19.12.1968
Neðri deild: 38. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (2387)

12. mál, þóknun fyrir innheimtu opinberra gjalda

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál til athugunar, en hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Með frv. er lagt til, að atvinnurekendum verði greidd 3% þóknun fyrir innheimtu opinberra gjalda hjá starfsfólki sínu. Meiri hl. n. vill minna á, að starfandi er þingkjörin n., sem hefur það hlutverk að gera till. um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ef ákveðið verður að taka það fyrirkomulag upp, mun það hafa í för með sér mikla breytingu á innheimtustörfunum frá því, sem nú er. N. sú, sem að þessu starfar, hefur haft og mun hafa náið samráð við forsvarsmenn þeirra aðila, sem málið snertir, svo sem forsvarsmenn sveitarfélaga, launþega og atvinnurekenda, og hafa þeir þar ágætt tækifæri til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Ráðgert er, að þessi n. skili áliti snemma á næsta ári, og með tilvísun til þess leggur meiri hl. fjhn. til, herra forseti, að málinu verði vísað til ríkisstj.