27.03.1969
Efri deild: 64. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (2425)

114. mál, Atvinnumálastofnun

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Frv. þessu til l. um atvinnumálastofnun, fjárfestingu og gjaldeyrisnotkun hafa þegar verið gerð nokkur skil hér í deildinni, og ég hef ekki miklu við það að bæta, sem fram hefur komið af hálfu annarra flm. frv. sem hér hafa talað. En með því að hér er um að ræða talsverða stefnubreytingu frá því, sem framkvæmt hefur verið undanfarinn áratug, langar mig til að segja hér aðeins örfá orð, áður en frv. þetta verður afgr. héðan, og mun aðeins halda mig við nokkra þætti.

Ég vil í fyrsta lagi segja, að ég tel það fremur hæpna afgreiðslu að vísa svona stefnumarkandi máli til ríkisstj. Mér finnst liggja í augum uppi, að annaðhvort vilji menn fallast á þá stefnu, sem í frv. er mótuð, þ. e. í fyrsta lagi að koma á heildarstjórn gjaldeyrismála með hliðsjón af gjaldeyrisöflun og þörfum framleiðsluatvinnuveganna og gera þá ráðstafanir til að minnka vöruinnflutning og gjaldeyrisnotkun yfirleitt með þeim aðferðum, sem bezt samræmast almenningshagsmunum, í öðru lagi að taka upp skipulega stjórn fjárfestingarmála undir forustu ríkisvaldsins í samstarfi við fulltrúa atvinnulífsins og að um meiri háttar framkvæmdir fari eftir fyrirframgerðri áætlun, þar sem verkefnum sé raðað og þau látin ganga fyrir, sem þýðingarmest eru, og í þriðja lagi að semja áætlanir um þróun atvinnuveganna og marka stefnu í atvinnumálum þjóðarinnar, m. a. með gerð framkvæmdaáætlana, er snerta atvinnuuppbyggingu einstakra landshluta, — að annaðhvort vilji menn fara eftir þessu eða þá aðhyllast einhverja aðra stefnu, eins og t. d. þá, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að framkvæma á undanförnum áratug með þeim árangri, að stuðningsmenn hennar lýsa því yfir í nál., sem ég mun aðeins nánar víkja að, að mörgu þurfi að breyta og margt standi til bóta. Ég veit það og hef fundið það í samræðum við menn og umr. um þetta frv., að sumum finnst, að hér sé of mörgum og óskyldum verkefnum safnað saman á eina hönd, en að mínum dómi er það svo, að heildarstjórn þessara mála þarf að vera á einum og sama stað, t. d. hjá stofnun eins og þeirri, sem hér er lagt til að komið verði á fót. Ég bið menn að athuga það vel, að samkvæmt frv. eiga áætlanir stofnunarinnar að leggjast fyrir hæstv. ríkisstj. fyrst og síðan fyrir Alþ. til staðfestingar og stjórninni ber að gefa skýrslu um framkvæmd slíkra áætlana. Hér er því verið að færa Alþ. á ný nokkuð af því valdi, sem það hefur verið svipt í vaxandi mæli að undanförnu, og er enn þá verið að ganga lengra á þeirri braut. Sem dæmi um það skal ég nefna, að frv. um aðgerðir í atvinnumálum frá hæstv. ríkisstj., sem ég hygg að nú sé til umr. í hv. Nd., gerir ráð fyrir því, að atvinnumálanefnd ríkisins hafi æðsta vald í þeim málum, sem henni eru fengin samkvæmt frv., og að Alþ. eigi þar hvergi nálægt að koma. Ég held, að það sé því alveg ástæðulaust að óttast það, að sú atvinnumálastofnun, sem frv. gerir ráð fyrir, verði óhæfilega valdamikil. Þvert á móti sýnist mér, að Alþ. mundi fá meiri völd en það hefur nú í ýmsum greinum og hefjast þar með að nokkru til fornrar virðingar, en á þeirri breyt. sýnist mér engin vanþörf vera, eins og ég hef áður vikið að í þessum ræðustóli.

