11.11.1968
Efri deild: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (2360)

44. mál, smíði fiskiskipa

Flm. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Frv. það, sem ég ásamt hv. 3. þm. Vestf. og hv. 3, þm. Norðurl. v. endurflyt hér í hv. þd. um nýsmíði fiskiskipa, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr. Ríkisstj. er heimilt að láta smíða innanlands fiskiskip með það fyrir augum, að þau verði seld einstaklingum, félögum eða bæjarfélögum í hendur til útgerðar. Heimild þessi nái til nýsmíði fiskiskipa samtals allt að 10 þús. rúml. og verði smíðinni dreift á árin 1969–1972.

2. gr. Til framkvæmda samkv. 1. gr. er ríkisstj. heimil lántaka, en lánin greiðist, er skipin hafa verið seld.“

Eins og ég gat um, er frv. þetta endurflutt, það var flutt á Alþ. í fyrra, og efnislega er frv. nú nærri því samhljóða. Eini munurinn er sá, að nú er gert ráð fyrir því, að nýsmíði fiskiskipa þeirra, sem frv. greinir, nái til 10 þús. rúml. í staðinn fyrir 9 þús., eins og ráð var fyrir gert í frv. í fyrra, þegar það var flutt.

Megintilgangurinn með flutningi þessa frv. er fyrst og fremst að efla skipasmíði landsmanna og jafnframt iðnaðinn almennt og í leiðinni að skapa verkefni fyrir þær skipasmíðastöðvar, sem geta smíðað stálfiskiskip, og er það sérstaklega haft í huga í sambandi við það, að aukin eftirspurn er nú eftir stálfiskiskipum.

Á undanförnum árum hefur átt sér stað nokkur uppbygging nýrra skipasmíðastöðva og jafnframt endurbætur á stöðvum, sem fyrir voru, svo að unnt væri að smíða þar stálskip. Það er mjög þýðingarmikið að efla þessa starfsemi á alla lund. Það er augljóst, að íslenzkir iðnaðarmenn og íslenzkir verkfræðingar eru fullfærir um að smíða stálskip, hafa vald á þeirri tækniþekkingu og þeirri verkfræðiþekkingu, sem til þess þarf. Það sýna allmörg skip, sem þegar hafa verið byggð úr stáli hérlendis.

Ég hafði framsögu fyrir þessu máli hér í hv. þd. í fyrra og gerði þá allýtarlega grein fyrir því. Ég mun nú ekki endurflytja þá ræðu hér, heldur aðeins vísa til hennar. Það eru í henni ýmsar upplýsingar, sem að gagni mega koma í sambandi við fiskiskipasmíði, og ef áhugi kynni að vera á því í þeirri nefnd, sem fær málið til meðferðar, þá er þar ýmislegt, sem menn geta haft gagn af.

Ef við lítum stuttlega yfir skipasmíðastöðvarnar, sem nú eru starfandi hér í landinu, og athugum, hvaða verkefni þar eru aðallega í nýsmíði, þá kemur á daginn, að það er frekar fátæklegt.

Á Ísafirði, í skipasmíðastöð Marzelíusar Bernharðssonar, er verið að smíða eitt skip, sem er tæpl. 200 smál.

Slippstöðin á Akureyri hefur í smíðum tvö strandferðaskip, eins og kunnugt er, og sennilega hefur sú stöð nægileg verkefni fram á árið 1970, eftir því sem mér hefur verið sagt.

Stálvík í Arnarvogi hefur í smíðum tvo 110 smál. báta, sem nokkuð langt eru komnir.

Og á Akranesi mun nú vera einn bátur í smíðum. Mér er ekki kunnugt um, hve stór hann er. Á Seyðisfirði er lítill, 45 smál., stálfiskibátur í smíðum.

Erlendis mun aðeins vera eitt fiskiskip í smíðum fyrir Íslendinga. Ég hygg, að það sé fyrir Fáskrúðsfjörð og sé smíðað í Flekkefjord í Noregi.

Það er ljóst með hliðsjón af því ástandi, sem er ríkjandi í efnahagsmálum þjóðarinnar og ekki sízt í sjávarútveginum, að þá er í bili ekki mikil eftirspurn eftir fiskiskipum, en auðvitað gengur þetta í bylgjum.

Árið 1967 voru smíðuð milli 30 og 40 fiskiskip erlendis fyrir Íslendinga, og þá voru smíðuð 8 skip innanlands. Liggur í augum uppi, þó að lítil eftirspurn sé nú um sinn, að þá kemur að því, að það verður nauðsynlegt að halda áfram byggingu fiskiskipa, með tilliti til þess, að þetta mál er ekki hugsað sem augnabliksmál, heldur ef mætti nota það orð, sem nú er mikið notað, langtímamál, — mér þykir það ljótt orð að vísu, en það hefur komið frá ríkisstjórninni eins og fleira, ég heyrði hæstv. viðskmrh. nota það í ræðu hér um daginn.

