29.04.1969
Efri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (2365)

44. mál, smíði fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., um nýsmíði fiskiskipa, var flutt snemma á þessu þingi. Það var raunar flutt líka á síðasta þingi en hlaut þá ekki fullnaðarafgreiðslu. Nú er sagt, að síðan þetta frv. kom fram, hafi svo miklar ráðstafanir verið gerðar til þess að tryggja framgang efnis þess, að óþarfi sé að samþykkja frv., og með þessum rökstuðningi hefur hv. meiri hl. iðnn. lagt til, að frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Á þennan rökstuðning höfum við, sem skipum minni hl., ekki getað fallizt. Við teljum fulla þörf á því, að Alþ. álykti í þá átt, sem frv. gengur, og til viðbótar þeim rökstuðningi, sem fram kemur hjá hv. flm. í grg. frv., vil ég einnig, eins og hv. síðasti ræðumaður, leyfa mér að vísa til ummæla hæstv. forsrh., sem hann lét falla hér í vetur í sambandi við atvinnumálin, að hér væri um að tefla einar þær áhrifaríkustu ráðstafanir til útrýmingar atvinnuleysi, sem völ væri á að grípa til. Ég sé ástæðu til þess að undirstrika þessi ummæli, þar sem mér finnst þau, gagnstætt því, sem hv. meiri hl. finnst, að þau geri samþykkt frv. óþarfa, þá finnst mér, að þau mæli sérstaklega með því, að frv. verði samþykkt.

Eins og fram kemur í grg. með frv., er það megintilgangur þess að efla skipasmíði landsmanna og iðnaðinn almennt og enn fremur að skapa verkefni fyrir þær skipasmíðastöðvar, sem geta smíðað stálfiskiskip. Það hefur að undanförnu, eins og allir hv. þm. vita, átt sér stað nokkur uppbygging nýrra skipasmíðastöðva og endurbætur eldri stöðva, til þess að þar væri unnt að smíða stálskip. Þessa starfsemi þarf að efla á alla lund. Við vitum, að meginhluti þeirra fiskiskipa, sem bætzt hafa í skipastól landsmanna á síðustu árum, hefur verið smíðaður erlendis, enda þótt unnt hefði verið að smíða sambærileg skip innanlands, og á sama tíma hafa innlendar skipasmíðastöðvar oft verið verkefnalitlar. Og það er efni þessa frv. að bæta úr þessu með skipulegum aðgerðum, sem ríkisvaldið hafi forustu um.

Eins og hér var rakið áðan, gerir frv. ráð fyrir nýsmíði fiskiskipa, samtals allt að 10 þús. rúml. á 4 árum. Gert er ráð fyrir, að í framkvæmdinni verði það þannig, að árið 1969 verði smíðuð fiskiskip allt að 2 þús. rúmlestum, árið 1970 yrði rúmlestatalan allt að 2300, árið 1971 allt að 2700 og 1972 allt að 3 þús. rúmlestum. Gert er ráð fyrir mismunandi stærðum skipa, en þó verður lögð áherzla á smíði systurskipa eða seríusmíði. Með frv. er lagt til, segja flm., að breytt verði um stefnu. Í stað þess að kaupa meginhluta fiskiskipanna frá erlendum skipasmíðastöðvum verði skipin nú byggð innanlands í vaxandi mæli. Með vaxandi þekkingu og tæknibúnaði er þess að vænta, að Íslendingar verði fullfærir um að taka í sínar hendur nauðsynlegar fiskiskipabyggingar, a. m. k. að verulegu leyti.

Við þann rökstuðning, sem fylgir rökstuddri dagskrá meiri hl., höfum við, sem skipum minni hl., aðallega það að athuga, að þær ráðstafanir, sem þar er talað um, séu hvergi nærri fullnægjandi. Í fyrsta lagi er það aðeins 50 millj. kr. fjárhæð, sem atvinnumálanefnd ríkisins hefur til ráðstöfunar til þess að verja í þessu skyni. Í öðru lagi, og það er náttúrlega miklu þýðingarmest, hefur ekki mér vitanlega verið tryggt það fjármagn, sem fiskveiðasjóði er ætlað til að lána til nýbygginganna. Það er búið að samþykkja það, það er alveg rétt, sem hv. frsm. iðnn. sagði áðan, — það er búið að samþykkja, að lán út á skipin skuli vera 85%. En mér er ekki kunnugt um, að það fjármagn hafi verið tryggt. Og ég minnist þess, að í umr. hér í gær, þegar talað var um málefni fiskveiðasjóðs í öðru sambandi, var upplýst, að fjármagnsþörf hans á þessu ári væri 150 millj. til viðbótar því, sem hann hefði, en þá var, eins og allir muna, verið að samþykkja að taka af honum 30 millj., sem ríkissjóður hefur þó lagt honum til, svo að hér hygg ég, að mjög vanti á, að hægt sé að segja, að búið sé að koma þessum málum þannig fyrir, að ástæðulaust sé, að Alþ. hafi afskipti af þeim. Í þriðja lagi bendum við svo á það, að þær ráðstafanir, sem atvinnumálanefnd ríkisins getur samkv. umboði sínu gert, ná aðeins til tveggja ára, ársins í ár og næsta árs, en innlend skipasmíði verður eins og annar innlendur iðnaður að fá að þróast hægt og sígandi, jafnt og þétt, en ekki í þessum eilífu stökkbreytingum, sem mjög hafa einkennt iðnþróunina hér.

Ég ætla ekki að hafa fyrir þessu nál. langa framsögu og raunar ekki lengri en ég þegar er búinn að. Ég vænti þess, að einn af flm. frv. muni gera nánari grein fyrir málinu, og læt þess vegna þessi fáu orð nægja til rökstuðnings nál. á þskj. 502.