25.03.1969
Efri deild: 63. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (2421)

114. mál, Atvinnumálastofnun

Frsm. minni hl. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Ég mun ekki í þeim orðum, sem ég segi hér sem frsm. minni hl. fjhn., víkja að ræðu hv. síðasta ræðumanns. Honum virðist vera áskapað það að lifa í gömlum tíma, þegar minnzt er á stjórn á fjárfestingarmálum, og tala um leyfafargan og annað slíkt. Ég læt það liggja á milli hluta. En eitt dæmi vil ég þó aðeins minna á, sem hann minntist á í lokin, og það var það, að slík skipulagning á fjárfestingu eins og nýbyggingaráð hafði undir höndum hefði sýnt sig átakanlega, hvað slíkt væri aumt, og bent var á byggingu síldarverksmiðjunnar á Skagaströnd því til sönnunar. Við höfum nú á undanförnum árum lifað í frelsi, óheftu frelsi, og það mundi þá verða saklaust, þó að ég minnti hv. þm. á það, að til eru tvær síldarverksmiðjur byggðar á þessum frelsistímum, önnur svokölluð Rauðubjörg, — ég veit ekki, hvort hv. alþm. hefur heyrt það nefnt, — hún átti að rísa á Neskaupstað með pomp og prakt. Hin verksmiðjan átti að rísa á Seyðisfirði, svokölluð Fjarðasíld h. f. Ég skal ekki orðlengja neitt frekar um þetta, en ég held, að hér sé kannske enn þá átakanlegra dæmi um eyðslu í óraunhæfa fjárfestingu. (Gripið fram í.) Ég skal ekkert segja um það, hvort ríkisbankarnir hafa lagt í það eða ekki. Það kemur fram í nál. meiri hl., að það séu ýmis leyfi, sem þurfi til þess að fara í fjárfestingu. Það er ekkert ólíklegt, að einhverjir bankar hafi komið þar, en varla svo, að ekki hefði einhvers staðar annars staðar komið fyrirgreiðsla frá, en nóg um það.

Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 154, hefur verið rætt í fjhn., og varð ekki samkomulag um afgreiðslu þess. Við, sem skipum minni hl. fjhn., leggjum til, að frv. verði samþ., en meiri hluti n. leggur til, að frv. verði vísað til ríkisstj. Í nál. meiri hlutans kemur fram, að í frv. felist till., sem séu á ýmsan hátt athugunarverðar, og þess vegna beri að vísa þessu frv. til ríkisstj., væntanlega þá til frekari athugunar. Við meðferð málsins í n. var frv. þetta sent til umsagnar nokkurra aðila, og hafa borizt svör frá nokkrum þeirra. Samband ísl. samvinnufélaga mælir með frv., þar sem það geti stuðlað að því að treysta atvinnureksturinn í landinu. Vinnuveitendasamband Íslands leggur hins vegar á móti frv. Landsamband ísl. útvegsmanna getur eigi mælt með samþykkt frv., en Farmanna- og fiskimannasamband Íslands mælir með því, að frv. nái fram að ganga í höfuðdráttum, og minnir á, að Farmanna- og fiskimannasambandið, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Samband ísl. bankamanna hafi í nóv. s. l. haldið ráðstefnu, þar sem m. a. var samþykkt ályktun um atvinnumál, og megi segja, að margt í þessu frv., sem hér liggur fyrir, sé í fullu samræmi við þær ályktanir ráðstefnunnar. Þessi ráðstefna, sem vitnað er til, gerði samþykktir, þar sem segir m. a., með leyfi hæstv. forseta: „Að taka upp heildarstjórn á fjárfestingu landsmanna og beina fjármagni til lífvænlegra atvinnufyrirtækja á þeim stöðum, þar sem þörfin er brýnust nú til eflingar atvinnulífs.“ Enn fremur er bent á að efla þá innlendu iðnframleiðslu, sem er gjaldeyrissparandi og samanburðarhæf við erlenda. Þá leggur þessi ráðstefna til, að tekin verði upp heildarstjórn á veitingu gjaldeyrisleyfa, ráðstöfun gjaldeyris og gjaldeyrisskilum. Ýmsir meginþættir í ályktunum þessarar ráðstefnu fara mjög í sömu átt og lagt er til í þessu frv., sem hér liggur fyrir, og er þar sérstaklega um að ræða að ráðstefnan leggur til að tekin verði upp fjárfestingarstjórn og stjórn á gjaldeyrismálum. Hér er um að ræða samþykktir félagasamtaka, sem hafa um 11 þús. meðlimi innan sinna samtaka, og flestir þeirra, sem ráðstefnuna sóttu, hafa haft mikil afskipti af þessum málum, bæði í bönkum og opinberum stofnunum.

