25.03.1969
Efri deild: 63. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í C-deild Alþingistíðinda. (2420)

114. mál, Atvinnumálastofnun

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Meginefni þess frv. um atvinnumálastofnun, fjárfestingu og gjaldeyrisnotkun, sem hér liggur fyrir, er að mínu áliti það, að þar er gert ráð fyrir, að stofnun, sem komið er á fót samkvæmt nánari ákvæðum 5. gr. frv., sé falið að hafa á hendi heildarstjórn fjárfestingar- og gjaldeyrismála, eins og nánar er kveðið á um í 2, gr. frv., sem fjallar um hlutverk stofnunarinnar. Er stofnuninni falið allvíðtækt vald í þessum efnum, þannig að hún getur tímabundið bannað tiltekna fjárfestingu og gjaldeyrisnotkun samkvæmt ákvæðum 8. gr. Gert er ráð fyrir heimild til þess að beita beinum innflutningshömlum, að vísu tímabundið, og ætlazt til þess, að fylgt sé í því efni almennum reglum, eins og það er orðað í 4. lið 2. gr. frv. Slíkar beinar innflutningshömlur koma auðvitað í bág við þá stefnu, sem fylgt hefur verið í viðskiptamálum af hálfu núverandi ríkisstj. og stuðningsflokka hennar. Það er þó að mínu áliti ekki aðalatriðið í þessu sambandi, því að stefnu, sem mörkuð hefur verið við ákveðnar aðstæður, getur auðvitað orðið nauðsynlegt að breyta eða sveigja til, ef aðstæður gerbreytast. En hitt er að mínu áliti þyngra á metum, að slíkar beinar hömlur á innflutningi samrýmast illa þeirri þátttöku, sem Ísland er þegar aðili að í alþjóðlegu samstarfi á sviði viðskiptamála, og ekki síður, ef Ísland teldi sér hag í víðtækari aðild að slíku samstarfi, svo sem með aðild að EFTA og e. t. v. Nordek. Slíkar beinar innflutningshömlur eru yfirleitt fordæmdar í slíku samstarfi, þannig að alþjóðastofnanir, sem Ísland þegar er aðili að og enginn ágreiningur hefur verið um hér á hv. Alþ. að við eigum að vera aðilar að, svo sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og GATT, krefjast þess yfirleitt af aðildarríkjunum, að þau beiti þeim ekki, og er undantekningu frá því yfirleitt mjög þröngur stakkur skorinn. En hér er gert ráð fyrir ótakmarkaðri heimild atvinnumálastofnunarinnar til þess að banna innflutning, að vísu þó tímabundið. Nú kunna e. t. v. sumir að segja, að það sé stigmunur, en ekki eðlismunur á tollum og innflutningshöftum að því leyti, að alltaf sé hægt að leggja svo háan toll á vöru, að það jafngildi innflutningsbanni. En ástæðan til þess, að stofnanir alþjóðlegrar samvinnu á sviðum viðskiptamála líta beinar hömlur óhýrara auga en jafnvel háa tolla, er sú, að höftin skapa auðveldlega aðstöðu til þess að mismuna landa á milli, en það á ekki við um tollana, sem ganga í miklu ríkara mæli jafnt yfir alla. Mér eru ljósir vissir kostir þess fyrirkomulags, sem hér er þó gert ráð fyrir, ef borið er saman við gamla innflutningshaftakerfið, sem hér var í einhverri mynd allt frá því skömmu eftir 1930 og fram til 1960–61, og má þar í fyrsta lagi nefna það, að ef um algert innflutningsbann er að ræða, þá gengur það auðvitað jafnt yfir alla innflytjendur viðkomandi vöru og þarf ekki að vega og meta það, hvort einn eigi að hafa innflutning með höndum frekar en annar. Í öðru lagi mundi það auðvitað auðvelda eftirlit, að vitað er þá, hvaða innflutningur er löglegur og hvaða ekki, og einnig í þriðja lagi er hér aðeins um tímabundið innflutningsbann að ræða, svo að minni hætta er á því en ella, að innflutningshöftin verði til þess að flytja framleiðslu inn í landið, sem af öðrum ástæðum þykir ekki æskilegt að gera. En þrátt fyrir þetta og af þeim ástæðum, sem ég þegar hef rakið, þá er meiri hlutinn andvígur því, að slíkt fyrirkomulag verði tekið upp.