Þá vil ég aðeins minnast á það með örfáum orðum, hvernig stjórn atvinnumálastofnunar ætti að vera skipuð, ef til þess kæmi, að henni yrði einhvern tíma komið á fót. Ég játa, að þar er vissulega vandi á höndum. Samkvæmt 5. gr. frv. er tilnefningin hugsuð þannig, að stjórnina skipi 3 menn frá launþegasamtökum og 3 menn frá samtökum atvinnurekenda, en formaður verði tilnefndur af gjaldeyrisbönkunum sameiginlega. Samkvæmt þessari hugsun eru þá launþegamegin við borðið menn frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfs manna ríkis og bæja og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, en hins vegar fulltrúar frá sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði, og einhvern veginn svona held ég, að slík stjórn eigi að vera saman sett. Það má vitanlega endalaust deila um það, hvaða félög úr þessum atvinnugreinum það eigi að vera sem fulltrúana tilnefna, og við flm. erum auðvitað fúsir til að taka öllum skynsamlegum ábendingum um breytingar með þökkum. Það er ekkert sáluhjálparatriði fyrir okkur að hafa þetta endilega svona. En þó bendum við á, að frá launþegum höfum við tekið stærstu samböndin þrjú: Alþýðusambandið, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, og frá vinnuveitendum höfum við tekið samtök úr þremur höfuðatvinnugreinum þjóðarinnar. Eins og við öll vitum, var það eitt af því, sem menn höfðu hvað mest á móti fyrri stjórnum, sem settar hafa verið til að sinna svipuðum verkefnum, eða a. m. k. hluta þeirra, að þær væru skipaðar fulltrúum pólitísku flokkanna, sem þangað væru sendir til að gæta hagsmuna flokksins og gæðinga hans fyrst og fremst, en síður til að standa vörð um almannahagsmuni. Enda þótt ég sé þeirrar skoðunar, að mjög hafi verið hallað réttu máli í frásögnum af störfum þeirra yfirleitt mætu manna, sem að málum þessum störfuðu, — og þá hef ég fyrst og fremst í huga fjárhagsráð, því að störfum þess kynntist ég allnáið við 6 ára störf hjá þeirri stofnun, — þá neita ég því ekki, að þetta, sem ég áðan lýsti hér um stjórnmálaflokkana og áhrif þeirra í þeim n., er allútbreidd skoðun og skoðun, sem m. a. er útbreidd vegna þess, að henni hefur mjög verið haldið að fólki á undanförnum árum og að mér finnst helzt úr þeirri áttinni, sem sízt skyldi, af samherjum þeirra manna, sem þarna höfðu mest völd og mesta ábyrgð. Með hliðsjón af þessu og til þess að koma í veg fyrir pólitíska misbeitingu, sem játa má að kann í sumum tilfellum að vera fyrir hendi, og síðast, en ekki sízt til þess að undirstrika nauðsyn þess að efla samstöðu og áhrif þeirra, sem í atvinnulífinu standa, hvort sem þeir taka laun eða greiða þau, þá höfum við flm. lagt til þá tilhögun, sem í frv. greinir. En ég get endurtekið, að það er matsatriði, hvernig stjórn atvinnumálastofnunarinnar á að vera fyrir komið.

Ég fagna þeim ummælum í nál. hv. meiri hl. fjhn. á þskj. 359, að hann geri sér ljóst, að sú stjórn, sem hið opinbera hefur á fjárfestingarmálum, er ekki svo vel samhæfð og skipulögð, að tryggt sé, að sú fjárfesting, sem þjóðarbúskapnum má telja mikilvægasta hverju sinni, sitji í fyrirrúmi fyrir öðrum, svo að notuð séu hér orð meiri hl. Enn fremur sé ég ástæðu til þess að taka vel eftir því, sem meiri hl. segir um atvinnumálanefndirnar, sem settar hafa verið á fót, um málefni, er þær snerta, en um það segir meiri hl., að frekari aðgerða sé þörf. Þetta er vissulega mikilsverð viðurkenning frá þeim hv. þm., sem nál. undirrita, og í þessu nál. kveður við allt annan og miklu jákvæðari tón en hjá ýmsum öðrum talsmönnum viðreisnarinnar, og kemur mér þá einna helzt í hug hæstv. viðskmrh. og ræða sú, sem hann hélt hér við umr. um efnahags- og atvinnumál, þar sem hann margendurtók, að stefnan væri ein og hin sama og óbreytanleg, hefði verið það og ætti að vera það, og að hér væri allt í stakasta lagi.

