15.04.1969
Neðri deild: 77. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (2355)

32. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lengja umr. um þetta mál, þær hafa þegar orðið allmiklar. En það er aðeins eitt atriði, sem ég vil undirstrika, sem ég að vísu gerði í ræðu minni 11. marz, en það er sá misskilningur, sem virðist vera hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., að það sé skylda fyrir sveitarfélögin að nota þá heimild, sem er í l. um aðstöðugjöldin. Hann benti á, að aðstöðugjöld væru allt að 100% hærri í Vestmannaeyjum en hér í Reykjavík. Þetta er ekki ákvörðun Alþ., að svo er. Þetta er ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja, að þannig er. Aðstöðugjöldin í Vestmannaeyjum gætu verið 100% lægri en í Reykjavík, ef bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum teldi það eðlilegt. Það er aðeins heimildarákvæði um að leggja á aðstöðugjöld og ákveða upphæð þeirra að vissu marki.

Ég held, að ég hafi aldrei brigzlað hv. 1. þm. Norðurl. v. um neina vanþekkingu á sveitarstjórnarmálum eða því síður verið að hæla mér af minni þekkingu. Ég sagðist hafa nokkra reynslu í þessum málum, annað held ég, að ég hafi ekki sagt um það. En ég sagði og segi það aftur, að hann hlýtur að misskilja þetta, ef hann heldur, að sveitarfélög séu skyldug að nota útsvarsstiga að fullu og það sé ákvörðun Alþ., að aðstöðugjöld eru hærri víða um land en hér í Reykjavík. Það er ákvörðun sveitarstjórnar á hverjum stað, að svo er, en ekki ákvörðun Alþ. Ef sveitarstjórnir telja sig ekki þurfa að nota þá heimild, sem í l. er um álagningu aðstöðugjalds, þá auðvitað gera þau það ekki, en ef þau telja sig þurfa að nota hana og það sé eðlilegri innheimta og eðlilegri skattálagning á borgarana heldur en bein útsvör, þá gera þeir það, bæði í Vestmannaeyjum og annars staðar. Þetta er það, sem fyrir liggur um þetta atriði.

Ég held, að það sé hverjum einasta sveitarstjórnarmanni ljóst, sem einhverja reynslu hefur í þessum málum, að tilfærsla á gjöldum innbyrðis, t. d. tilfærsla á aðstöðugjaldi eða lækkun á aðstöðugjaldi, getur ekki þýtt annað en hækkun á útsvörum á aðra borgara bæjarins. Þetta er tilfærsla á gjöldum á milli þegna byggðarlagsins. Þetta held ég, að liggi alveg ljóst fyrir. Bæjarstjórn ákveður um hver áramót, hver heildarupphæð gjalda skuli vera, og ef aðstöðugjöld eru lækkuð, þá getur það ekki komið annars staðar fram en í hækkuðum útsvörum. Ég held, að hverjum einasta sveitarstjórnarmanni hljóti að vera þetta ljóst. Þar af leiðir, að lækkun aðstöðugjalds, ef það er gert með beinum l. hér á Alþ., þá þýðir það hækkun á útsvörum. Það er tilgangslaust að benda á, að það sé hægt að fara í jöfnunarsjóðinn og sækja þangað mismuninn. Ef svo væri, þá væri ákaflega lítill vandi að sjá um fjárreiður sveitarfélaganna, það væri ekki annað en að hafa útsvörin nægilega lág og sækja síðan fé úr jöfnunarsjóði. En ákvæðin um jöfnunarsjóð eru þau, eins og allir vita, að það verður að fullnýta stigann áður og rúmlega það nú. Það var 20% álag áður. Og ef mörg sveitarfélög fara að fella niður aðra tekjustofna en útsvörin, taka þau í hámark, þá auðvitað minnkar framlagið úr jöfnunarsjóði til annarra sveitarfélaga, sem gera það ekki, og það þýðir, að þá hljóta útsvör að fara að hækka, þangað til öll sveitarfélög eru komin á sama markið og treysta á jöfnunarsjóð frekar en aðrar tekjur. Þetta er því að mínum dómi miklu flóknara mál en svo, að það sé eðlilegt, að þetta sé gert, nema að mjög vel athuguðu máli og leitað álits Sambands ísl. sveitarfélaga, sem þetta mál snertir fyrst og fremst, hvernig þeir aðilar vilja haga álagningu gjalda til þarfa sveitarfélaganna. Það er ekki tekið neitt vald af Alþingi. Alþ. getur gert hvað sem það vill, bæði um þessi lög og önnur. Það er aðeins bent á, að þetta sé svo flókið mál, að það sé eðlilegt, að samráð sé haft við Samband ísl. sveitarfélaga og forsvarsmenn þess, ef á að breyta l. um tekjustofna.