16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (2377)

207. mál, eyðing svartbaks

Birgir Kjaran:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þá rökstuddu dagskrá, sem hér liggur fyrir. Af henni framgengur, að rn. muni nýverið hafa gefið út reglugerð varðandi eyðingu svartbaks þar sem heimiluð er notkun svæfingarlyfs, eins og það er nefnt, phenemalanatríum. Ég tek ekki hér til máls af því, að ég sé á móti því, að allt sé gert, sem hugsanlegt er, til þess að eyða svartbaknum eða a. m. k. draga úr þeirri plágu, sem hann er fyrir varpeigendur. Hins vegar vil ég benda á , að það lyf, sem hér er nefnt, er allhættulegt í meðförum. Þetta er að vísu notað í smáum skömmtum til almennra lækninga, en í stærri skömmtum er þetta allútbreitt nautnalyf, sem yfirleitt í öðrum löndum er goldinn varhugur við að láta liggja laust fyrir á verzlunarmarkaði. Auk þess getur það beint verið banvænt, því að ekki stærri skammtur en 100–200 g af phenemalnatríum er banvænn hverjum manni. Ég hefði þess vegna viljað beina þeim tilmælum til hæstv. ráðh., sem þessi mál heyra undir og þessa reglugerð hefur samið, að hann léti endurskoða þetta og finna annað lyf, sem að sama gagni kæmi, en væri mönnum ekki jafnhættulegt og þetta er.