04.03.1969
Efri deild: 54. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (2402)

46. mál, Póst- og símamálastofnun Íslands

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Samgmn. varð ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. n. leggur til að vísa því til hæstv. ríkisstj., eins og frsm. meiri hl. hefur þegar gert grein fyrir. En við, sem stöndum að minnihlutaálitinu, leggjum til, að frv. verði samþykkt.

Ástæður fyrir þessari afstöðu minni hl. eru einkum þessar: Í fyrsta lagi, að gildandi lög um þetta efni eru orðin 34 ára gömul, og það er alveg ótvírætt, þegar þau lög eru athuguð, að það er orðin full ástæða til að taka þá löggjöf til endurskoðunar og setja ný lagaákvæði um þetta efni. Þetta kemur fram í þeim umsögnum, sem n. aflaði sér, og þetta sjónarmið var greinilega viðurkennt og raunar lögð á það áherzla í ræðu frsm. meiri hl. Það kemur einnig fram í umsögnum, sem n. fékk, að það sé í sjálfu sér eðlilegt að koma á fót stjórn fyrir svo stóra ríkisstofnun sem Póst- og símamálastofnunin er. Hitt getur fremur talizt álitamál, hvernig sú stjórn eigi að vera skipuð eða með hvaða hætti til hennar sé stofnað. En með þessu frv. er gerð alveg ákveðin till. um stjórn fyrir stofnunina, og er það raunar eitt aðalatriði þessa frv., og mun ég því sérstaklega víkja nokkrum orðum að því.

Póst- og símamálastofnunin er meðal þeirra ríkisstofnana, sem veita einna víðtækasta þjónustu og í sambandi við það hafa með höndum mjög mikla fjármuni til ráðstöfunar. Nú er aðstöðu póst- og símamálastjóra þannig hagað, að hann á sjálfur beint undir ráðh. að sækja um málefni stofnunarinnar, en hefur ekki þingkjörna stjórn eða stjórn skipaða með öðrum hætti við að styðjast í starfi sínu. Ég vil taka skýrt fram, að samkv. þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því að skerða á nokkurn hátt vald ráðh. um yfirstjórn stofnunarinnar. Hann verður vitanlega eftir sem áður og svo sem vera ber sá, sem á að hafa yfirumsjón með stjórn hennar og starfrækslu. En ráðh., hver sem gegnir starfinu á hverjum tíma, hefur marga mikilvæga málaflokka til meðferðar og yfirlits. Því eru af eðlilegum ástæðum mikil takmörk sett, hvað hann getur haft náin afskipti af stjórn og starfsemi svo viðamikillar stofnunar sem Póstur og sími er. Það getur ekki verið hægt að ætlast til þess, að ráðh. kynni sér þau málefni, nema allra stærstu drætti þeirra, og leggi úrskurð á einstök atriði, sem undir hann eru borin.

Ríkisstofnanir falla að sjálfsögðu undir valdsvið Alþingis. Alþ. hefur fjárveitingavaldið í sínum höndum, og Alþ. ber því raunar lögfræðilega séð og einnig siðferðilega skoðað ábyrgð á stjórn, starfsemi og fjárreiðum ríkisstofnananna. Nú er það svo, að þetta, sem ég var að segja, á vitanlega stuðning í sjálfri stjórnarskránni. Þar eru þau fyrirmæli, að engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Hins vegar er það svo, að póstlögin og lög um fjarskipti marka að þessu leyti mjög rúman lagaramma, þannig að innan þess lagaramma er ráðh. gefið vald til þess að tillögu póst- og símamálastjóra að setja gjaldskrá hverju sinni, án þess að það komi til beinna afskipta Alþ. eða samþykki þess þurfi til um hverja gjaldskrá hverju sinni. Þær fjárhæðir, sem póst- og símamálastjóri hefur til meðferðar, eru mjög háar og hafa farið ört hækkandi nú á síðustu árum. Samkv. fjárl. þessa árs er rekstrarkostnaður Pósts og síma og það, sem stofnuninni er ætlað til fjárfestingar, 700–800 millj. kr. Þetta mun nú vera hvorki meira né minna en 10–12% af heildarupphæð fjárl., hinna geysiháu fjárl., sem nú eru í gildi. Og ef við lítum til baka til liðins tíma og gerum okkur grein fyrir því, hvað heildarupphæð fjárl. var fyrir svo sem einum áratug eða svo, þá er það, sem Póstur og sími hefur nú í veltunni, svipað að krónutölu og heildarupphæð fjárl. var t. d. á árunum 1956–58. En þær tekjur, sem stofnunin fær til ráðstöfunar hverju sinni, eru sóttar í vasa almennings í landinu og fyrirtækja sem þjónustugjöld. Og eins og ég sagði áðan, lítum við, sem stöndum að áliti minni hl., þannig á, að Alþ., sem hefur fjárveitingavaldið, beri í raun og veru ábyrgð á þessari gjaldheimtu, þó að það fái sjálft lítið um hana að fjalla. Við teljum, að þetta mæli með því, sé rök fyrir því, að tengsl þessarar stóru ríkisstofnunar og sjálfs Alþ. séu aukin frá því, sem verið hefur og hin 34 ára gömlu lög um þetta efni kveða á um.