Þó að þetta frv. hafi að vísu sínar jákvæðu hliðar, sem ég mun síðar víkja að, þá virðist mér sú hugsun, sem till. þær, sem hér eru settar fram, byggjast á, hvíla á grundvallarmisskilningi, og af því að hér er um undirstöðuatriði að ræða varðandi stefnu í efnahagsmálum almennt, þá þykir mér rétt að fara um þetta nokkrum orðum.

Það virðist í frv. og grg. fyrir því gengið út frá því, að hægt sé að framkvæma einhverja heildarstjórn á gjaldeyris- og fjárfestingarmálum, sem tryggi það, að gjaldeyri þeim, sem þjóðin aflar sér á hverjum tíma, sé ávallt varið á hinn skynsamlegasta hátt og sú fjárfesting, sem þjóðarbúinu sé hagkvæmust hverju sinni, sitji í fyrirrúmi. Við slíka niðurröðun verkefnanna skuli fylgt einhverjum almennum reglum, eins og það er orðað í frv., sem manni skilst að gætu verið hliðstæðar almennum réttarreglum, eins og t. d. þeim, sem sjódómur fylgir við ákvörðun um það, hvernig jafna skuli niður sjótjóni, o. s. frv. Ef fulltrúum stjórnmálaflokkanna er ekki treyst til að sinna þessum reglum og meðhöndla þær, eins og var á hinu nær 30 ára haftatímabili fyrir 1960, þá megi fara þá leið, sem lagt er til samkvæmt frv., að fela þetta fulltrúum hagsmunasamtakanna og gjaldeyrisbanka. Nú vill svo til, að þrír hv. flm. þessa frv. eru lögfræðingar og tveir þeirra gegna dómarastörfum, annar sem héraðsdómari, en hinn sem varadómari í hæstarétti. Ekki hvarflar það að mér — og sama hygg ég að eigi við um alla hv. þdm. — að væna þessa menn um það, að þeir muni láta það hafa hin minnstu áhrif á dóma sína, þótt þeim af tilviljun væri kunnugt um stjórnmálaskoðanir málsaðila, og hygg ég, að það eigi ekki eingöngu við um þá, heldur dómarastétt landsins í heild. En þótt dómarastétt okkar sé hins bezta trausts makleg, þá má vekja athygli á því, að yfirleitt voru það ekki neinar vanmetakindur, sem falið var að fara með umboð stjórnmálaflokkana í hinum ýmsu n. og ráðum, sem á sínum tíma stjórnuðu gjaldeyris- og fjárfestingarmálunum. Ég nefni hér engin nöfn, enda þekkja hv. þdm. mörg þeirra, og munu þeir vera mér sammála um, að þar var yfirleitt um að ræða mikilsvirta stjórnmálamenn og heiðvirða embættismenn. En ekki verður sagt um skipan þeirra mála og framkvæmd þeirra, að með hana hafi verið almenn ánægja, heldur þvert á móti, og var óánægjan og gagnrýnin þeim mun meiri sem haftakerfið varð víðtækara. Að vissu leyti má segja að vísu, að fylgt hafi verið almennum reglum um leyfaúthlutunina, en þær voru þá helzt þær, að hver hélt fram hagsmunum þeirra einstaklinga og fyrirtækja, sem voru tengd þeim flokki, sem viðkomandi var fulltrúi fyrir. Hef ég við ýmis tækifæri gert þeirri hlið málsins skil, bæði hér í hv. deild og í sameinuðu Alþ. í eyru hv. þdm., og vísa ég til þess og tek ekkert af því aftur.

