14.11.1968
Efri deild: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (2394)

46. mál, Póst- og símamálastofnun Íslands

Flm. (Tómas Karlsson):

Herra forseti. Á þskj. 48 flyt ég ásamt hv. 3. þm. Norðurl. v., hv. 1. þm. Vesturl. og hv. 4. þm. Norðurl e. frv. til l. um Póst- og símamálastofnun Íslands. Frv. þessu er ætlað að koma í stað l. nr. 8 frá 9. jan. 1935, um stjórn og starfrækslu póst- og símamála. Ákvæði núgildandi l. um yfirstjórn póst- og símamála eru svo hljóðandi í núgildandi lögum, með leyfi hæstv. forseta, upphaf 1. gr.:

„Póst- og símamálum hins íslenzka ríkis stjórnar póst- og símamálastjóri, sem hefur umsjón og eftirlit með framkvæmdum og starfrækslu pósts og síma. Póst- og símamálastjóri stendur beint undir ráðh. þeim, sem póst- og símamálin heyra undir. Konungur veitir þetta embætti.“

Fyrstu sex greinar þessa frv., sem hér eru til umr. og ætlað er að koma í stað þessara ákvæða, sem ég nú las úr núgildandi l., eru svo hljóðandi:

„1. gr. Póst- og símamálastofnun Íslands er sjálfstæð stofnun, sem er eign ríkisins, en lýtur sérstakri stjórn. Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum stofnunarinnar. Heimili og varnarþing hennar er í Reykjavík.

2. gr. Yfirstjórn Póst- og símamálastofnunar Íslands er í höndum ráðh. þess, er fer með póst- og símamál, póst- og símamálaráðs og póst- og símamálastjóra.

3. gr. Ráðh. veitir embætti póst- og símamálastjóra. Laun póst- og símamálastjóra eru ákveðin í samræmi við lög nr. 55 frá 1962, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

4. gr. Póst- og símamálaráð skipa 5 menn, sem kosnir eru hlutbundinni kosningu af Alþ. til fjögurra ára í senn ásamt jafnmörgum til vara. Ráðh. skipar einn hinna kjörnu aðalmanna formann póst- og símamálaráðs til fjögurra ára, en annan varaformann. Aðalmenn eða varamenn þeirra í póst- og símamálaráði skulu vera búsettir í Reykjavík eða svo nálægt Reykjavík, að þeim sé auðvelt að sækja fundi ráðsins hvenær sem er. Póst- og símamálaráð heldur reglulega fundi minnst tvisvar í mánuði, og skal póst- og símamálastjóri gefa ráðinu skýrslur um störf stofnunarinnar. Allar meiri háttar ákvarðanir skal póst- og símamálastjóri taka með samþykki póst- og símamálaráðs. Rísi ágreiningur milli ráðsins og póst- og símamálastjóra, skal ráðh. kveða upp úrskurð í málinu.

5. gr. Hlutverk póst- og símamálaráðs skal enn fremur vera að gæta í hvívetna hagsmuna almennings gagnvart Póst- og símamálastofnuninni og vera tengiliður hans og Alþ. við stofnunina. Heimilt er fulltrúum í póst- og símamálaráði að taka þar til umr. og afgreiðslu hvert það mál, er snertir samskipti stofnunarinnar við þá, er þjónustu hennar eiga að njóta.

6. gr. Ráðh. ákveður þóknun fyrir störf póst- og símamálaráðs.“

Þannig hljóða þessar frvgr., sem ætlað er að koma í stað þeirra ákvæða í núgildandi l. um yfirstjórn póst- og símamála, sem ég las hér áðan.

Mér er það ljóst, að á þeim 32 árum, sem liðin eru frá þessari lagasetningu, hefur þessi stofnun mjög vaxið og ýmsum málum, m. a. um stjórnun stofnunarinnar, hefur verið skipað með reglugerðarákvæðum. M. a. munu vera einir þrír eða fjórir forstjórar svokallaðir innan stofnunarinnar: forstjóri hagdeildar, forstjóri radíótæknideildar, forstjóri rekstrardeildar og forstjóri símatæknideildar, og kynni hv. þd. að þykja ástæða til að samræma aðrar gr. þessa frv. við þá skipan, sem nú er komin á í þessari stofnun varðandi yfirstjórnina. Þetta höfum við flm. ekki tekið upp í frv., heldur óbreyttar aðrar gr. l., en samræmt þeim ákvæðum, sem eru í fyrstu 6 gr. frv. um nýmælin, póst- og símamálaráð. En eins og ég sagði er þessum 6 fyrstu greinum ætlað að koma í stað ákvæða gildandi laga um yfirstjórn þessarar stofnunar, og er þar lagt til, að lögfest verði nafn þessarar stofnunar, Póst- og símamálastofnun Íslands, og enn fremur, að lögfest verði, að heimili og varnarþing stofnunarinnar sé í Reykjavík og ráðh., sem fer með póst- og símamál, veiti embætti póst- og símamálastjóra.