Meginefni frv., sem hér liggur fyrir, er það, að komið verði á fót atvinnumálastofnun, sem hafi fyrir hönd ríkisvaldsins opinbera forustu í atvinnumálum í fullu samstarfi við leiðandi menn á sviði atvinnulífsins. Jafnframt verði þessari stofnun eða stjórn hennar falin heildarstjórn fjárfestingar- og gjaldeyrismála. Enn fremur skal atvinnumálastofnunin semja áætlanir til langs tíma, marka stefnuna í atvinnumálum þjóðarinnar og hafa jafnframt forgöngu eða beita sér fyrir ráðstöfunum til að auka atvinnuöryggi í byggðarlögum landsins eða einstökum landshlutum.

Eitt af meginatriðum þessa frv. er einmitt, að atvinnumálastofnuninni er beinlínis ætlað að hafa frumkvæði að atvinnuuppbyggingu á ýmsum stöðum, ef þurfa þykir. Það má kannske segja, að þeirri fjárfestingu, sem einhverja þýðingu er talin hafa, sé þegar stjórnað á ýmsan hátt. Til eru margir sjóðir, sem eiga að veita aðstoð við atvinnuuppbyggingu. Þessir sjóðir starfa allir hver út af fyrir sig, en milli þeirra er sáralítil eða engin samvinna. Þessir sjóðir lúta engri samræmdri stjórn. Með þessum orðum er ekki verið að gera lítið úr störfum þessara stofnana, alls ekki. Það fé, sem veitt hefur verið út í atvinnulífið fyrir milligöngu þeirra, hefur í mörgum tilfellum komið að mjög miklum notum til eflingar atvinnulífinu víðs vegar um landið. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd, að full þörf er á að vinna að þessum málum á skipulegri og markvissari hátt en gert hefur verið á undanförnum árum.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, gerir enn fremur ráð fyrir, að unnið verði að gerð áætlana til langs tíma um þróun atvinnuveganna, svo að atvinnumálastofnunin móti stefnuna í atvinnumálum þjóðarinnar, m. a. með því að koma á meira samstarfi milli fulltrúa stéttarsambanda atvinnuveganna og launþega, m. a. með því að beita sér fyrir ráðstefnum með þessum aðilum. Jafnframt verði á þessar ráðstefnur boðaðir sérfræðingar, sveitarstjórnarmenn og aðrir þeir aðilar, sem þörf þykir hverju sinni. Slíkar ráðstefnur, þar sem menn bera saman bækur sínar, eru vafalítið gagnlegar, en leysa þó í sjálfu sér ekki þann vanda, sem við er að fást hverju sinni. Þess vegna er í þessu frv. ákvæði um forgöngu í gerð áætlana, sem svo skulu afhentar ríkisstj., og verði slíkar áætlanir síðar lagðar fyrir Alþ. til staðfestingar.

