18.12.1968
Efri deild: 33. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

22. mál, stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í sept. 1967 var ákveðið að koma á fót sérstöku kerfi yfirdráttarréttinda hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum milli seðlabanka eða hliðstæðra stofnana aðildarríkja hans, og var stjórn sjóðsins þá falið að gera till. um framkvæmd á þessu máli. Er hér í raun og veru um að ræða aukningu á starfsfé Alþjóðagjaldeyrisvarasjóðsins í því skyni að gera kleifa aukningu peningamagns í heimsviðskiptunum, til þess að hægt sé að standa undir fjármögnun stöðugt vaxandi heimsviðskipta, þó að hliðstæð aukning verði ekki á gullframleiðslu í heiminum. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er m.ö.o., með þessum fyrirhuguðu ráðstöfunum, heimilað að koma á hjá sér yfirdráttarkerfi, sem geti komið í stað aukinnar gullframleiðslu og aukins framboðs á nýjum varasjóðum í helztu gjaldmiðlum, sem notaðir eru í alþjóðlegum viðskiptum, dollar og sterlingspundi. Gert er ráð fyrir því, að aðildarríki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerist aðilar að þessu nýja greiðslukerfi. Er enginn vafi á því, að það mundi geta orðið Íslandi, eins og öðrum aðildarríkjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, til hagsbóta, að þetta kerfi kæmist á. Seðlabanki Íslands er lögum samkv. fjárhagslegur aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrir ríkisins hönd og mundi annast alla framkvæmd í þessu sambandi. Um framlög af hálfu íslenzka ríkisins í þessu sambandi yrði ekki að ræða.

Ég veit ekki með vissu, hversu mörg aðildarríki gjaldeyrissjóðsins hafa þegar staðfest eða tilkynnt aðild sína að þessu nýja yfirdráttarkerfi, sem veitir aðildarríkjunum aukinn rétt, misjafnlega mikinn rétt og í nokkuð misjöfnu formi, eftir ýmsum aðstæðum. En sjálfsagt virðist, að Ísland gerist aðili að þessu og hagnýti sér þar með þann aukna aðgang að alþjóðlegum gjaldeyrisvarasjóði, sem þetta nýja kerfi skapar. Einhugur var um málið í hv. Nd., fjhn. samþykkti einróma að mæla með samþykkt frv., og vona ég, að það sama verði einnig niðurstaðan hér í hv. Ed.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.