16.12.1968
Efri deild: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (2416)

114. mál, Atvinnumálastofnun

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki eyða mörgum orðum um þetta frv. og þá stefnu, sem liggur því að baki. Það fer að sjálfsögðu mjög eftir útfærslu málsins, hversu víðtækt það eftirlitskerfi á að vera, sem hér er gert ráð fyrir að setja á laggirnar, og í frv. sjálfu er það ekki mjög fast mótað. Hins vegar er lýst yfir af hv. 1. flm., að með þessu sé ekki ætlunin að koma á laggirnar almennu haftakerfi, þ. e. a. s. nefnd, sem úthluti leyfum til einstakra aðila, eins og haftakerfið venjulega hefur verið skilið, heldur að stofnun sú, sem hér er gert ráð fyrir, eigi fyrst og fremst að setja almennar reglur, sem eftir skuli starfa. Nú er ég að vísu ekki viss um, að það sé auðið að koma í mörgum tilfellum við slíkum almennum reglum. Það má auðvitað vel hugsa sér, að bankabyggingar séu bannaðar eitt eða tvö ár. En ég er ósköp hræddur um, að fyrr en varir séu menn komnir út í það viðfangsefni að gera upp á milli framkvæmda, vegna þess að ekki sé hægt til langframa að banna tilteknar framkvæmdir, heldur verði að leyfa þær að einhverju marki. Það held ég, að sé nokkurn veginn ljóst.

Forsendu fyrir þessu frv. telur hv. frsm. fyrst og fremst vera þá, að þróun fjárfestingarmála að undanförnu hafi verið með þeim hætti, að það beri brýna nauðsyn til að koma þar á betra skipulagi, taka upp eftirlit í vissum mæli með fjárfestingu í landinu almennt og hvaða stefna skuli vera uppi í þeim efnum. Nú er það út af fyrir sig alveg rétt, að þegar þrengir að, þá er auðvitað enn brýnni þörf að gera sér grein fyrir, hvað hægt er að leyfa sér, og þá er suðvitað margt, jafnvel nytsamlegt, sem menn verða að skjóta á frest og reyna þá að velja það, sem brýnast er að vinna að hverju sinni. Um þessa stefnu getur í rauninni ekki verið neinn ágreiningur. Um hitt atriðið, að undanfarin ár hafi þetta þróazt allt með ódæmum, hygg ég að verði hins vegar mjög skiptar skoðanir. Það getur vel verið, að það sé ýmislegt, sem má benda á í dag, að hefði verið æskilegt að hefði ekki verið gert, það er annað mál. En eftir almennt fjárfestingarhungur, ef svo má segja, á haftaárunum, er auðvitað ótalmargt, sem hafði verið vanrækt að gera. Það þurfti auðvitað að byggja upp bæði iðnaðarhúsnæði og jafnvel verzlunarhúsnæði, sem hafði verið bannað langtímum saman. Það er nauðsynleg þjónustustarfsemi í þjóðfélaginu eins og hvað annað. Hvort of langt hefur verið í því gengið, skal ég ekki segja, en það liggja fyrir óvefengjanlegar skýrslur um það, að hér er um að ræða ákaflega lítinn hluta af fjárfestingu þessara ára. Hitt sjáum við aftur á móti, að margvíslegar framkvæmdir hafa verið með þeim hætti, að það hefur kannske verið í þeim nokkur ofrausn, og sérstaklega núna bent á í því sambandi ýmiss konar fjárfestingu í fiskveiðum og fiskiðnaði, allt of margar síldarverksmiðjur hafi verið reistar, það er talað um, að fiskiðjuver og fiskvinnslustöðvar hafi verið reistar af of mikilli rausn, og talið, að þurfi jafnvel að sameina slíkar stöðvar og stöðva rekstur ýmissa þeirra. Þetta er að minni hyggju mjög táknrænt dæmi um það, hvernig okkar þjóðfélag er. Og ég efast stórkostlega um það, þó að það hefði verið starfandi hér einhver atvinnumálastofnun eða eftirlitsnefnd, að þá hefði verið fjárfest einum eyri minna í þessum framkvæmdum heldur en varð.

