29.04.1969
Efri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2366)

44. mál, smíði fiskiskipa

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, var, eins og getið var um áðan, flutt á öndverðu þessu þingi. Samhljóða frv. var einnig flutt í fyrra, og það fékk ósköp rólegt andlát í n. Það var að vísu tekið fyrir á nefndarfundi og þá leitað umsagnar, og bárust a. m. k. 3 umsagnir, en síðan sofnaði það í þeirri ágætu n. Það var vitnað í það áðan af frsm. meiri hl. iðnn., að flutt hefði verið sams konar frv. í fyrra og nú væru raunar á döfinni fleiri frv. í þinginu, og hann minntist líka í því sambandi á, að eitt þeirra næði yfir smíði 50 báta, að upphæð um 2000 millj. Sú framkvæmd var að sjálfsögðu ekki til umr. hér, og mér hefði fundizt eðlilegra, að við hefðum haldið okkur við þessar 10 þús. rúmlestir, sem við erum nú að burðast með hér. En hvað um það, í fyrra, þegar leitað var umsagnar, þá barst mjög jákvæð umsögn um frv., sem þá lá fyrir, frá Landssambandi iðnaðarmanna og mæltu þeir þar með samþykkt frv., og svo að ég endurtaki orðrétt það, sem þar segir, eftir að þeir hafa rakið þetta og vilja gera frv. dálítið fyllra, segja þeir: „Að öðru leyti er Landssamband iðnaðarmanna efnislega sammála lagafrv. og mælir með samþykkt þess.“ Þá voru þeir að vísu búnir að rekja aðallega tvær breyt., sem þeir vildu gera á frv., en það hittist þannig á, að báðar þær breyt. lágu einmitt fyrir í frv. því, sem ég flutti og 3. þm. Norðurl. v., svo að ef þessar brtt, hefðu verið teknar upp og þeim slegið saman, þá hefði Landssamband iðnaðarmanna síður en svo neitt athugavert við frv. og hefði mælt með því óbreyttu. Ég skal ekki rekja það neitt frekar.

Frsm. hv. meiri hl. iðnn. gat þess, að það hefði verið gefin út reglugerð um 85% lán út á fiskiskip. Ég er nú svo fáfróður og verð að viðurkenna fávizku mína, að ég veit ekki til þess, að sú reglugerð hafi verið gefin út. Það kann að vera, það verður þá leiðrétt, ef það hefur verið gert. Fiskveiðasjóður hefur ekki heimild til þess að lána nema 75% og hefur aldrei gert, 5% eru talin koma annars staðar frá, en mér er ekki kunnugt um, að nein reglugerð um þetta hafi verið gefin út. Hins vegar var gefin yfirlýsing hér á hv. Alþ. í fyrra, 17. janúar, af hæstv. sjútvmrh., þar sem hann sagði, að 4. jan. 1968 hefði verið samþ. í ríkisstj. að beita sér fyrir því, að lán út á fyrsta veðrétt yrðu hækkuð úr 75 í 85%, og taldi hann eðlilegt, að hv. þd. vissi um, að þessi mál hafa verið um alllangt skeið til umhugsunar í ríkisstj. og unnið þar kappsamlega að því, að meginefni þessa frv., — það var í sambandi við það frv., sem þá var flutt af okkur, — að meginefni þessa frv. nái fram að ganga og hefur verið unnið að þessu um alllangt skeið. — Ég skal ekkert um það segja, hvað mikið hefur verið unnið að þessu á s. l. ári, en enn virðist mér ekki bóla mikið á því.

Það var lítillega minnzt á það, að útgerðarmenn og aðrir væru ekki sammála um stærð fiskiskipa. Það er eflaust alveg hárrétt, að þeir hafa ekki verið sammála um það. Hins vegar var í fyrra, svo að ég haldi mig við liðið ár líka, á síðasta Alþ., mjög rætt um stöðlun fiskiskipa og talað þá um, að n., sem hefði verið starfandi alllengi, hefði skilað bráðabirgðaáliti, en síðan hef ég ekki heyrt, að hún hafi skilað frekara áliti eða neitt verið gert í því máli, eftir því sem ég bezt veit. En það er auðvitað mjög nauðsynlegt, að samræming á stærð fiskiskipanna verði gerð, því að sama skipastærð hentar ekki öllum landshlutum.