Þá eru aðalnýmæli frv. um þingkjörið póst- og símamálaráð, en í öðrum greinum þess, eins og ég sagði, eru tekin upp ákvæði núgildandi laga. Lagt er til, að póst- og símamálaráð skipi 5 menn, sem kosnir verði hlutbundinni kosningu af Alþ. til fjögurra ára í senn ásamt jafnmörgum til vara. Skal ráðh. skipa einn hinna kjörnu aðalmanna formann póst- og símamálaráðs til fjögurra ára, en annan varaformann. Aðalmenn og varamenn þeirra í póst- og símamálaráði skulu vera búsettir í Reykjavík eða svo nærri Reykjavík, að þeir geti sótt fundi ráðsins hvenær sem er með stuttum fyrirvara, og ég vil einmitt benda á í sambandi við þessi ákvæði frv., að með þessum ákvæðum er ekki komið í veg fyrir, að menn, sem lögheimili eiga fjarri höfuðborginni, verði kjörgengir til póst- og símamálaráðs, heldur sett það skilyrði, að varamaður skuli vera búsettur í Reykjavík eða nágrenni, ef þannig er ástatt um heimili aðalmanns, að hann búi fjarri höfuðborgarsvæðinu. Þá er lagt til, að póst- og símamálaráð haldi fundi tvisvar í mánuði hverjum og oftar, ef þurfa þykir, og póst- og símamálastjóri gefi ráðinu skýrslur um starfsemi og framkvæmdir stofnunarinnar, enda skal hann taka allar meiri háttar ákvarðanir um starfsemi, framkvæmdir, fjárskuldbindingar og afnotagjöld að fengnu samþykki póst- og símamálaráðs, en rísi ágreiningur um mál milli ráðsins og póst- og símamálastjóra, skal ráðh. kveða upp úrskurð í málinu og taka af skarið.

Þá vil ég sérstaklega vekja athygli hv. þd. á 5. gr. frv., þar sem kveðið er nánar á um hlutverk póst- og símamálaráðs. Segir þar, að póst- og símamálaráð skuli vera tengiliður Alþ. og almennings við Póst- og símamálastofnun Íslands og sé fulltrúi í póst- og símamálaráði heimilt að taka hvert það málefni til umr. í ráðinu og afgreiðslu þar, sem snertir að þeirra dómi samskipti stofnunarinnar við þá, sem þjónustu hennar eiga að njóta. Átt er við með þessu, að hver sá, sem telur sig ekki hafa fengið leiðréttingu mála sinna hjá embættismönnum stofnunarinnar, geti snúið sér til aðalmanna eða varamanna í póst- og símamálaráði og beðið þá að kanna málið, og myndu þeir þá gera það, kanna málið til hlítar og taka þá málið fyrir í ráðinu, teldu þeir umkvartanir á rökum reistar.

Stofnun pósts og síma hefur einkaleyfi hér á landi á sölu þeirrar þjónustu, sem hún veitir. Starfsemi þessarar stofnunar snertir orðið hvert heimili og rekstur hverrar einustu stofnunar og fyrirtækis í landinu. Þessi stofnun er í eigu þjóðarinnar, eigu þeirra, sem þjónustu hennar njóta, og löggjafanum ber í þessu tilviki að treysta sérstaklega rétt sinn og almennings til eftirlits og áhrifa. Í löggjöf, sem sett hefur verið undanfarna áratugi um nýjar, sjálfstæðar stofnanir á vegum ríkisins, hafa yfirleitt verið ákvæði um þingkjörnar stjórnir slíkra stofnana til eftirlits og ráðuneytis stjórnendum stofnananna. Þetta mun vera í samræmi við þá réttarvitund, sem ríkt hefur um þau mál. Og ekkert samræmi er í því, að ein allra stærsta stofnun ríkisins, stofnun pósts og síma, skuli enn standa utan slíks eftirlits og ráðuneytis kjörinna fulltrúa.

