29.04.1969
Efri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (2368)

44. mál, smíði fiskiskipa

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Það voru nú aðeins örfá atriði. Ég hlýt að vera mjög skilningssljór maður. Frsm. meiri hl. sagði, að það væri mjög gaman að vita, hverja skoðun skipasmiðir á Vestfjörðum hefðu á rökum mínum. En hvaða rök skyldu það vera, sem ættu að valda svona mikilli forundrun á Vestfjörðum, að ég ætti helzt ekki að þora að láta það út úr mér? Ég er sannfærður um það, að skipasmiðir á Vestfjörðum eru mér alveg sammála í því, að það sé mjög eðlilegt og þarft mál að smiða skip á „lager“. Ég get nefnt eitt dæmi, og ég veit, að ég ætti ekki að þurfa nefna þessi dæmi fyrir hv. frsm., hann þekkir þau svo ákaflega vel. Skip er í smíðum í einni stöð, það er ráðinn á skipið skipstjóri. Hann ræður að nokkru leyti teikningu og ýmsum breytingum síðan. Einhverra hluta vegna hverfur þessi skipstjóri á braut. Það er ráðinn nýr skipstjóri, og enn á ný koma breytingar. Þriðji skipstjórinn er ráðinn, og enn þarf að fara að breyta. Þetta eru staðreyndir, sem ég veit um og þarf ekkert að undra neinn, sem komið hefur nærri járnsmíði og málmiðnaði eða skipasmíðum yfirleitt, því að þetta eru staðreyndir. Fram hjá þessu yrði augljóslega gengið, ef skip væru smíðuð á „lager“, þau yrðu bæði ódýrari og fyrr búin, svo að ég held, að skipasmiðir á Vestfjörðum mundu ekki hafa neitt á móti þessum rökum mínum. Ég get ekki fundið það, og ég fann satt að segja ekki, að ég væri neitt að móðga hv. kjósendur, hvorki mína né aðra á Vestfjörðum, með neinum af þeim rökum, sem ég bar fram.

Frsm. taldi, að heimildin til skipasmíðanna væri ákaflega lítil, og það er, að mér finnst, aðalþyrnirinn í augum, að við höfum verið hógværir með þessar skipasmíðar. Ég verð nú að láta í ljós dálitla undrun yfir því, að þegar menn ætla rétt að sinna brýnustu þörfum, þá sé það talið undrunarefni, hvað þeir séu smátækir. Ég held, að það liggi fyrir, að stjórn fiskveiðasjóðs hafi aldrei viljað samþ. lagersmíði. Það lá fyrir í umsögninni um þetta frv., sem dagaði uppi í hv. iðnn. á síðasta þingi, þar sem formaður stjórnar sjóðsins, Davíð Ólafsson, og framkvæmdastjóri sjóðsins, Elías Halldórsson, skrifuðu undir bréf, að þeir hefðu yfirleitt alltaf verið andvígir nýsmíði fiskiskipa, án þess að kaupendur væru fyrir hendi, og þeirri skoðun hafi þeir ekki breytt. Meðan féleysi fiskveiðasjóðs er svo mikið, að það er sagt hér á Alþ., að hann sé alls ófær um að sinna þeim skuldbindingum, sem hann hefur tekið á sig, og til þarf að koma sérstök yfirlýsing frá hæstv. fjmrh. í sambandi við afgreiðslu laga um fiskveiðasjóð, þá held ég, að það fari ekkert á milli mála, að fiskveiðasjóður getur hvorki lánað 75 né 85% í nýsmíði, nema sérstök fjárveiting komi til, og það er lagt til í þessu frv., að ríkisstj. sé heimiluð lántaka í þessu skyni. Fiskveiðasjóður hefur að vísu lánað viðskiptabönkunum. Hann hefur einhverra hluta vegna ekki talið það reglum sínum samkvæmt að lána kaupendum sjálfum, þó að þeir séu fyrir hendi, heldur hefur þetta alltaf orðið að ganga einhverja krókaleið inn á reikning í viðskiptabönkunum, þannig að fiskveiðasjóður á fé liggjandi á bönkunum, en kaupendur eða skipasmíðastöðin hefur aftur á móti orðið að taka lán í viðkomandi viðskiptabanka. Þetta eru vankantar, sem ætti að sníða af þessari starfsemi, því að þetta er engum til góðs, öllum til kostnaðarauka og erfiðleika.