Ég endurtek það, að í þessu frv. felst alls ekki nein breyting á aðstöðu ráðh. út af fyrir sig. En það er ekki hið sama, það vald sem hann hefur í þessu efni, eins og tengsl sjálfs Alþ. við stofnunina eru og eiga að vera. Í þessu frv. er borin fram alveg ákveðin till. um breytta skipan í þessu efni, sú till., að Alþ. sjálft kjósi til fjögurra ára í senn stjórn fyrir þessa stofnun.

Í þriðja lagi viljum við, sem stöndum að minnihlutaálitinu, benda á það, að Póstur og sími hefur náin samskipti við alla landsmenn, svo að segja hvert einasta mannsbarn í landinu. Og eins og ég tók fram fyrr í þessari ræðu, sækir stofnunin tekjur sínar í vasa hins almenna borgara og fyrirtækja, sem starfa í þjóðfélaginu. Það er augljóst, að stofnun, sem hefur svona víðtæk samskipti við hinn almenna borgara og í raun og veru víðtæk áhrif á aðstöðu hans til viðskipta og nauðsynlegrar þjónustu á þessu sviði, — að þessi stofnun þarf að vera í þeirri aðstöðu, að almenningur eigi greiða leið til þess að kynna sér viðhorf hennar á hverjum tíma og fá skýringar á ýmsum atriðum, sem upp koma í þessum samskiptum og eðlilega geta valdið tortryggni og jafnvel ágreiningi. Það kemur fram í þeim umsögnum, sem n. fékk, að þetta sjónarmið er í sjálfu sér talið eðlilegt. En það þykir aftur vera álitamál, hvernig slíkum samskiptum milli stofnunarinnar og hins almenna borgara skuli fyrir komið. Það er ætlun okkar, sem stöndum að minnihlutaálitinu, og von okkar, ef sú skipun verður upp tekin, sem frv. gerir ráð fyrir, að þá geti hin þingkjörna stjórn orðið mikilvægur tengiliður einnig í þessu efni. Þá gætu bæði þingflokkar og almenningur snúið sér til þeirra, sem í stjórninni sitja, með sínar umkvartanir og með óskir um upplýsingar og komið um þeirra hendur á framfæri við stofnunina ýmsum ábendingum, sem þeim er hugleikið að koma fram. Frv. kveður beinlínis á um það, að í Póst- og símamálastjórninni skuli halda fundi um málefni stofnunarinnar, þar sem ábendingar og umkvartanir almennings, viðskiptamanna, eru einnig teknar til umr. og athugunar. Og frv. leggur póst- og símamálastjórn þá skyldu á herðar að leggja fyrir póst- og símamálaráð við og við til umræðu og afgreiðslu skýrslu um starfsemi stofnunarinnar. Það er álit okkar, sem að minnihlutaálitinu stöndum, að af þessari skipun mundi einnig margt gott leiða.