En hvers vegna er ekki hægt að finna neinar almennar reglur, sem hliðstæðar séu réttarreglunum? Hvers vegna ríkir hér handahóf varðandi leyfaúthlutun, þó að engu verri menn fjalli þar um en þeir, sem dómstólana sitja, með allri og maklegri virðingu fyrir okkar dómarastétt, svo sem ég áður hef tekið fram? Það er af því, að dómarinn hefur fastar, hefðbundnar reglur að styðjast við, sem ekki eiga sér eingöngu stoð í löggjöf og dómsvenjum, heldur einnig — og það er að mínu áliti það, sem hér skiptir mestu máli — í því, sem kallað er réttarmeðvitund almennings. Allir eru sammála um, að þjófnaður, svik og líkamsárásir á saklaust fólk sé refsivert athæfi, að mönnum beri að halda gerða samninga, hlíta settum umferðarreglum, bæta eignatjón, sem þeir valda af ásetningi eða gáleysi, o. s. frv. Nákvæm ákvörðun viðurlaga við einhverju ólöglegu athæfi getur auðvitað verið matsatriði, en í þessu sambandi er það algert aukaatriði. Allt öðru máli gegnir, þegar meta skal, hvort Pétur eða Páll hafi meiri verðleika til þess að fá innflutningsleyfi fyrir bíl eða hvort leyfa eigi innflutning kökubotna, gítara, kampavíns eða hvers sem er annars og hverjir eigi að fá að flytja slíkt inn. Þar er allt háð smekk og mati hvers einstaklings, og þar falla skoðanir manna ekki saman, heldur eru þær jafnmargar og einstaklingarnir. Ef sá ólíklegi atburður skeði, að einhver stjórnmálamaður sneri sér til flokksbróður síns í dómarastarfi til að biðja skjólstæðingi sínum vægðar undan refsivendi laga, — og mér kæmi mjög á óvart, ef þeir tveir menn, sem hér gegna dómarastörfum, hafa nokkurn tíma upplifað slíkt, — en ef sá ólíklegi hlutur gerðist, þá mundi viðkomandi dómari án efa telja sér móðgun sýnda með slíku og svara stuttur í spuna, að sannað væri á manninn tiltekið athæfi, sem þessi eða hin viðurlög lægju við samkvæmt lögum, og neita að ræða frekar við viðkomandi nema þá sem réttarvitni eða málflutningsmann. Slíkt gæti auðvitað komið til greina. En þó að hér sé um hlut að ræða, sem sjaldan mun ske, þá var það ekki jafnsjaldgæft, að framámenn í stjórnmálum beittu áhrifum sínum við þá, sem fóru með úthlutun leyfa. Ég held, að hv. þm., sem voru á þeim tíma, hafi verið alltíðir gestir á biðstofum innflutningsnefndar fjárhagsráðs o. s. frv., og skal það út af fyrir sig sízt lastað. Það var því ekki óalgengt, svo að ekki sé tekið dýpra í árinni, að framámenn flokkanna beittu áhrifum sínum við fulltrúa flokkanna í úthlutunarnefnd til framdráttar einstaklingum og fyrirtækjum, sem verðleika voru talin hafa til slíkrar fyrirgreiðslu, og væri þá vitnað í einhverjar reglur, sem fylgt var við úthlutunina, þá var slíku ekki alltaf tekið með skilningi. Ég hygg, að stundum hafi verið sagt sem svo: Ætli minn skjólstæðingur hafi ekki jafnmikla verðleika til þess að fá bílaleyfi og þessi eða hinn, sem fengið hefur leyfi hjá ykkur? Hvaða speki er það, að varningur, sem það fyrirtæki, sem ég ber fyrir brjósti, flytur inn, sé meiri óþarfi en þetta eða hitt, sem þið hafið leyft öðrum að flytja inn? Ég býst við, að slík orðaskipti hafi ekki ósjaldan átt sér stað á milli viðkomandi aðila.