Gerð áætlana hefur að vísu tíðkazt nokkuð, og hefur hvað mest verið rætt um Vestfjarðaáætlun og svo Norðurlandsáætlunina. Um Vestfjarðaáætlunina er það að segja, að ýmsir hafa deilt um það, hvort hún væri til. Meira að segja hlustaði ég á ráðh. hér um daginn, sem taldi, að það gæti verið álitamál, hvort hún væri til. En a. m. k. er ekki nema hluti af samgöngumálaáætluninni fullgerður. Hins vegar hefur svo verið unnið að Norðurlandsáætluninni nú undanfarið. Báðar þessar áætlanir hafa verið alllengi á döfinni, og það sýnir, að slíkar áætlanir leysa ekki heldur vandann einar út af fyrir sig. Þess vegna þarf það að fara saman, að áætlanir séu gerðar og framkvæmdafrumkvæði sé fyrir hendi og þetta haldist í hendur. Að þessu miða ákvæði í þessu frv.

Ef gera skal raunhæfar áætlanir í þágu atvinnuveganna og um framkvæmdir og fjárfestingu yfirleitt, verður ekki komizt hjá að stjórna þeim málum og taka þau föstum tökum. Fjárráð þjóðfélagsins eru alltaf takmörkuð. Þess vegna er ekki hægt að framkvæma allt í einu. Þess vegna verður að meta það, í hvað skal ráðizt, og raða verkefnunum niður eftir þýðingu þeirra fyrir þjóðfélagið. Þegar þjóðartekjur hafa dregizt saman, eins og nú ber raun vitni, og efnahagsvandræði eru fyrir hendi, er ekki nema eðlilegt, að einhver einn aðili hafi stjórn á og umsjón með því, að þær framkvæmdir, sem þjóðinni er mest þörf á, verði fyrir valinu og sitji í fyrirrúmi fyrir ónauðsynlegri framkvæmdum. Enda þótt segja megi, eins og fram kemur í nál. meiri hl., að allri fjárfestingu sé í rauninni stjórnað af einhverjum aðila í þeim skilningi, að í þær verði ekki ráðizt, nema til komi leyfi eða fyrirgreiðsla á einn eða annan veg frá einhverjum opinberum aðila, — þrátt fyrir þetta þarf að koma til leyfi eða fyrirgreiðsla frá opinberum aðila. En reynsla undanfarinna ára hefur sýnt, að það er full þörf á, að þessi mál séu tekin mun fastari tökum en verið hefur. Um það vitna m. a. ummælin í nál. meiri hl., svo og t. d. frv. um opinberar framkvæmdir, sem liggur fyrir þessari hv. deild.

Ýmis atriði þessa frv. hafa að vísu komizt í framkvæmd, frá því að það var lagt hér fram. M. a. má segja, að atvinnumálanefndir gegni svipuðu hlutverki og gert er ráð fyrir í þessu frv., og frv. um opinberar framkvæmdir kemur einnig inn á þetta sama svið. Það kom fram, þegar mælt var fyrir því frv. hér í d., að á undanförnum árum hefur ýmsum framkvæmdum á vegum hins opinbera verið mjög áfátt, vegna þess að málin voru ekki undirbúin nægilega og ekki hefur verið séð fyrir því fjármagni í tíma, sem til framkvæmdanna þurfti. Þetta er sjálfsagt ekkert einstakt með ríkisframkvæmdir, þannig hefur þetta gengið hjá bæjarfélögum og einstaklingum. Þess vegna hefur í mörgum tilfellum verið eytt miklu meiri fjármunum en eðlilegt var og framkvæmdirnar dregizt úr hófi fram. Þessu hefur ekki verið veitt sú athygli, sem skyldi, meðan allt lék í lyndi. Metafli og hátt afurðaverð blindaði menn. En nú, þegar harðnar í ári, vakna menn við það, að við svo búið má ekki lengur standa. En jafnvel þó að framkvæmdir geti dregizt saman og fjárráð þjóðarinnar minnki, verður ekki komizt hjá að hafa stjórn á þessum málum, því að þegar þröngt er í búi, verður stjórnleysið í gjaldeyris- og fjárfestingarmálum enn tilfinnanlegra og nauðsynin á samræmdri heildarstjórn þessara mála brýnni. Gjaldeyrir þjóðarinnar leyfir ekki nú frekar en oft áður taumlausan innflutning, og svo er á hitt að líta, að haga verður innflutningi ýmissa vara með tilliti til framleiðslu hér innanlands, vegna þess að taka verður tillit til atvinnuhátta.