Það er viðurkennt í ummælum hæstv. forsrh., að það sé mikil þörf á því að stuðla að því, að skipasmíði innanlands verði efld, og það sé þýðingarmesta ráðstöfunin til þess að vinna bug á atvinnuleysi. Mér finnst einmitt, að þessi ummæli hæstv. forsrh. stuðli mjög að því, að þetta frv. nái fram að ganga. Þetta frv. gerir ekki ráð fyrir því, að það verði nema 10 þús. smálestir smíðaðar á næstu 4 árum, og er það mjög hóflega farið í sakirnar og kannske of hóflega, eins og mér eiginlega raunar skildist á talsmanni hv. meiri hl. iðnn. En hvað um það, þetta, sem ég hef tekið fram í frv. okkar, er ekki nema það, sem skipasmíðastöðvarnar nú geta afkastað.

Þetta frv., eins og ég gat um áðan, var lagt fram á öndverðu þessu þingi, og 11. nóv. s. l. var það sent til iðnn., svo að ég tel alveg vafalaust, að það hafi notið mjög vandlegrar íhugunar í n., ekki sízt með tilliti til þess, að það var ekki sent til umsagnar neinna aðila, svo að það var ekki verið að bíða eftir umsögnum neinna manna í sambandi við það að taka það ekki fyrir aftur fyrr en núna á síðustu dögum aprílmánaðar. En eins og ég sagði, þá hafði það kannske ekki neina úrslitaþýðingu að vera að senda það til umsagnar, þar sem fyrir lá umsögn frá einum aðila, Landssambandi iðnaðarmanna, sem var mjög jákvæð.

Megintilgangurinn með frv. er, eins og komið hefur fram áður, að efla innlenda skipasmíði, svo að skipasmíðastöðvar þær, sem eru starfandi og smíðað geta stálskip, verði færar um að nýta stærri hluta af þeim innlenda markaði, sem fyrir hendi er, jafnframt því sem hér er um að ræða mjög mikið og brýnt hagsmunamál, sameiginlegt hagsmunamál launþega og atvinnurekenda í skipasmíðaiðnaðinum og málmiðnaðinum yfirleitt.

Á s. l. hausti var haldin ráðstefna, sem mun vera nokkuð einstök í sinni röð, þar sem launþegar og atvinnurekendur í þessum iðngreinum gengust fyrir sameiginlegri ráðstefnu til þess að reyna að kryfja þetta mál til mergjar. Þetta er auðvitað eitt af þeim vandamálum, sem iðnaðurinn á nú við að búa, en síður en svo það þýðingarminnsta. Á undanförnum árum hefur hin mikla aukning á fiskiskipaflota landsmanna stafað nær eingöngu af skipakaupum erlendis frá. Á síðustu 5–6 árum munu rúmlega 140 fiskiskip hafa verið keypt eða bætzt í flota landsmanna, og af þessum skipafjölda voru yfir 90% smíðuð erlendis. Verðmæti þessara skipa, sem smíðuð voru erlendis fyrir okkur á umræddu tímabili, hefur numið yfir 2000 millj. kr., ef reiknað er með verðlagi 1967. Af þessu er ljóst, að hér er um stórmál að ræða, sem verður að taka föstum tökum og leysa til frambúðar, en ekki með bráðabirgðaráðstöfunum og haldlitlum fyrirheitum.