Þetta er aðeins tákn um það, hversu við lifum í erfiðu þjóðfélagi atvinnulega séð. Það var barizt um það af öllum aðilum að koma á laggirnar síldarverksmiðju í hverri einustu höfn, þegar síldin kom nú aftur síðustu árin í vaxandi mæli, og ég varð ekki var við, að það væru neinir úrtölumenn í því efni. Það var fyrst á síðasta ári, að farið var að spyrna fast við fótum í því efni. M. a. var af opinberri hálfu beinlínis lagt gegn því, að tiltekin síldarverksmiðja yrði reist. Engu að síður réðust menn að vísu í þetta og lögðu í það mikið eigið fé, sem hefur orðið þeim til lítillar gæfu. En sannleikurinn er sá, að stjórnarvöld hafa síðustu árin fremur verið átalin fyrir það, að þau hafi ekki látið byggja nógu mikið af fiskiskipum til að sækja á síldarmiðin og jafnvel hraða enn meira síldarverksmiðjubyggingum heldur en gert var til að geta hagnýtt þessa gullnámu. Þessi gullnáma er þrotin að sinni, a. m. k. er svo lítið orðið í henni, að það er ljóst, að öll þessi fjárfesting getur ekki rentað sig með eðlilegum hætti. Og nú er auðvitað mjög auðvelt um vik að segja: Ef við hefðum ekki byggt allar þessar síldarverksmiðjur, þá hefðum við getað notað fé okkar með eðlilegri hætti. Ef við hefðum ekki byggt tvö eða þrjú fiskiðjuver á hverjum stað, þá hefði eitt fiskiðjuver nú haft starfs- og rekstrargrundvöll. — Allt er þetta rétt. En það er hins vegar eftir sú staðreynd, að fyrir fram var ákaflega erfitt að segja fyrir um, og ég held, að engin n. hefði treyst sér til þess að segja fyrir um það, hvað af þessum mannvirkjum skyldi neitað um. Almenna reglu hefði auðvitað ekki verið hægt að setja, engum hefði dottið í hug að banna síldarverksmiðjur almennt eitt eða tvö ár. En með því að segja: Það má reisa síldarverksmiðju í þessum firði, en ekki þeim næsta, — þá hefðum við verið komnir út í ákaflega erfiða framkvæmd, að ég hygg. Ég á ekki við það, að menn út af fyrir sig eigi að gefast upp fyrir því viðfangsefni, en það er oft og tíðum svo, því miður, að menn verða að reka sig á.

Síldariðnaðurinn er kannske hvað dæmigerðastur um, hvað erfitt er að leggja raunhæfan grundvöll að fjárfestingu. Við höfum séð síldina færast frá Vestfjörðum og austur yfir land, hverja verksmiðjuna eftir aðra leggjast í eyði, ef svo má segja, og verða ónýta með tímanum, vegna þess að þar berst ekkert hráefni á land. Og svona má segja um margvísleg önnur fyrirtæki á þessu sviði. Það má auðvitað í fleiri greinum benda á, að það hafi verið reistar fleiri verksmiðjur. Ef ein verksmiðja er komin á laggirnar, sem getur með góðu móti starfað, þá eru oft og tíðum 2 eða 3 aðrir, sem segja: Við viljum líka reisa svona verksmiðju. — Og það er út af fyrir sig mikið vandamál. En þarna er auðvitað ekki heldur hægt að setja almenna reglu, heldur verður að beita beinlínis höftum, ef á að ná þeim árangri, og reyna að sjá til þess, að það verði ekki byggt meira en rekstrargrundvöllur sé fyrir miðað við þann markað, sem við höfum. Ég er alls ekki að gera lítið úr nauðsyn þessara mála á neinn hátt. Hins vegar er ég í stórum vafa um, að það sé rétt leið í þessu efni að leggja grundvöll að einhverri nýrri stofnun með alls konar aðilum, sem hér er gert ráð fyrir. Ég er ekkert að slá því föstu, að þetta sé rangt, en ég álít, að það þurfi a. m. k. að íhugast mjög vel.