Það var í upphafi tekið fram af flm., að með þessu frv. sé ekki stefnt að leyfakerfi í líkingu við það, sem hér þekktist áður, heldur muni atvinnumálastofnunin setja almennar reglur og fyrirmæli, sem aðilar, sem hlut eiga að máli, fari eftir, en jafnframt felast í frv. heimildir til frekari ráðstafana, ef þurfa þykir, t. d. í 8. gr., þar sem atvinnumálastofnunin hefur heimild til að koma í veg fyrir fjárfestingu og banna tiltekna tegund fjárfestingar eða gjaldeyrisnotkunar um tiltekinn tíma.

Með þessu frv. er fyrst og fremst stefnt að því að hafa stjórn á fjárfestingu og gjaldeyrisnotkun með því að setja almennar reglur, en alls ekki að fara út í leyfisveitingar í hverju einstöku tilfelli. Hins vegar er eðlilegt, að stjórn stofnunarinnar sjálfrar ákveði að verulegu leyti, með hvaða aðferðum hún framkvæmir það hlutverk, sem henni er falið. Í frv. er gert ráð fyrir, að stjórn atvinnumálastofnunarinnar geti samið við starfandi ríkisstofnanir um að annast skýrslu- og áætlanagerð svo og afgreiðslu mála eftir nánari ákvörðun stjórnarinnar.

Í stuttu máli gerir frv. það, sem hér liggur fyrir, ráð fyrir því að semja áætlanir til langs tíma eða láta semja áætlanir um þróun atvinnuveganna og að marka stefnuna í atvinnumálum þjóðarinnar, að hafa forgöngu um gerð framkvæmdaáætlana á sviði atvinnulífsins, að beita sér fyrir ráðstöfunum til að auka atvinnuöryggi í öllum byggðum landsins og að hafa á bendi heildarstjórn fjárfestingar- og gjaldeyrismála með því sérstaklega að setja um þau almennar reglur, með heimild þó, ef sérstaklega þykir þurfa, til að koma í veg fyrir fjárfestingu eða gjaldeyrisnotkun, sem samrýmist ekki öðrum ákvæðum þessa frv. Um það er ekki ágreiningur við afgreiðslu þessa frv., að þörf sé frekari aðgerða í þessum málum, þar sem sú stjórn, sem hið opinbera hefur á þessum málum, er nú ekki svo samhæfð og skipulögð, svo að notuð séu orð úr áliti meiri hluta, að tryggt sé, að sú fjárfesting, sem þjóðarbúskapnum megi teljast mikilvægust hverju sinni, sitji ávallt í fyrirrúmi fyrir öðrum. Flm. þessa frv. hafa tekið fram, að þeir væru til viðræðu um breytingar á því, ef til umræðu væru einstök atriði, eins og t. d. stjórn stofnunarinnar, þar sem vafalítið kemur til greina að skipa þeim þætti á annan veg en frv. gerir ráð fyrir. Hins vegar virðast menn sammála um ýmis veigamikil atriði frv.

Við, sem skipum minni hl. fjhn., teljum, að frv. þetta verði í meginatriðum til mikilla bóta og að stjórn þeirra þýðingarmiklu þátta þjóðfélagsins, sem frv. fjallar um, verði með meiri festu og stuðli mjög að framleiðslu- og atvinnuaukningu og jafnvægi milli landshluta. Frv. um atvinnumálastofnun, fjárfestingu og gjaldeyrisnotkun stefnir að því, að skipuleg stjórn fjárfestingarmála undir forustu ríkisvaldsins í samráði við fulltrúa atvinnulífsins verði tekin upp. Menn eru sammála um, að breytinga frá því, sem nú er, sé full þörf, og fyrir því leggjum við, sem skipum minni hl. fjhn., til, að frv. verði samþ.