Allir vita, að ráðh., sem um málefni margra rn. og fjölda stofnana fjallar í þjóðfélagi, sem verður æ flóknara, hefur enga aðstöðu eða tíma til að fylgjast nægilega vel með starfsemi svo umfangsmikillar stofnunar eins og stofnun pósts og síma er, og víst er það, að þessi stofnun á eftir að vaxa mikið á næstu árum og áratugum. Útgjöld þessarar stofnunar eru nú svipuð og öll fjárlög íslenzka ríkisins árin 1955 og 1956, en þá sátu hér 49 þm. á hv. Alþ. til að skipta þeim upphæðum. Árlega tekur Alþ. til meðferðar og skipta við fjárlagaafgreiðslu fjármagn til ýmissa málaflokka, og er þar um miklu minni upphæðir í mörgum tilvikum að ræða, mjög miklu minni en upphæðir þær, sem skipt er af embættismönnum pósts og síma í samráði við ráðherra. Alþ. skiptir vegafé t. d. á vegáætlun, fé til hafna landsins, vegáætlun er endurskoðuð meira að segja með reglulegu millibili. Alþ. skiptir fjármunum milli einstakra skóla, milli einstakra flugvalla o. s. frv. En um svo mikilvæga þjónustu við borgarana eins og póstur og sími er, og um ráðstöfun þeirra miklu fjárhæða og fjárskuldbindinga, sem þar er um að ræða, hafa hv. alþm. ekkert að segja, og engir kjörnir fulltrúar þessarar valdamestu stofnunar ríkisins eiga þar um að fjalla að undanskildum að sjálfsögðu hæstv. ráðh.

Í ræðu sinni við 1. umr. fjárl. fyrir árið 1969 komst hæstv. fjmrh. svo að orði, þegar hann gerði að umtalsefni ummæli hv. 3. þm. Vesturl., Halldórs E. Sigurðssonar, um þetta mál, þ. e. skuldir og fjárhagserfiðleika Pósts og síma og fjárfestingu stofnunarinnar, með leyfi hæstv. forseta, — fjmrh.. sagði:

„Ég get annars tekið undir meginhlutann af því, sem hann (þ. e. a. s. hv. 3. þm. Vesturl.) mælti um aths., hvað rétt væri að taka til athugunar umfram það, sem ég vék að. Ég er honum sammála um, að það er nauðsynlegt að athuga rækilega hag Pósts og síma. Það hefur verið reynt að fylgjast með fjárfestingarmálum Pósts og síma nú síðustu árin, þó að því miður hafi gengið dálítið erfiðlega að framfylgja því fullkomlega, að stofnunin héldi sig innan þeirra áætlana, sem gerðar hafa verið. Að öðru leyti hef ég ekki tíma til þess að fara út í erfiðleika Pósts og síma, en það mál er nú í sérstakri athugun.“

Þetta voru ummæli hæstv. fjmrh. við 1. umr. fjárl. Gjaldfallnar lausaskuldir Pósts og síma numu, þegar 1. umr. fjárl. fór fram, því að það kom fram þar, hafa numið 120 millj. kr., og hæstv. fjmrh. lét því ómótmælt í sínum aths. eða sínum andsvörum, og fjárhagur fyrirtækisins mun nú vera mjög erfiður, og mun póst- og símamálastjóri hafa farið fram á, að afnotagjöld yrðu hækkuð um 20%. Þetta kom líka fram við fjárlagaumr.

Sími er sjálfsagt og nauðsynlegt tæki heimilisins, og það er bráðnauðsynlegt tæki hvers einasta fyrirtækis í þessu landi. Það mundi því bætast einn böggullinn enn við þær miklu klyfjar, sem nú mun eiga að leggja á landsfólkið og er þegar byrjað að leggja á landsfólkið í þeim efnahagsörðugleikum, sem við er nú að etja.

