verðlagseftirlit ríkisins. Ég get sagt honum það, þeim hv. þm., að ég hef aldrei tekið alvarlega það ríkisstjórnarapparat, sem nefnist verðlagseftirlit. Auðvitað bitna aðstöðugjöldin á fólkinu á þeim stöðum, þar sem þau eru á lögð, í hækkuðu vöruverði eða í lakari þjónustu á annan hátt en verzlanirnar gætu veitt, ef þessi gjöld væru ekki svona há. Sama máli gegnir um atvinnufyrirtæki, eins og t. d. frystihúsin. Það er ekki eingöngu mál frystihúseigendanna. Sé þessum fyrirtækjum íþyngt með háum, opinberum gjöldum og jafnvel kippt fótum undan rekstri þeirra með óhæfilegum álögum og meiri en annars staðar tíðkast, þá er það mál, sem sannarlega snertir almenning á þessum stöðum. Um það verður ekki deilt. Það er því alrangt, sem hv. 3. þm. Sunnl. heldur fram, að þetta sé aðeins mál verzlunar- og atvinnufyrirtækja, sem eru látin innheimta þessi opinberu gjöld. En jafnvel þó að það væri rétt, sem hv. þm. heldur fram um þetta, sem ekki er, þá bætti það lítið úr skák, ranglætið er það sama, hvort sem það bitnar á verzlunarfyrirtækjum, atvinnufyrirtækjum eða á almenningi.

Mér þykir nú satt að segja hálfleiðinlegt, herra forseti, að þurfa að flytja mál mitt, meðan aðeins eru 4 þdm. á fundi auk mín, og ég vildi þess vegna mælast til þess við forseta, ef ekki tekst að fá fleiri í salinn, að fresta málinu og leyfa mér að flytja afganginn af ræðu minni á næsta fundi, ef þá væri betur mætt. Ég tel þetta eiginlega ekki gott. (Forseti: Ég vil mjög óska þess, að hv. þm. lyki ræðu sinni, þar sem þetta mál hefur svo lengi legið í salti og það er tekið á dagskrá samkv. hans ósk. Hins vegar, þótt forseta þyki miður, að svo fáir hlýði á ræðu hv. þm., þá er það ekki sök forseta.) Mundi forseti ekki vilja reyna að fá einhverja fleiri með því að hringja bjöllu sinni? (Forseti: Þess skal freistað.) Og betur má, ef duga skal.

Hv. 3. þm. Sunnl. sagði í ræðu sinni 11. marz, að það mundi þýða beina hækkun á útsvörum launamanna, ef jöfnuður yrði gerður á aðstöðugjöldunum, eins og við hv. 5. þm. Norðurl. e. förum fram á í okkar frv. Einu sinni var ákvæði í l. um það, að áður en sveitarfélag gæti fengið framlag úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga, skyldi það hækka álögð útsvör hjá sér um 20% frá þeim gjaldstiga, sem er í útsvarslögunum. Nú er búið að nema þetta úr l. Það er búið að breyta þessu. Nú þarf aðeins lítilfjörlega hækkun á útsvörum fram yfir hinn lögákveðna gjaldstiga, til þess að sveitarfélag geti fengið framlag úr jöfnunarsjóði. Ef sveitarfélag því þyrfti að fá bætta þá tekjulækkun, sem það yrði fyrir við leiðréttingu á aðstöðugjöldum, mundi það aðallega gerast með framlögum úr jöfnunarsjóði, en ekki með auknum útsvarsálögum á almenning.

Annars var aðalefnið í ræðu hv. 3. þm. Sunnl. hinn 11. marz að lýsa fyrir þdm. því, að hann hefði mikla þekkingu og reynslu í sveitarstjórnarmálum, og einnig að lýsa því, að ég mundi vera mjög þekkingarlítill í þeim efnum, og hann dró a. m. k. mjög í efa, að ég hefði eiginlega nokkurt vit á þeim málum. Ef ég man rétt, sagðist hann hafa verið bæjarstjóri í einum kaupstað hér í 12 ár. Ég held, að það hafi verið rétt af honum að benda þdm. sérstaklega á þetta, þessa miklu þekkingu sína. Það gæti annars dulizt fyrir mönnum, að hún væri svo mikil, því að hún sést ekki af skrifum hans eða ræðum um þetta mál, a. m. k. ekki því, sem hér liggur fyrir.

Hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, flutti einnig ræðu um þetta mál hinn 11. marz, og þar benti hann á það, að þetta væri alvörumál og menn ættu ekki að vera með grín eða gáska í sambandi við það, það væri ekki viðeigandi. Þetta var ágæt áminning hjá hv. 9. þm. Reykv., og mér kemur því ekki til hugar að ræða hér um það, hvort hv. 3, þm. Sunnl. hafi meiri eða minni þekkingu en ég á sveitarstjórnarmálum. Slíkt tal er ekki sæmilegt á Alþ., það mundi aldrei leiða til dómsniðurstöðu, sem talin væri svo örugg, að ekki yrði um deilt. Ég vil alls ekki fara að snúa þessu þannig upp í léttúðarfullt tal og grín, því að þetta er rétt, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði á dögunum, að þetta er alvarlegt mál. En ég get vel skilið, að hv. 3. þm. Sunnl. kjósi fremur að færa umr. yfir á þetta svið heldur en að reyna að sannfæra þdm. um, að það sé rétt stefna, sem hann fylgir, að láta t. d. verzlanir og fiskfrystihús í Vestmannaeyjum borga 100% hærra aðstöðugjald en hliðstæð fyrirtæki í Reykjavík eru látin borga.

Ég hef bæði nú og áður nefnt dæmi um ranglætið, sem menn eru beittir með framkvæmd tekjustofnalaganna, eins og hún nú er. Ég vil enn nefna dæmi um þetta. Tilbúinn áburður er einn af helztu nauðsynjavörum landbúnaðarins. Á einstaka stöðum, svo sem í Búðardal, í Borgarnesi og í Vopnafjarðarkauptúni, var ekkert aðstöðugjald tekið af áburði árið sem leið. Sveitarstjórnirnar þar munu hafa talið, að það væri ekki rétt að skattleggja svo mikla nauðsynjavöru fyrir landbúnaðinn. Á öðrum stöðum má gera ráð fyrir, að bændur þurfi að borga að meðaltali frá 200 kr. og upp í 1000 kr. og jafnvel meira í aðstöðugjald af áburðarskammtinum á túnin sín á þessu ári. Þetta er ákaflega mismunandi.

Það er ekki langt síðan sett voru hér á hinu háa Alþ. lög um atvinnujöfnunarsjóð, og menn ræða um landshlutaáætlanir svonefndar. Tilgangurinn með þessu hvoru tveggja er sagður vera sá að efla atvinnurekstur og halda við byggðinni sem víðast um landið. En ég tel vonlítið, að þetta takist, að efla atvinnurekstur og halda við byggðinni á ýmsum stöðum á landinu, ef haldið verður áfram að heimta margfalt hærri opinber gjöld af fólki á einum stað en öðrum.

Þeir í meiri hl. heilbr.- og félmn. flytja hér till. til rökstuddrar dagskrár, og ég held, að hv. frsm. n. hafi lesið hana öðru sinni núna áðan. Hún er satt að segja furðuleg, þessi dagskrártill., að orðalagi. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að telja verður eðlilegt, að jafnveigamiklar breyt. á tekjustofnal. og frv. gerir ráð fyrir séu gerðar í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga, en ekki gegn vilja þess, ályktar deildin að vísa frv. frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þeir telja, að það megi ekki gera veigamiklar breytingar á l. gegn vilja Sambands ísl. sveitarfélaga. Hvað eru þeir að segja með þessu? Þeir eru með því að lýsa því yfir, að Alþ. geti ekki gert þýðingarmiklar breyt. á þessum l., nema Samband ísl. sveitarfélaga samþ. Það samband er orðið Alþ. æðra í þessum málum samkvæmt þessu. En hverjir skyldu vilja lýsa slíku yfir með því að samþ. þessa dagskrártill., hverjir fleiri af þdm. en þessir fjórir, sem skipa meiri hlutann? Ég veit það ekki. En það verður fróðlegt að sjá, hverjir vilja gefa slíka yfirlýsingu hér á Alþ., að það megi ekki afgr. mál, sem snerta sveitarfélögin, nema Samband ísl. sveitarfélaga samþ. Það verður fróðlegt að sjá þetta, og þess vegna óska ég, hæstv. forseti, eftir því, að það verði haft nafnakall um dagskrártill., þegar til atkvgr. kemur.