Ef við lítum á málin í heild með hliðsjón af því, sem hefur verið að gerast í þessum málum á undanförnum árum og áratugum, þá er ljóst, að fiskiskipasmíðaiðnaður, sem þarf að fullnægja eftirspurn Íslendinga, hefur verið geysilega mikil atvinnugrein. Ég athugaði það í fyrra, að síðan 1950 hafa verið smíðuð fyrir Íslendinga um 500 fiskiskip, á þessum 18 árum, eitthvað um það bil. Sýnir það í raun og veru stærð þessa máls almennt séð, hve hér er um að ræða gífurlega mikið verkefni. Það varpar auðvitað ljósi á það, að hér kunna að vera stórkostleg verkefni fyrir íslenzkan iðnað í framtíðinni. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta sé mjög merkilegt mál, þetta fiskiskipasmíðamál, enda er það svo, að mikill áhugi er á málinu í öllum stjórnmálaflokkum og í landinu yfirleitt. Það, sem staðið hefur í mönnum, er að koma þessu svo fyrir, að Íslendingar geti eflzt í þessari iðngrein svo mikið, að þeir geti a. m. k. smíðað verulegan hluta af íslenzkum fiskiskipastóli.

Þetta mál er auðvitað ekki eingöngu — ef svo mætti orða það — bundið við fiskiskipasmíði, heldur er það miklu stærra í raun og veru, vegna þess að það grípur inn á í raun og veru allar okkar hefðbundnu iðngreinar. Þær koma allar til, þegar þarf að smíða t. d. stálfiskiskip, nema kannske múrverkið. Þess vegna er það svo, að ef okkur tækist að auka fiskiskipabyggingar hér innanlands, þá mundi það styðja iðnaðinn stórlega almennt séð.

Heimildirnar í þessu frv. eru rúmar. Við höfum gert grein fyrir því í grg., að ráð sé fyrir gert, að framkvæmdum sé hagað þannig, að árið 1969 yrðu smíðuð fiskiskip allt að 2 þús. rúmlestum. Ef haft er í huga, að árið 1967 voru smíðuð hér innanlands fiskiskip samtals 1580 rúmlestir, þá er ljóst, að þetta er ekki mjög stórt farið í sakirnar, enda er það ekki tilgangurinn með þessu. Árið 1970 er lagt til, að rúmlestatalan yrði allt að 2300 rúmlestum, árið 1971 allt að 2700 og 1972 allt að 3000 rúmlestum, eða samtals 10 þús. rúmlestir.

Ég vil taka það fram, að það er í raun og veru ekki aðalatriðið, hvort hér er um að ræða 10 þús. rúmlestir á tilteknu tímabili eða eitthvað minna eða meira. Það er auðvitað allt til athugunar nánar. En aðalatriðið er, að það verði gert skipulegt átak, sett upp „prógramm“ í þessu efni, um fiskiskipasmíði innanlands, í stærri stíl en áður hefur verið gert. Íslendingar hafa oft og tíðum á undanförnum áratugum gert slík „prógrömm“, t. d. með hópsmíði skipa, systurskipa, og seríusmíði erlendis. Það stærsta hygg ég vera, þegar nýsköpunartogararnir voru smíðaðir á sínum tíma. Það hafa verið smíðuð skip í Austur-Þýzkalandi, mörg eins, svokallaðir tappatogarar, sem byggðir voru á vinstristjórnarárunum, o. m. fl. mætti nefna í þessu efni, þannig að þetta er ekki nýmæli að því leyti til. Það, sem hér er fyrst og fremst lögð áherzla á, er, að gert verði stærra átak en gert hefur verið hingað til í að efla fiskiskipasmíði innanlands.

Eins og ég gat um áður, eru tiltölulega fá fiskiskip í smíðum fyrir Íslendinga um þessar mundir. Það er nokkurt hlé á þessu, sem stafar sjálfsagt m. a. af því, að byggt hefur verið mikið af fiskiskipum á undanförnum árum, og svo einnig af hinu, að ástandið í efnahagsmálunum, óvissan — ekki sízt í sjávarútveginum — hefur gert sitt til þess, að menn hafa verið tregir til að ráðast í kaup á fiskiskipum.

