17.02.1969
Efri deild: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (2405)

134. mál, leiklistaskóli ríkisins

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 247 hef ég leyft mér ásamt hv. 2. þm. Austf. og hv. 3. þm. Norðurl. v. að flytja frv. um leiklistarskóla ríkisins.

Hér í Reykjavík eru nú reknir 2 leiklistarskólar. Þjóðleikhúsið hefur starfrækt slíkan skóla allt frá stofnun. Í 9. gr. laga nr. 86 frá 1947, um Þjóðleikhús, segir svo, með leyfi forseta: „Við Þjóðleikhúsið skal starfa leikskóli. Þjóðleikhússtjóri ræður kennara og annað starfslið.“ En að öðru leyti hefur skóla þessum verið ákveðinn rekstur samkvæmt reglugerð, og ég mun ekki, nema þá sérstakt tilefni gefist til þess við þessa umræðu eða á síðara stigi málsins, fara nánar út í að lýsa því, hvernig tilhögun skólahaldsins hefur verið í einstökum atriðum, enda geri ég ráð fyrir, að hv. þm. þekki það. Hjá Leikfélagi Reykjavíkur hefur einnig í mörg undanfarin ár starfað leiklistarskóli með svipuðu sniði og hjá Þjóðleikhúsinu.

Þessir skólar hafa lengst af verið reknir sem eins konar kvöldskólar, þ. e. aðalkennslan hefur farið fram á milli kl. 17 og 19 á daginn, þannig að fólki hefur verið gert það kleift að stunda leiklistarnámið jafnhliða vinnu. En á seinni árum hefur námstíminn verið lengdur nokkuð á degi hverjum og námið aukið. En þrátt fyrir þetta skólahald og þessa viðleitni til leiklistarkennslu hér í höfuðborginni hefur forráðamönnum skólans og öðrum þeim mönnum, sem láta sig þessi mál varða, verið það ljóst og ég vil segja æ ljósara, að hér er orðin brýn nauðsyn til úrbóta, og ég held, að það sé almenn skoðun þessara manna, að menntun leikara hér á landi sé komin úr samræmi við þær kröfur, sem gerðar eru um slíka menntun annars staðar, og þá auðvitað jafnframt og ekkert síður við þær kröfur, sem við hljótum að verða að gera hér heima til þessarar menningarstarfsemi. Það er auðvitað fullkomin öfugþróun, ef svo er komið sem margir álíta, að þeir leikarar, sem fyrir um það bil 20 árum urðu að sækja alla menntun til annarra landa og læra allt, sem til þess þurfti, á erlendum tungumálum, hafi þrátt fyrir þá augljósu erfiðleika, sem þetta hlýtur að valda, verið betur undir sitt lífsstarf búnir heldur en þeir, sem síðar hafa átt þess kost að stunda nám sitt heima og læra til leiklistar á sínu eigin móðurmáli, með þeim augljósu kostum, sem slíkt hlýtur að hafa í þessu efni. En þegar menn hafa gert sér þetta ljóst, eins og ég held að leikhúsmenn almennt viðurkenni, þá er vissulega tími til þess kominn að spyrna við fótum.

Og það, sem fyrst kemur í hugann, er að sameina kraftana, en dreifa þeim ekki, eins og gert hefur verið hér að undanförnu.