Hins vegar treystir hv. meiri hl. sér ekki enn til að viðurkenna, að skynsamlegt geti verið að taka upp nokkrar hömlur á innflutningi, í hvaða mynd sem er, telur hann það enn samkv. nál. fara í bága við þá stefnu, sem núv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar fylgja í viðskiptamálum. Að vísu viðurkenndi hv. 12. þm. Reykv., að stefnu væri hægt að breyta, og að mér skildist, að stundum gæti verið hyggilegt að breyta stefnu, og er ástæða til þess að taka eftir þeim ummælum hans. En jafnframt því sem hann benti á, að þennan þröskuld væri hægt að yfirstíga, nefndi hann annan, að manni skildist svo háan, að yfir hann væri ómögulegt að komast, en þar átti hann við hugsanlega sameiningu okkar við erlend verzlunarbandalög, svo sem Norræna fríverzlunarbandalagið, Nordek, Fríverzlunarbandalag Evrópu, EFTA, og e. t. v. einhver fleiri. Nú kann vel að vera, að þessi bandalög líti allar hömlur illu auga og vilji ekki viðurkenna þær sín á milli, ég þekki það ekki svo gerla. En í fyrsta lagi vil ég þó segja, að því verður tæplega trúað, að slík sameining okkar við það geti staðið í vegi fyrir því, að gerðar séu skynsamlegar ráðstafanir í gjaldeyrismálum til þess að koma á nokkrum greiðslujöfnuði, en það hlýtur okkur að vera alveg nauðsynlegt, hvort sem við erum í Efnahagsbandalaginu eða ekki. Það er enn fremur vitað, að við munum þurfa margs konar undanþágur og sérsamninga, ef við eigum að geta tengzt þessum bandalögum, og kannske er þetta eitt af því, sem okkur er nauðsynlegt að semja um.

Hv. 12. þm. Reykv. nefndi það sem einn helzta þröskuldinn fyrir því, að hægt væri að hafa nokkrar innflutningshömlur í samskiptum við þessar þjóðir, að með þeim væri mjög mikil hætta á mismunun milli landa, að mér skildist, og fyrirtækja. En ég vil benda á, að samkvæmt þeirri meginhugsun, sem í frv. okkar framsóknarmanna um atvinnumálastofnun er, þá er fyrst og fremst um almennar takmarkanir á innflutningi að ræða, og samkvæmt þeim ætti slíkur mismunur ekki að koma til greina, og eins og hv. 12. þm. Reykv. réttilega benti á, verkuðu þær svipað og verndartollar. Að vísu séu þeir illa séðir líka, ég veit það, en engu að síður er þó mismununarhættan fyrir hendi í hvorugu af þessum tilvikum. Þar að auki leyfi ég mér enn einu sinni að benda á það, að þrátt fyrir orðalagið í nál., að allar hömlur komi í bága við stefnu ríkisstj. og að hér eigi að ríkja algjört viðskiptafrelsi, þá er það samt svo, að ýmis bönn við innflutningi og gjaldeyrisnotkun eru í gildi. Það er af margs konar ástæðum og ýmsar tegundir af innflutningi, sem eru ýmist bannaðar eða háðar leyfum, ég ætla ekki neitt að fara að rekja það, ég minni bara á það, að þær vörutegundir, sem t. d. þarf að sækja um leyfi fyrir til þess að fá innflutning á, þær taka hér í tollskránni einar 8 bls., og innflutningur á sumum vörutegundum er algjörlega bannaður. Ég er ekki að segja þetta neinum til hnjóðs, þetta hlýtur ævinlega svo að vera. En þegar það er viðurkennd staðreynd, að undir öllu frelsinu þurfa að vera ýmis bönd, þá sýnist mér, að hér sé frekar um stigsmun en eðlismun að ræða, hvort nokkuð fleiri vörutegundir verða um takmarkaðan tíma settar á þennan lista eða ekki, og það geti ekki undir neinum kringumstæðum verið okkur nokkur fjötur um fót, þó að slíkar takmarkanir þyrfti að taka upp um skamman, tiltekinn tíma; því að ég undirstrika það, að auðvitað er ekki æskilegt að hafa slíkar takmarkanir mjög miklar á innflutningi, það er ekki æskilegt, en ég álít, að það geti verið nauðsynlegt og einmitt nú sé það nauðsynlegt.

Það væri að vísu freistandi að fara miklu lengra út í að ræða innflutningsfrelsið, kosti þess og galla. Það höfum við nokkrum sinnum gert hér í hv. deild, og ég ætla ekki að fara nánar út í það að þessu sinni. Ég vænti þess, að enda þótt hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar sjái sér ekki fært að samþ. þetta frv., sem kannske er ekki að vænta, þar sem um svo mikla stefnubreytingu er að ræða, þá megi þó flutningur þess og vísan þess til hæstv. ríkisstj. benda til þess, að nokkur atriði frv. verði tekin til greina. Og satt að segja ber að viðurkenna það, að sumt af því, sem við framsóknarmenn höfum verið að halda fram á undanförnum árum og upphaflega var talin fjarstæða, hefur þó að nokkru verið tekið inn í núv. stefnu hæstv. ríkisstj.