13.03.1969
Efri deild: 58. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2410)

134. mál, leiklistaskóli ríkisins

Frsm. meiri hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Það voru aðeins fáein orð, sem ég vildi sagt hafa af tilefni þess, sem fram kom í ræðum þeirra tveggja ræðumanna, sem síðast hafa hér talað.

Það er rétt hjá hv. 11. þm. Reykv., að það kemur ekkert fram í nál. meiri hl., hvort hann telur æskilegt eða nauðsynlegt að endurskoða eða koma betri skipan á leiklistarkennslu hér. Ég skal þá láta í ljós þá skoðun og velt, að ég mæli þar fyrir meiri hl. menntmn., að ég er alveg samþykk því, sem fram kemur í aths. við frv., að sú leiklistarkennsla, sem nú er veitt hér, sé ófullnægjandi og samsvari ekki tímans kröfum og þurfi því að taka það mál allt til athugunar. Og ég vil líka taka það fram, að ég tel það mjög virðingarvert af hv. flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir, að sýna áhuga sinn með því að hafa lagt vinnu í að semja þetta frv. Hitt er svo annað mál, að þegar það var ljóst, að hæstv. menntmrh. hafði í janúarmánuði gert ráðstafanir til nefndarskipunar til þess að endurskoða þessi mál, þá þótti okkur eðlilegt, að frv. yrði vísað til ríkisstj.

Eins og skipan þeirrar n. er, sem hæstv. ráðh. hefur nú sett á laggirnar, þá er ljóst, að um málið mun verða fjallað af kunnáttumönnum, og ég er ekki í vafa um það, að þeir munu að sjálfsögðu í sínum störfum hafa til athugunar það frv., sem hér liggur fyrir, og mér þykir ótrúlegt annað en í því sé margt, sem þessi n. muni taka til greina, þarna sé ýmislegt, sem muni falla saman við hennar skoðanir á því, hvernig málunum eigi að skipa í framtíðinni. En ég vil segja það, að ég tel ekkert óeðlilegt við það og get alls ekki verið sammála hv. 11. þm. Reykv. um, að það sé ekki fyllilega eðlileg afgreiðsla að vísa frv. til ríkisstj., þegar í undirbúningi er endurskoðun þessara mála.

Ég skal ekki fara að karpa við hv. þm. um það, hvaða líkur séu á því, að n. skili fljótt sínum till. og athugunum. Ég vil benda á það t. d., og við nefnum bara menntaskólanefndina, að það eru ólík verkefni, sem þessar nefndir hafa, menntaskólanefndin og n., sem á að fjalla um þetta afmarkaða svið, sem ég held, að engum geti blandazt hugur um, að sé ólíkt auðveldara viðureignar og minna í sniðum.

Hv. 2. þm. Austf. vék í sinni ræðu að því, að þegar Þjóðleikhúsið var vígt, hafi þegar verið á því vakin athygli, að með betri aðbúnaði væri síður en svo allt fengið fyrir eitt leikhús, og vissulega er það rétt. Við vitum, að okkar leikarar hafa sumir hverjir sótt menntun sína til útlanda og gera reyndar enn að einhverju leyti, og við vitum líka, að þetta fólk hefur yfirleitt verið það, sem fram úr hefur skarað á leiksviðum okkar. Það efast enginn um nauðsyn þess, að leikarar geti öðlazt sem bezta undirbúningsmenntun fyrir sína listtúlkun. Á það er líka að líta, að leikmennt hjá okkur hér á Íslandi er að sjálfsögðu miklu yngri en gerist með ýmsum stærri þjóðum, og þó hlýtur maður að segja það eftir að hafa haft tækifæri til þess að bera saman túlkun í erlendum leikhúsum á leikritum og aftur sömu leikritum hér heima, þá hefur maður oft undrazt, hve góð er frammistaða okkar leikara, og það sýnist manni benda til þess, að hér sé yfirleitt mikið af fólki með leiklistarhæfileika og góð leiklistarefni.

Ég persónulega legg mikið upp úr því, að hægt verði að koma leiklistarkennslunni í betra og fullkomnara horf. Með þeim leikskólum, sem starfað hafa, hefur kröftunum eðlilega verið sundrað, enda er í bréfi ráðh. beinlínis tekið fram, að n. verði ætlað það að athuga sameiningu þessara tveggja leikskóla og jafnframt um stofnkostnað og rekstrarkostnað. Um það skal ég ekki fullyrða, en mér þykir ótrúlegt, að kostnaðurinn verði þó ekki allmiklu meiri en samanlagt hjá þeim tveimur leiklistarskólum, sem nú eru starfandi, miðað við það, að um fullkominn leikskóla verði að ræða.

Ég sé nú ekki ástæðu til að hafa um málið fleiri orð, en vildi sem sé alveg sérstaklega láta það koma fram, að afstaða meiri hl., þar sem lagt er til, að málinu sé vísað til ríkisstj., byggist síður en svo á því, að hún telji ekki nauðsyn á, að þessu máli sé gaumur gefinn.