Athygli almennings hefur mjög beinzt að Pósti og síma síðustu vikur. Veldur þar kannske mestu um mjög umdeild ákvörðun stofnunarinnar um að kaupa Sjálfstæðishúsið í Reykjavík fyrir rúmar 16 millj. kr., ekki sízt þar sem sú ákvörðun er tekin um sama leyti og fréttir berast af mjög þröngum fjárhag stofnunarinnar og ósk um 20% hækkun afnotagjalda. Það má vel vera, að það sé rétt, sem komið hefur fram hjá hæstv. póst- og símamálaráðherra í umr. hér á hv. Alþ., að með þeirri ráðstöfun hafi Pósti og síma raunverulega verið sparaðar tugmillj. kr. með möguleikum á hagkvæmari fjárfestingu og hagkvæmari rekstri. Á það skal ég engan dóm leggja, herra forseti, hef ekki til þess neina aðstöðu. En fyrir hv. Nd. liggur nú till. til þál. um skipun rannsóknarnefndar til athugunar á því máli, og þætti mér eðlilegast vissulega, að hæstv. ráðh. og embættismenn stofnunarinnar hefðu nokkurn áhuga á því að láta þá rannsóknarnefnd hreinsa sig af þeim þungu ásökunum, sem fram hafa komið í blöðum á hendur þeim í þessu sambandi. En þessi till. mun nú til athugunar í n. í hv. Nd. Ég ætla ekki að blanda þessu máli eða öðrum slíkum inn í umr. um þetta mál, sem hér er til umr., eða kveða upp neinn dóm hér í þessu sambandi, enda er tilgangurinn með flutningi þessa frv. ekki sá. Þær ásakanir, sem fram hafa komið, skal ég því ekki gera sérstaklega að umtalsefni hér, nema tilefni gefist, en tel, að þetta beri allt að þeim brunni, að rétt sé, að trúnaðarnefnd kjörin af Alþ. fái að hafa reglulegt eftirlit með starfsemi og ákvörðunum Pósts og síma. Það finnst mér hógvær og eðlileg krafa, miðað við þær aðstæður, sem ríkja í þjóðfélaginu, og umfang þessarar stofnunar, og í rauninni aðeins eðlilegar lagfæringar á 33 ára gamalli löggjöf.

Því hefur verið haldið fram með réttu að mínu áliti, að með hinu sífellt flóknara þjóðfélagi verði æ meiri hætta á því, að valdið færist um of í hendur einstakra embættismanna, sem ekki þurfa að standa þjóðinni reikningsskap gerða sinna, en njóta á hinn bóginn sérstakrar verndar af löggjafans hálfu. Því er líka haldið fram, að mikil hætta sé á því með þróun hins flókna þjóðfélagskerfis, að valdið færist um of frá fólkinu og hinum kjörnu fulltrúum þess yfir til sérfræðinga og embættismanna, og um leið, að möguleikar fólksins, hinna kjörnu fulltrúa, til íhlutunar og eftirlits minnki eða hætta sé á, að þeir minnki, og um leið minnkuðu möguleikar fólksins til að leita réttar síns, ef það verður fyrir misrétti af hálfu embættismanna stjórnkerfisins. Þessi hætta er viðurkennd í menningarríkjum í nágrannalöndum, þar sem komið hefur verið upp embætti umboðsmanna eða lögsögumanna til að reyna að tryggja, að fólk geti leitað réttar síns í slíkum tilvikum.

Einn þáttur þessa frv. er að draga úr þessari hættu og reyna að tryggja það, að fólk geti leitað réttar síns, ef það telur á sér brotið sem neytendur þjónustu Pósts og síma. Með þessu er út af fyrir sig ekki verið að kasta neinum steinum að núverandi stjórnendum Pósts og síma eða verið að leggja dóm á þær aths., sem oft má lesa í lesendadálkum dagblaðanna og víðar um þessi mál. En hér er um einokunarstofnun að ræða, einkasölustofnun, sem snertir líf svo að segja hvers einasta þegns þessa lands, og hér er því aðeins verið að leggja til, að þessi stofnun sé búin í þann stakk í stjórnkerfinu, sem telja verður lágmark, að hæfi slíkri einkasölustofnun í lýðræðisþjóðfélagi.

Ég tel mig, herra forseti, hafa gert fullnægjandi grein fyrir þessu frv., enda fylgir því allýtarleg grg. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2, umr. og að ég ætla hv. samgmn.