Þá er farið fjálgum orðum um það í grg. fyrir þessu frv., að vegna þess að innflutningur hafi ekki að undanförnu verið háður beinum hömlum, hafi átt sér stað mikill óþarfur innflutningur og þess vegna sé gjaldeyrisaðstaða landsins miklu verri en hún ella mundi vera. Nú er það vafalaust svo með okkur öll, hvort sem við komum inn í matvörubúð, vefnaðarvörubúð, búsáhaldaverzlun eða jafnvel bókabúð, að mikið og e. t. v. megnið af þeim varningi, sem við sjáum þar, er í okkar augum óþarfi í þeim skilningi, að við mundum ekki kæra okkur um að kaupa það til okkar heimila. En þá eru það einhverjir aðrir, sem þann varning kaupa, — og eru þeir og þeirra smekkur ekki jafnrétthár og okkar? Því fer líka fjarri, að í þessu efni hafi gilt eitthvað allt annað á haftaárunum, þannig að þá hafi ekki verið um neinn óþarfainnflutning að ræða. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að vitna í glerkýrnar, sem hv. 5. þm. Vesturl. (BGr) gerði að umtalsefni í umræðum um efnahagsmál, sem nýlega fóru fram í Sþ. og frægar voru á stríðsárunum og fyrst eftir stríðið. Nú er ég ekki neitt að álasa innflutningsnefnd, sem þá var, þó að hún hafi leyft innflutning á þessum glerkúm. Það hefur komið til af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi þeirri, að tekjuöflun ríkissjóðs byggist svo mikið á tollum á miður þarfar vörur, og í öðru lagi hefur þeim, sem þá voru í innflutningsnefnd, vafalaust þótt glerkýrnar fallegar og það saklaust, þó að fólk fengi að eyða peningum sínum í þær, úr því að ekki yrði hjá því komizt að leyfa innflutning á einhverju öðru en brýnum nauðsynjavörum. Ég minnist þess líka á verstu skömmtunar- og haftaárunum um 1950, þegar mikill hörgull var á vefnaðarvöru og öðru slíku, að allar búðir voru þá fullar af innfluttum leikföngum og öðru slíku. Því fer fjarri, að það breyti í rauninni nokkru um í þessu efni þó að innflutningurinn sé gerður háður leyfum. Kökubotnarnir, eins og kunnugt er, hafa verið mikil hneykslunarhella hv. stjórnarandstæðinga. Nú má í því sambandi upplýsa það, að á s. l. sumri gaf hæstv. viðskmrh. þær upplýsingar í hagráði, að innflutningur á kökubotnum hefði ekki numið nema fáum tugum þúsunda króna á 4 eða 5 fyrstu mánuðum þessa árs og hafði mjög verulega dregizt saman frá árinu á undan, og eftir nýju gengisfellinguna má telja mjög líklegt, að þessi innflutningur hverfi alveg, þannig að stórt gjaldeyrisspursmál er þetta ekki. En ég vil spyrja: Ef húsmæðrum er það of gott að kaupa þessar kökur og borga þá í leiðinni allt að 100% toll, hvernig er þá með innflutning á erlendu áfengi? Væri þá ekki eðlilegt að segja, ef það er nú einu sinni nauðsynlegt, að mönnum sé heimilt að neyta áfengis: Geta menn þá ekki alveg eins drukkið landa eins og þessi dýru útlendu vín? Með landa á ég ekki við hina ólöglegu framleiðslu, þá gæðavöru, heldur það, sem ríkið framleiðir og dreifir á löglegan hátt. Þó að það sé kannske skömm að segja það, þá eru nokkrir áratugir síðan ég hef smakkað landa, en mér er tjáð, að gæði hans hafi batnað mjög verulega frá því, sem var, þegar hinn alræmdi Svartidauði var hér á boðstólunum á stríðsárunum. Þetta nemur áreiðanlega eins mörgum milljónatugum og innflutningur kökubotnanna nemur mörgum tugum þúsunda. Hér gæti verið um verulegan gjaldeyrissparnað að ræða, — og eiga áfengisneytendur miklu meiri rétt í þessu efni en húsmæðurnar? Það verður að vera eitthvert samræmi í þessum málflutningi.

