11.11.1968
Neðri deild: 12. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég hafði hug á því við þessa 1. umr. að gera nokkrar aths. við ræður þær, sem áðan voru fluttar af hæstv. ráðh. Ég hlustaði mjög gaumgæfilega á þessar ræður, bæði til þess að heyra, hvað þar væri sagt um þær ráðstafanir, sem eiga að fylgja þessari stórfelldu gengislækkun, en ekki síður til þess að reyna að gera mér grein fyrir því, hvað byggi í hugum hæstv. ráðh. Ég vil minna á það, að þessir tveir hæstv. ráðh. hafa á þessum áratug fjórum sinnum verið í þeirri aðstöðu að leggja fram hér á Alþ. frv. um gengislækkun. Á þessum tíma hefur gengi dollarans gagnvart íslenzkri kr. verið hækkað úr 16 ísl. kr. í 88. Dollaraverðmætið hefur fimmfaldazt, eða íslenzka krónan er orðin að verðmæti til tæpur fimmtungur þess, sem hún var, þegar þessi hæstv. ríkisstj. tók við.

Ef litið er á þetta tímabil í heild, fer því ákaflega fjarri, að þetta hafi verið eitthvert örðugleikatímabil. Í heild hefur þetta tímabil verið okkur ákaflega hagkvæmt, eins og menn vita. Við höfum flest ár þessa tímabils haft meiri gjaldeyristekjur og hærri þjóðartekjur en nokkru sinni fyrr í sögu þjóðarinnar. Ef allt hefði verið með felldu, hefði gengi íslenzkrar krónu átt að geta styrkzt á þessu tímabili. Engu að síður hefur það orðið hlutskipti hæstv. forsrh. að koma fjórum sinnum á þessu tímabili til þess að leggja til, að gengi íslenzku krónunnar yrði skert. Ég trúi ekki öðru en þetta hafi verið erfið spor fyrir hæstv. ráðh. Honum hlýtur að vera það ljóst, að einmitt þessar síendurteknu gengislækkanir eru sönnunargagn um það, að sú stefna, sem hann hefur beitt sér fyrir hér á Íslandi á þessum áratug, hefur mistekizt. Sú stefna er gjaldþrota. Það er ekki eðlilegt ástand, að gengið sé lækkað ár eftir ár og stundum tvisvar á ári. Það er til marks um sjúkdóm í þjóðfélaginu, um sjúkdóm, sem alltaf er að ágerast. Raunar má minna á það í þessu sambandi, að síðan 1949 er búið að lækka gengið svo mjög, að íslenzka krónan, sem þá var, er orðin að fimmeyringi núna. Gengi krónunnar er nú aðeins 5–6% af því, sem það var 1949, og hæstv. forsrh. hefur staðið að öllum þessum gengislækkunum.

Slík þróun er ekki aðeins alvarleg fyrir atvinnuvegi þjóðarinnar og fyrir afkomu launamanna í landinu. Hún hlýtur að brjóta niður trú manna á land sitt og þjóð. Síendurteknar kollsteypur af þessu tagi grafa undan þeim andlega styrk, sem hver þjóð verður að hafa. Þess vegna trúi ég ekki öðru en hæstv. ráðh. finni þetta með sjálfum sér, að þetta er orðin ákaflega alvarleg þróun. Og ég held, að þess væri mjög mikil þörf, að þeir kæmu og greindu okkur frá hugmyndum sínum í þessu sambandi, að þeir töluðu einu sinni hreinskilnislega við okkur einmitt um þetta vandamál.