Á undanförnum árum hefur farið fram gagnger endurskoðun á þessum málum á hinum Norðurlöndunum og niðurstaðan orðið sú, að stofnaðir hafa verið sjálfstæðir ríkisskólar, óháðir leikhúsunum, til alhliða menntunar leikaraefna og annarra leikhússtarfsmanna, eins og stefnt er að með frv. þessu. Í Danmörku hefur þegar verið komið á fót leiklistarakademíu, sem á að verða ein fyrir allt landið, lúta sérstakri stjórn og starfa alveg sjálfstætt og óháð leikhúsunum. Og í Noregi hefur sama fyrirkomulagi verið komið á fyrir u. þ. b. 8–10 árum og þykir gefast þar mjög vel. Einnig þar er þetta ein sjálfstæð stofnun fyrir allt landið. Í Svíþjóð er slík stofnun eða akademía starfandi í Stokkhólmi, en jafnframt starfa þar leiklistarskólar áfram í Málmey og Gautaborg. Þegar þessi þróun er skoðuð, þá finnst manni fráleitt, að hægt sé að halda uppi 2 leiklistarskólum í Reykjavík. Þegar frændur okkar í hinum löndunum, sem ég minntist á, eru að sameina kraftana í eina allsherjarstofnun, þá er það ekki eðlilegt, að hér sé haldið uppi 2 skólum, þ. e. a. s. ef jafnframt á að gera til þeirra fyllstu kröfur, eins og við verðum að gera. Hvort tveggja er, að tæplegast er þess að vænta, að við höfum nægilegan hóp sérfróðra manna með kennsluhæfileika til svo dreifðrar starfsemi, og þá ekki síður hitt, að vitað mál er, að leiklistarskólar leikhúsanna hafa verið reknir með fjárhagslegu tapi mörg undanfarin ár, sennilega alla tíð. Eini aðilinn, sem hefði bolmagn til að standa undir fullkomnum skóla, sem samræmist nútímakröfum, er ríkið sjálft, og það er skoðun okkar flm., að hið opinbera verði hið bráðasta að gangast fyrir stofnun slíks skóla, er fullnægi þessum kröfum, vegna þess, hversu leiklistin er orðin snar þáttur í menningarlífi þjóðarinnar.

Ég skal játa það, að ég hef ekki treyst mér til að leggja í það neina vinnu að reikna út, hvað það mundi kosta ríkissjóð að koma í framkvæmd ákvæðum þessa frv. Vafalaust þýðir það eitthvað aukin útgjöld. Þó er ég fremur bjartsýnn á, að það þyrfti ekki að vera svo ákaflega mikið. Það hlýtur að vera spurning, svo að ekki sé meira sagt, hvort það þarf að vera nokkuð dýrara að reka einn góðan skóla heldur en 2 ófullkomna, eins og hingað til hefur verið gert, og hallarekstur leikskóla Þjóðleikhússins hefur lengst af lent á ríkinu hvort eð er. Það eru engin ný útgjöld í því efni. Og einhvern veginn hefur líka orðið að halda starfsemi Leikfélagsins uppi. Ég skal ekki fara lengra út í það hér, en ég býst við, að stór hluti einnig af því fjármagni hafi komið úr sjóði landsmanna.

En við skulum bara fyrir alla muni gera okkur ljóst, hversu mikil áhrif leiklistin og leikhúsin hafa á menningarlíf landsmanna, og það skiptir verulegu máli, t. d. fyrir viðhald og verndun tungu og þjóðernis, að leikhúsin flytji vandað efni og hafi vel menntum hæfileikamönnum á að skipa. Það fé, sem til þessara hluta er varið, skilar því ekki ómerkilegri arði en ýmsir þeir hlutir aðrir, sem sjálfsagt þykir að verja fjármagni til og enginn telur eftir.

Ég vil geta þess, að þetta frv. hef ég samið í nánu sambandi við nokkra þeirra manna, sem hafa langa reynslu og mikla þekkingu á þessum málum, en sjálfur hef ég slíka þekkingu af eðlilegum ástæðum ekki mikla. Ég hef þó ekki leitað til Félags ísl. leikara um leiðbeiningar um þessi efni. Formaður þess félags hefur, eftir að frv. kom fram, haft samband við mig og lýst fyrir hönd félagsins ánægju yfir því, að frv. er komið fram. Jafnframt tjáði hann mér það, er ég vissi ekki, að um nokkurt skeið hefði starfað hér n., sem hann ætti sæti í meðal annarra, til að athuga og undirbúa þessi mál. Það er vel. Ég fagna því, að um þessi efni skuli vera hugsað af fleirum en okkur flm. þessa frv., og ég lýsi því hér með yfir af þessu tilefni, að við flm. erum fúsir til samstarfs um fyrirkomulag þessara hluta við alla þá, er áhuga kunna að hafa. Við höldum því alls ekki fram, að í okkar frv. sé hitt á þá einu réttu leið, og tökum fúslega öllum ábendingum, sem til bóta eru á frv. okkar. En ég verð þó að segja, að engin slík ábending hefur borizt enn sem komið er, en þær ábendingar, sem kunna að koma, og það starf, sem þegar hefur verið unnið af öðrum, kemur hv. menntmn., sem þetta mál mun væntanlega fá til afgreiðslu, þá að fullum notum, þó að þetta frv. hafi verið flutt.