Í fjórða lagi vil ég leyfa mér að benda á, að sú skipan að kjósa 5 manna stjórn fyrir Póst- og símamálastofnunina er í fullu samræmi við það sem nú gildir um margar aðrar ríkisstofnanir, og í fullu samræmi við það, sem að þessu leyti hefur gilt áratugum saman um ýmsar þeirra. Þetta mun öllum hv. þdm. vera kunnugt, og tel ég óþarft að lengja mál mitt með því að rökstyðja þetta með dæmum og upptalningu á þeim stofnunum, sem þetta nær til. En þess vil ég minnast, að það er ekki langt síðan hæstv. núv. ríkisstj. og þeir flokkar, sem hana styðja, áttu frumkvæði að því að taka upp mjög hliðstæða skipan og hér er lögð til gagnvart Skipaútgerð ríkisins. Skipaútgerð ríkisins hafði starfað um tæplega 30 ára skeið þannig, að forstjóri Skipaútgerðarinnar átti að leggja vandamál þeirrar stofnunar beint undir dóm ráðh., en hafði ekki eina sérstaka yfirstjórn stofnunarinnar við að styðjast. Þegar þetta mál var hér til umr. á hv. Alþ., lögðum við til í Framsfl. sams konar skipan gagnvart þeirri stofnun, eins og nú er lögð til í þessu frv. um Póst- og símamálastofnunina. Við beittum okkur fyrir því, að sett yrði þingkjörin stjórnarnefnd, sem hefði umsjá með málefnum Skipaútgerðarinnar í samstarfi við forstjórann og vitanlega undir yfirstjórn ráðh., sem með þau mál fer. Að þessari till. okkar framsóknarmanna var ekki horfið, heldur höfð á þessu önnur skipan, þannig að stjórnarnefndin er skipuð að tilhlutan tveggja ráðuneyta. En eigi að síður var það að frumkvæði núv. ríkisstj., að þarna var gerð breyting á. Ég leyfi mér enn fremur að minna á það, að nú þessa dagana höfum við haft hér til athugunar og afgreiðslu í hv. þd. frv. til l. um Brunamálastofnun ríkisins, og í sambandi við afgreiðslu þess frv. er tekið upp það ákvæði hér í hv. d. að koma þeirri skipan á um þá stofnun, að sérstök stjórnarnefnd sé þar sett til umsjónar og til aðstoðar hinum væntanlega brunamálastjóra, en að sjálfsögðu á þessi stofnun sem aðrar að starfa undir yfirstjórn þess ráðh., sem með þann málaflokk fer. Þetta bendir til þess, að í hugum hv. þdm. sé sú skoðun nokkuð ríkjandi, að það sé eðlileg, réttmæt, jafnvel sjálfsögð skipan, að sem flestar ríkisstofnanir hafi slíka stjórnarnefnd við að styðjast. Þetta frv., sem ég er hér að mæla fyrir, fer mjög í sömu átt.

Þá vil ég þessu til viðbótar benda á það, að í umsögn póst- og símamálastjóra, sem samgmn. fékk, er drepið á það, að í öðrum löndum sé unnið að því að koma á hliðstæðri eða sambærilegri skipan um þessi mál eins og er lagt til í þessu frv. Þar segir, að í Svíþjóð sé búið að setja á fót stjórnarnefnd fyrir Póst og síma og að sú stjórnarnefnd haldi fundi, að sönnu ekki oft á ári hverju, en komi þó saman til fundarhalds. Og það kemur enn fremur fram, að í Noregi muni vera í undirbúningi sams konar breyting. Ég er ekki að segja, að það sé út af fyrir sig sjálfsagt að samþykkja þetta frv. af þessum ástæðum, en ég minni á þetta, því að á mörgum sviðum virðist svo sem það þyki miklu skipta, hvað hafzt er að í öðrum löndum og ekki sízt á Norðurlöndunum, til samanburðar við skipan okkar mála hér. Niðurstaðan er því sú, eins og ég gat um í upphafi þessarar ræðu, að minni hl. samgmn, leggur til, að frv. þetta verði samþ.

Eftir að þessari umr. lýkur, 2. umr., fer fram atkvgr. efnislega um þá niðurstöðu, sem verður um afgreiðslu þessa máls. Með þeirri atkvgr. verður úr því skorið, hvort farið verður að till. meiri hl. og frv. vísað til ríkisstj. eða hvort frvgr. verða samþykktar. Fari svo, að niðurstaðan við atkvgr. nú verði sú, að frvgr. verði samþ., vil ég taka það fram, að við, sem stöndum að áliti minni hl., erum reiðubúnir til samvinnu um minni háttar eða nokkrar orðalagsbreytingar á frv., ef það þætti við nánari athugun betur fara. Ég vil sérstaklega í því efni minna á eitt ákvæði, sem póst- og símamálastjóri bendir á og mér virðist honum þykja miður, eins og það er sett fram í frv. Það segir svo í 3. gr., frv., að ráðh. veiti embætti póst- og símamálastjóra. En í umsögninni kemur fram, að það sé eðlilegra, að forseti Íslands veiti þetta embætti. Þetta er okkur ekki á nokkurn hátt kappsmál, og við erum reiðubúnir til þess að breyta þessu ákvæði og orðalagi víðar í frv., ef ástæða þætti til við nánari athugun.