En í staðinn lét hæstv. forsrh. sér nægja að víkja að nýjustu örðugleikunum í efnahagsmálum Íslendinga. Hæstv. ráðh. sagði, að gjaldeyristekjur þjóðarinnar mundu dragast saman um 45% frá árinu 1966 til ársins í ár. Þetta er vissulega alvarlegur samdráttur. En ég vil minna hæstv. ráðh. á það, að hann er sannarlega ekki nýtilkominn. 30% af þessum samdrætti komu á síðasta ári, og þá stóð hæstv. forsrh. hér einnig og sagði: Nú verðum við að gera ráðstafanir til þess að vega upp þennan samdrátt, þessi 30% skerðing, sem varð í fyrra. Og þess vegna var gengið fellt í fyrrahaust, þá var ráðizt í ýmsar aðrar aðgerðir, og þá var lesin hér upp hátíðleg yfirlýsing frá Seðlabankanum um, að gengislækkunin hefði verið reiknuð nákvæmlega út þannig, að útflutningsatvinnuvegir okkar gætu haldið áfram að starfa án styrkja og uppbóta. Þessi 30% voru notuð til þess að rökstyðja gengislækkunina í fyrra. Það er ekki hægt að nota þessi sömu 30% til að rökstyðja gengislækkunina nú. Það, sem bætzt hefur við hér í ár, eru 15%, að því er hæstv. ráðh. sagði, en það hafa einnig verið gerðar ráðstafanir út af þessum 151. Hæstv. ríkisstj. setti brbl. og tók að innheimta sérstakan gjaldeyrisskatt, 20%. Hæstv. fjmrh. hefur skýrt svo frá, að á einum ársfjóðungi eigi þessi gjaldeyrisskattur að færa ríkissjóði 220 millj. kr. Þessi skattheimta jafngildir þannig tæpum milljarði kr. á ári. Ég hygg, að það jafngildi mjög svo þessum 15% samdrætti, sem talað er um. Því standast þessar röksemdir hæstv. ráðh. ekki. Það er búið að gera ráðstafanir vegna þessa samdráttar á gjaldeyristekjum, sem hann var að tala um.

Sú gengislækkun, sem nú dynur yfir, stafar af öðrum ástæðum. Vandinn er sá, að hæstv. ríkisstj. vill ekki viðurkenna, að það er stefna hennar, sem hefur beeiið skipbrot. Hún hefur verið að bregðast í vaxandi mæli á undanförnum árum, og nú á þetta ástand að vera öllum ljóst. Í haust var ástæða til að gera sér vonir um það, að hæstv. ríkisstj. væri að byrja að átta sig á þessari staðreynd. Hún efndi þá til viðræðufunda við aðra flokka, og því var lýst yfir, að hæstv. ríkisstj. vildi taka öll mál þar fyrir á fordómalausan, opinn hátt. Í því virtist felast viðurkenning á því, að hæstv. ríkisstj. væri ljóst, að stefna hennar dygði ekki lengur, nú yrði að leita nýtra úrræða. En því miður hefur þessi viðurkenning ekki fengið staðfestingu í verki. Í þessum viðræðum hefur ekkert það komið fram, sem sýni, að ríkisstj. væri fús til þess að breyta nokkru atriði í stefnu sinni. Og ríkisstj. hefur meira að segja haldið áfram allan tímann að framkvæma einhliða aðgerðir án þess að ráðgast um það við þá flokka, sem hún taldi sig þó eiga viðræðurnar við. Viðræðurnar hófust á því, að tekið var að innheimta gjaldeyrisskattinn, án þess að um það væri rætt við stjórnarandstöðuna. Nokkru síðar fór hæstv. iðnmrh. til Sviss til viðræðna og undirbúnings að samningsgerð við svissneska alúmínhringinn og fleiri erlenda auðhringa, en samningarnir við þá aðila hafa verið mikið deilumál hér á landi, þannig að meðan almennar umr. milli flokkanna stóðu yfir var ákaflega óeðlilegt að stíga þetta skref. Nokkru síðar voru tveir af samninganefndarmönnunum komnir til Ameríku ásamt tveimur æðstu sérfræðingum ríkisstj. til þess að ræða við bandaríska aðila um gengislækkun og um lánamöguleika. Og það stendur heima, að svo til sama daginn og þessum umræðum er slitið er ríkisstj. tilbúin með sínar eigin till. í efnahagsmálum, sem hún hlýtur þ6 að hafa verið að undirbúa margar vikur áður. Svona vinnubrögð eru ekki til marks um það, að hæstv. ríkisstj. geri sér það ljóst, að nú hefði þurft að taka málin allt öðrum tökum.