Mér sýnist því, að nú sé nokkurt tækifæri til þess að breyta til. Það er nokkurt hlé á smíði fiskiskipa og þess vegna tækifæri. Ég álít, að það sé rétt fyrir menn að gera sér grein fyrir því, að skipasmíðaiðnaður verður aldrei stór hér innanlands eða til langrar framtíðar, nema hann verði samkeppnisfær við fiskiskipasmíðaiðnað annarra þjóða. Og það er engin ástæða til þess að ætla annað en að Íslendingar ættu að geta komið sínum málum svo fyrir, a. m. k. þegar til lengdar lætur, að þeir geti keppt við aðrar þjóðir á þessu sviði. Það þarf vissa vernd og stuðning í byrjun. Ég gerði grein fyrir því hér í fyrra, að hugmyndir hafa komið fram um, að skynsamlegt gæti verið að styðja nýjar skipasmíðastöðvar, sem mundu dreifast um landið, þannig að þær fengju vissan styrk út á fyrstu verkin, sem þær hefðu með höndum, þessi styrkur færi svo minnkandi, og að lokum kæmust þessar stöðvar væntanlega á það stig, að þær gætu bjargað sér sjálfar. Í raun og veru gæti verið um að ræða í þessu efni eins konar skólunarkostnað, sem fólginn er í því að ryðja úr vegi byrjunarörðugleikum á þessu sviði. Við gætum tekið okkur til fyrirmyndar í raun og veru fordæmi frá Norðmönnum. Þegar sem mest var byggt af síldveiðiskipunum fyrir Íslendinga, þá var leitað mjög mikið til Noregs í þessu efni. Í Noregi háttaði svo til, að þar voru fjölmargar smærri skipasmíðastöðvar, sem tóku að sér smíði íslenzkra fiskiskipa. Margar af þessum stöðvum voru mjög litlar og mjög illa búnar að tækjum og mannafla. Þetta vita allir þeir, sem nálægt þessum málum hafa komið. En Norðmenn voru dálítið djarfir í þessum efnum, og þeim tókst að byggja upp þó nokkrar smærri skipasmíðastöðvar, sem hafa hreinlega haft verkefni, aðallega fyrir Íslendinga. Auðvitað væri hægt að koma slíku við hér á landi, ef skynsamlega væri á málum haldið og markvisst unnið að því að byggja upp skipasmíðastöðvar, sem gætu keppt við t. d. Norðmenn og aðra, sem svipað stendur á fyrir.

Það, sem hefur kannske hvað mest staðið í vegi á undanförnum árum í þessum efnum, er náttúrlega fjármagnið, bæði stofnfé og ekki sízt rekstrarfé. Nú er það svo, að það er með lögum ákveðið, að það er viss prósenta af kostnaðar- eða matsverði skipa, sem lánað er út á, þegar skip eru smíðuð hér innanlands, og raunar utanlands líka. Þegar skipin eru smíðuð innanlands, er lánað út á þau 75%. Þegar þessi mál voru til umræðu hér á Alþ. í fyrra, var því lýst yfir af ríkisstj., að það yrði séð um að lána 10% til viðbótar af kostnaðar- og matsverði skipa, sem smíðuð væru innanlands. Og mér er kunnugt um, að þeir aðilar, sem hafa gert samninga um smíði skipa innanlands, hafa fengið fyrirheit um þessa 10% viðbót. En hvaðan það fé á að koma og með hverjum hætti, það er mér ekki kunnugt um.

Sú aðferð, sem frv. byggir á, þ. e. að ríkisstj. hafi forgönguna, hún er ekki ný. Það er ekkert nýtt „prinsip“. Fyrir tveimur áratugum voru í gildi hér lög, sem gerðu ráð fyrir sama fyrirkomulagi og hér er gert ráð fyrir, að öðru leyti en því, að þá voru skipin byggð erlendis, en þetta frv. gerir ráð fyrir því, að þau verði byggð hér innanlands.

Ég álít, að þessi iðnaður — fiskiskipasmíðar — sé þess eðlis, að við Íslendingar ættum að geta smíðað meginþorra íslenzkra fiskiskipa, ef skynsamlega er á málum haldið. Íslenzk fiskiskip eru að ýmsu leyti frábrugðin fiskiskipum annarra þjóða. Það eru oft gerðar á þeim sérbreytingar með hliðsjón af íslenzkum aðstæðum. Það mætti segja, að fiskiskipið væri verksmiðja Íslendinga, og það væri e. t. v. ástæða til þess, að sérstök fræðileg athugun færi fram á gerð þess, — athugun með hliðsjón af nýjustu tækni og vísindum, ásamt þeirri miklu reynslu og þekkingu, sem íslenzkir sjómenn hafa af notkun skipanna á undanförnum áratugum. Sérstakt íhugunarefni hlýtur að verða, að allt verði gert, sem hægt er, til þess að tryggja meðferðina á hráefninu, frá því að það kemur á skipsfjöl. Ég er ekki viss um, að þessu atriði hafi verið gefinn nægilegur gaumur með hliðsjón af alls konar tækni, sem nú hefur rutt sér braut á öllum mögulegum sviðum, að gert hafi verið nægilega mikið í því efni að athuga, hvort ekki væri ástæða til þess að gera einhverjar breytingar á gerð einmitt íslenzkra fiskiskipa. En það er auðvitað sérfræðilegt mál.

Íslenzk skipasmíði gæti orðið traustur hlekkur í eflingu íslenzkra atvinnuvega, og auk þess er hér um að ræða atvinnugrein, sem mundi geta treyst atvinnulíf víðs vegar um landið og komið í veg fyrir samdrátt og atvinnuleysi á fjölmörgum stöðum. Þetta álít ég, að vert sé að hafa í huga í sambandi við þetta mál í heild.

Ég sé þá ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta og legg til, að málinu verði vísað til iðnn.