Ég hafði hugsað mér að gera nokkra grein fyrir einstökum liðum frv., en ég skal vegna þess, hvað sérstaklega stendur á á Alþ. hér í dag, stytta það mjög og áskil mér þá rétt til þess að koma fram skýringum við frv. við hv. menntmn., þegar hún fer að starfa að því, þ. e. a. s. ef þá einhver áhugi verður á þessu máli í hv. deild, sem ég leyfi mér að vona, en eins og ég segi, vegna annarra starfa, sem kalla að hér á hv. Alþ. í dag, þá mun ég stytta þessa ræðu mjög mikið.

Ég vil aðeins segja það um einstakar greinar, að í 2. gr. er talað um, hvernig stjórn skólans skuli skipuð. Það er alltaf matsatriði, hvernig slíka stjórn skuli skipa, og það er ekkert sérstakt kappsmál okkar flm., að stjórnin verði skipuð eins og þarna er gert ráð fyrir. En í stuttu máli er skipanin sú, að þjóðleikhúsráð tilnefni einn, Leikfélag Reykjavíkur annan, Félag ísl. leikara þriðja og starfandi leikfélög utan Reykjavíkur þann fjórða og að menntmrh. tilnefni svo þann fimmta, sem verði formaður nefndarinnar. Í 3. gr. er gert ráð fyrir því, að ráðinn verði sérmenntaður maður til að veita skólanum forstöðu og að ráðningarsamningur hans verði endurnýjaður á 4 ára fresti. Ég legg áherzlu á, að það sé ákveðið í þessum lögum, eins og ég tel að ætti að vera í ýmsum öðrum l., sem ég mun kannske gera grein fyrir hér síðar, ef tækifæri gefst til, að slíkir skólastjórar og forstöðumenn menntastofnana séu ekki ráðnir til allt of langs tíma og það gefist tækifæri eftir eðlilegum leiðum til að skipta þar um menn. Þessar listgreinar eru þannig vaxnar, að það getur verið mjög mikil nauðsyn á því, að hægt sé að skipta um með eðlilegu millibili.

Þessum skóla er ætlað að vera 3 ára skóli og starfa, eins og ég held ég hafi sagt í upphafi, allan daginn frá 1. október til 1. júní, frá kl. 9–18. Það er sem sagt fullkominn dagskóli, eða skóli, sem tekur allan daginn, sem menn verða að stunda nám í og gera ekki annað.

Í 6. gr. hef ég reynt að telja upp það helzta, sem ætti að kenna í þessum skóla. Mér er það fullljóst, og ég er alls ekki að halda því fram, að hér sé um tæmandi upptalningu að ræða eða ekkert annað komi til greina en þar er talið. (Gripið fram í.) Ég skal reyna að klára þetta á einni eða 2 mínútum. Eins og ég sagði, þá áskil ég mér rétt til að koma að þessum upplýsingum, þá bara á síðara stigi. Í 6. gr. er líka gert ráð fyrir því, að það verði stofnað til námskeiða í leikstjórn, búninga- og leikmyndateiknun, leiksviðslýsingu og öðrum tæknistörfum á leiksviði. Þetta legg ég mikla áherzlu á að verði reynt, því að eins og vitað er, eru það ekki aðeins leikararnir, sem starfa að hverri sýningu, heldur fjöldi tæknimenntaðra manna, sem vissulega þurfa ekkert síður en leikararnir að fá tækifæri til þess að fullnuma sig í greinum sínum.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan, þá veit ég, að það kalla aðrar annir að. Ég hefði óskað þess, að þessi framsöguræða hefði getað orðið nokkru ýtarlegri, en um það er ekki að sakast. Ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.