Það kom fram hjá frsm. meiri hl. iðnn., að mikil aukning hefði verið í skipasmíðastöðvum og dráttarbrautum. Þetta stafaði eðlilega af því, að allar eða flestar dráttarbrautir voru of litlar og skipasmíðastöðvarnar gátu ekki annað viðgerðum á hinum nýju stálskipum, sem komu til landsins, og það hlaut að leiða af því, að dráttarbrautir skipasmíðastöðva yrðu stækkaðar. Það er búið að verja verulegum upphæðum til fjárfestingar í slippum og skipasmíðastöðvum, líklega yfir 300 millj. kr., og ég vil síður en svo vera að gera lítið úr því, því að þetta er töluvert mikið átak. En þetta var alveg óhjákvæmilegt. Það er staðreynd, að það er sama, þó að skipasmíðastöðvarnar og dráttarbrautirnar hafi haft aðgang að lánum, og sama, hvað þær eiga aðgang að miklum lánum, það getur aldrei verið það, sem hefur úrslitaáhrif. Það, sem mestu skiptir, er, að skipasmíðastöðvarnar hafi nægileg samfelld verkefni, sem er eina raunhæfa lausnin, sem tryggir rekstur þessara stöðva, bæði fjárhagslega og atvinnulega, og er ekki eru nægar umsóknir um skip á einhverju tímabili, þá verður ríkisvaldið að hafa frumkvæði að því, að skip séu byggð, a. m. k. sem svarar því, að stærð fiskiskipaflotans sé við haldið, en til þess mun þurfa að smíða um 3000 rúmlestir á ári.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að ríkið hafi forgöngu um smíði l0 þús. rúmlesta, eins og ég gat um áðan, á næstu fjórum árum, svo að þótt þetta frv. yrði samþ., þá nægir það ekki til þess að viðhalda stærð flotans, hvað þá meira. Í upphafi ársins 1968 voru alls 868 skip á skipaskrá, samtals rúmlega 150 þús. rúmlestir. En í árslok 1968 var tala skipanna 842 og rúmlestatalan 144 þús. Það skal fúslega viðurkennt, að þetta segir að vísu ekki alla söguna, því að nokkrum sinnum hefur það komið fyrir, að seld hafa verið skip til útlanda, m. a. líklega á þessu tímabili einn „Foss“ og tveir togarar, svo að það er rétt að geta þess, sem rétt er, en eigi að síður hefur skipum fækkað á þessu eina ári verulega. Eftir þeim upplýsingum, sem ég veit bezt, munu 37 skip hafa farið út af skipaskrá á árinu 1968, samtals að upphæð 6470 rúmlestir. Að vísu, eins og ég gat um, munar náttúrlega töluvert um þessi skip, sem ég minntist á, „Foss“ og tvo togara.

Á undanförnum árum hefur meginhluti fiskiskipaflotans verið keyptur frá Noregi. Og við höfum verið önnum kafnir að byggja upp, ef svo má að orði komast, nokkrar norskar skipasmíðastöðvar. Margir þeir, sem hafa séð aðstöðuna sums staðar a. m. k. í Noregi, telja, að við búum miklu betur að tækjum og öðru en margar þessara stöðva. Enda þótt Norðmenn séu alls góðs maklegir umfram flestar aðrar þjóðir, virðist það alger óþarfi fyrir okkur að vera að byggja upp fyrir þá skipasmíðaiðnað á okkar kostnað, á sama tíma og okkur er það lífsnauðsyn, að okkar eigin iðnaðarmenn leysi þessi verkefni af hendi, sem þeir geta mjög vel og alls ekki síður, eins og reynslan hefur sýnt nú síðustu árin, heldur en erlendir skipasmiðir. En til þess að skipasmíðastöðvar okkar séu færar um að gera þetta, verða þær að hafa samfelld verkefni og njóta sambærilegra viðskiptakjara við það, sem vitað er að norsku stöðvarnar hafa notið á undanförnum árum.

Þetta verður ekki gert nema fyrir frumkvæði ríkisvaldsins. Skipasmíðastöðvarnar eru yfirleitt mjög ung fyrirtæki. Það munu ekki vera nema liðlega 13 ár, síðan fyrsta stálskipið var smíðað hér, dráttarbáturinn Magni í Reykjavík, sem smíðaður var hjá Stálsmiðjunni. Þegar sá bátur var byggður, létu margir í ljós mikla vantrú á því, að við værum færir um að smíða okkar eigin stálskip sjálfir. Nú hefur sú vantrú horfið að langmestu leyti eða nær alveg, og eftir stendur vissan um það, að við getum smíðað okkar eigin skip. Um það blandast engum hugur nú. En skipasmíðastöðvarnar hafa ekki það fjárhagslega bolmagn, sem þarf til þess að brúa tímabundið verkefnaleysi, en það er alger forsenda fyrir áframhaldandi þróun og vexti í skipasmíðaiðnaðinum, að samfelld verkefni séu fyrir hendi, og raunar fyrir allan málmiðnaðinn líka.