Hin skynsamlegasta skipun þessara mála er því sú, sem enginn stjórnmálaágreiningur er yfirleitt um í nágrannalöndum okkar, að fólkið fái sjálft að ráða því, hvaða vörur það kaupir og hverjar ekki, en það verður aðeins tryggt með frjálsum innflutningi.

Í grg. fyrir frv. er talað um það, að þegar svo sé, þá sé skorturinn látinn skammta, en ekki skynsemin, eins og það er orðað. Mér finnst þetta svolítið kaldhæðnislegt með tilliti til þess, að flestir hv. þdm. eru nú komnir á þann aldur, að þeir muna hafta- og skömmtunartímana og hvernig það, sem einkenndi þá, var einmitt skorturinn, þannig að mörg sú vara, sem fólk taldi sig þurfa, var algerlega ófáanleg, og þó að um það sé að vísu kvartað, eins og verið hefur, held ég, á öllum tímum, að varan sé dýr, þá er það af tvennu illu betra en að hún sé með öllu ófáanleg. Þá er þó betra að geta veitt sér lítið eða minna en óskað er en að geta ekki veitt sér neitt af þeim varningi, sem um er að ræða. Hjá hinu verður auðvitað aldrei komizt, að neytendur verða alltaf að greiða vöruna á því verði, sem framleiðandinn þarf að fá, til þess að hún verði framleidd. Það á ekki eingöngu við um innflutninginn eða innfluttu vöruna, að hún verður að greiðast á því verði, sem sjómenn, útvegsmenn og aðrir, sem framleiða til útflutnings, verða að fá, til þess að gjaldeyrisöflunin stöðvist ekki, heldur á þetta einnig við um búvöruna og annað, sem framleitt er innanlands, og það breytir engu í sjálfu sér í þessu efni, þó að haldið sé uppi óraunhæfri gengisskráningu með innflutningshöftum og útflutningsuppbótum. Að vísu getur varningurinn verið ódýrari, ef eingöngu er miðað við verðið, sem greitt er fyrir hann í búðinni, en eins og ég minnist að hv. 3. landsk. þm. (JÞ) alveg réttilega benti á í útvarpsumr. fyrir nokkrum árum, þá fær neytandinn bara bakreikning í mynd skatta og annarra álagna, sem verður að greiða, til þess að hægt sé að standa straum af uppbótunum, þannig að haftafyrirkomulagið breytir engu um það, að neytandinn verður að greiða útlendu vöruna eftir sem áður á kostnaðarverði, en verður að því leyti verr settur, að hann missir valfrelsi sitt.

Þá skal vikið að fjárfestingunni. Að sumu leyti á það, sem ég hef sagt, einnig við um það, sem kallað er heildarstjórn á fjárfestingu, því að opinber stjórn á fjárfestingu tryggir auðvitað engan veginn, að skynsamlegasta fjárfestingin sitji alltaf í fyrirrúmi, og reynsla okkar af slíkri heildarstjórn ætti að vera hið ólygnasta í því efni. Við höfum haft slíka heildarstjórn, þar sem var starfsemi nýbyggingaráðs á sínum tíma og síðan fjárhagsráðs. Hvernig var, ef við víkjum að nýbyggingaráði, með síldarverksmiðjuna á Skagaströnd, sem var einhver mesta fjárfestingin, sem í var lagt á vegum þess? Því miður rættust ekki í því efni allar þær vonir, sem menn gerðu sér um nýsköpunina í heild. Ég man, að hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) sagði á sínum tíma, að þetta færi aldrei í ganginn. Og þessi stóra fjárfesting fór aldrei í ganginn. Og margir hér munu muna eftir Hæringi og Faxa, sem komið var á fót eitthvert af fyrstu árunum, sem fjárhagsráð starfaði, og ótalmörg fleiri dæmi mætti nefna um misheppnaða fjárfestingu, sem þessar stofnanir leyfðu eða jafnvel beittu sér fyrir.