Mín skoðun er sú, að það þurfi að efna til miklu meira samstarfs milli bankakerfisins og stofnsjóða. Þessir aðilar geta tvímælalaust án beinna hafta haft afgerandi áhrif um það, hvernig fjárfestingin þróast í landinu. Og það er enginn aðili í landinu, sem getur gert þetta með auðveldari hætti en bankakerfið með nægilegri samvinnu og skipulagi sín á milli. Það eru til stofnsjóðir í öllum atvinnugreinum í landinu, sem eru flestir tengdir ríkisbönkunum, og það er þess vegna mjög auðvelt með óbeinum hætti að orka í þá átt, hvert fjárfestingunni er stefnt. Og ég skal fúslega játa það hér, að ég álít, að það hafi verið allt of lítil samvinna milli stofnlánasjóða og bankakerfisins yfirleitt um það, hvernig hefur verið unnið að lánveitingum til uppbyggingar á ýmsum sviðum. Það er í senn of mikið af því, að fyrirtæki hafi verið sett á laggirnar án þess að hafa hliðsjón af því, hvort þau hafi haft starfsgrundvöll, miðað við, að það er kannske annar banki, sem hefur lánað í hliðstætt fyrirtæki, og það hefur einnig verið allt of lítið gert af því að leggja raunhæfan grundvöll að nauðsynlegum áætlunum og um rekstrarafkomu viðkomandi fyrirtækja. Það hafa verið um of þeir starfshættir ríkjandi, að fyrirtæki, sem út af fyrir sig er gott og gilt og getur haft þjóðfélagslega þýðingu, það hafi ekki fengið þann starfsgrundvöll með rekstrarlánum, að það hafi getað starfað með eðlilegum hætti, og það er of mikið af því, að fyrirtækjum sé dreift á milli banka, þannig að þau verði að leita eftir lánum á mörgum stöðum, í stað þess að hafa einn viðskiptabanka.

Í fljótu bragði a. m. k. sýnist mér, að öllu því, sem ætlunin er að ná með þeim till., sem hv. frsm. þessa frv. ræddi hér, og þeirri hugsun, sem ég fann að var í hans máli, væri hægt að ná með samstarfi milli þeirra stofnana, sem yfir fjármagninu ráða. Og einmitt aðilar að þessum stofnunum eru atvinnuvegirnir með stofnsjóði sína. Hvort það ætti að setja einhverja aðra yfirstjórn yfir þá stofnsjóði, það er mál út af fyrir sig, eða veita fleiri aðilum í þessum samtökum ríkari aðild að þeim, það skal ég ekkert um segja. Ég er hins vegar ekki alveg viss um, að þessi samtök öll kærðu sig mikið um það að eiga að fá úrskurð um það, hvað skyldi sitja fyrir og hvað ekki, hvort sem það er í iðnaði, landbúnaði eða sjávarútvegi. Ég er ekki alveg viss um það. En ég er ákveðið þeirrar skoðunar, að þarna sé pottur brotinn og það þurfi að vinna að kerfisbundinni samvinnu og samstarfi þessara lánastofnana í landinu og það sé sú eðlilegasta leið til að „kontrolera“ það, sem er gert ráð fyrir í þessu frv. að þurfi að gera og ég viðurkenni að þurfi að gera á ýmsum sviðum.