Það er búið að festa mikið fé, eins og ég gat um áðan, um 300 millj. kr., í tækjum, dráttarbrautum og ýmsum mannvirkjum, svo að það virðist tilgangslítil fjárfesting, ef ekki á að nýta þessi mannvirki og þessi tæki til þess að skapa öruggari vinnu víðs vegar um landið. Það líður auðvitað að því, að eftir því sem fiskiskipaflotinn eldist, verður viðhaldið meira, ekki sízt á stálskipunum. Og þannig fá kannske þessar skipasmíðastöðvar nokkuð aukið verkefni. En það ber alltaf að sama brunni, að það getur aldrei orðið nema samfelld verkefni og nýsmíði geti verið með í spilinu. Frsm. meiri hl. iðnn. gat um það áðan, að það væri enginn fiskibátur í smíðum erlendis, ekkert skip, sem hægt væri að byggja innanlands, væri nú í smíðum erlendis. En það er ekki mikið um það, að skip séu í smíðum hérlendis heldur. Nú er verið að ljúka nokkrum skipum, og það er allt of seint, að þeir fari að byrja á nýjum skipum, þegar verið er að hleypa þeim, sem fyrir eru, af stokkunum. Það krefst mikils undirbúnings að hefja smíði á einum fiskibát eða stálskipi. Og þegar stálvinnu lýkur í þeirri smíði, þá er mikið eftir að gera við skipið, og þess vegna verður, ef vinnan á að vera samfelld, að vera búið að skipuleggja smíðina löngu áður en bátnum er hleypt af stokkunum, til þess að hægt sé að byrja að vinna að næsta skipi, áður en þessum er hleypt af stokkunum.

Í skipasmíðaiðnaðinum hafa vafalaust verið miklir byrjunarerfiðleikar, því að öll byrjun er erfið. En þegar borið er saman verð hinna erlendu skipa og verð þeirra skipa, sem smíðuð hafa verið hér heima, hefur samanburður á verði yfirleitt aldrei verið tæmandi. Þeir, sem keypt hafa báta erlendis frá síðustu 4–5 árin, hafa ekki hugmynd um það í dag, hvað þeir koma endanlega til með að þurfa að borga fyrir skipið eða bátinn. Gengisfellingin hefur raskað þar öllu, bæði um verð og allan kostnað. Og þegar svo hinn þjóðhagslegi ávinningur, sem af innlendri smíði leiðir, atvinnan, gjaldeyrissparnaður og hin mikla verklega reynsla, — þegar þetta allt er lagt saman, þá hygg ég, að verðmismunurinn á bátunum sé hverfandi, ef hann þá er nokkur, ef allt væri tekið með í reikninginn.

Ég hef áður gert það aðeins að umtalsefni hér, að einn liður, sem mér vitanlega hefur aldrei verið tekinn með, þegar bátur hefur verið keyptur erlendis frá, tekinn með í verðið, er svokallað ábyrgðargjald. Það hefur yfirleitt aldrei verið tekið með. Það skiptir verulegum upphæðum hjá þessum bátum.

Eins og nú er ástatt í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar, veitir ekki af því að gera atvinnuvegina fjölþættari og styrkja iðnaðinn. Verði frv. þetta samþ., mun það koma málmiðnaðinum öllum mjög til góða og raunar miklu fleiri aðilum.

Hin rökstudda dagskrá, sem hér liggur fyrir á þskj. 499 frá meiri hl. iðnn., segir kannske ofurlitla sögu. Ég er hér með tvö nál., — ég rak augun í þetta áðan, — annað er prentað upp með ofurlítilli breytingu, það er ein setning, sem fellur burt. Mér sýnist hún leiða hugann að því, að undirbúningurinn hafi ekki verið eins mikill að þessari skipasmíði og hv. frsm. meiri hl. iðnn. vildi vera láta. Fiskveiðasjóður hefur hingað til ekki haft fjármagn til þess að lána í skip, sem smíðuð hafa verið á „lager“, eins og orðalagið var hjá fiskveiðasjóði í umsögninni um frv. á síðasta þingi. Og þeir hafa ekki fengizt til að lána út á skip, nema kaupandi væri fyrir hendi og hefði lagt fram eigið framlag. Út af fyrir sig er þetta kannske sjónarmið. En það er þetta, sem frv. m. a. vill komast fram hjá með því að láta ríkið byggja þetta og að það verði byggt, án þess að kaupendur séu fyrir hendi. Fiskveiðasjóður er auk þess nú fjárvana og getur ekki staðið við skuldbindingar sínar, eins og komið hefur fram hér, svo að ég held, að það væri full þörf á því, að þetta frv. yrði samþ. Það skiptir auðvitað sáralitlu eða engu máli hvað orðalagið snertir, þetta sem ég gat um, en það bendir, finnst mér, í þessa átt, að undirbúningurinn sé frekar lítill.

Ég leyfi mér að skírskota til ummæla hæstv. forsrh., þar sem hann gat þess, að innlend skipasmíði væri ein raunhæfasta leiðin til þess að vinna bót á því atvinnuleysi, sem gert hefur vart við sig í málmiðnaðinum og fleiri greinum, og vænti þess, að hv. Ed. sé mér sammála um það og hæstv. forsrh. einnig og samþ. frv. það, sem hér liggur fyrir.