Hæstv. viðskmrh. flutti einnig ræðu hér áðan. Ég hef heyrt hæstv. ráðh. flytja margar ræður. Þær hafa venjulega verið af tvennu tagi: Stundum flytur hæstv. ráðh. ræðu, þar sem hann þylur mikið af tölum. Það gerir hann venjulega, þegar rætt er um efnahagsmál hér á þingi, en við önnur tækifæri flytur hann stuttar og ákaflega áferðarfallegar en frekar efnislitlar ræður. Mér virtist hæstv. ráðh. hafa farið í skakka skúffu. þegar hann kom hér áðan, því að ræðan, sem hann flutti, var af veizlutaginu. Hann vék ekki einu einasta orði að þeim raunverulegu vandamálum, sem hér eru, heldur flutti hann almennt orðagjálfur um leið þjóðarinnar til bættra lífskjara og þess háttur. Hins vegar veit ég, hvað því veldur, að hæstv. ráðh. fékkst ekki til að segja neitt efnislegt. Ástæðan er sú, að innan Alþfl. hefur verið ákaflega mikill ágreiningur um þær aðgerðir, sem hér hafa verið ákveðnar af hálfu ríkisstj. Um þetta hefur verið tekizt á innan Alþfl. og á lokufundi s.l. laugardag kom fram mjög víðtæk andstaða. Allverulegur hluti af fundarmönnum greiddi atkv. gegn þessari leið. Þar var að finna menn, sem eiga sæti hér á Alþ., og þar var að finna menn úr forystu verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi. Því skil ég vel, að hæstv. viðskmrh., formaður Alþfl., eigi dálítið erfitt með að halda ræður um þetta mál.

Hér var áðan vitnað til þess, að hæstv. forsrh. hefði svarið og sárt við lagt fyrir rúmu ári, að gengislækkun væri þá ekki sú leið, sem hentaði. Ég vil minna á það, að hæstv. forsrh. hefur sagt sitthvað fleira. Hann sagði hér á þingi einu sinni, og hann hefur endurtekið það nokkrum sinnum í Morgunblaðinu, að það væru til aðilar á Íslandi, sem hefðu hag af gengislækkun. En ef gripið yrði til gengislækkunar, skyldi hann sjá til þess, að lagðar yrðu byrðar á þessa menn. En hvar eru þessar byrðar? Þessir menn hafa fengið alveg furðuleg tækifæri til þess að koma fjármunum sínum fyrir að undanförnu. Í haust lýstu bæði hæstv. forsrh., hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskmrh. yfir því í sjónvarpi og útvarpi, að þeir teldu allar líkur á því, að það yrði að lækka gengið. Ég tel, að hér sé um algerlega einstakan atburð að ræða. Annars staðar þykir það sjálfsagt, ef gripið er til slíkra aðgerða sem gengislækkunar, að fara ákaflega dult með það, reyna að fela það alveg fram á seinustu stund, og embættismenn, sem koma upp um slíkar fyrirætlanir, eru taldir sekir um alvarlegustu trúnaðarbrot. En hér á Íslandi segja sjálfir forystumenn ríkisstj. þetta í útvarpi og sjónvarpi, enda höfum við fylgzt með því undanfarnar vikur og mánuði, hvernig öflugir aðilar í þjóðfélaginu hafa reynt að koma fjármunum sínum þannig fyrir, að þeir biðu ekki hnekki af gengislækkuninni. Og þó vitum við vafalaust fæst af þessu. Það eru til aðilar á Íslandi,semhafahafttækifæri til þess undanfarin ár að koma fjármunum til útlanda í tengslum við það frelsi, sem hér hefur ríkt. Mér þykir ekki ólíklegt, að þangað hafi verið fluttir ekki tugir heldur hundruð millj. kr., vegna þess að þessir aðilar vissu fyrir fram, hvað til stóð, en vildu bjarga eignum sínum. Á því eru engar líkur, að launafólk á Íslandi muni sætta sig við þær árásir, sem í þessu felast, meðan menn horfa upp á það, að forréttindaaðilarnir í þjóðfélaginu geti komið fjármunum sínum undan á þennan hátt. Alger forsenda neyðarráðstafana núna hefði verið eignakönnun, þar sem rannsakað væri, hvar þeir milljarðar, sem streymt hafa aukalega um þjóðarbúið á undanförnum árum, eru nú niður komnir, og að þeir fjármunir, sem liggja hér hjá forréttindaaðilum, væru hirtir fyrst og síðan væri kannað, hverju dreifa þyrfti á almenning í landinu. En þegar farin er hin leiðin og auðmönnum auðveldað að koma fé sínu undan, er þess engin von, að sjómenn og launamenn sætti sig við slíkar ráðstafanir.

Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni, að á velmegunarárunum hefðu tekjur þjóðarheildarinnar dreifzt meðal almennings. Það er rétt, þá var um nokkra dreifingu að ræða. En hvernig fór sú dreifing fram? Hún fór þannig fram, að menn lögðu á sig æ lengri vinnutíma, menn áttu kost á því að vinna eftirvinnu og næturvinnu og helgidagavinnu eða vera í tvennum störfum og konurnar á heimilunum unnu og unglingarnir og jafnvel börn unnu. Á þennan hátt fékk launafólk á Íslandi nokkra hlutdeild í þessum stórauknu þjóðartekjum. Það voru ekki kauptaxtarnir fyrir hverja klukkustund, sem hækkuðu. Þannig varð sú dreifing, sem hæstv. ráðh. var að tala um, og það er orðið alllangt síðan mjög fór að halla undan fæti. Nú er aukavinna sem þessi orðin ákaflega sjaldgæf. Nú verður allur þorri launamanna að láta sér nægja 8 tíma vinnudag og á ýmsum stöðum eru margir, sem ekki hafa fengið að vinna í 8 tíma að undanförnu. Og það er orðið sjaldgæfara en áður, að margir aðilar í hverri fjölskyldu geti unnið. Því hefur orðið ákaflega stórfelld tekjuskerðing hjá þessu fólki. Tekjurnar hafa minnkað um þriðjung og jafnvel helming. Það þarf ekki að gera neinar ráðstafanir fyrir frumkvæði hæstv. ríkisstj. eða Alþ. til þess að skerða tekjur þessa fólks. Það hefur þegar gerzt af sjálfu sér. En ef áhrif gengislækkunar eiga að bætast ofan á það, sem þarna hefur gerzt, þá fer að verða þröngt fyrir dyrum hjá mörgum.

Ég vil vekja athygli á því, hvað felst í gengislækkun sem þessari. Talið er, að af hennar völdum muni vísitala hækka um 15–20%, og hæstv. forsrh. sagði áðan, að ætlun ríkisstj. væri sú, að fyrir þessar verðhækkanir kæmu engar bætur. Það mun hægt að áætla, að heildarlaunafúlgan í landinu sé um 18 milljarðar á ári. Skerðing um 15–20% jafngildir því 3 til 4 milljörðum kr. Í gengisfellingunni felst það, að verið er að taka 3 til 4 milljarða kr. frá launamönnum og sjómönnum og færa þá til annarra aðila í þjóðfélaginu. Og áður en menn ákveða slíka tilfærslu, bið ég þá að hugleiða það, að ákaflega margir launamenn á Íslandi hafa aðeins svo sem 10 þús. kr. í laun á mánuði. Hvernig halda menn, að fjölskylda með slíkar tekjur geti farið að því t.d. að búa í nýlegri íbúð, sem hefur verið keypt aðallega fyrir lánsfé í trausti þess, að menn geti haldið áfram hinni miklu vinnu? Með ráðstöfunum eins og þessum er verið að leiða mjög alvarlegt efnahagsástand yfir hundruð og þúsundir fjölskyldna á Íslandi.