Samt sem áður gegnir allmjög öðru máli um fjárfestingu heldur en um innflutning neyzluvöru. Það er ekki hægt að mínu áliti að tala um val milli frelsis og hafta á sama hátt, þegar um fjárfestingu er að ræða, og varðandi neyzluna, því að gera má ráð fyrir því, að u. þ. b. 90% eða meira af allri fjárfestingunni sé stjórnað af hálfu hins opinbera í þeim skilningi, að í hana verður ekki ráðizt, nema leyfi eða önnur fyrirgreiðsla hins opinbera komi til. Yfirleitt er það ekki nema minni háttar fjárfesting, sem einstaklingar eru færir um að standa algerlega undir fjárhagslega. Jafnvel þótt um byggingu lítilla íbúða sé að ræða, þá má sennilega í fyrsta lagi telja þá á fingrum sér, sem geta kostað það alveg án nokkurrar fyrirgreiðslu, og jafnvel þótt svo væri, þyrfti þó alltaf leyfi viðkomandi bæjar- og sveitarfélaga til þess að fá byggingarleyfi, lóðir og allt annað slíkt, enda skil ég satt að segja ekki þær till., sem bornar eru fram í frv., þannig, að það vaki fyrir flm. að taka upp sams konar smámunasemi í þessum efnum og var á fyrstu árum fjárhagsráðs, að öll fjárfesting, þótt ekki væri um annað að ræða en byggingu peningshúsa og þess háttar, eigi að vera háð leyfum. Ég skil það ekki svo, að það séu hömlur á slíkri fjárfestingu, sem fyrir hv. flm. vakir, heldur að þar sé aðeins um meiri háttar fjárfestingu að ræða, þannig að þessir smámunir, sem einstaklingarnir ráða fullkomlega við, eigi að vera frjálsir eins og áður. En um alla þessa meiri háttar fjárfestingu er það þannig, að hið opinbera hefur þar hönd í bagga á einn eða annan hátt, og jafnvel eins og okkar efnahagskerfi er nú uppbyggt, þá eru engar líkur á því, að í náinni framtíð geti orðið um neina verulega breytingu í því efni að ræða.

Þá má nefna þann eðlismun, sem er á neyzlu og fjárfestingu í því efni, að hvað fjárfestinguna snertir, þá er þó til hlutlægur mælikvarði á það, hvað fjárfesting sé hagkvæm, a. m. k. hvað fjárfestingu í framleiðslutækjum snertir, þar sem er arðurinn, sem fjárfestingin gefur af sér, þar sem aftur á móti sú spurning, hvort tiltekin neyzluvara sé þörf eða óþörf, hlýtur að vera, eins og ég þegar hef gert grein fyrir, algerlega háð einstaklingsmati. Og hvað snertir fjárfestingu á vegum hins opinbera í skólum og öðru slíku, þá verður að vísu flóknara dæmi að meta, hvaða arð hún gefur af sér, en þó er það að mínu áliti engan veginn óleysanlegt dæmi, þó að ég fari nú ekki nánar út í það hér. En þó að ýmislegt hafi verið í þessu gert á valdaferli núverandi hæstv. ríkisstj., svo sem nánari grein verður gerð fyrir í nál. okkar, og að þeim málum sé unnið, þá vantar þó á, að þeim sé komið í æskilegt horf, því að þótt meiri hlutinn fallist engan veginn á, að stofnun, er hafi með höndum stjórn fjárfestingar, sé skipuð á nákvæmlega þann hátt, sem lagt er til í frv., — enda skilst mér, að hv. flm. hafi um það atriði allan fyrirvara, — þá er þó sú hugsun, sem að baki frv. liggur, að mínu áliti rétt, að æskilegt sé í þessum efnum að leita víðtæks samstarfs þeirra aðila í þjóðfélaginu, sem þessi mál einkum snerta, svo sem hagsmunasamtaka, lánastofnana og hins opinbera. Og satt að segja finnst mér, með allri viðurkenningu á þeim mistökum, sem orðið hafa, þegar hið opinbera og þá auðvitað ríkisvaldið hefur haft með höndum heildarstjórn á fjárfestingu, að hlutur hins opinbera og áhrif þess séu minni samkvæmt frv. en eðlilegt má teljast. Á ég þar ekki einvörðungu við ríkisvaldið, heldur einnig bæjar- og sveitarfélög, því að hér er þó um mjög mikilvægt hagstjórnartæki að ræða, sem beita verður í þágu þeirrar almannastefnu í efnahagsmálum, sem hverju sinni er til.

