14.11.1968
Efri deild: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (2397)

46. mál, Póst- og símamálastofnun Íslands

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Mér fannst hv. ræðumaður hógvær í sinni seinni ræðu engu síður en í hinni fyrri, alveg óþarfi fyrir hann að vera að afsaka það, að hann hafi eitthvað breytt um tón í ræðunni. Mér fannst þetta allt saman hógvært og vel fram sett og ekkert út á það að setja. Og ég hef síður en svo út á það að setja, þótt hv. þm. vitni í frímerkjabækur og frímerkjasafnara. Ég hef á margan hátt mætur á frímerkjum, frímerkjabókum, og sumir frímerkjasafnarar eru kunningjar mínir. Og ég skil þá mætavel, þó að þeim gremjist, ef þeir geta ekki fengið frímerki, sem þá vantar. En það get ég upplýst, að frímerkjaútgáfan er ekkert handahófsverk, þar er yfirleitt vel athugað og metið, og það eru vissar reglur, alþjóðlegar reglur, sem þarf að fylgja við útgáfu frímerkjanna. Og það er oft erfitt um það að segja, hvernig sala á ýmsum tegundum frímerkja gengur. Það kemur ábyggilega fyrir í öðrum löndum eins og hér, að sum frímerki ganga fljótt upp og önnur seljast miður. Allt er þetta í lagi. Og ég held nú satt að segja, að það yrði erfitt að setja fyrir þennan leka, jafnvel þótt það væri komið póst- og símamálaráð.

Hv. þm. las upp úr frímerkjabókum og fann það sérstaklega út, að það væru ódýrari burðargjöld í Belgíu undir ýmsa böggla. En ég ætla nú — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér upp nokkuð af því, sem ég las upp í hv. Nd. og er eftir staðfestum heimildum, sem ég er nú ekki með hér, heldur er það bara úr þeirri ræðu, sem þar var flutt. Þar er aðallega vitnað í Noreg, en einnig í fleiri lönd, þannig að afnotagjöld í Noregi með 2300 samtölum alveg eins og hér eru 7656 kr., þegar það er á Íslandi 3000 kr. Hvert samtal, sem er yfir 2300 samtöl, kostar í Noregi 2.16 kr., en á Íslandi 1.30 kr. Símskeyti innanlands kosta í Noregi 40 kr., en á Íslandi 24. Ef við tökum bréf, þá kostar í Noregi 5.20 kr. undir einfalt bréf, en 4 kr. á Íslandi. Undir póstkort kostar 4 kr. í Noregi, en 2.50 á Íslandi. Prentað mál 3.20 kr. í Noregi, en 2.50 á Íslandi. Bögglar, 1 kg, 28 kr. í Noregi, en 8.50 á Íslandi. Bögglar, 4 kg, 56 kr. í Noregi, en 15 kr. á íslandi. Póstávísanir innanlands 8 kr., í Noregi, 6 kr. á Íslandi. Póstkröfugjöld 8 kr. í Noregi, 4 kr. á Íslandi.

Þetta er aðeins sýnishorn, og ég hef hér nefnt Noreg, en ef við nefnum afnotagjöldin í öðrum nágrannalöndum án þess að nefna umframsímtölin, sem eru yfirleitt einnig talsvert hærri en hér, þá er það þannig, að í Danmörku eru afnotagjöldin 6470, þegar þau eru 3000 á Íslandi, í Finnlandi 4522, í Svíþjóð 3784, í Bretlandi 5257, í Frakklandi 11180, í Vestur-Þýzkalandi 8930, í Sviss 4228, í Bandaríkjunum 10417. Þetta eru aðeins sýnishorn, og þannig mætti lengi telja. En ég vil ekkert fullyrða um, að það sé ekki hægt að finna eitthvert land í veröldinni, sem veitir ódýrari þjónustu en hér er gert, t. d. að burðargjöld í Belgíu séu að vissu leyti eitthvað lægri. Símtöl voru ekki nefnd.

Um það, hvort kaupmátturinn er hér í samræmi við það, sem er erlendis, ég vil nú ekkert fullyrða um það, eins og það stendur í dag. En þannig hefur það verið, að í nágrannalöndum hefur kaupgjaldið ekki verið hærra en hér. Og það vil ég segja, að okkar talsímakonur eiga allt gott skilið. Ég vildi gjarnan, að þær gætu fengið hærra kaup. En starfssystur þeirra í nágrannalöndunum hafa ekki verið hærra launaðar, jafnvel lægra launaðar. Það er náttúrlega hægt að sannprófa, ef menn vilja endilega bera það saman, sem að vísu felst nokkur fróðleikur í, hvort hallarekstur er á pósti og síma í Noregi. Það veit ég ekki, ég hef ekki kynnt mér það. En hér á Íslandi hefur Póstur og sími ekki að jafnaði verið rekinn með halla. Ef það hefði verið gert, hefði hann ekki getað veitt þá almennu þjónustu, sem hann nú gerir. Og ég verð að segja það, að Póstur og sími er annars eðlis en margar aðrar stofnanir hér á landi. Þegar við semjum orkulög og kjósum orkuráð, er það vegna þess, að það á að fara að ráðast í framkvæmdir, nýjar framkvæmdir, sem þarf að taka afstöðu til. Aftur á móti er pósturinn kominn í fast form. Landssíminn er kominn inn á flestöll heimili. Það er nýtt fyrir marga að fá sjálfvirkar stöðvar, og það hefur enginn ágreiningur verið um það, hvernig þessar framkvæmdir eigi að koma til. Eins og ég sagði, það hefur aldrei verið deilt um það, hvort þetta væri réttlátlega framkvæmt eða ekki. Það er allt annað en það var fyrstu árin, þegar ég kom hingað. Þá var alltaf þræta um það, hvort fengist sími í þessa sveit eða hina. Nú er það ekki lengur, það er komið alls staðar. En enn í dag er þrætt um það, hvað við eigum að fá mikið fé í flugvelli, hvað á að láta mikið í Akureyrarflugvöll, hve mikið í Vestmannaeyjar, hve mikið á Ísafjörð, hve mikið á Egilsstaði o. s. frv. Og það er vitanlega eðlilegra, að það séu þingkjörin ráð, þar sem slík togstreita á sér stað. En um framkvæmdir Landssímans hefur aldrei verið nein togstreita og engin tortryggni um það eða gefið í skyn, að það væri hlutdrægni í framkvæmd. Þess vegna er þetta annars eðlis. En eins og ég sagði áðan, þá er vitanlega Póstur og sími ríkisstofnun, og það er vitanlega Alþingis að kveða á um það, hvort það vill breyta hér til.