Í 2. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir, að þessi atvinnumálastofnun fái ýmiss konar verkefni, sem eins og sakir standa núna eru í rauninni verkefni annarra aðila. Áætlanir um þróun atvinnuveganna, sem eru mjög nátengdar þjóðhagsáætlunum, eru í rauninni verkefni Efnahagsstofnunarinnar að verulegu leyti. Áætlanir á einstökum sviðum atvinnulífsins og byggða- eða landshlutaáætlanir eru á vegum atvinnujöfnunarsjóðs og að sjálfsögðu í nánu samræmi við það að auka atvinnuöryggi. Til þess eru landshlutaáætlanir hugsaðar. Það er því í rauninni ekki nema fjórði liður þessa hlutverks atvinnumálastofnunarinnar, sem má segja að enginn aðili sinni núna, þessari heildarstjórn, ekki nein n. sem slík, heldur annars vegar ríkisvaldið og hins vegar lánastofnanirnar að meira og minna leyti í þess umboði. Það er í rauninni þetta, sem mér skilst að málið snúist fyrst og fremst um, hvernig þessu verður fyrir komið, því að ég er ekki viss um, að það muni þjóna neinu góðu að fara að breyta því kerfi varðandi gerð landshlutaáætlana, sem nú er, og taka þá úr höndum þeirra aðila, sem með það hafa að gera. A. m. k. þarf þá að breyta þeim lögum, sem eru gildandi um atvinnujöfnunarsjóð og aðild Efnahagsstofnunarinnar að þeim verkefnum.

Þetta vildi ég aðeins segja á þessu stigi málsins. Ég álít sem sagt hæpið, hvort þetta frv. stefni í rétta átt og hvort það sé líklegra a. m. k. en ýmislegt annað til að ná þeim tilgangi, sem hér er ætlunin að ná. Mín skoðun er sú, eins og ég sagði, að ég álít miklum mun heppilegra að einbeita sér að samstarfi stofnlánasjóða atvinnuveganna og að nota þá sérþekkingu, sem aðilar þar hafa yfir að ráða, um þróun hvers atvinnuvegar um sig. Það eru engir sem betur hafa með því fylgzt, hvort sem það er á sviði landbúnaðar, sjávarútvegs eða iðnaðar, og það er mjög brýnt að tengja einmitt þessa sjóði við rekstrarlánabankana, því að við þekkjum allt of raunalegar sögur þess, að fyrirtæki, sem komið hefur verið á laggirnar með lánum úr stofnsjóðum, og það jafnvel rausnarlegum lánum, þau hafa farið forgörðum fyrir þá sök, að enginn viðskiptabanki hefur viljað taka þau í viðskipti.

Þetta vildi ég aðeins sagt hafa í sambandi við þetta mál á þessu stigi. Ég tel sjálfsagt, eins og hv. flm. sagði, að þetta mál verði athugað efnislega. Kannske greinir okkur ekki svo mjög mikið á um, að það þarf nákvæmlega á sama hátt og ég sagði áðan um ríkisframkvæmdir að sjá til þess, að takmarkað fjármagn sé nýtt sem bezt, og vissulega höfum við dregið vissan lærdóm af því síðustu árin, ekki vegna þess, að það hefði verið mikið öðruvísi hægt á því að halda, hvort sem hefði verið ríkisnefnd eða haftakerfi, miðað við þá fjármagnsþróun, sem þá var í þjóðfélaginu, það er ekki skoðun mín, heldur hitt, að við höfum þó lært af þessu, og ég hygg, að þjóðin hafi af því lært, að það verður að fara með gát í þessum efnum. Þó að það yrði svo, að það séu faldir gull og grænir skógar, ef svo má segja, sem biðu manna, ef það sé ráðizt í ein og önnur mannvirki og framkvæmdir, þá verður þó að gera sér grein fyrir því vendilega, hvaða afleiðingar það getur haft og hvort þetta er líklegt að skila sama hagnaði til langtíma. Og það er allavega ljóst, að miðað við það áfall sem okkar þjóðarbú hefur orðið fyrir, þá ber hina brýnustu nauðsyn til þess að gera sér til hlítar grein fyrir því, að það takmarkaða fjármagn, sem við höfum nú yfir að ráða, sé fyrst og fremst notað til þeirra þarfa, sem líklegt er að komi þjóðarbúinu að sem allra beztum notum. Ég er í því sambandi ekki alveg viss um, að það sé heppilegt að stíla það saman og stefna saman á einn stað fulltrúum allra hugsanlegra hagsmunasamtaka, sem auðvitað hver um sig reynir að halda í sinn skika. Það er að minnsta kosti atriði, sem ég tel að þurfi að íhuga töluvert betur.