Hér má nú bæta því við, áður en lengra er haldið, og e. t. v. mundi hv. flm. vera í því nokkur huggun, þó að við gerum hér greinarmun á og föllumst ekki á það, að beinar hömlur séu settar á innflutning, en teljum allar hugmyndir um framkvæmd heildarstjórnar á fjárfestingu athyglisverðar, að með því að stjórna fjárfestingunni mundi innflutningnum að mjög verulegu leyti vera stjórnað um leið. Það er nú þannig, að neyzluvöruinnflutningurinn nemur ekki nema hluta af innflutningnum í heild. Ég hef fengið um það upplýsingar frá hagstofunni, að árið 1967, en það eru síðustu skýrslur, sem fyrir liggja um það efni, nam neyzluvöruinnflutningurinn aðeins 32.4% af heildarinnflutningi og eru þó í neyzluvöruinnflutningi talin hráefni til neyzluvöruiðnaðar, sem álitamál er, hvort ekki ætti að skoða sem rekstrarvöru. Á þessu ári var ekki farið að gæta áhrifa samdráttar þess, sem hefur orðið á þjóðartekjunum, á kaupmátt launa eða neyzlu,svo að það var óbreytt, en gera má einmitt ráð fyrir því, að þær gengisfellingar, sem síðan hafa orðið, muni einkum takmarka neyzluvöruinnflutninginn, en í miklu minna mæli innflutning fjárfestingarvöru og rekstrarvöru, þannig að hlutdeild neyzlunnar í innflutningnum í heild hefur vafalaust lækkað töluvert mikið frá því 1967.

Að lokum tel ég rétt að vekja athygli á því, úr því að fjárfestingarmálin eru hér til umr., hve geysistór þáttur fjárfestingin er í okkar þjóðarframleiðslu og jafnvel stærri en í nokkru öðru sambærilegu landi. Samkvæmt nýjustu skýrslu OECD, sem liggur hér á borðum hv. þm., leggja Íslendingar 33% af verðmæti þjóðarframleiðslunnar í fjárfestingu, þar sem miklu auðugri þjóðir, eins og Bandaríkin, leggja aðeins 16% af sinni þjóðarframleiðslu í fjárfestingu. Auðvitað kostar þetta miklar fórnir, því að fjárfesting verður alltaf á kostnað neyzlunnar eða lífskjaranna. Á tímum eins og þeim, sem við nú lifum á, þegar þjóðartekjur hafa minnkað og óhjákvæmilegt er að herða ólina, hlýtur það að verða meira brennandi spurning en ella, hvaða möguleikar séu á því að draga úr kjaraskerðingunni, m. a. með því að létta að einhverju leyti af þeirri byrði, sem fjárfestingin leggur þjóðinni á herðar, án þess að til atvinnuvandræða eða annarra vandræða þurfi að leiða. Það er undir öllum kringumstæðum rétt, að þeir möguleikar séu kannaðir, hvort sem þeir kunna að reynast meiri eða minni.

Herra forseti. Meiri hl. fjhn. leggur samkvæmt þessu til, að frv. verði vísað til ríkisstj.