Um það er ekki neinn ágreiningur, að sjávarútvegur okkar og atvinnuvegir eiga mjög í vök að verjast og að grípa þurfi til mikilla ráðstafana þeim til styrktar. En það eru til fleiri leiðir en þær að velta alltaf undan brekkunni. Deilurnar innan Alþfl. snerust ekki sízt um það, að þar var uppi sú skoðun, að hægt væri að fara niðurfærsluleið. Í stað þess að gera krónuna smærri átti að gera hana stærri, lækka bæði kaup, verðlag, skuldir og annað þess háttar. Um þetta var tekizt á innan Alþfl., og mér þætti ákaflega fróðlegt að heyra, hvort sumir Alþýðuflokksmenn hér á þingi eru ekki enn þeirrar skoðunar, að þetta hefði verið rétt leið. Og ef þeir eru þeirrar skoðunar, skora ég á þá að standa við þá skoðun sína.

Ég sagði áðan, að sjávarútvegurinn ætti í vanda, og það er rétt. Hitt skulum við samt einnig muna, að hvarvetna heyrum við dæmin um slælegan rekstur einstakra fyrirtækja í sjávarútvegi og um það, hvernig einstakir atvinnurekendur í sjávarútvegi hirða milljónafúlgur út úr gjaldþrota fyrirtækjum og koma þeim fyrir annars staðar. Um þetta eru mýmörg dæmi. Það er ekki ýkjalangt síðan sú frétt kom í blöðum, að eitt fyrirtæki í Vestmannaeyjum hefði reynzt uppvíst að skattsvikum, sem talin voru nema um 20 millj. kr. Skattsvik af þessu tagi voru framkvæmd við fölsuðu bókhaldi, og manni hlýtur að vera spurn: Er það ekki falsað bókhald af þessu tagi, sem m.a. er lagt til grundvallar útreikningum hæstv. ríkisstj.? Með þessu er ég ekki að segja, að fjárdráttur af þessu tagi sé skýringin á vandamálum sjávarútvegsins. Því fer mjög fjarri. Hitt skulu menn gera sér ljóst, að á sama tíma og ætlunin er að ganga hart að lágtekjufólki á Íslandi þá verður það ekki þolað, að verið sé að ausa fé í aðila, sem ekki eru þess verðugir. Styrkveitingar til einstakra fyrirtækja í sjávarútvegi verða að gerast þannig, að þeim fylgi mjög nákvæmt eftirlit, það sé algerlega tryggt, að fjármunirnir renni til þess að halda fyrirtækjunum gangandi, en ekki til neinna annarlegra þarfa. Verkamenn og sjómenn eiga heimtingu á því, að þetta eftirlit sé tekið upp.

Við eigum eftir að ræða þessa hluti miklu nánar hér á þingi næstu daga, en hitt skulum við gera okkur ljóst, að þessi gengislækkunarleið leiðir aðeins til vaxandi ófarnaðar. Gengislækkun eins og þessi, sem nú er talað um, er í rauninni aðeins ávísun á næstu gengislækkun. Ekki finnst nokkur maður í landinu, sem trúir því lengur, að þessar aðgerðir muni leysa viðfangsefni okkar. Ég er viss um, að þeir eru ákaflega fáir úr hópi stuðningsmanna ríkisstj. hér á þingi, sem trúa því, ef þeir eru einlægir við sjálfa sig. Þess vegna skiptir það meginmáli, að menn sætti sig ekki við þessar ranglátu ráðstafanir. Og í því sambandi mega menn ekki láta binda sig af neinni gamalli hollustu, hvorki við ríkisstj. né flokka. Þeir menn innan Alþfl. og innan Sjálfstfl., sem voru andvígir þessari lausn og beittu sér gegn henni í báðum flokkunum, eiga að halda þeirri afstöðu áfram. Hér er um stærra mál að ræða en svo, að menn eigi að láta binda sig með þessum venjulegu handjárnum, sem þeir geta unað, þegar um smærri mál er að ræða. Það er ekki hægt að skírskota til neinnar hollustu og sízt af öllu þjóðhollustu um stuðning við þetta mál. Sú eina nauðsynlega þjóðhollusta, sem nú þarf að sýna, er að hnekkja þessari stjórnarstefnu, sem er orðin algerlega gjaldþrota, og reyna að fitja upp á nýrri samstöðu, sem gengur þvert á öll flokkamörk.